Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Karamella á þúsundkall

Verðbólgan er vissulega ekki að sliga okkur þessa dagana. En það hefur ekki alltaf verið þannig. Ég man að eitt sinn á mínum ungdómsárum á áttunda áratugnum vorum við strákarnir að velta fyrir okkur verðlagi á nauðsynjavörum í verðbólginni framtíð. Spurt var: Gæti verið að ein karamella ætti eftir að kosta þúsund krónur í framtíðinni? Okkur fannst það fráleit tilhugsun og eiginlega bara fyndið. Á þessum tíma minnir mig að ein lítil karamella hafi kostað eina krónu og þá á ég við þessar venjulegu Töggur frá Nóa. Lítill brjóstsykur kostaði sennilega líka eina krónu en þeir stærri af Haltukjafti-gerð kostuðu tvær krónur. En gamla krónan hélt svo sannarlega ekki verðgildi sínu í óðaverðbólgu áranna á eftir. Hún breyttist í létta flotkrónu. Henni var myntbreitt hundraðfalt sem ýtti undir enn meiri verðbólgu. Síðar var nýkrónan sett á flott og sökk enn dýpra. Hvað ætli ein lítil karamella kosti þá í dag um 40 árum síðar? Jú, þær kosta um 20-30 krónur stykkið samkvæmt innanheimilisheimildum. Þá á eftir að bæta við tveimur núllum vegna myntbreytingar sem gera tvö til þrjú þúsund krónur gamlar, takk fyrir. Þetta sýnir auðvitað hvað allt krónugildi er afstætt þegar kemur að framtíðinni. Hvað fæst þá fyrir þúsund krónur eftir 40 ár? Skyldi karamellan þá kosta þúsundkall? Hver veit? Verður hún kannski verðlögð í Evrum, Dollurum eða Norskum krónum?

Ég fór nú eiginlega að spá í þetta um daginn þegar EFTA-dómurinn féll um verðtryggðu lánin. Samkvæmt honum er það með öllu óviðeigandi að gera ekki ráð fyrir verðbótum ofan á vexti þegar greiðsluáætlun fram í tímann er gefin út. Svindl og prettir lánastofnanna kom í huga margra þegar um var rætt. En er endilega rétt í ljósi karamelluhagfræðinnar að það eigi alltaf að gera ráð fyrir verðbótum í greiðsluáætlunum? Það þarf kannski ekki að vera. Þegar til dæmis verðbætur 40 ára láns eru reiknaðar inn í áætlanir og eftirstöðvar skoðaðar eins og þær verða eftir 20 ár kemur sennilega fram að upphæðin hefur hækkað í krónum talið þrátt fyrir þrotlausar síhækkandi afborganir. Svo gæti því virst sem lánið gerði ekki annað en að hækka að raungildi um langa framtíð þegar raunin er sú að lánið lækkar. Þó maður skuldi sífellt fleiri krónur er ekki þar með sagt að maður skuldi fleiri karamellur.

Sjálfum finnst mér verðtygging í raun ekkert óeðlileg því hún tryggir að afborganir og eftirstöðvar séu í samræmi við almenna verðlagsþróun. Það mætti hinsvegar frekar herja á sjálfa vextina enda eru raunvextir um 5% æði mikið á 40 ára láni. En það sem máli skiptir í öllu svona er að þeir sem taka lán, stutt eða löng, geri sér grein fyrir því í hverju það felst til framtíðar og að sá sem tekur lán og sá sem veitir lán séu á sömu blaðsíðu.


Um hagfræði Björns í Brekkukoti

Ég ætla að leyfa mér í þessum pistli að birta smákafla úr bókinni Brekkukotsannál eftir Halldór Laxness þar sem söguhetjan Álfgrímur fjallar um útgerð afa síns Björns í Brekkukoti:

Björn í BrekkukotiÉg var ekki gamall þegar ég komst á snoðir um að sumir fiskikarlar voru afa mínum sárir af því hann seldi stundum suma soðníngu ódýrra en aðrir menn; þeir kölluðu ódreingilegt að etja með lægri boðum kappi við góða menn. En hvursu mikils virði er einn rauðmagi? Og hvurs virði er pundið í ýsunni? Ellegar kolinn? Það liggur kanski næst að svara þeirri spurníngu, og segja: Hvað kostar sólin, túnglið og stjörnurnar? Ég geri ráð fyrir að afi minn hafi svarað þessu svo með sjálfum sér, undirskilvitlega, að rétt verð, til að mynda á rauðmaga, sé það verð sem kemur í veg fyrir að upp hrúgist hjá fiskimanni peníngar umfram það sem þarf til nauðsynja.

Eftir hagfræðilegu lögmáli hneigðust menn til að hækka verð á fiski þegar afli var tregur eða daufar gæftir, allir nema Björn í Brekkukoti. Kæmi einhver til hans og segði: ég skal kaupa af þér alt sem þú hefur á börunum í dag við helmíngi eða jafnvel þrisvar sinnum hærra verði en vant er, þá leit hann með tómlæti á þann mann er slíkt boð gerði, og hélt áfram að vega í reislunni sinni eitt og eitt pund ellegar afhenda mönnum einn og einn rauðmaga uppúr börunum eftir því hvað hver þurfti í soðið, og við sama verði og venjulega. … En þegar ört var framboð og flestir fiskimenn þóttust tilknúðir að lækka fiskverð sitt á götunni, þá hvarflaði aldrei að afa mínum að lækka sig, heldur seldi hann afla sinn við sama verði og hann var vanur; Þá var fiskurinn orðinn langdýrastur hjá honum. Þannig afneitaði afi minn Björn í Brekkukoti grundvallaratriðum hagfæðinnar. Þess maður bar í brjósti sér dularfullan mælikvarða á penínga. Var þessi mælikvarði réttur eða rangur? Var kanski mælikvarði bánkans réttari? Vel má vera að hann hafi verið rangur hjá afa, en þó ekki rangari en svo að flestir sem höfðu vanist á að kaupa hjá honum fisk upp úr hjólbörum hans, þeir komu til að versla við hann einnig þá daga sem fiskurinn var dýrari hjá honum en öðrum mönnum. … menn trúðu því að að hann Björn í Brekkukoti drægi með einhverjum dularfullum hætti betri og fallegri fiska uppúr sjónum en aðrir menn. Og þessvegna vildu allir kaupa fisk hjá Birni í Brekkukoti, einnig þá daga sem fiskurinn var dýrari hjá honum en öðrum mönnum“

- - - - -

Burt séð frá því hversu ágætur texti þetta er hjá skáldinu þá er ekki víst að hagfræðin hans Björns í Brekkukoti sé gagnlegt innlegg í öllum þeim fjárhagsvangaveltum sem nú eru uppi. Allavega þá hefur ekki verið litið á það sem vandamál ef það ólíklega gerist að peningar hrúgist upp umfram það sem fólk þarf til nauðsynja.

Hagsveiflur eiga sér stað nú sem aldrei fyrr. Þar skiptast á gylliboð og verðbólgur sem margir fara flatt á. Sérstaklega er þetta varasamt þegar peningarnir sjálfir bjóðast á undirverði því þá æsast menn upp í góðærisgleði, slá lán og fjárfesta sem mest þeir mega fyrir þær tekjur sem væntanlegar eru í framtíðinni. Margir fara því inn í krepputíð sem óhjákvæmilega fylgir uppsveiflum með allt of miklar fjárhagsskuldbindingar á bakinu í stað þess að nota góðærið til að safna saman smá hrúgu af peningum sem nýtist þegar ver árar. Það eru nefnilega engir Birnir í Brekkukotum lengur sem bjóða alltaf sama verð, sérstaklega ekki á peningum því þeir lúta lögmálum framboðs og eftirspurnar eins og annað í dag.

- - - - - 

Á meðfylgjandi mynd sést Þorsteinn Ö. Stephensen í hlutverki Björns í Brekkukoti í sjónvarpsþáttunum sem gerðir voru eftir sögunni árið 1972.

 


Af mér og bönkum fyrr og nú

BANKAR

Nú þegar við horfum upp á alveg nýtt landslag í fjármálakerfi landsins er stundum sagt að við séum að hverfa aftur til hinna gömlu tíma þegar allt var einfaldara og hlutirnir gjarnan í fastari skorðum. Þetta voru tímar þegar menn gengu með peningaseðla í veskinu eða skrifuðu ávísanir, þetta voru tímar þegar bankarnir stóðu í röðum landbúnaðar-útvegs, ekki bara í Austurstræti heldur líka í Bankastræti sem þá bar nafn með rentu með þrjú bankaútibú. Í öllum þessum bönkum var ávallt margt um manninn, fólk stóð í þvögu við gjaldkeraborðin, enda voru íslendingar ekki búnir að læra að fara í röð. Þá var líka bærinn fullur af fólki, strætisvagnarnir í sínum mosagræna felulit voru líka fullir af fólki, sumir voru svo sjálfir fullir en það hefur kannski ekki mikið breyst.

Mín fyrstu kynni af bankakerfinu voru eins og hjá svo mörgum að ég eignaðist sparibauk. Þennan sparibauk sem var í líki Múmínpabba fyllti ég reglulega og fór með í Iðnaðarbankann - stoltur yfir því að eiga eigin bankareikning, þótt um miklar upphæðir hafi ekki verið um að ræða.

Hinsvegar handlék ég öllu stærri upphæðir þegar ég gerðist sendisveinn hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 1980. Eitt af mínum verkefnum þar var að labba á hverjum degi með milljónir í sendlatösku, sneisafullri af peningaseðlum og ávísunum í útibú Landsbankans að Laugavegi 77. Þessar fjárhæðir lagði ég inn í bankann hjá gjaldkera eftir að hafa staðið í þvögunni við gjaldkeraborðið og beðið eftir afgreiðslu. Engum datt í hug þá að þessi unglingspiltur hefði getað verið mikil uppgrip fyrir sniðugan ræningja. Aðeins nokkrum árum síðar var framið þaulskipulagt rán við þetta sama bankaútibú þegar vopnaðir ræningjar náðu stórfé af mönnum sem ætluðu að leggja peninga frá ÁTVR í næturhólf bankans.

Í mínu starfi sem grafískur hönnuður hef ég stundum unnið fyrir banka. Eitt af fyrstu verkefnum mínum á auglýsingastofu árið 1989 var að leggja í púkkið tillögur að merki fyrir nýjan Íslandsbanka sem þá stóð til að stofna þegar sameina átti Iðnaðarbankann, Verslunarbankann, Alþýðubankann og Útvegsbankann. Eitthvað af mínum tillögum komu til greina en ég átti þó ekki merkið sem endanlega var valið, en það var hið litríka og fjöruga Íslandsbankamerki sem var mikil nýjung meðal bankamerkja á Íslandi. Þetta merki lifði til ársins 2000 þegar Íslandsbanki FBA varð til, en tók svo upp aftur í einfaldari útgáfu sem lifði þar til nafnið GLITNIR var tekið upp enda var það svona meira „erlendis“. Í dag heitir svo bankinn Nýi Glitnir samkvæmt 2008-stílnum. Allar svona breytingar eru auðvitað mjög atvinnuskapandi fyrir okkur auglýsingateiknara.

Íslandsbanki-Glitnir

Þrátt fyrir ýmsar framfarir í rafrænni bankaþjónustu síðustu ár þá fæ ég mér reglulega göngutúr í bankaútibúið mitt til að borga mánaðarlega reikninga mína og taka um leið út dálítið af peningum. Þetta þykir víst mörgum dálítið gamaldags því helst á maður að gera á netinu allt sem hægt er að gera þar. Ég tel þetta þó ekkert eftir mér en þessar heimsóknir mínar eru auðvitað atvinnuskapandi fyrir bankafólk. Yfirbragðið í bönkunum er líka allt miklu rólegra en áður og engar þvögur lengur við gjaldkeraborðin, því flestir aðrir eru bara á netinu og nenna ekki í bankann sinn.

 

Ljósmyndin sem fylgir pistlinum birtist í Þjóðviljanum árið 1980. Ég sjálfur er hvergi sjáanlegur á myndinni.


Harðindavetur framundan

Í fyrravetur urðu ákveðin umskipti hér á landi sem og víðar sem benda ótvírætt til þess að veturinn sem framundan er verði með alharðasta móti. Við þekkjum úr sögunni lýsingar á alvöru harðindavetrum sem fengið hafa nöfn eins Píningsvetur, Lurkur, Svellavetur og á síðustu öld var það Frostaveturinn mikli. Það á eftir að koma í ljós hvað komandi vetur mun verða kallaður, en mér dettur í hug nöfn eins og Gengisfellingavetur, Fjármagnskostnaðarvetur, Verðbólguvetur, Uppsagnavetur, Gjaldþrotavetur og svo framvegis. Kannski eru þetta þó full óþjál nöfn, kannski mun hann einfaldlega bara heita Þrotavetur eða Þrotaveturinn mikli. Harðindi á vorum dögum eru semsagt ekki lengur bundin við duttlunga náttúrunnar eins og áður því nú er það hið manngerða fjármálakerfi sem ræður afkomu okkar. En ólíkt þeim vanda sem stafar af náttúruöflunum er fjármálavandi eitthvað sem við sem þjóð komum okkur sjálf í með ofmetnaði og hina óbilandi bjartsýni að leiðarljósi.
Það er eitthvað við ástandið í dag sem minnir mig á lítið atriði úr kvikmyndinni Óðal feðranna, eftir Hrafn Gunnlaugsson. Þegar allt stefndi í óefni á þeim bæ í myndinni spurði sonurinn móður sína angistarfullur, „Hvað eigum við að gera?“ Móðirin svaraði með dramatískri röddu: „ÞAÐ ER EKKERT HÆGT AÐ GERA!

En kannski eigum við ekki að mála skrattann á vegginn, kannski verður eitthvað hægt að gera til þess allavega að lina þrautir þessa komandi harðindavetrar. „Senn er sigruð þraut“ verður kannski sagt undir vor er hugarhrelling sú er hart oss þjakar nú mun hverfa og fleiri höpp oss falla í skaut.
 

Kerhólakambur

 


Hestöflin eru farin að kosta sitt

Enn ein hækkunin á bensínverði leiðir hugann að því hvort við þurfum að fara að hugsa okkar gang varðandi bílaflotann sem hefur þanist út í magni og stærð í undangengnum góðærum. Hvað með öll hestöflin sem fara í að knýja alla þessa jeppa á götum borgarinnar? Jeppar eru auðvitað ekkert annað en torfærubílar og eyðslufrekir eftir því en eru aðallega notaðir í daglegt innanbæjarsnatt á malbikuðum götum borgarinnar og innihalda oftast bílstjórann einan. Er stöðutáknið kannski orðið að tákni um orkusóun nútímamannsins? Dæmigerður miðlungsfínn jeppi er 165 hestöfl sem jafngildir auðvitað afli 165 hesta. Það þætti nú örugglega dálítið skondið að sjá mann mæta til vinnu á vagni sem dreginn er af 165 hestum og einhver gæti talið að hægt væri að komast af með minna.

165hestar


mbl.is Verðhækkun hjá N1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er olíukreppan byrjuð?

Sannir svartsýnismenn fengu sannarlega eitthvað að hugsa um þegar myndin A Crude Awekening var sýnd í Sjónvarpinu nú um daginn. Hún fjallar um það að olíuframleiðsla jarðarbúa sé um þetta leiti komin í hámark sem þýðir að hér eftir mun framleiðslumagnið einungis fara minnkandi á sama tíma og eftirspurnin eigi bara eftir að aukast. Það ætti að vera augljóst að svoleiðis jafna gengur ekki upp nema með ört hækkandi olíuverði þar til einn daginn að olían verður fáheyrð munaðarvara sem almenningi stendur ekki til boða. Og þess verður kannski ekki svo langt að bíða eins og kemur fram á þessari mynd sem sýnir þróun olíuframleiðslu heimsins í fortíð og framtíð samkvæmt spá þeirra sem til þekkja.

Olíuframleiðslan

Þegar olían er búin

Ég ætla að gefa mér það að myndin sé nokkurn vegin rétt. Það er allavega ekki spurning að olían er takmörkuð óendurnýjanleg auðlind og þegar hún er uppurin verður engin olía meir svo lengi sem mannkynið lifir. Nútímasamfélagið er algerlega háð olíu í dag og er raunar forsenda þess að það náði að þróast og að lífskjör okkar séu eins og þau eru í dag. Það eru ekki bara bílar, skip og flugvélar sem nota olíu, heldur einnig allskonar framleiðsla, s.s. efnaiðnaður, lyfjaiðnaður, allt plastið, allt malbikið og svo má ekki gleyma allri hernaðarmaskínunni sem þarf sitt með góðu eða illu. Mannkynið hefur svo sem áður skipt um orkugjafa, hestaflið er orðið úrelt, gufuaflið líka og því getum við ekki bara fundið upp eitthvað nýtt? Þar er meinið. Orkuframleiðsla með olíu er ekki úrelt því það er ekkert annað í boði í dag sem leyst getur olíuna af hólmi. Kjarnorkan er t.d. líka takmörkuð auðlind því hún er háð hinu sjaldgæfa efni Úran. Vindorka, vatnsorka, sólarorka eða jarðvarmaorka duga síðan engan vegin til að mæta óseðjandi þörfinni. Vetnið er engin lausn því það þarf orku til að framleiða vetni og því er það ekki orkugjafi. Það er langt í nýjar lausnir, stundum er talað um hina miklu samrunaorku sem er ógeislavirk kjarnorka sem gengur út á það sama og orka sólarinnar, en sú tækni er alltof stutt komin og óvíst að slíkt ferli skili nægilegri orku til að réttlæta gífurlegan kostnað.

Í dag ættum við að vera á fullu að venja okkur við veröld án olíu, en það virðist þó ekkert í þá áttina vera í gangi. Í Bandaríkjunum sem nota fjórðung allrar olíunnar er bensín t.d. ódýrasti vökvi sem seldur er almenningi. Við verðum í framtíðinni væntanlega dæmd sem eigingjarna kynslóðin sem kláraði olíuna. En þetta má ekki ræða, stjórnmálamaður í Bandaríkjunum á enga von um kosningu ef hann vogar sér að benda á þessa hættu, en þeir vita af þessu, þeir vita líka að í Mið-austurlöndum eru einu almennilegu olíubirgðirnar í heiminum sem ekki munu fara þverrandi alveg á næstunni. 

Hvað þá með loftslagsmálin og umhverfismálin?

Það hefur ekki verið mikil umræða um væntanlega olíukreppu, allavega ekki miðað við umræðurnar um loftslagsmálin. Nú fæ ég samt ekki betur séð en að þessi tvö vandamál tengist, en samt með öfugum formerkjum ef hægt er að segja svo. Ef olíukreppan framundan er staðreynd þá er augljóst að þá mun draga úr brennslu olíu sem þýðir að draga muni sjálfkrafa úr þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem talin er nauðsynleg og jafnvel gott betur. Það má því kannski segja að þannig leysist stórt en kannski dálítið umdeilt vandamál og annað stærra og verra taki við. Svo er líka augljóst mál að það er tómt mál að tala um að þriðji heimurinn muni ná því neyslustigi og lífskjörum og við búum við í dag hér á Vesturlöndum. Verður það kannski bara á hinn veginn? Það er óhjákvæmilegt að orkuverð mun hækka í framtíðinni, ekki vegna Kyoto-sáttmálans heldur af hreinum orkuskorti. Og þá er hætt við því að allt verði virkjað sem virkjanlegt er því orkan verður gulls ígildi. Hvað verður þá um Gullfoss? Hvað verður þá um Fagra Ísland?

Meiri svartsýnisfróðleik um þetta mál má finna hér: http://www.lifeaftertheoilcrash.net/


mbl.is Skeljungur hækkar eldsneytisverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Rússar ætluðu að reisa olíustöð í Viðey

oliustod

Árið 1979 birtist frétt í því sáluga blaði Þjóðviljanum að samkomulag hafi náðst milli ríkisstjórnarinnar og Sovétríkjanna að í Viðey skildi rísa stór og fullkomin olíuhöfn með öllu tilheyrandi. Eins og gefur að skilja var þetta stórpólitískt mál í miðju kalda stríðinu en á þessum tíma voru vinstri flokkarnir við völd, en þeir sem komu að þessu máli fyrir hönd ríkisstjórnarinnar voru þeir Svavar Gestsson, Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson og töldu þeir þetta mikið þjóðþrifamál. Þjóðviljinn var greinilega hlynntur þessum framkvæmdum og hvatti alla sósíalista til að sniðganga mótmælafund sem halda átti við Sovéska sendiráðið. Í frétt blaðsins mátti m.a. lesa þetta:

„Olíuhöfnin í Viðey ásamt tíu 55 þúsund lesta olíutönkum og tilheyrandi leiðslum í land verður gífurlegt mannvirki og verða framkvæmdir boðnar út 1. maí n.k. víða um A-Evrópu og einnig á Kúbu, í Víetnam og Angóla. Samkomulag náðist um að eignaraðild Íslands yrði 50% eða jafnmikil og Rússa eins og viðeigandi er milli bræðraþjóða. Aðalhöfnin verður staðsett í víkinni fram undir Viðeyjarstofu og til marks um stærð hennar er að skip allt að 120 þúsund lestir geta lagst að viðlegukanti.

oliustod_fundurOlíutönkunum verður raðað í hálfhring utanum Viðeyjarstofu og kirkjuna en þess skal getið að þessi fornu mannvirki fá að standa algerlega óhreyfð og hafa Rússar m.a.s. boðist til að gera kirkjuna að minjasafni gegn því að skrifstofur hafnarinnar fái inni i Viðeyjarstofu. Olíutankarnir verða að miklu leyti grafnir í jörðu eða 9/10 hluti þeirra, og er það gert vegna náttúruverndarsjónarmiða. Það sem upp úr stendur verður þó um 40 metrar á hæð. Verður tignarlegt að líta yfir Viðeyjarsund þegar tíu fagurgjörfum turnunum verður raðað með reglulegu millibili sem einskonar umgjörð um höfuðból iðnrekandans Skúla fógeta.“

- - - - - -  

Það er kannski allt í lagi að minnast á það í lokin að þessi frétt birtist þann 1. apríl 1979. Nú eru hinsvegar breyttir tímar, en ekki alveg því eitthvað koma Rússar við sögu í þeim áformum að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum, en ég hef reyndar aldrei verið viss um hvort þar sé eitthvað spaug í gangi eða ekki.


Kínverskt fyrirtæki tekur upp símalógóið

 SUTOR_Siminn

Í stórveldinu Kína eru menn ekkert sérstaklega frægir fyrir að virða höfundarrétt og þegar Kínverska stálfyrirtækið SUTOR var stofnað þótti ekkert sjálfsagðara en að taka upp okkar ágæta Símalógó sem var notað þegar SUTOR var skráð á Nasdaq-markaðinn. Líkindin með þessum lógóum eru það mikil að hér getur alls ekki verið um tilviljun að ræða. Á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að 15. ágúst 2006 sé stofndagur fyrirtækisins og þá hafa þeir væntanlega tekið upp þetta lógó. Sögu fyrirtækisins, væntanlega undir öðru nafni, má þó rekja til ársins 2003 eins og kemur fram á forsíðu heimasíðunnar. Ég veit ekki til þess að nokkur tengsl séu á milli þessara fyrirtækja en að þau séu að nota sama lógóið. Ég veit hinsvegar að Símalógóið er teiknað á íslenskri auglýsingastofu og var verðlaunað af Ímark sem besta lógó ársins 2004. Annað íslenskt símafyrirtæki heitir NOVA og er ekki mjög vinsælt um þessar mundir hjá mbl. bloggurum, kannski ættu menn bara að taka því rólega og dást af þeirri fínu grafísku hönnun sem er í boði og í greinilegri útrás. (OK, kannski ekki allir sammála þessu síðasta).
 

Sutor_Nasdaq


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband