Færsluflokkur: Dægurmál

Lúpínuræða Fastagests

Ég hef áður vitnað í skáldsöguna Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson en það er góð bók að mínu mati, mjög sérstök en vissulega ekki við allra hæfi. Bókin er kraftmikill óður til Öræfasveitarinnar og náttúrunnar sem slíkrar en ekki síður fjallar bókin um samskipti mannsins við landið og náttúruöflin og er þar komið víða við. Ein höfuðpersóna bókarinnar nefnist Fastagestur og eru ófáar blaðsíður lagðar undir einræður hans enda skilst mér að hann sé einskonar samviska höfundar, eða sá sem talar máli höfundar bókarinnar. Fastagestur er yfirleitt ekkert að skafa utan af hlutunum og ekki heldur þegar kemur að blessaðri lúpínunni sem sífelldur styr stendur um. Ég ætla að leyfa mér að birta hér lúpínuræðu Fastagests í Öræfabókinni en þótt að hlutirnir séu hér málaðir sterkum litum þá get ég ekki annað en verið bara nokkuð sammála í aðalatriðum. Vonandi sjá sem flestir ljósið einnig.

„ … við skulum ekki tala um lúpínuna, Bernharður minn, sagði Fastagestur við gluggann, hún er plága, tapað stríð sem við háðum gegn sjálfum okkur, ég verð svo óendanlega sorgmæddur þegar ég sé lúpínu eða heyri á hana minnst, lúpínan er blá sorg, tákn fyrir sjálfshatur okkar, dapurlega sjálfsmynd, lúpínan er svo fögur planta og mögnuð, en misnotuð í eyðileggingarskyni eins og skógræktin gegn móanum og mýrinni og gervallri náttúrunni, það var Skógræktarstjóri ríkisins sem kom með lúpínuna í Öræfin fyrir 50 árum, við förum ekki í grafgötur um það, lúpínan hefur þegar eyðilagt margfalt stærri svæði en hörmungargosið 1362, en hún gerir það hljóðlega, lúpínan hegðar sér nákvæmlega eins og vírus, krabbamein, nákvæmlega eins og maðurinn, smeygir sér inn og eyðileggur allt innan frá og milljónfaldast; reynt var að fela grjótið þegar brúin var opnuð 1974, fela jökulöldurnar sem eru minnisvarðar um hvert jökullinn hefur teygt tungur sínar, fela sandinn, fela móana og fela melana, fela þessa minnisvarða um tímann og kraft náttúrunnar, skítugu börnin, öldurnar eru óþekkjanlegar og ófærar fyrir lúpínu, það er ekki lengur hægt að fá sér göngutúr um öldur og sker og skoða grjótið eins og maður gerði í gamla daga, sagði Fastagestur við gluggann, Tvískerjabræður hafa reynt ýmsar aðferðir til að uppræta þessa skæðu plöntu og endurheimta gömlu móana en án árangurs, fræin geymast að minnsta kosti í hálfa öld í jörðu eins og viðlegubúnaður í jökli, svo sprettur lúpínan upp óvænt hvar sem er og dreifir úr sér á ógnarhraða og kæfir og eyðileggur allt sem fyrir er, bæði gróður og auðn, eins og gusthlaup sýnt hægt … Allt sem heitir rækt … rækt er á móti náttúrunni, á móti lífinu, á móti Guði, hvort sem það er skógrækt eða sauðfjárrækt eða vaxtarrækt, ég er fyrst og fremst á móti allri rækt, sagði Fastagestur við gluggann á hótelinu í Freysnesi, ég er allur með Guði og náttúrunni, mönnum, dýrum, plöntum og grjóti og jökli og vindinum; ég er allur fyrir öræfin.“ (Öræfi, bls. 318-320)

 

Morsá

Lúpína á Skeiðarásandi komin yfir það litla vatn sem rennur þar sem Skeiðará breiddi úr sér áður. Eftir að Skeiðará hvarf á þessum slóðum er ekkert sem hindrar lengur landnám lúpínunnar vestur eftir gjörvöllum Skeiðarársandi. (Ljósmynd: EHV)

 


Moggarifrildi frá 1967

Ýmis blöð berast með hlýjum vindum og safnast fyrir á svalagólfinu. Ekki eru það allt laufblöð. Í morgun mátti sjá rifrildi af sjálfu Morgunblaðinu sem við nánari athugun reyndist vera frá 13. september 1967. Meðal efnis var húseign til sölu í Blesugróf með lóðaréttindum, útborgun 275.000 þúsund. Á bakhliðinni var minning um mann sem varð ungur skáti og var alltaf boðinn og búinn til að veita aðstoð og hjálp, hvar og hvenær sem til hans var leitað.

Haustblað


Vesturbærinn, Melabúðin, fótbolti og fjölmiðlar

Ég er aðfluttur Vesturbæingur. Ólst upp í Háaleitishverfinu og er því Frammari að eilífu. Það kemur fyrir að ég fari á völlinn í Frostaskjóli í þeirri veiku von að verða vitni að sigri minna manna gegn innfæddum. Sú von hefur brugðist hingað til. Ég á þó vissar rætur í Vesturbænum, þar bjuggu afi og amma og í heimsóknum þangað var gjarnan farið á leikvöllinn við Hringbraut þar sem styttan er af Héðni Vald. Helsta áskorunin á þeim vettvangi var rennibrautin mikla sem var stærri og meiri dæmi eru um í dag.

Melabúðin er mikil menningar- og verslunarmiðstöð hér í Vesturbænum þótt ekki sé hún stór í sniðum. Þar hittir maður einatt einhvern sem maður þekkir og þar má líka reikna með að sjá að minnsta kosti tvo fræga. Maður getur til dæmis hitt Davíð Oddsson hjá kálinu og Össur Skarphéðins hjá smérinu. Ég fer reyndar ekki í Melabúðina á hverjum degi en í síðustu innkaupaferð voru þar bæði Bjarni Fel og Þorsteinn Joð. Kannski var þetta bara einhver sem líktist Bjarna Fel en engin spurning var með Steina Joð enda var hann í samræðum við símann sinn og tilkynnti hátt og snjallt að hann væri staddur í Melabúðinni.

Báðir þessir kappar hafa komið við sögu í útvarpi og sjónvarpi. Bjarni Fel átti ensku knattspyrnuna þar til hún var flutt annað og hef ég varla fylgst með henni síðan. Svipað gerðist með Formúluna. Ég er alger Marteinn Mosdal þegar kemur að ljósvakamiðlun og fylgist bara með ríkisfjölmiðlum. Umræddan dag í Melabúðinni var einhver útvarpsstöð í gangi og var þar einhver hress útvarpskona að segja frá æðislegri brúðkaupsferð einhverrar poppstjörnu og vísaði þá í myndir og frásögn í erlendu slúðurblaði. Ég endist sjaldan lengur en í 5 mínútur ef ég slysast til að skipta yfir á Bylgjuna. Hressileikinn á þar á ekki við mig enda fara hressilegheit sjaldnast saman við skemmtilegheit. Rás 1 og 2 eru mínar heimastöðvar. Útvarpshlustun virka daga er helst stunduð með morgunkaffinu og í bílnum. Kvöldfréttir er einnig hlustað á en annars eru helgarnar góðir útvarpsdagar. Allur gangur er á því hvor ríkisrásin hefur vinninginn. Góða talmálsþætti er enn að finna á Rás 1 þó margir þeirra séu endurfluttir. Á Rás 1 eru líka góðir tónlistarþættir t.d. milli 8-9 á morgnanna virka daga. Þeir eru betri til hlustunar með morgunmatnum en morgunútvarpið á Rás 2 fyrir kl. 9 þar sem allt of mikið er af óspennandi viðtölum. Reyndar finnst mér öll þessi dægur- og vandamálaviðtöl við fólk út í bæ vera ofmetið útvarpsefni sem og símaviðtöl allskonar. Mér finnst skipta máli í sambandi við tónlist í útvarpi að lög séu spiluð frá upphafi til enda, án þess að talað sé ofan í lögin og svo eiga þau líka að vera rækilega kynnt og afkynnt. Þetta er oft gert betur á Rás1 en á Rás2. Ýmsa ágæta útvarpsmenn er að finna á Rás 2. Ég hef sérstakt dálæti á Guðna Má á sunnudögum enda virðast tónlistarsmekkir okkar skarast vel. Gæti trúað að um sé að ræða einhverja 85% skörun. Hann er til dæmis sá eini sem spilar Linton Kwesi Johnson, ef einhver veit hver það er aðrir en við Guðni.

En nú fer að styttast í HM í knattspyrnu sem er alltaf skemmtilegt og gott að keppnin er ekki lokuð á einhverjum einkastöðvum. Áðurnefndir Vesturbæingar í Melabúðinni hafa komið við sögu í slíkum útsendingum. Man alltaf hvað Bjarni Fel var hissa á vélknúna sjúkravagninum sem brunaði inn á völlinn á HM í Bandaríkjunum þegar einhver varð fyrir hnjaski enda fann hann þá upp nýyrðið hnjaskvagn. Ýmsir upphitunarþættir fyrir HM hafa verið verið á dagskrá Sjónvarpsins. Mér datt í hug er ég horfði á einn slíkan hvort ekki væri sniðugra að endursýna í heild sinni gamla klassíska fótboltaleiki frá fyrri keppnum. Það væri t.d. ekki leiðinlegt að sjá leik Englendinga og Argentínumanna frá því í den er Maradonna skoraði tvö af frægustu mörkum fótboltasögunnar. Tala nú ekki um leiki með Danska landsliðinu í sömu keppni árið 1986 sem var samfellt sigurför þar til Danir steinlágu í því gegn Spánverjum. Áfram með góðar tillögur tengdar fótbolta. Rautt spjald í fótbolta þýðir ekki bara að brotamaður fer út af það sem eftir er leiks heldur einnig að liðið spilar manni færri það sem eftir er leiks og það vegna yfirsjónar eins manns eða óþarfa refsigleði dómara. Taka mætti upp í staðin það fyrirkomulag að reka mann tímabundið af velli, t.d. í tuttugu mínútur ef brotið er ekki þeim mun alvarlegra. Að þeim tíma liðnum gæti maðurinn komið inn á aftur eða einhver í hans stað og værum við þá farin að nálgast þann hátt sem hafður er við í handbolta nema að refstíminn er tuttugu mínútur en ekki tvær. Þetta mættu menn athuga en eins og með góðar tillögur þá ná þær oft ekki lengra en að vera nefndar.

 


Konungleg hitabylgja

Þar-þar-næsti konungur Bretlands er fæddur og það í miðri hitabylgju í London. Þetta er að sjálfsögðu hinn merkasti atburður og ekki skemmir fyrir að á næstu dögum munum við njóta hins konunglega hlýja lofts, stórættuðu í beinan karllegg frá höfuðborg heimsveldisins.

Veðurkort 22. júlí


mbl.is Prins er fæddur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um daginn og veginn - aðallega þó veður og umhverfi

Svo við snúum okkur fyrst að veðrinu þá gætum við verið að upplifa hér í Reykjavík, fyrsta almennilega rigningarsumarið síðan árið 1984. Kannski er ég full svartsýn á þessum rigningardegi en fram að þessu hefur allavega verið frekar sólarlítið og blautt í borginni og spáin ekki góð svo langt sem séð verður. Þeim mun betra gæti þá orðið fyrir norðan og austan. Talandi um það, þá datt mér í hug í tilraunaskyni að skrá niður veðrið á Akureyri þennan mánuð með sama hætti og ég hef gert fyrir Reykjavík árum saman. Vefur Veðurstofunnar dugar vel til þess að fylgjast með veðrinu fyrir norðan þó ég sé ekki á staðnum. Samanburðinn má svo birta í bloggpistli eftir næstu mánaðarmót. Fram að landsynningsslagviðrinu í dag, 5. júní, hefur Reykjavík reyndar tekið góða forystu í veðurgæðum hvað svo sem verður.

Ég veit ekki hvort ég muni skrifa lúpínupistil þetta sumar eins og ég hef stundum gert. Ég skrifaði þó í athugasemd um daginn hjá útivistarbloggaranum SigSig að ég væri bæði á móti lúpínu og skógrækt. Ég vissi að búast mætti við neikvæðum viðbrögðum við svona viðhorfum enda kallaði einhver mig blómafasista og taldi mig ekki vilja sjá neitt nema eyðisanda. Almennt er ég á því að það sé ekki okkar hlutverk að reyna að fegra náttúruna auk þess sem náttúruleg fagurfræði er æði afstæð. Íslensk náttúra eins og hún er, án lúpínu og tilbúinna skóga, þykir afar sérstök og er óneytanlega eftirsóknarverð meðal erlendra ferðamanna.

Auðvitað verður þó ekki lifað í þessu landi öðruvísi en að raska náttúrunni hér og þar. Það þarf jú að byggja hús og leggja vegi. Við framleiðum rafmagn með því að virkja náttúruöflunin og því rafmagni þarf að koma til skila. Þrjú stór álver hafa verið reist og þau gera sitt fyrir þjóðarbúið en spurning er hvenær nóg er komið. Ekki síst ef hagnaðurinn verður að miklu leyti til utan okkar hagkerfis. Sjálfum finnst mér þrjú álver alveg rúmlega nóg en til þess að bæta því fjórða við þarf feiknamikið rask á náttúrunni og næstum gjörnýtingu á þeirri virkjanlegu orku sem hægt er að afla, með sæmilegu móti. Nokkuð sérstakt er hvernig Hengilssvæðið var virkjað og stórlega raskað án umræðu á sínum tíma og sér ekki fyrir endann á neinu þar.

Hugmyndir hafa verið kynntar sem snúast um það að skapa "wá-móment" með tilheyrandi raski á náttúrunni. Annarsvegar er það göng ofaní Þríhnjúkagíg sem hingað til hefur verið dulmagnað og nánast ófært ginningargap og magnað sem slíkt. Ef þetta á að verða 100 þúsund-manna ferðamannastaður er um allt annað að ræða. Fólk kæmi þarna í mörgum bílum og rútum, því er holað ofan í jörðina svo það geti sagt wá í smástund og svo aftur upp í rútu. Svipað og eiginlega öllu verra gæti átt sér stað í Esjunni ef þar á koma kláfur alla leið upp sem er auðvitað heilmikið mannvirki. Þangað upp er meiningin að lyfta upp öðrum 100 þúsundum árlega ef ekki fleirum. Sjálfsagt langar mörgum að komast upp á Esju en geta það alls ekki. Með útsýnismannvirki og jafnvel veitingastað ofaná Esju væri verið að skerða mjög upplifun þeirra sem ganga á fjallið á eigin fótum. Aðalmálið er þó að þarna er verið að bæta við einhverju aðskotadóti í náttúruna bara svo að fólk geti sagt wá! - og farið svo niður aftur. Reyndar ekki víst að allir segi wá! í þokunni sem gjarnan er upp á Esju. Spurning hinsvegar hversu margir ákveði að fara á flakk á Esjutoppi bara til að láta bjarga sér rammvilltum eða í sjálfheldu eins og gerist nógu oft nú þegar.

Erfitt getur verið að verða sér úti um gott brauð í stórmörkuðum. Flest álitlegu brauðin eru svo fínlega niðurskorin að maður verður af þeirri ánægju að geta skorið sjálfur og smurt sér væna þykka sneið með góðri ostsneið ofaná. Þau sem hinsvegar eru óskorin eru gjarnan mjög svo aflöng og gefa bara af sér einhverjar smásneiðar eða að þau eru nánast hnöttótt og gefa af sér risavaxnar sneiðar um miðbikið. Já það getur stundum verið vandlifað.

Hraun - álver

Einn góðan veðurdag sunnan Hafnarfjarðar.


Er að spá í hvað ég á að kjósa

Þegar þetta er skrifað er runninn upp  mikill kosningadagur sem gæti orðið sögulegur. Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvað ég á að kjósa en ólíkt mörgum finnst mér ýmislegt boðlegt í boði. Á maður að taka grínið á þetta eða láta alvöruna ráða hvernig ég greiði atkvæði?

Sjálfur er ég nokkuð hrifinn af léttu gríni og gæti vel hugsað mér að kjósa rússneska lagið sem er mjög harmrænn og fallegur tregasöngur en það þarf að hlusta á það með húmorinn í huga. Skemmtilegustu lögin duttu þó út í forkeppninni að mínu viti, Hollenska Geirmundarsveiflan hefði alveg mátt vera með og líka Slóvenska lagið sem blandaði saman þjóðlagahefð og gallabuxnarokki og virkaði bara stórskemmtilega á mig. Finnsku harmoníkustelpurnar voru líka bara skemmtilegar og hefðu gjarnan mátt vera með. Króatísku þokkadísirnar duttu óvænt út en þær voru með flott lag eins og sú sænska, kannski vantaði einhvern afgerandi kraft í þessi atriði þegar á sviðið var komið. Slóvakíska skógardísin náði því miður ekki að halda lagi í undankeppninni og varð því lítt ágengt.

Annars er athyglisvert hvað vönduð lög koma frá Kákasuslöndunum og þeim framandi slóðum, miklar og flottar skvísur með alveg hörkulög, ekki síst sú fyrsta sem stígur á svið en það er hin Azerbajdaníska Safura sem drip droppar með miklum tilþrifum. Frakkarnir eru alltaf flottir í Eurovision og nú er það hin blakki Jessi Matador sem ætlar að trylla lýðinn með miklu „Ola Ole“-stuði. Þýskaland teflir fram líflegri stelpu sem syngur með sérstökum „kokney“-enskuhreim“. Grikkir eru að venju með ógurlega flugeldasýningu og drumsbuslátt til heiðurs Grikkjanum Zorba og eru alltaf sigurstranglegir.

Ýmis önnur lönd mætti telja upp sem gætu hugsanlega unnið keppnina þó framlög þeirra höfði ekki öll til mín. Við verður svo að gera okkur grein fyrir því að Íslenska eldfjallið - Hera Björk, gæti stolið senunni með þeim afleiðingum að við vinnum keppnina. Það eru meiri líkur á því nú í ár en í fyrra því þá var alltaf vitað að norska lagið myndi vinna, sem það og gerði.

Hvað ég kýs verður bara að ráðast í kvöld. Í dag mun ég hinsvegar taka þátt í öðrum kosningum þar sem málið snýst um að kjósa í borgarstjórn. Sumir virðast þó misskilja þær kosningar - telja að þar eigi að kjósa það sem er skemmtilegast, svona eins og það sé verið að kjósa í skemmtinefnd.

 


Flosi Ólafsson, kommúnisminn og hinir mörgu fletir

Flosi Ólafsson sem nýlega kvaddi heiminn svo óvænt, lét út úr sér margt spakmælið í gegnum tíðina. Tvennt sem hann sagði einhvern tíma í viðtölum hefur mér persónulega þótt minnisstæðara en annað en í báðum tilfellum var Flosi að vitna í orð annarra. Sjálfsagt man ég þetta sem hann sagði ekki alveg orðrétt en hef vonandi skilið hugsunina. Í fyrra atriðinu var Flosi að tala um kommúnisma og hvað mörgum þótti sjálfgefið að kommúnistar væru vondir. Þá sagði Flosi og vitnaði í ömmu sína: „Kommúnistar er ekki kommúnistar vegna þess að þeir eru svo vondir, heldur vegna þessa að þeir eru svo góðir“. Þetta finnst mér að mætti hafa í huga í allri söguskoðun.
Þó ég hafi sennilega aldrei verið almennilegur kommúnisti, hafði ég oft samúð með kommúnismanum og varði hann stundum á meðan hann var sem mest fordæmdur og í dag hef ég jafnvel samúð með föllnum útrásarvíkingum. Svo hef líka oft bjargað flugum úr lífsháska.
En þá er það hitt spakmælið frá Flosa. Þar vitnaði hann að mig minnir í lögreglumann, sem sagði eitthvað á þá leið að það eru ýmsar hliðar á hverju máli og á hverri hlið eru oft margir fletir. Þetta mættu menn líka  hafa í huga í umræðunni.

Kúbuhatturinn 20 ára

með hattinn

Á þessum degi 26. júlí er við hæfi að rekja tilurð hattsins sem ég er með á smámyndinni. Þetta er nefnilega ekki hvaða hattur sem er því hann tengist sjálfum Fidel Castro fyrrverandi Kúbuleiðtoga traustum böndum og er ennþá sem nýr þó ég hafi átt hann í 20 ár. Þó ég sé ekki með hattinn svona dags daglega, þá nýtist hann mér oft vel, ekki síst þegar sólin skín beint á mig er ég sit við tölvuna á sumarkvöldum.

Kúba moksturEn það var annars þannig að í júlímánuði árið 1989 fór ég ásamt nokkrum Íslendingum og fjölda annarra Norðurlandabúa í vinnuferð  til Kúbu til að leggja hönd á plóg til að stuðla að framgangi byltingarinnar og fá í staðinn ýmsa fræðslu um land og þjóð með smá rommi saman við. Á myndinni hér til hliðar má einmitt sjá mig í átökum við kúbanskan jarðveg í mikilli hitasvækju, sem sést þó ekki á myndinni.
Það var svo í fjórðu viku ferðarinnar, eða þann 26. júlí, sem öllum hópnum var boðið á stóran útifund þar sem leiðtoginn Fidel Castró hélt eina af sínum miklu ræðum. Þar kemur einmitt hatturinn við sögu því þá fengum við í hópnum þessa fínu stráhatta gefins til að vera með á fundinum. Á hattinum stendur SIEMPRE EN 26 Ciego de Avila, eða: ÁVALLT ÞANN 26. Ciego de Avila (sem er bærinn þar sem fundurinn var haldinn). Í ræðu sinni (sem ég hlustaði á með aðstoð túlkunartækis) rakti Fidel allt það sem hafði áunnist á þeim 30 árum sem sem liðin voru frá dögum byltingarinnar. Var það auðvitað löng upptalning og þarf varla að taka fram að undirtektir tugþúsunda innfæddra voru á afar jákvæðum nótum, þótt þeir hafi ekki fengið hatta eins og við Norðurlandabúarnir í hinni svokölluðu Brigada Nordica sjálfboðaliðasveit.

Þessi dagur, 26. júlí er að vísu ekki byltingardagurinn á Kúbu. Hinsvegar markar hann eiginlegt upphaf byltingarhreyfingar þeirra Castró og félaga þegar þeir gerðu misheppnaða árás á herbækistöð þann 26. júlí árið 1952. Í kjölfarið voru þeir handteknir, stungið í steininn og síðan sendir í útlegð í Mexíkó. Þar kynntust þeir Che Guevara og upphugsað var nýtt byltingarplan sem endaði með falli einræðisherrans Batista í ársbyrjun 1959. Það þýðir að Kúbanska byltingin er orðin 50 ára. Hatturinn er hinsvegar 20 ára í dag og Castró og byltingin enn á lífi, þótt heilsunni sé eitthvað farið að hraka. Þannig var nú það.

Castró fundur

Brigada Nordica-hópurinn með splúnkunýja hatta á útifundi með Castró 26. júlí 1989.

 


Nú er mælirinn sneisafullur

Ég hef í gegnum minn bloggferil haldið mig á mottunni og látið sem ekkert sé þótt allt sé hér á hverfanda hveli. En ekki lengur því nú er þolinmæðin mín á þrotum og það ekki af einni ástæðu heldur fleirum. Svo maður nefni það fyrsta þá er það auðvitað algerlega ólíðandi þegar maður er að aka inn í hringtorg að ökumenn annarra bifreiða skuli ekki gefa stefnuljós þegar þeir aka út úr hringtorginu. Með þessu háttalagi skapast mikið óvissuástand hjá þeim sem aka inn í hringtorg því auðvitað gerir maður ráð fyrir því að þeir sem ekki gefa stefnuljós ætli að halda áfram inn í hringtorginu en ekki að beygja.
Margir gangandi vegfarendur hafa líka komið sér upp þeim ósið að þegar þeir koma að gangbrautaljósum, ýta þeir umsvifalaust á gangbrautartakkann án þess að athuga hvort nokkur bifreið sé að nálgast. Ef svo er ekki þá arka þeir strax út á götuna löngu áður en græni karlinn birtist á gangbrautaljósunum. Þegar gangandi vegfarandinn er svo kominn yfir götuna þá stöðvast umferðin algerlega af óþörfu. Maður hlýtur því að spyrja: hví var ýtt á takkann ef þess var ekki þörf? Annars hef ég ekkert á móti gangandi vegfarendum og fleiri mættu mín vegna bætast í þann hóp.

En það er fleira. Eins og flestir þá greiði ég oftast fyrir vörur með rafrænum hætti þótt virðulegra þykir mér að greiða með peningum. Þegar greitt er með korti er það nánast orðin regla að maður fái þessa óþolandi spurningu: „Viltu afrit?“ Í rauninni á þetta ekki að vera nein spurning - maður á bara að fá afrit. Svo þegar maður gerir afgreiðslufólkinu þann óleik að vilja afrit þá fær maður tvö! Eitt afrit og svo kvittun. Ég vil bara fá eitt og þarf því að henda öðrum miðanum. Þetta náttúrulega gengur ekki.

Svo er ég líka alveg að gefast upp á sumu útvarpsfólki sem stendur í þeirri trú að útvarpsþátturinn verði skemmtilegri ef það flissar og rekur upp hlátrasköll í tíma og ótíma. Hressileiki finnst mér allavega vera stórlega ofmetinn í útvarpi enda er það margsannað mál að ekki er fer saman að vera hress og skemmtilegur. Útvarpsfólk mætti líka bera meiri virðingu fyrir þeirri tónlist sem það leikur með því að tala ekki ofaní lög og umfram allt á að leika lög til enda og afkynna þau með formlegum hætti. Annað er algerlega óásættanlegt.

Fleiri atriði mætti sjálfsagt nefna sem angra huga minn þessa dagana þó ég muni ekki eftir fleirum í augnablikinu. Ef eitthvað rifjast upp ætla ég samt að láta það liggja á milli hluta en mun snúa mér að veðri í næstu bloggfærslu.


Gleðilegt rigningasumar

Sumardagurinn fyrsti

             Dagur: Sumardagurinn fyrsti, fimmtudaginn 23. apríl 2009.
             Staður og tími: Vesturbærinn í Reykjavík, kl. 13:45
             Veður: Hægviðri og rigning. Hiti 4,5°C.

mbl.is Sumar og vetur frusu saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband