Færsluflokkur: Dægurmál
1.4.2009 | 08:54
Hafís kominn inn á Faxaflóa
Það er auðvitað mjög merkilegt að hafísinn komi að landinu svona sunnarlega því venjulega kemur hann fyrst að landi á norðanverðum vestfjörðum, en þetta er þó ekkert einsdæmi enda hegðar náttúran sér ekki alltaf eins og hún er vön. Það hefur annars mikið verið talað um að hafísinn sé að minnka svona almennt sem afleiðing af hlýnandi loftslagi, en þessi staða núna er greinilega ekki í samræmi við það sem skýrir kannski hvers vegna lítið hefur verið um þetta fjallað. Kannski þykir þetta of óþægileg frétt.
Hvað sem því líður þá er ástæða til að fylgjast vel með hafísnum að þessu sinni og hver veit nema við förum brátt að sjá hafísbreiður héðan úr Reykjavík og kannski sést hann nú þegar frá efstu byggðum. Mér fannst ég jafnvel sjá áðan þegar ég leit út á flóann að himinninn væri bjartari en venjulega í vestri sem gæti skýrst af endurkasti íssins. Óneitanlega fer maður líka að hugsa um ísbirni, en þó að það sé viss hætta á svoleiðis heimsóknum þá er það nú alltaf undantekning að slíkt gerist enda kunna ísbirnir best við sig á ísnum sjálfum.
Nánar um stöðu hafíssins má sjá hér: http://nsidc.org/cryosphere/glance/
Dægurmál | Breytt 2.4.2009 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
6.12.2008 | 17:46
Íslensku sauðalitirnir og þjóðernisrómantíkin
Þrotaveturinn mikli er farinn að hellast yfir okkar af fullum þunga og sér ekki fyrir endann á. Í þrengingum þessum er talað um að við Íslendingar þurfum að standa saman sem aldrei fyrr. Nú er um að gera að velja íslenskt, flagga íslenska fánanum, ganga í lopapeysum, borða skyr, (þó ekki að sletta skyrinu að óþörfu) og síðast en ekki síst eigum við að tala kjarnyrt íslenskt mál enskuslettur tilheyra árinu 2007 enda So last year.
Við svífum ekki lengur á rósrauðu skýi líkt og áður því nú eru það sauðalitirnir og sem gilda. Þetta veit íslenska sauðkindin sem hér hefur þraukað í yfir þúsund ár og haldið í okkur í lífinu. Henni til heiðurs mun ég sjálfur birtast í sauðalitunum hér á síðunni, þar til vorar að minnsta kosti. Tekið er fram að á myndinni hér til hliðar er höfundur sá sem er til vinstri á myndinni.
Því miður vilja nú æði margir að við göngum í ríkjabandalag Evrópuþjóða og telja það skynsömustu leiðina fyrir okkur og til mikilla hagsbóta. Það má vel vera að út frá hagfræðinni einni saman sé það skynsamlegt að hræra okkur í sama graut og meginlandsþjóðirnar en það er líka margt annað sem gæti verið fjárhagslega skynsamlegt, eins og til dæmis að virkja alla fossa landsins og hætta að tala íslensku. Það gæti líka verið skynsamlegt fyrir okkur að hætta þessu basli öllu saman og flytjast búferlum á danskar heiðar. Við höfum alltaf þetta val sem er ágætt útaf fyrir sig en þá má ekki gleyma að það eru til önnur rök og jafngild heldur en köld hagfræði- og skynsemisrök. Þar á ég við hin einföldu tilfinningarök sem segir okkur hvað við viljum í raun.
Ég get alveg viðurkennt að ég er dálítill þjóðernisrómantíker af gamla skólanum sem líkar vel að búa í stórbrotnu landi og tilheyra þjóð sem er svolítið sér á báti með sínar sérviskur. Ekki það að ég telji okkur Íslendinga vera eitthvað yfir aðrar þjóðir hafnir því sjálfsagt erum við ekkert klárari í kollinum en gengur og gerist. Hæfileg þjóðernisrómantík þarf heldur ekki að þýða að við eigum að einangra okkur og hætta að taka þátt alþjóðasamfélaginu. Við Íslendingar erum hinsvegar auðlindaþjóð ólíkt meginlandsþjóðum Evrópu sem aðallega eru í því að selja hverri annarri sama kálið. Á okkar auðlindunum höfum við alltaf byggt okkar grunn og þær eigum við að eiga útaf fyrir okkur og nýta í góðri sátt við landið.
- - - -
Svona lokin verð ég að minnast á að eftir síðustu færslu þurfti ég í fyrsta skipti að beita ritskoðun hér á síðunni. Ástæðan var sú að grínari sem kallaði sig Pétur P. Proppé var með þrálátar kjánaathugasemdir sem ég gat ekki látið viðgangast endalaust. Ég áttaði mig þó fljótt á að þar var á ferðinni hrekkur í tilefni af óvinaviku í vinnunni hjá mér. Ég læt samt fyrstu athugasemdirnar frá honum lifa áfram enda viss húmor í þeim og tek svo fram að nú er búið að aflétta öllu ritskoðunum.
Dægurmál | Breytt 9.12.2008 kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.11.2008 | 18:10
Austurvöllur 8. nóvember - myndir
Hér eru myndir af því þegar nokkrir borgarbúar komu saman núna síðdegis á Austurvelli. Alltaf gaman að sjá mannlíf í miðborginni okkar.
3.10.2008 | 23:52
Nú er það svart – allt orðið hvítt
Þótt ég hafi um síðustu helgi spáð miklum harðindum hér á landi í vetur þá verð ég að viðurkenna að úr spánni hefur ræst svona heldur hraðar en ég hugði. Ofan á öll fjárhagsharðindin þar sem krónan og hlutabréfin hafa fallið svo um munar þá hefur snjórinn einnig fallið víða um land, langt fyrir tímann. Það er hinsvegar ekkert óvenjulegt þótt haustlaufin hafa fallið, Skagamenn eru svo auðvitað löngu fallnir en nú vonum við bara að Bubbi sé ekki fallinn.
Það er þetta með snjóinn. En þar sem ég er ekki með elstu mönnum þá man ég engan vegin eftir svona öflugum vetrarkafla svona strax í byrjum október, jafnvel þótt ég hafi haldið veðurdagbók í yfir 20 ár eins og ég hef nokkrum sinnum minnst á. Í þessa veðurdagbók skrái ég meðal annars hvort snjór sé á jörð um miðnætti hér í Reykjavík og þar kemur fram að hvít jörð hefur ekki verið svona snemma hausts á miðnætti í Reykjavík frá árinu 1986 þegar skráningar mínar hófust og það tvö kvöld í röð, sem þýðir að snjórinn hefur lifað sólarhringinn. Slíkur er kuldinn.
Upp úr þessum skráningum mínum hef ég sett saman þessa mynd sem sýnir hvenær snjór hefur verið í Reykjavík síðustu 22 vetur en þessa mynd hef ég birt áður. Ásamt mörgu öðru merkilegu sést þarna hvað október er snjóléttur mánuður í borginni. Ef það hefur snjóað í mánuðinum hefur það verið yfirleitt verið undir lok mánaðarins og staðið stutt. Frá 1986 hafði fyrsti októbersnjórinn fallið þann 13. árið 1987 en október 1986 er snjóþyngstur, en viku eftir leiðtogafundinn það ár gerði mikið vetrarríki í borginni sem hélst út mánuðinn. Sjálfsagt hefur einhvern tíma snjóað svona snemma að hausti og í ár, en ég læt þetta tímabil sem ég hef skráð nægja. Svo er bara að vona að við hörkum af okkur þennan harðindavetur sem er framundan, hvort sem þau harðindi verða veðurfarlegs eðlis eða ekki.
Dægurmál | Breytt 4.10.2008 kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2008 | 15:05
Ólympíuhitt og þetta
Þá eru hinir miklu kínversku Ólympíuleikar hafnir, hin glæsilega setningarathöfnin búin og athyglin loksins farin að beinast að íþróttunum sjálfum. Þessir leikar eru auðvitað mikið mál fyrir Kínverja sem voru svo vinsamlegir að skjóta skjólshúsi yfir leikana að þessu sinni, enda gefst þeim þarna tækifæri til að sanna sig og sýna hvers þeir eru megnugir. Ólympíuleikarnir eru auðvitað mikil auglýsing fyrir Kína, þótt sú auglýsing sé kannski ekki alltaf sú sem Kínverjar hafa óskað sér. Víða á vesturlöndum er litið á þetta sem Ólympíuleika loftmengunar, mannréttindabrota og yfirgangs stjórnavalda gagnvart minnihlutahópum þótt flestir Kínverjar líta á þetta sem stórkostlega sigurhátíð eigin ríkis.
Ég er ekkert sérstaklega fyrir það að sniðganga Ólympíuleika þótt gestgjafar séu svona og hinsegin. Það er samt ekkert að því að mótmæla og vekja athygli á málum sem eru ekki alveg í lagi, af þeim er víst nóg í Kína miðað við okkar fullkomnu vesturlönd, en margt af því hefði örugglega ekki verið eins áberandi í umræðunni Kína hefði ekki orðið fyrir valinu, ég nefni bara loftmengunina og Tíbetmálin sem dæmi.
Talandi um að sniðganga Ólympíuleika þá eru auðvitað eftirminnilegast þegar Sovétríkin og Bandaríkin sniðgengu Ólympíuleika hvors annars á meðan kalda stríðið var enn í gangi. Fyrst í Moskvu árið 1980 þegar Sovétmenn hertóku Afganistan, en það þótti mikill alþjóðaglæpur í þá daga. Það kom því engum á óvart fjórum árum síðar að austurblokkin svokallaða sniðgekk Ólympíuleikana í Los Angeles árið 1984. Sem varð reyndar okkur til happs því þá komst íslenska handboltalandsliðið á svona leika í fyrsta sinn og stóð liðið sig þar með prýði og íslenska handboltaævintýrið hófst fyrir alvöru.
Árangur Íslendinga á Ólympíuleikum í gegnum tíðina hefur verið mjög glæsilegur ef sú skoðun er höfð í huga að þeir síðustu verða ávallt fyrstir og þeir fyrstu síðastir. Það leiðir aftur hugann að Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980, en þar keppti einn okkar besti 1500 metra hlaupari sem við höfum átt, Jón Diðriksson. Í þá daga voru engar beinar útsendingar í sjónvarpi en Ríkisútvarpið sendi hinsvegar lítt kunnan fréttamann, Stefán Jón Hafstein, til að lýsa beint viðburðum í útvarpi allra landsmanna. Stefán lýsti 1500 metra hlaupi Jóns Diðrikssonar af mikilli ákefð ekki síst vegna þess að Jón tók snemma forystu í hlaupinu. Allt hlaupið jós Stefán miklu lofi á hlaup Jóns Diðrikssonar, en þess á milli mátti heyra: hann er fyrstur hann er annar hann er orðinn þriðji hann dregst aðeins afturúr hann kemur í mark og er
sjöundi í riðlinum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2008 | 22:47
Ekki enn búið að mála yfir myndina mína
Í hreinsunarátaki því sem borgaryfirvöld standa nú fyrir með orgelleikarann Jack Magnet í broddi fylkingar hefur margt veggjakrotið miðbænum þurft að víkja fyrir málningarrúllunni og kannski ekki vanþörf á. Sumum hefur þó brugðið í brún þegar metnaðarfull myndverk hafa allt í einu horfið undir gráa málninguna eins og um hvert annað næturkrot pörupilta hafi verið um að ræða. Þetta varð til þess að mér datt í hug að kíkja í Kolaportið, og þá meina ég Kolaportið hið eina og sanna, sem er bílageymsluhús við Seðlabankann og hýsti á sínum tíma markaðinn góða sem kenndur er við staðinn.
Árið 1990 á meðan markaðurinn var þarna enn starfræktur var ég á meðal þeirra 25 listamanna og teiknara af yngri kynslóðinni sem tóku þátt í að myndskreyta veggi bílastæðahússins. Staðið var að verkinu þannig að hver og einn fékk sína fermetra til að myndskreyta og gerði hver sína mynd eftir eigin höfði, án tillits til þess hvað sá næsti gerði. Ég ákvað að mála borgarlandslag, húsablokkir með beinum ákveðnum línum og gráa götu sem gul Volkswagen-bjalla í yfirstærð ók eftir í rólegheitum. Fyrirmyndin að bílnum var mín eigin glæsibifreið sem ég ók um götur borgarinnar, átta fyrstu ökuárin mín. Skemmst er frá því að segja að nú eftir næstum átján ár er verkið nánast sem nýmálað og hefur ekki enn orðið hreinsunarátakinu að bráð, enda væntanlega allt unnið með fullu samþykki yfirvalda.
Á meðan á gjörningnum stóð á sínum tíma heiðraði blaðamaður Þjóðviljans okkur með nærveru sinni ásamt ljósmyndara og þar komst ég þar svo sannarlega á blað ásamt stórri mynd. Umfjöllunin birtist svo í Þjóðviljanum þann 11. september árið 1990 og kannski er það bara tilviljun, en nákvæmlega 11 árum síðar varð New York-borg í heimsfréttunum þegar tvö stór farartæki komu aðvífandi og ollu þar talsverðum usla. En þar kom ég reyndar hvergi nærri.
Dægurmál | Breytt 29.7.2008 kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.5.2008 | 23:27
Hinn fullkomni veðurdagur
Nú að kvöldi dags hins 8. maí, hef ég lokið veðurskráningu dagsins eins og ég geri venjulega í dagslok og gefið veðrinu einkunn. Að þessu sinni sé ég enga ástæðu til annars en að gefa veðri dagsins hér í Reykjavík hæstu einkunn eða 8 stig. Sú einkunn fæst aðeins ef allir veðurþættirnir fjórir eru hagstæðir, þ.e. sólríkt, þurrt, hægur vindur og hlýtt miðað við árstíma. Það gerist annars frekar sjaldan að dagur fái einkunnina 8 a.m.k. hér í Reykjavík, þótt veðrið geti samt verið mjög gott oft á tíðum. Á veturna er það t.d. mjög sjaldgæft að hlýindi fylgja svona góðviðrisdögum og á sumrin er það oft hafgolan sem dregur einkunnina niður á sólríkum og hlýjum dögum. Allt árið í fyrra fengu þó alls 6 dagar einkunnina 8, síðast gerðast það þann 11. ágúst á þriggja ára afmælisdegi hitametsins í Reykjavík sem er 24,8 stig. Sá dagur, 11. ágúst 2004, var hinsvegar svo eindæma góður veðurfarslega að hann sprengdi einkunnaskalann í fyrsta og eina sinn hjá mér og fékk heil 9 stig. En það er einungis mögulegt ef hitinn er yfir 20°C yfir daginn, samkvæmt mínum ströngu skráningarreglum.
Þar hafið þið það og þá er bara að vona að ekki þurfi að líða langur tími uns næsti 8 stiga dagur líti dagsins ljós hér í borginni eða jafnvel 9.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.5.2008 | 14:15
Úr útivistarsvæði í iðnaðarsvæði?
Um þessar mundir er komið að ögurstund sem gæti ráðið því hvort farið verði í framkvæmdir við Ölkelduháls á Hengilssvæðinu þar sem reisa á Bitruhálsvirkjun en frestur til að senda Sveitarfélaginu Ölfusi athugasemdir vegna breytinga á aðalskipulagi Ölkelduháls á Hengilssvæðinu rennur út 13. maí. Til að leggja mitt af mörkum til verndar óspilltri náttúruperlu í nágrenni höfuðborgarinnar birti ég hér myndir og texta sem kemur fram á plakati sem gefur hefur verið út til að vekja athygli á fyrirhugaðri virkjun.
- - - - - - -
Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins 2002-2004. Hér er vakin athygli á atriði nr. 1 í auglýsingunni er varðar Bitruvirkjun:
285 ha opnu, óbyggðu svæði Bitru / Ölkelduhálsi sem að hluta er á náttúruminjaskrá og einnig skilgreint sem grannsvæði vatnsverndar er breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun.
Þetta svæði er skilgreint sem útivistarsvæði. Hér er afar fjölbreytt landslag; fjöll grænir dalir, fossar og lækir heitir og kaldir hraunmyndanir og heitir hverir. Svæðið er virkt eldfjallasvæði austan Hengils. Þar eru fjölbreyttar gönguleiðir, t.d. leiðin frá Reykjadal í Innstadal sem liggur hjá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði.
Frá framkvæmdasvæðinu, sem er um 5 km fyrir norðan þjóðveg nr. 1, er fallegt útsýni til norðurs yfir Þingvallavatn, Langjökul og Skjaldbreið.
Framkvæmdir fela í sér vegagerð. Útivistarperlan er austast á framkvæmdasvæðinu en þaðan mun fyrirhuguð gufuaflsvirkjun blasa við.
Framkvæmdir fela í sér vegagerð, stöðvarhús, kæliturna, borpalla, borholur, heitavatnsleiðslur og háspennulínur, o.fl.
Myndirnar eru frá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og umhverfi þess. Þessar perlur eru steinsnar frá frá höfuðborgarsvæðinu og auðvelt fyrir alla að nálgast þær.
Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum til að vernda þetta ómetanlega svæði eru hvattir til að senda inn athugasemd til Sveitarfélagsins Ölfuss, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn, fyrr 13. maí nk. Frekari upplýsingar er að finna á www.hengill.nu.
Athugið að öllum er heimilt að gera athugasemd, ekki einungis íbúum sveitarfélagsins.
- - - - - - -
Bloggvinkona mín Lára Hanna Einarsdóttir www.larahanna.blog.is hefur verið duglega að skrifa pistla um þetta mál og þar má finna ýtarlegri upplýsingar um þessar vafasömu framkvæmdir. Ljósmyndirnar eru frá öðrum bloggvini: Kjartani Pétri Sigurðssyni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.4.2008 | 09:45
Þegar Rússar ætluðu að reisa olíustöð í Viðey
Árið 1979 birtist frétt í því sáluga blaði Þjóðviljanum að samkomulag hafi náðst milli ríkisstjórnarinnar og Sovétríkjanna að í Viðey skildi rísa stór og fullkomin olíuhöfn með öllu tilheyrandi. Eins og gefur að skilja var þetta stórpólitískt mál í miðju kalda stríðinu en á þessum tíma voru vinstri flokkarnir við völd, en þeir sem komu að þessu máli fyrir hönd ríkisstjórnarinnar voru þeir Svavar Gestsson, Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson og töldu þeir þetta mikið þjóðþrifamál. Þjóðviljinn var greinilega hlynntur þessum framkvæmdum og hvatti alla sósíalista til að sniðganga mótmælafund sem halda átti við Sovéska sendiráðið. Í frétt blaðsins mátti m.a. lesa þetta:
Olíuhöfnin í Viðey ásamt tíu 55 þúsund lesta olíutönkum og tilheyrandi leiðslum í land verður gífurlegt mannvirki og verða framkvæmdir boðnar út 1. maí n.k. víða um A-Evrópu og einnig á Kúbu, í Víetnam og Angóla. Samkomulag náðist um að eignaraðild Íslands yrði 50% eða jafnmikil og Rússa eins og viðeigandi er milli bræðraþjóða. Aðalhöfnin verður staðsett í víkinni fram undir Viðeyjarstofu og til marks um stærð hennar er að skip allt að 120 þúsund lestir geta lagst að viðlegukanti.
Olíutönkunum verður raðað í hálfhring utanum Viðeyjarstofu og kirkjuna en þess skal getið að þessi fornu mannvirki fá að standa algerlega óhreyfð og hafa Rússar m.a.s. boðist til að gera kirkjuna að minjasafni gegn því að skrifstofur hafnarinnar fái inni i Viðeyjarstofu. Olíutankarnir verða að miklu leyti grafnir í jörðu eða 9/10 hluti þeirra, og er það gert vegna náttúruverndarsjónarmiða. Það sem upp úr stendur verður þó um 40 metrar á hæð. Verður tignarlegt að líta yfir Viðeyjarsund þegar tíu fagurgjörfum turnunum verður raðað með reglulegu millibili sem einskonar umgjörð um höfuðból iðnrekandans Skúla fógeta.
- - - - - -
Það er kannski allt í lagi að minnast á það í lokin að þessi frétt birtist þann 1. apríl 1979. Nú eru hinsvegar breyttir tímar, en ekki alveg því eitthvað koma Rússar við sögu í þeim áformum að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum, en ég hef reyndar aldrei verið viss um hvort þar sé eitthvað spaug í gangi eða ekki.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2008 | 16:49
Ó-fagra Reykjavík
Eftir alla umræðuna sem hefur átt sér stað um ástand miðborgarinnar fór ég á vettvang í gær, vopnaður myndavél og útkoman var smá myndasería sem ég setti setti saman hér. Reykjavík okkar stolta höfuðborg við sundin blá hefur sjálfsagt oft litið betur út en hún gerir í dag. Fyrir utan hina margumræddu niðurníðslu gamalla húsa, blasa hvarvetna við byggingarsvæði, væntanleg byggingarsvæði í bland við ýmislegt skárra bæði gamalt og nýtt. Það er eðlilegt að borgir séu í stöðugri þróun en sú þróun sem átt hefur sér stað í Reykjavík er ekki alltaf í áttina að betri og fallegri borg, kannski vegna þess að aldrei hefur almennilega verið vitað í hvaða átt sú þróun ætti að ganga. Undanfarið hefur mikið verið rætt um að þróunin ráðist aðallega af hagnaðarvon lóðareigenda og verktaka sem vilja byggja sem stærst og mest án tillits til þess hvort útkoman skapi heilbrigða borgarmenningu. Ég fer ekki nánar út í það en læt myndirnar tala sem allar eru teknar laugardaginn 29. mars og sýna borg sem er að ganga í gegnum mikla endurnýjum, sem sér ekki fyrir endann á næstu árin.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)