Færsluflokkur: Dægurmál
18.12.2007 | 13:01
Valdabarátta heita og kalda loftsins
Nú á sér stað hér á landi mikil valdabarátta milli heita og kalda loftsins. Þegar þetta er skrifað hefur kalda loftið úr vestri náð yfirhöndinni, því fylgir frekar bjart og svalt veður með hægum vindi úr vestri. Hæðin í austri gerir svo atlögur með hlýjum vindum að sunnan en eins og myndin sýnir þá er víglínan núna rétt fyrir austan land. Það lítur hinsvegar út fyrir að heita loftið nái yfirhöndinni aftur með nýrri sókn og því fylgja eindregnir, rakir og hlýir suðlægir vindar, en þegar við erum stödd í átakalínunni, eða skilunum, þá er veðrið auðvitað verst. Langtímaspár segja núna að kalda loftið muni að lokum ná völdum á ný, svona rétt yfir jólin sem eykur mjög líkurnar á hvítum jólum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.12.2007 | 18:44
Af desemberóveðrum
á. Það er reyndar ekkert nýtt að það blási hressilega í desember og má
alveg rifja upp hvernig var vikuna fyrir jólin í fyrra. Dagana 18-23
desember fyrir ári síðan komu nefnilega nokkrar afdrifaríkar lægðir sem
báru með sér sterka vinda, rigningu en einnig töluverð hlýindi. Það
hafði verið kalt dagana þarna á undan og töluverður snjór víða inn til
landsins en vegna mikillar úrkomu og hlýinda urðu miklar leysingar sem
ollu flóðum dagana 20-22 des víða um land, Hvítá flæddi um allar
sveitir og mikil skriðuföll voru í Eyjafirði. Þann 19. des. strandaði
flutningaskipið Wilson Muuga á Hvalsnesi sem frægt varð en þá hafði
verið mjög hvasst suðvestanlands. Þrátt fyrir mikinn usla sem veðrin í
fyrra ollu er ég ekki viss um að vindurinn í lægðunum hafi náð sama
styrk og þegar mest hefur orðið núna undanfarið, en kröftugur vindurinn
stóð hinsvegar lengur í hvert sinn. Ég man að veðurspárnar voru samt
æsilegar og stundum varað við stórkostlegum óveðrum sem stóðu svo ekki
alveg undir væntingum, allavega ekki hvað vind snertir. Kvöldið 22.
des. var t.d. varað við foráttuveðri SV-lands en þá fór ég í bæinn og
keypti jólagjafirnar. Á laugaveginum þetta kvöld var mjög fámennt en
góðmennt í hressilegum hlýjum vindi af suðri en alls engu óveðri.
Hinsvegar frétti ég að það hafi verið öngþveiti í Kringlunum og
Smáralindunum, þangað sem þjóðin flúði í skjól.
Dýpri lægð á leiðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2007 | 11:14
Um Hverfisgötuna
Nú er verið að tala um niðurníðslu Hverfisgötunar og jafnvel ljótleika. Það er þó óhætt að segja að þarna ráði fjölbreytnin ríkjum og ef vel er að gáð má finna fegurðina víða, þótt ekki sé alltaf um að ræða hina klassísku fegurð. Hér eru nokkrar myndir sem ég tók í sumar.
Dapurleg götumynd Hverfisgötu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 18.11.2008 kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.12.2007 | 11:02
Göngustígur við Eiðsgranda
Eins og víðar við strandlengju borgarinnar er göngu- og hjólreiðastígur meðfram sjónum við Eiðsgranda vestast í Vesturbænum. Þarna úti fyrir opnu Atlantshafinu hefur hinsvegar gengið erfiðlega að hemja hafölduna því þegar háflæði er og sterk hafátt má brimvörnin sín lítils og sjórinn gengur á land með grjótburði og hamagangi svo stórsér á umhverfinu á eftir. Þegar þetta gerist flettist malbikið á göngustígnum upp á köflum og liggur öfugsnúið innanum stórgrýti og þara sem liggur þarna um víð og dreif. Til þess að göngu- og hjólreiðastígurinn gegni sínu hlutverki þarf því stöðugt að halda honum við, slétta og malbika en það er einmitt búið að gera núna enn eina ferðina eftir síðasta áhlaup sem var núna í haust. Á myndinni sést nýlagt malbikið á stígnum sem var ennþá volgt þegar snjórinn féll. Það á svo eftir að koma í ljós hversu lengi þessi viðgerð dugar, næsta stórstraumsflóð verður 25. desember en svæðið hefur stundum orðið illa úti nálægt stórstraumsflóði seinni hlutann í desember. Maður vonar þó að þetta splunkunýja malbik sleppi við hremmingar um sinn, en ég verð á vaktinni og flyt nýjustu fréttir af ástandi mála ef eitthvað gerist.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.11.2007 | 17:08
Landsynningi og útsynningi gerð skil
Hér er smá innlegg um veðurfræði. Þegar lægðirnar fara yfir landið hver á eftir annarri eins og verið hefur síðustu vikur fáum við svo að segja allar gerðir af veðri. Þetta eru umhleypingar þar sem vindátt og hiti er síbreytilegur og ólíkir loftmassar af ýmsum uppruna leika um landið. Í svona tíðarfari skiptist gjarnan á landsynningur og útsynningur, en þetta eru orð standa fyrir tvær ólíkar gerðir af sunnanáttum, allavega hér sunnan- og vestanlands. Ég hef á tilfinningunni að hinn almenni borgari þekki ekki þessi orð í dag, sérstaklega yngra fólk enda er lítil áhersla lögð á veðurlestrarkunnáttu núorðið.
Samkvæmt minni bestu þekkingu þá er landsynningur suðaustanáttin á undan meginskilunum þegar lægð nálgast landið. Þessu fylgir sívaxandi vindur og úrkoma og smám saman hlýnandi veður. Úrkoman byrjar oft sem snjókoma á veturna en fer yfir í rigningu eftir því sem hlýnar. Veðrið nær hámarki rétt áður en skilin ganga yfir og þá getur orðið verulega hvasst. Skilin sem ganga yfir eru ýmist hitaskil eða samskil. Ef um hitaskil er að ræða tekur við hlý, stöðug og rök sunnanátt, (hlýi geirinn). Þetta er loftið sem í raun knýr lægðina áfram og er oft ættað langt sunnan úr höfum. Í þessu lofti erum við þangað til kuldaskilin koma úr suðvestri og við tekur kólnandi suðvestanátt - útsynningur. Þegar samskil hinsvegar ganga yfir förum við beint úr landsynningi yfir í útsynning án viðkomu í hlýja geiranum. Í útsynningi er loft sem er ættað frá kaldari svæðum í vestri, veðrið er óstöðugt, það skiptast á skin og skúrir og þegar á líður fer gjarnan yfir í éljagang á veturna eftir því sem kólnar í suðvestanáttinni. Það snýst þó ekki alltaf í suðvestanátt í kjölfar skila, lægðarkerfin fara t.d. oft suður fyrir land og þá snýst hann í norðaustan með kaldara veðri úr þeirri átt.
Á veðurkortum í dag sem ætluð eru almenningi virðist sífellt minni áhersla lögð á að sýna skil, hvað þá að gera þeim skil og kannski ekki nema von að skilningur fólks á þessum grundvallaratriðum fari minnkandi. Á vef veðurstofunnar eru t.d. hvergi sýnd skil og í sjónvarpsveðurfréttum RÚV sjást þau bara stundum í byrjun í veðuryfirliti en aldrei í veðurspám. Já það var öðruvísi hér áður fyrr þegar gamli snúningskassinn var notaður í veðurfréttum, þá var allt teiknað inná, því fleiri strik því verra veður og allt komst vel til skila.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.11.2007 | 14:36
Svona gæti Lækjargata 2 litið út
Eftir miðbæjarbrunann síðastliðið vor hófust umræður um hver örlög gömlu húsanna við Austurstræti og hornhússins við Lækjargötu ættu að vera. Eins og aðrir þá velti ég þessu fyrir mér og þá tók sig upp gömul hugmynd frá mér varðandi Lækjargötu 2 sem var sú að hækka húsið um eina hæð. Daginn eftir brunann tók ég mynd af húsinu ásamt öðrum brunarústum, gerði síðan dálitlar myndvinnsluæfingar og hækkaði húsið um eina hæð. Ég var eitthvað með það í huga að koma myndinni á framfæri en ekkert var þó úr því. Svo núna fyrir stuttu voru kynntar niðurstöður úr hugmyndasamkeppni sem Reykjavíkurborg efndi til vegna uppbyggingarinnar í Kvosinni. Þar var hlutskörpust samvinnutillaga frá Argos, Gullinsniði og Studio Granda en meðal þess sem þar kom fram var einmitt hugsanleg hækkun Lækjargötu 2 um eina hæð. Með því að gera þetta þá finnst mér að húsið fái að njóta sín almennilega þar sem það stendur við hlið IÐU-hússins nýja með sinn grá gafl sem gnæfir yfir til hliðar. Einnig hefur mér aldrei fundist fallegt að sjá blasa við úr Bankastrætinu bakhliðar stórhýsanna við Pósthússtræti og stóra gaflinn við Eymundson-húsið. Þannig gæti þetta semsagt litið út, þarna er húsið hækkað og endurbætt, upprunalega myndin og hluti af vinningstillögunni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2007 | 08:28
Allt er í heiminum hverfult
Þau eru ekki mörg ljóðin sem ég kann utanbókar, en eitt sinn tók ég mig til og lærði ljóðið Ísland! Farsælda Frón" eftir Jónas Hallgrímsson. Ætli mér hafi ekki fundist sem sönnum Íslendingi að maður ætti kunna svona grundvallarkveðskap eftir þjóðskáldið okkar. En það sem mér fannst einna áhugaverðast við ljóðið er hversu margar vel þekktar hendingar eða frasa það inniheldur sem notaðir hafa verið í gegnum tíðina við ýmis tækifæri, eins og: Landið er fagurt og frítt Þá riðu hetjur um héruð Hvar er þín fornaldar frægð Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg? Jónas orti þetta á sínum tíma til að efla þjóðernisvitund íslendinga í upphafi sjálfstæðisbaráttunnar en ekki síður til að vinna þeirri skoðun sinni fylgi að endurreist Alþingi Íslendinga ætti hvergi annarsstaðar heima en á hinum þjóðhelga stað Þingvöllum, í stað þess kuldalega, hálf-danska kaupstaðar sem Reykjavík var. Já, þá ortu menn ljóð og drápur miklar en nú er hún Snorrabúð stekkur og í dag er bara bloggað.
Þannig orti Jónas árið 1835:
Ísland! Farsælda frón og hagsælda hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult og stund þíns fegursta frama
lýsir sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðishetjurnar góðu
austan um hyldýpishaf, hingað í sælunnar reit.
Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti;
ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt.
Hátt á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþingið feðranna stóð.
Þar stóð hann Þorgeir á þingi er við trúnni var tekið af lýði.
Þar komu Gissur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll.
Þá riðu hetjur um héruð og skrautbúin skip fyrir landi
flutu með fríðasta lið, færandi varninginn heim.
Það er svo bágt að standa í stað, og mönnunum munar
annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?
Landið er fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.
En á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut.
Nú er hún Snorrabúð stekkur og lyngið á lögbergi helga
blánar af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að leik.
Ó, þér unglingafjöld og Íslands fullorðnu synir!
Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)