Færsluflokkur: Dægurmál

Bandaríkjamenn falla á prófinu í Írak

4000 þúsund Bandaríkjahermenn hafa fallið í Írak sem er vissulega há tala og örugglega hærri tala nokkurn gat grunað fyrir innrásina í Írak. Það er hinsvegar erfiðara að gera sér grein fyrir tölu fallina Íraka frá innrásinni en sú tala hleypur þó á hundruðum þúsunda. Mannfall Íraka er þó ekki nema að hluta til vegna beinna árása Bandaríkjamanna því mjög margir hafa fallið í hryðjuverkum, sem er athyglisvert því Írakstríðið var einmitt liður í stríðinu gegn hryðjuverkum. Hryðjuverk voru reyndar mjög lítið stunduð í Írak fyrir innrásina en það verður að hafa í huga að stríðið gegn hryðjuverkum var alltaf bara stríð gegn hryðjuverkum í Bandaríkjunum sjálfum. Það sem Bandaríkjamenn geta kannski glaðst helst yfir er að stjórn Saddams Husseins er fallin og Saddam sjálfur ekki lengur á meðal vor sem þýðir að hann getur ekki komið sér upp gjöreyðingarvopnum í framtíðinni, eins og einhver Bandarískur embættismaður nefndi svo smekklega um daginn. Ég get ekki sagt annað en að Bandaríkjamenn hafa fallið á prófinu í Írak.
mbl.is 4000 Bandaríkjamenn hafa fallið í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Jesú sólguð, frjósemisguð eða frelsari?

Nú er komið að stóru Jesuskrifunum. Ég skrifaði fyrir síðustu jól um vetrasólstöðurnar og velti aðeins fyrir hvort fæðing frelsarans tengdist endurkomu sólarinnar um jólin og spurði þessarar spurningar: Hver var hann í raun þessi Jesú sem fæðist um jólin á sama tíma og sólin og er fórnað um páska? Ég hafði reyndar eitthvað heyrt óljósar hugmyndir um að Jesúfræðin gætu verið talsvert flóknari heldur en frásagnir Biblíunnar gæfu til kynna og að finna mætti fleiri Jésúa í öðrum og eldri trúarbrögðum. Hugsanlegu er viss skyldleiki milli flestra trúarbragða sem upp hafa sprottið í gegnum árþúsundin meira og þau meira og minna samtengt rétt eins og menningin og tungumálið.

LjosHeimsinsSama dag og ég birti umræddu grein kom svo einmitt umfjöllun í Fréttablaðinu um þetta og var þar lagt útfrá myndinni Zeitgeist sem ég vissi ekki af þá en margir hafa séð á netinu en fyrsti hluti hennar er lagður undir þessi Jesúmál. Í nefndri mynd eru taldir upp ýmsir fornir guðir sem tengdust átrúnaði á sólina og því haldið fram Jesú hafi í raun verið sólguð og sagnir um hann séu meira og minna byggðar á fornum goðsögnum og fyrirmyndum sem finna má í ýmsum trúarbrögðum. Meðal þeirra sem nefndir eru til sögunnar eru: Hórus - sólguð Egypta, Krisna - Kristur Hindúa og Mítra - Guð Persa. Þessir heilögu guðir og ýmsir fleiri eiga margt sameiginlegt. Þeir fæðast allir um vetrasólhvörf, gjarnan meyfæðingu, eru guðssynir, ljós heimsins, frelsa menn frá illu, lækna sjúka og deyja að lokum fyrir syndir mannanna – sumir jafnvel krossfestir.
Og talandi um kross, þá er krossinn auðvitað tákn kristinnar trúar en á sér um leið samsvörun í heiðnum átrúnaði á sólina þar sem miðja hans táknar sólina en höfuðáttirnar eru svo útfrá henni. Í fornum myndum af Jesú var reyndar höfuð hans gjarnan sýnt á miðju krossins eins og sólguði sæmir - ljósi heimsins.

En svo eru það páskarnir. Þeir eru auðvitað eins og jólin, forn hátíð. Jesú kom einmitt til Jerúsalem til að halda upp á páskana, en var þar svikinn, handtekinn, krossfestur, dáinn og grafinn en reis svo upp á þriðja degi aftur upp frá dauðum. Páskana ber upp á þeim tíma þegar jafndægur eru að vori, eða því sem næst eins og fjallað er um í áðurnefndri Zeitgeist mynd. En í myndinni er hins vegar minni áhersla lögð á annan þátt páskahátíðarinnar, sem er nefnilega sá að páskarnir séu frjósemishátíð og sennilega ævaforn sem slík. Páskana ber upp á þann tíma þegar gróður jarðar fer að dafna eftir veturinn og það sem skiptir kannski meira máli hér, er að páskarnir eru sá tími þegar korninu er sáð í jörðu. Útsæðinu er fórnað, fyrir nýja uppskeru og því betri uppskeru eftir því sem guðirnir eru okkur hliðhollari. Á þeim örlagaríku páskum sem kristnir menn halda upp á, var sjálfum Jesú Guðssyni fórnað. Er þar kannski komin tilvísun í miklu eldri fórnarhátíðir um páska? Líta má svo á að eins og sáðkornið sem spíraði eða lifnaði við eftir að hafa legið í jörðinni í þrjá daga þá reis Jesú upp á þriðja degi „til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf“ eins og segir í trúarjátningunni. Svo má líka nefna að í bók fræðimannsins Einars Pálsonar er að finna frásögn um frjósemisguðinn Frey Njarðarson sem kemur úr ásatrúnni en þar er talað um að Njörður hafi fórnað sjálfum sér í syni sínum fyrir mannkynið og í myrkasta skammdeginu éta menn líkama hans og drekka blóðið, eða éta kornið og drekka ölið.

Þar hafa menn það, Jesú var maður eða goðsagnarvera sem átti sér marga eldri bræður frá mörgum samfélögum, sem voru sólarguðir og/eða frjósemisguðir. Jesú kristinna manna er hinsvegar samkvæmt Biblíunni ekki goðsagnavera, hann lifði og starfaði meðal fólksins, boðaði fyrirgefningu syndanna og frelsun mannanna. Það er í sjálfu sér ekkert sem sannar það Jesú Kristur hafi yfirleitt verið til, hvað þá að hann hafi verið eingetinn sonur guðs og risið upp frá dauðum. En þetta er auðvitað trúaratriði og verður hvorki sannað eða afsannað og eins og fellst í orðinu trú, þá er ekki um fullvissu að ræða heldur trú. 

- - - - - - 

Ég læt hér fylgja slóð á myndina Zeitgeist: http://www.zeitgeistmovie.com/main.htm. Eftir inngang að myndinni þá fjallar fyrsti hluti hennar um hugmyndina um Jesú sem sólarguð en annars virðist tilgangur hennar vera sá að fletta ofan af hlutunum eins og kristindómnum, en einnig um samsæriskenningar í sambandi við árásina á World Trade Center og svo kemur umfjöllun um peningakerfið í heiminum. 

Einnig bendi ég á grein á bloggsíðunni Greinasafn Sigursveins, en þar fékk ég fróðleik um Frey Njarðarson, en einnig er þar fjallað um tengsl fornra trúarbragða og frjósemisdýrkenda við hinn heilaga berserkjasvepp.


Óyggjandi merki þess að vorið sé á næsta leiti

Vorið er að vísu ekki komið, en með hverjum degi hækkar sólin á lofti og bræðir snjóinn þótt afkastamest sé þó rigningin. Þegar svo innkaupakerrur stórmarkaðanna gægjast undan bráðnandi snjóruðningum tel ég það vera óyggjandi sönnun þess að veturinn sé að láta undan síga og vorið sé á næsta leiti. Við þurfum þó að sýna þolinmæði, það er langt þangað til við getum farið að tala um sumarið, enn eru einhverjir vetrarkuldar í spákortunum, við fáum sjálfsagt páskahret og svo kannski smá vorhret á glugga í maí.

 

innkaupakerra

Mynd: Veturinn á undanhaldi í Nóatúni vestur í bæ.


mbl.is Veðrið á landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pínulitla-ísöldin

Það er óhætt að segja að við höfum núna upplifað vetrartíð sem stendur undir nafni og ekki annað að sjá en að svo verði eitthvað áfram og er þetta tíðarfar farið að minna að mörgu leyti á það sem í boði var á árum pínulitlu-ísaldarinnar. En hvaða pínulitla-ísöld, gæti einhver spurt. Allir hafa heyrt um ísöldina sem lauk fyrir 10.000 árum, flestir hafa heyrt um litlu-ísöldina sem lauk fyrir 100 árum en sennilega hefur enginn heyrt talað um um pínulitlu-ísöldina, sem er skiljanlegt því þetta er heiti sem ég hef sjálfur komið mér upp yfir annars vel þekkt kuldaskeið sem hófst árið 1965 og stóð yfir næstu áratugi. Nú vill svo til að pínulitla-ísöldin skall á sama ár og ég kom í heiminn þannig að ég óx upp með henni og get því vissulega sagt að ég sé af pínulitlu-ísaldarkynslóðinni.

Pínulítill

 
Mynd: Höfundur kannar snjóalög í upphafi pínulitlu-ísaldarinnar.

Fyrstu merki um pínulitlu ísöldina var þegar mikill hafís kom að landi í upphafi árs 1965, og lá útfyrir norðurlandi fram eftir vetri og olli þar nokkrum kuldum. Á suður- og vesturlandi var árið hinsvegar nokkuð hlýtt þar til um miðjan nóvember þegar fór að kólna. Síðan tóku við margir kaldir mánuðir og mörg köld ár, allavega miðað við það sem fólk átti að venjast fram að því. Hafísinn lét sjá sig og af meiri þunga en menn höfðu kynnst áratugum saman og jöklarnir sem höfðu verið að hopa frá lokum litlu-ísaldarinnar snéru nú vörn í sókn. Til að átta sig á hversu kalt þetta tímabil var þá reiknast mér til að meðalhitinn á árunum 1966-1995 í Reykjavík hafi verið 4,2°C sem er 0,7 gráðum lægra en næstu 30 ár þar á undan og heilli gráðu kaldara en meðalhiti síðustu 10 ára í Reykjavík. Og það munar um minna. 

Að sjálfsögðu gat ég ekkert skynjað að ég var að alast upp á einhverju köldu tímabili að öðru leiti en því að maður heyrði oft eldra fólk tala um að það hafi alltaf verið svo gott veður þegar það var að alast upp. Í mínum uppvexti eru sól og sumarhitar eitthvað sem er manni ekkert sérstaklega minnistætt en aftur á móti finnst mér oftast hafa verið snjór og frost á veturna. Á þessum árum þurfti engar skautahallir til að fara á skauta, því vötn voru yfirleitt frosin á veturna. Snjórinn var líka vel nýttur hvort sem var til að renna sér niður brekkur, sem allskonar byggingarefni og svo að sjálfsögðu til að „teika bíla“ sem reyndar var ekki vel séð, en sú íþrótt hefur að mestu lagst af bæði vegna lélegra vetra og samvaxinna stuðara á bílum. Vorið 1979 þegar ég fermdist fékk ég skíði að gjöf en þá var pínulitla-ísöldin í hámarki en meðalhiti þess árs var aðeins 2,9°C í Reykjavík. Þá var hægt að fara á skíði í Bláfjöllum langt fram í maí og þótti bara sjálfsagt en sá maímánuður var kaldasti maímánuður á landinu síðan á tímum litlu-ísaldarinnar.

En hvenær lauk svo pínulitlu-ísöldinni? Lok hennar eru ekki eins vel afmörkuð og upphaf hennar en upp úr 1985 fór hitafarið eitthvað að mildast. Árið 1987 var nokkuð hlýtt og líkt því sem verið hefur undanfarin ár en sennilega hefur árið 1995 endanlega markað lok pínulitlu-ísaldarannar. Það ár var meðalhitinn í Reykjavík 3,8°C en eftir það hefur hann ekki farið undir 4,5°C. Veturinn 1995-96 var nokkuð þægilegur um allt land en þá önduðu menn líka léttar, því óttast var jafnvel að byggð gæti lagst af á Vestjörðum eftir snjóþyngsli og snjóflóð veturinn áður. Kannski var hið mannskæða snjóflóð á Flateyri lokaatburður pínulitlu ísaldarinnar, en það féll aðfaranótt 26. október 1995, 30 árum eftir að pínulitla ísöldin hófst. Þótt enn í dag sé að vísu óttast um byggð á Vestfjörðum eru það samt aðrir þættir en veðrið sem valda þeim áhyggjum.

En hvar erum við svo stödd í dag? Eru kuldarnir nú upphafið á nýju pínulitlu-ísaldarskeiði eða einhverju stærra, eða er þetta bara smá truflun í endalausri gróðurhúsahlýnun. Ég ætla ekki að velta því upp hér en það er þó staðreynd að Ísland er á mjög viðkvæmu svæði enda stutt í ískalda vinda og sjávarstrauma og lítilsháttar breyting á þeim getur ráðið miklu um hitafar hér.

Pínulitla-Ísöldin 


Hvað finnst mér um Eurovisionlögin?

Núna á laugardagskvöldið er komið að þeirri stóru stund er við veljum okkar framlag í Evrópukeppni dægurlaga, sjálfa Eurovisionkeppnina sem verður haldin í Serbíu þetta árið. Þetta er auðvitað keppni sem allir dýrka og dá, ýmist opinberlega eða í laumi, en hvað mig varðar þá hef ég aldrei farið í felur með minn áhuga á keppninni. Enda afar fordómalaus og víðsýnn þegar kemur að menningarviðburðum, bæði háttsettum sem lágt settum. En hvað finnst mér um þau lög sem keppa um að verða framlag okkar nú í ár? Margt finnst mér gott en hér koma mínir fordómalausu sleggjudómar: (Smellið á titil til að spila lögin)

Engill Gef mér von. Flytjandi: Páll Rósinkrans. Höfundur: Guðmundur Jónsson. Palli Rósinkrans biður um von af mikilli andagift, studdur af gospelsöng í Hvítasunnustíl. Sá stíll höfðar ekki til mín og varla hægt að segja að þetta lag eigi mikla von. Allt er samt vel gert hér, Páll er einn af okkar bestu söngvurum og Guðmundur - Sálin hans Jóns míns - Jónsson, kann vissulega að semja grípandi tónlist.

Stútur Núna veit ég. Flytjandi: Magni Ásgeirsson (og Birgitta?), Höfundur: Hafdís Huld Þrastardóttir. Þetta er nú bara mjög fallegt og huggulegt lag, rólegt framan en bætir í undir lokin. Það kom í ljós í seinni umferðinni að Magni dugði ágætlega án Birgittu sem var óvart í skíðafríi. Kjósa Magna? Þjóðin kann það. Ég veit hinsvegar ekki með Evrópu.

Blístra In your dreams. Flytjandi og höfundur: Davíð Þorsteinn Olgeirsson. Þetta lag er bara skal ég segja ykkur alveg bráðgott. Létt, skemmtilegt og grípandi, sungið í falsettu og minnir m.a. á ýmsa gamla Elton John slagara, einhver sænskur Eurovision-keimur af þessu líka. Ég gæti alveg hugsað mér þetta lag í sjálfri keppninni ef tekst að finna réttu sviðsframkomuna sem hefur verið helsti vandinn hingað til.

Brosandi  Hvað var það sem þú sást í honum? Flytjandi: Baggalútur. Höfundur: Magnús Eiríksson. En eitt gott lag og enn vandast valið. Fyrst var það flutt í rólegri kántrý-útgáfu en var síðan flutt í sveiflustíl einhverstaðar á milli Geirmundar og Tom Jones. Baggalútsmenn gefa þessu lagi skemmtilegan karekter eins og þeim er von og vísa. 

Geispa  Fullkomið líf. Flytjandi: Eurobandið (Friðrik Ómar og Regína ósk), Höfundur: Örlygur Smári. Ænei. Ég veit að þetta fólk langar óskaplega mikið út og telur sig sjálfsagt vera með skothellt Eurovision lag. En þetta lag er eins og Eurovisoin lög verða leiðinlegust, tilgerðarlegt stuð og ofnotaðar klisjur sem bjarga ekki slöku lagi. Ég óttast samt að mörgum falli þetta vel í geð. „We have a winner“ sagði Páll Óskar. „We have a looser“ segi ég.

Undur og stórmerki  Hvar ertu nú? Flytjandi: Dr. Spock, Höfundur: Dr. Gunni. Guli hanskinn rokkar feitt! Hér er fjörið, hér er frumleikinn. Angurvær sjómannaballaða og villt dauðarokk fléttað í eitt og endar í níu-vindstigum á Halamiðum. Mikið show hér á ferð, en það sem skiptir kannski mestu er að laglínan gerir sig og söngurinn afbragð. Já, takk!

Töffari  Ho, ho, ho, we say hey hey hey, Flytjandi: Merzedes Club, Höfundur: Barði Jóhannsson. Er þetta lagið sem er að fara út? Það bendir margt til þess enda hefur þetta lag vakið mesta athygli. Barði Bang Gang er náttúrulega snillingur og kemur hér með Ibiza-techno-hnakka-diskó sem hugsanlega er neðst í virðingastiga allrar tónlistar og fer alla leið með olíubrúnkusmurðum vöðvamennum og einni söng-mjónu. Hörku atriði. Stóri gallinn er hinsvegar sá að fólkið getur ekki sungið! Það kom fram í seinni umferðinni þegar felu-baksviðsmenn þurftu að syngja fyrir drumbaslagarana og söngkonan þurfti að syngja með sinni náttúrulegu litlu rödd - án allra tölvueffecta.

Sofandi Don't wake me up. Flytjandi: Ragnheiður Gröndal. Höfundur: Margrét Kristín Sigurðardóttir.Er þetta kannski bara lagið? Ragnheiður Gröndal klikkar ekki, hún kann að syngja og fer létt með skemmtilegt lag sem er í dálitlum revíustíl.Allavega eitthvað leikhúslegt við þetta. Bara fínt, já já.

Niðurstaða: Spái því að Hó hó hó, fari út (börnin hafa gaman af þessu), Fullkomið líf lendir í öðru sæti en fær örugglega ekki atkvæði frá mér. Best finnst mér Hvar ertu nú? Önnur lög eru yfirleitt fín en eiga kannski ekki mikla möguleika en mættu fara í keppnina mín vegna, nema helst Gospel-lagið. 


Hvít kúlnahríð við sjávarsíðuna

Vopnaður myndavél fór ég í morgun niður að sjónum við Eiðsgranda. Ég átti von á því að eftir óveður gærkvöldsins gæti verið flottur öldugangur þarna sem gaman væri að ljósmynda en það sem stal hins vegar senunni var haglél mikið sem skall þarna skyndilega á. Þá var ekkert annað að gera en að setja upp leifturljósið á myndavélinni, smella af og útkoman var þessi þegar blossinn lýsir upp kúlnahríðina.

Éljagangur 9. febrúar 2008


Örlítil veðurminning

Vetrarnótt eina fyrir 17 árum lagði ég af stað fótgangandi heim á leið eftir samkvæmi í Vesturbænum. Það er þó nokkur ganga þaðan og upp á Háaleitisbraut þar sem ég bjó en ég ætlaði ekkert að láta smá vegalengd aftra mér. En það var hins vegar verra að veðrið þarna um nóttina var ekkert til að hrópa húrra fyrir því þarna var komin heilmikil slydda eða kalsarigning af verstu gerð með suðaustan strekkingsvindi. Snjórinn sem hafði fallið daginn áður var orðinn að gráu slappi sem blandaðist við vatnsleginn á götunum og smaug bleytan léttilega í gegnum þunnt skótauið. Kaldur og hrakinn játaði ég mig loks sigraðan á miðri leið og kláraði ferðina rennblautur í hlýjum leigubíl. Ég vaknaði svo heima um kl. 10 morguninn eftir, leit út um gluggann og sá að veðrið sem ég hafði hrakist í um nóttina hafði þróast yfir í sannkallaðan veðurofsa. Í 10 fréttum útvarps sem þá voru að hefjast voru miklar fréttir af ýmsu sem tengdist þessu óveðri þannig að greinilega gekk mikið á. Ég hlustaði síðan spenntur á formlega útvarpsveðurspá frá Veðurstofunni en rétt áður en kom að veðurlýsingu fyrir einstaka staði fór rafmagnið af gjörvallri borginni og kom ekki á aftur fyrr en nokkrum klukkustundum og mörgum vindhviðum síðar. Dagurinn sem þannig hófst var 3. febrúar 1991 en þá geisaði eitt versta óveður sem komið hefur í Reykjavík á síðari árum.

Þar lágu Danir ekki í því

Þá er Evrópumóti í hinni virtu íþrótt handbolta lokið í Noregi. Öll liðin töpuðu að lokum nema það danska sem sýndi einstakan baráttukraft allt til enda. Þegar Dönum gengur vel eru þeir að sjálfsögðu frændur okkar þannig að þetta er að hluta til okkar sigur líka. Strákarnir okkar náðu sér hins vegar ekki á strik að þessu sinni, enda kom í ljós að þeir eru ekkert nema strákar í hinum harða heimi fullorðinshandbolta. En við ætlum ekki gefast upp, næsta Evrópumót verður í Serbíu í vor þar sem keppt verður í dægurlögum og að venju ætlum við okkur stóra hluti þar.
mbl.is Danir Evrópumeistarar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Suður-Kórea tók okkur í bakaríið

Ég get alveg viðurkennt það að eins og margir aðrir þá fylgist ég spenntur með í hvert sinn sem tökum þátt í alþjóðlegum handboltamótum. Handboltaævintýri okkar byrjaði fyrir alvöru þegar við komumst óvænt á Ólympíuleikana í Los Angeles 1984 og unnum þar glæsta sigra eftir að Sovétríkin og fleiri austur-Evrópuþjóðir drógu lið sín til baka til að hefna fyrir fjarveru Bandaríkjamanna á Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980. Þarna var komið til sögunnar okkar harðsnúna lið sem átti síðar eftir að gjörsigra B-keppnina undir öflugri stjórn Bogdans hins Pólska. 

Þau eru orðin mörg mótin sem maður hefur fylgst með í gegnum tíðina. En það mót sem maður man alltaf best eftir er Heimsmeistarakeppnin í Sviss árið 1986 sem var fyrsta keppnin sem var sjónvarpað í beinni. Á þeim árum voru heimsmeistaramót aðeins á fjögurra ára fresti og þarna höfðum við unnið okkur sæti vegna góðs árangurs á Ólympíuleikunum. Fyrsti leikur okkar á mótinu var gegn Suður-Kóreu sem þótti vera í hópi vanþróaðra handboltaþjóða og því kærkomin upphitun áður en lagt yrði í alvöruna. Ég man vel eftir leiknum í beinni útsendingu sjónvarpsins og áður en leikurinn hófst var ekki laust við að maður vorkenndi þessum litlu gulu mönnum að þurfa að kljást við íslensku harðjaxlana á borð við Kristján Arason - þetta yrði burst. Og þetta varð burst, en því miður ekki á þann veg sem búist var við. Það sem þarna fór í hönd átti nefnilega eftir að vera einhver undarlegasta handboltaupplifun sem ég hef orðið vitni að. Þessir Suður-Kóreumenn spiluðu sem sagt handbolta af áður óþekktri færni og hraða. Í vörninni beittu þeir hinni svokölluðu 3-2-1 vörn sem ekki hafði sést áður á stórmótum, þeir hlupu út um allan völl þannig að hinn þaulæfði íslenski sóknarleikur féll algerlega saman. Markvörður þeirra nánast lokaði markinu, hvað eftir annað var okkur refsað með leiftursnöggum hraðaupphlaupum og skyttur þeirra hoppuðu hæð sína í lofti þannig að skot þeirra enduðu nánast undantekningarlaust í markvinklinum. Bjarni Felixson sem lýsti leiknum hafði auðvitað aldrei séð annað eins og hrópaði eitt sinn upp yfir sig: „þeir eru eins og Indíánar!“ Ef ég man rétt þá var leikurinn tapaður strax í hálfleik, okkur tókst stundum eitthvað að klóra í bakkann en töpuðum að lokum með átta marka mun 21-29. 

Það sem gerðist í þessum leik var eins og oft áður, árangur í öfugu hlutfalli við væntingar. En eftir þetta tókum við okkur saman í andlitinu unnum frækna sigra á Tékkum, Rúmenum og Dönum og enduðum ef ég man rétt í 6. sæti. Af framgangi Suður-Kóreumanna í keppninni er það að segja að smám misstu þeir móðinn eða önnur lið lærðu á þá þannig að árangur þeirra varð að lokum lakari en okkar. En þarna í leik þeirra sást hins vegar ný tegund af handbolta, hin hraði handbolti og framliggjandi vörn sem Frakkar áttu eftir að taka upp síðar með frábærum árangri.


Vetrarsólstöður, sólin og jólin.

Þegar sólin sest á stysta degi ársins hverfur hún á bakvið fjallið Keili séð frá Suðurgötunni og Ægisíðunni í Reykjavík. Það má alveg halda því fram að þetta sé ekki tilviljun, til forna voru ýmis kennileiti í landslagi notuð til að marka sólarganginn t.d. við vetrarsólhvörf. Það má vel ímynda sér að hinn píramídalagaði Keilir hafi einmitt verið tilvalinn sem slíkur viðmiðunarpunktur og jafnvel átt sinn þátt í því hvar fyrsti landnámsmaðurinn hafi valið bæ sínum stað. Sólin, tunglið og stjörnurnar skipuðu stóran sess í trúarlífi fólks til forna. Þegar sólin hafði sest bakvið fjallið á stysta degi ársins var beðið milli vonar og ótta þar til ljóst var að guðunum hafði þóknast að lengja sólarganginn á ný. Það kom hinsvegar ekki endanlega í ljós fyrr en 2-3 dögum eftir vetrarsólstöður og þá var ástæða til fagna nýju ári, nýju upphafi eða jafnvel nýjum mannkynsfrelsara, sú hátíð heitir í dag jól sem er orð sem rímar við sól.

Fyrir mörgum árum var í sjónvarpi allra landsmanna frétt um þessi tengsl milli staðsetningar Reykjavíkur, sólarinnar og Keilis við vetrasólhvörf og voru þá fleiri staðir nefndir til sögunnar. Ef dregin er lína milli miðbæjar Reykjavíkur og Keilis kemur í ljós að sú lína liggur einnig um Bessastaði á Álftanesi og Kapelluhraun við Straumsvík, en af einhverjum ástæðum hefur það þótt helgur staður til forna. Ef línan er hins vegar framlengd í hina áttina frá Reykjavík í norðnorðaustur liggur hún um kirkjustaðinn og landnámsbæinn Brautarholt á Kjalarnesi, og hvort sem það er tilviljun eða ekki, þá liggur línan einnig um Saurbæ í Hvalfirði og Reykholt í Borgarfirði, en þeir staðir eru að vísu ekki í sjónlínu við Keili.

Þessar vangaveltur tengjast vitanlega því sem fræðimaðurinn Einar Pálson hélt fram á sínum tíma. Hann stúderaði og gaf út bækur um skipan heimsins út frá ýmiss konar tölfræði tengdri gangi sólar og hvernig rætur íslenskrar menningar tengjast goðsagnarheimi fornra Miðjarðarhafsþjóða og Kelta. Það má svo hugsa sér í þessu sambandi hvort rætur kristninnar liggi víðar og eigi sér lengri sögu en almennt er talað. Hver var hann í raun þessi Jesú sem fæðist um jólin á sama tíma og sólin og er fórnað um páska? Ég hætti mér ekki út í þau fræði hér og nú en ætla í staðinn að minnast á myndina hér að neðan sem ég tók á köldum og björtum degi við vetrarsólhvörf árið 1981. Þarna við Ægisíðuna sést hvar sólin er á leiðinni að setjast bakvið Keili og ef vel er að gáð má sjá Bessastaði á réttum stað í sólroðanum.

Og þá er bara eftir að óska öllum gleðilegra jóla. 

solarlag


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband