Færsluflokkur: Lífstíll
28.7.2010 | 18:59
Frá Versölum til villta vestursins
Þau letur sem algengust eru í dag eiga sér mislanga sögu. Klassísk bókaletur eiga gjarnan sínar fyrirmyndir frá upphafsöldum prentlistarinnar þar sem stíllinn byggist á skrift með breiðpenna og því eru línur misþykkar eftir því hvernig strikunum hallar. Þverendar á endum leggjanna þóttu ómissandi fegurðarauki en notkun þeirra má að minnsta kosti rekja aftur til Rómverska hástafaletursins. Minniháttar stílþróun áttu sér alltaf stað en þegar auglýsingaletrin komu fram á 19. öldinni má segja að allt hafi fari úr böndunum.
Prentletur Loðvíks 14
Árið 1692 var ákveðið að franska vísindaakademían skildi hanna nýtt og nútímalegt letur fyrir prentsmiðju konungs. Við þessa leturhönnun var ákveðið að taka ekki eins mikið mið af skriftarpennanum og áður hafði tíðkast enda engin þörf á því þar sem prentletur þurftu ekki að miða fagurfræðina við annmarka skriftarpennans. Hver stafur fékk sitt útlit eftir vísindalegum flatarmálsaðferðum og teiknaður útfrá neti sem samanstóð af 2304 ferningum. Þetta letur var aðeins ætlað til konunglegrar notkunar og harðbannað að stæla það á nokkurn hátt. Hinsvegar þótt það svo vel heppnað að leturhönnuðum héldu engin bönd enda var sem mönnum opnuðust nýjar víddir í bókaletri og vinsæl letur eins og Baskerville komu fram. Þessi letur eru stundum köllum milliantíkva og eru nútímalegri en eldri letur eins og Garamond. Helstu einkenni milliantíkvu eru aðallega tvenn:
- Meiri munur á breidd láréttra og lóðréttra strika
- Mesta breidd á bogadregnum línum er ekki lengur hallandi
Samanburður á eldri-antíkvu (Garamond) og milliantíkvu (Baskerville):
Baskerville letrið komfram um 1750 og er eitt af algengustu bókaletrum sem notuð eru í dag. Letrið er nefnt eftir skapara sínum John Baskerville sem var virtur enskur leturgrafari og prentari. Hann gerði ýmsar tilraunir til að þróa prentaðferðir en þær höfðu ekki breyst mikið frá dögum Gutenbergs. Ekki veitti heldur af ef prenttæknin átti að halda í við sífellt fínlegri letur. Bækur þær sem Baskerville átti heiðurinn af þóttu reyndar svo vel prentaðar, á svo hvítan og sléttan pappír og með svo skýru og fínlegu letri að sumir óttuðust lestur á bókum hans gætu haft slæm áhrif á sjónina.
Didonar
Þær breytingar sem komu fram í letri Loðvíks 14 og síðar Baskerville voru eiginlega fullkomnaðar seint á 18. öld þegar franski leturgrafarinn Firmin Didot kom fram með afar fíngert og fágað letur sem nefnt er eftir honum og reyndar leturflokkurinn í heild, Dídonar. Helstu einkenni þessara leturgerða eru þeir sömu og í milliantíkvunni nema að þar er gengið lengra, róttækasta breytingin er hinsvegar að láréttir þverendarnir tengjast ekki háleggnum með bogalínum heldur mynda beint strik. Lóðréttir þverendar eins og á E og T tengdust þó áfram með boga.
Frægasta og mest notaða letur í þessari ætt kom fram undir sterkum áhrifum Didots. Það eru Bodoni letrið, nefnt eftir höfundi sínum hinum ítalska Giambattista Bodoni en það er oft talið með fegurstu letrum sem komið hafa fram og er til í mörgum útgáfum.
Bodoni letrið er ekki alveg eins fínlegt og Didot letrið og hentar betur sem bókaletur. Þessi letur, Bodoni og Didot ofl. eru víða notuð í dag en óvenju áberandi eru þau á snyrtivörum og tískublöðum fyrir konur enda mjög stílhrein og fögur.
Auglýsingaletrin koma fram
Á tímum iðnvæðingar og aukinnar sölumennsku þurfti ný og sterk letur til að grípa athyglina. Því tíðkaðist mjög að teygja letrið upp í hæstu hæðir eða fita úr öllu valdi og útkoman ekki alltaf sú smekklegasta. Bodoni Poster letrið er til dæmis til mjög feitt en einnig er til útgáfa sem er öll á háveginn sú nefnist Bodoni Poster Compressed og hefur verið í mismikilli tísku í gegnum tíðina, nú síðast á 9. áratug síðustu aldar eighties-áratugnum. Þessi letur má ásamt fleirum sjá hér neðar.
Brátt fóru menn að ganga enn lengra í leturhönnun í þeim tilgangi að gera letur enn sterkari. Það leiddi til þess að nýr leturflokkur kom fram sem gjarnan kallast Egyptar. Einkenni þeirra er að allar þykktir letursins er sú sama en ekki misbreiðar eins og á eldri leturgerðum. Beinu þverendarnir halda sér áfram en eru eiginlega orðnir kassalaga. Þessi letur voru líka teygð og toguð í allar áttir og alltaf virtust geta komið fram feitari og öflugri útgáfur.
Þegar letrið voru teygð urðu lárétt og lóðrétt strik gjarnan misbreið og því gátu þverendarnir orðið talsvert sverari en leggirnir. Stundum voru þverendarnir jafnvel togaðir upp sérstaklega og báru letrið nánast ofurliði. Þarna er komið þetta sígilda kúrekaletur og ber þess merki að letur voru orðin villtari en áður og langt frá þeim elegans sem einkennt höfðu fyrstu Dídónana.
Allskonar skrautleg og flúruð auglýsingaletur voru þannig áberandi í lok 19. aldar í bland við ofurþykka leturhlemma. Smám saman urðu þó áberandi hin einföldustu letur af öllum einföldum. Það má sjá á myndinni hér að neðan. Skiltið er á verslun í New York. SAGA er annað tveggja orða sem íslenskan hefur lagt til alþjóðamála og er ritað með Bodoni Poster Compressed letrinu. Þar undir má sjá leturstíl þann sem varð ofaná á 20. öldinni - steinskrift. Það má taka fyrir í næsta leturpistli.
- - - - -
Helstu heimildir:Þættir úr letursögu eftir Þorstein Þorsteinsson.
Type: The secret history of letters. eftir Simon Loxley.
Aðrar bloggfærslur um letur má finna hér á síðunni undir flokknum: LETUR
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.7.2008 | 19:36
Antonio Gaudí og fagurfræði náttúrunnar
Þegar maður heimsækir Barcelóna sem ferðamaður og lítur á þær fjölmörgu minjagripaverslanir sem þar eru fer ekki milli mála hvað það er sem þykir túristavænast öðrum atriðum fremur, en það eru verk hönnuðarins og arkitektsins Antonio Gaudí sem bjó þar og starfaði á áratugunum um og eftir 1900. Það eru þó ekkert óskaplega margar byggingar sem hann lætur eftir sig en hinsvegar þykja verk hans svo sérstök að nánast allar hans byggingar eru í dag ekkert annað en fjölsóttir ferðamannastaðir eða söfn þar sem gert er út á verk listamannsins.
Frægasta verk hans og um leið eitt aðalkennileiti Barcelónaborgar er án efa kirkjubyggingin mikla La Sagrada Familia, sem hafist var handa við að byggja árið 1882, en sökum þess hve óskaplega stór hún er og flókin í smíðum sér ekki enn fyrir endann á þeirri byggingarvinnu. Þeir 8 turnar sem þegar eru risnir eru ekki annað en aukaturnar við hlið aðalturnana sem hafa ekki enn verið reistir, þar sem sá hæsti í miðjunni mun rísa í upp í 170 metra hæð. Það sem gerir Verk Antonio Gaudís svo sérstök eru hin óvenjulegu bogadregnu form og skreytilist allskonar sem er fengin úr náttúrunni sjálfri. Þarna eru engar beinar línur, öll form eru lífræn og jafnvel burðarvirki bygginganna eiga sér fyrirmyndir í náttúrunni. Það sem vakti fyrir Gaudí á sínum tíma var að þróa nýjan byggingarstíl sem átti að taka við af hinum reglufasta nýklassíska stíl sem hafði verið allráðandi í byggingarlist Evrópubúa og er uppruninn frá forn-Grikkjum og Rómverjum.
Þessi nýi stíll sem Gaudí þróaði í byggingarlist er náskyldur Art Nouveau stílnum sem fleiri listamenn og hönnuðir voru uppteknir við um aldamótin 1900. Hugmyndafræðin er í þá áttina að líta á manninn sem hluta af náttúrunni í stað þess að líta á að náttúran eigi að vera undirgefin manninum. Þetta þýddi þó ekki að allt ætti að vera í óskipulagðri óreiðu eða bara einhvernvegin, náttúran býr nefnilega yfir ströngum verkfræðilögmálum sem bæði virka og geta búið yfir mikilli fegurð. En fagurfræðin er þó ekki bara sótt til náttúrunnar, flest það sem var framandi og dularfullt þótti spennandi og því var skreytilistin oft sótt til annarra heimsálfa eins og Afríku. Þetta á sér líka hliðstæðu í dálætinu á hinu dulræna og forna sem einkenndi hugarheim manna um 1900, einskonar rómantísk tíska sem skýtur upp kollinum af og til í menningarsögunni, síðast árið 1968 þegar menn hlustuðu á gúrúa frá Indlandi, boðuðu afturhvarf til náttúrunnar og frið á jörð.
Tímabil hinnar náttúrutengdu fagurfræði sem Antonio Gaudí aðhylltist varð ekki langt. Í rauninni þóttu byggingar Gaudí vera allt of framandi og furðulegar á sínum tíma, ásamt því að vera afar flóknar í byggingu þar sem nánast hver steinn hafði sína eigin lögun og öll smáatriði voru með sínu lagi. Á sama tíma var líka að koma fram ný byggingaraðferð sem byggðist á stálgrindum og nýr stíll sem kallaðist funktionalismi þar sem allar línur voru beinar og öll horn 90 gráður. Sú stefna átti eftir að sigra heiminn og er enn ráðandi í byggingarlist dagsins í dag og kemur m.a. fram í verðlaunatillögu að nýjum húsakynnum Listaháskólans sem á að rísa á Laugavegi (þar er hugsanlega enn eitt skipulags- og menningarslysið í uppsiglingu sem mætti skoða betur).
Myndirnar sem fylgja hér að ofan eru fengnar úr dagatali 2009 sem er helgað Antonio Gaudí, gefið út af Triangle Postals. Ljósmyndarar: Pere Vivas og Ricard Pla.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2008 | 20:48
Stóra jeppavitleysan og stóra jeppageymslan
Ég velti stundum fyrir mér hvernig samsetning bílaflotans hefur þróast undanfarið þar sem stór hluti umferðarinnar er núna stórir bílar svo sem jeppar og pallbílar allskonar. Sú þróun hefur orðið að jeppi er orðinn tákn um velgengni og því hafa menn fjárfest í dýrum og stórum jeppum sem mest þeir mega til að sýna velgengi sína og kraft. Þessir fínu jeppar eru samt misfínir, þeir allra fínustu og dýrustu eru sannkallaðir forstjórajeppar á meðan aðra mætti skilgreina sem millistjórnendajeppa en þeir eru ekki alveg eins fínir. Svo eru líka jeppar sem raunverulega eru gerðir fyrir torfærur, gjarnan upphækkaðir á ofurdekkjum og komast bæði yfir stórfljót og jökla. Allir þessir jeppar eiga það þó sameiginlegt að vera mest notaðir til daglegs brúks innanbæjar, hvort sem það er til að aka til og frá vinnu, í innkaup eða til að keyra börnin í leikskóla. Þetta er satt að segja hálfgerð vitleysa allt saman enda eru þetta eyðslufrek kvikindi, eru mengandi, taka mikið pláss og slíta gatnakerfinu með tilheyrandi svifryksmyndun. Ég held að æ fleiri séu farnir að átta sig á þessu, ekki síst nú þegar bensínverð ríkur upp og stjórnvöld farin að tala um að auka álögur. En það er nú samt að vissu leiti skiljanlegt að margir vilja eiga jeppa enda býður landið okkar upp á slíkt og möguleikar á skemmtilegum jeppaferðum eru margir bæði um sumar og vetur. En það breytir því ekki að torfærubílar eiga auðvitað ekkert heima í borgum.
Um þetta hef ég dálítið hugsað undanfarið en mín vegna mætti alveg takmarka jeppaumferð í borginni eins og farið er að gera sumstaðar erlendis. Það mætti byrja á stærstu jeppunum og pallbílunum en í staðinn væri hægt að byggja stóra jeppabílageymslu í útjaðri borgarinnar þar sem menn geta geymt tröllin sín þangað til þeir þurfa að skreppa út á land í leit að torfærum. Þessir jeppaeigendur geta svo fjárfest í léttum eyðslugrönnum bílum til að nota innanbæjar en ef menn vilja halda kúlinu þá mætti útbúa miða til að líma á borgarbílana þar sem á stendur: ÉG Á JEPPA Í GEYMSLU. Nú vill svo til til að það er einmitt verið byggja tvö hús í útjaðri borgarinnar sem gætu verið tilvalin fyrir svona jeppageymslur en þar á ég við hin yfirgengilega stóru verslunarhús sem eru að rísa við Vesturlandsveg rétt hjá Korpúlfsstöðum. Ég held nefnilega að það væri mun skárri nýting á þessum húsum eða að minnsta kosti öðru þeirra að geyma þarna nokkur þúsund jeppa heldur en að auka við stórverslunarhúsnæði hér í borginni.
En jújú ég geri mér alveg grein fyrir að þetta er kannski óraunhæfar hugmyndir, allavega enn sem komið er. Sennilega er þessi hugmynd bara svo góð að hún er langt á undan sinni samtíð, en einhvernvegin svona getur samt verið að málin verði leyst í framtíðinni.
Lífstíll | Breytt 30.7.2008 kl. 17:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.5.2008 | 14:39
Hestöflin eru farin að kosta sitt
Enn ein hækkunin á bensínverði leiðir hugann að því hvort við þurfum að fara að hugsa okkar gang varðandi bílaflotann sem hefur þanist út í magni og stærð í undangengnum góðærum. Hvað með öll hestöflin sem fara í að knýja alla þessa jeppa á götum borgarinnar? Jeppar eru auðvitað ekkert annað en torfærubílar og eyðslufrekir eftir því en eru aðallega notaðir í daglegt innanbæjarsnatt á malbikuðum götum borgarinnar og innihalda oftast bílstjórann einan. Er stöðutáknið kannski orðið að tákni um orkusóun nútímamannsins? Dæmigerður miðlungsfínn jeppi er 165 hestöfl sem jafngildir auðvitað afli 165 hesta. Það þætti nú örugglega dálítið skondið að sjá mann mæta til vinnu á vagni sem dreginn er af 165 hestum og einhver gæti talið að hægt væri að komast af með minna.
Verðhækkun hjá N1 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 30.7.2008 kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2008 | 13:07
Staflinn á náttborðinu
Skipulögð óreiða á vissum þáttum er sjálfsagður hluti góðs skipulags. Það hefur náttborðið mitt mátt reyna undanfarna mánuði því í vetur og fram á þennan dag hefur smám saman hlaðist um dágóður stafli af ýmsum bókum og pappírsgögnum sem ég hef verið að sýsla með. En öllu má nú ofgera og því tók ég mig nú loksins til og réðst á staflann, henti sumu, setti annað í skúffur eða möppur og kom svo bókum fyrir í nýrri bókahillu heimilisins. Til að heiðra minningu náttborðsstaflans er innihaldi hans hér gerð skil í eftirfarandi lista og er byrjað á því efsta og svo áfram niður:
- Gluggaumslög með nýjustu gjalddögunum (verða greiddir á næstunni)
- Boðskort á myndlistarsýningu Sigurðar Þóris (ekki búinn að fara)
- Tónleikaskrá Sinfóníuhljómsveitarinnar (fórum á 5. sinfóníu Gustafs Mahlers)
- Fréttabréf vináttufélags Íslands og Kúbu (hef verið félagi síðan í vinnuferðinni 1989)
- FÍB-blaðið (er semsagt líka félagsmaður í félagi íslenskra bifreiðaeigenda)
- Prófarkir (vegna bókar sem ég er að brjóta um)
- Meiri gluggapóstur (verða einnig greiddir á næstunni)
- Íslensk fjöll gönguleiðir á 151 tind (á sirka 90 eftir)
- Límmiði frá FÍB (held ég lími hann ekki á bílinn)
- Enn meiri gluggapóstur (gott að það fannst)
- Bókin Bréf til Láru, eftir Þórberg Þórðarson (búinn að lesa hana)
- Útprent af vinnutengdum tölvupósti (trúnaðarmál)
- Árbók Ferðafélags Ísland 1993 (um rætur Vatnajökuls eftir Hjörleif Gutt.)
- Jöklaveröld - náttúra og mannlíf (aðallega um Austur-Skaftafellsýslu)
- Útprent af nýlegum fjölskylduljósmyndum (þrír ættliðir í sparifötum)
- Yfirlit yfir Verðbréfasjóði SPRON (framúrskarandi ávöxtun síðustu ára tíunduð)
- Yfirlit frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna (safnast þegar saman kemur)
- Prentarinn - blað félags bókagerðarmanna (er ennþá í plastinu)
- Útreikningar vegna rekstraryfirlits 2007 (vegna prívat-vinnu)
- Bréf frá SPRON til gjaldkera húsfélagsins (sem er ég)
- Ársskýrsla EXISTA (skoðuð, en ólesin)
- Boðskort á 25 ára afmælissýningu Gerðubergs (fór ekki)
- Reikningaeyðublaðahefti (vegna prívat-vinnu)
- Skáldsagan Plötusnúður Rauða hersins (byrjaði á henni á sínum tíma)
- Skagfirðingabók (er ekki Skagfirðingur en kom að vinnslu ritsins)
- Ársrit Útivistar nr. 10 frá 1984 (vegna ferðar sem ég fór síðasta haust)
- Hvers vegna er ég félagi í Félagi bókagerðarmanna? (bæklingur sem svarar því)
- Skáldsagan Mæling heimsins eftir Daniel Kehlman (búinn að lesa hana)
- Frímerkjafréttir o.fl. frá Póstinum (er áskrifandi að nýjum frímerkjum)
- Árbók Ferðafélags Íslands 1997 (þar er m.a. fjallað um Esjuna)
- Kvittanir tengdar bílnum (smurnings- og dekkjaþjónusta)
- FÍT 2008 - Grafísk hönnun á Íslandi (Það besta frá liðnu ári úr mínu fagi)
- Veðuryfirlit í tölum fyrir alla mánuði frá 1961 (útprentað af vef Veðurstofunnar)
- Útivist - Ferðaáætlun 2008 (fer einstaka sinnum með þeim)
- IÐAN - símenntun í iðnaði. (vilji maður símennta sig)
- Gamli Stykkishólmur (bæklingur um gömlu húsin í Stykkishólmi)
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)