Færsluflokkur: Veður

Veðurannáll 2007-2010 - Hrun og meiri hlýindi

Árin fjögur sem nú verður fjallað um er ekki bara tímabil stórra atburða í sögu landsins heldur er það einnig merkilegt veðurfarslega séð og því verður þessi pistill af lengra taginu. Fram eftir árinu 2007 var ennþá allt á uppleið og Íslendingar á góðri leið með að sigra heiminn. Vendipunkturinn varð hinsvegar á miðju sumri sama ár þegar kólnun varð á erlendum fjármálamörkuðum og tímar lánsfjármagns á tombóluprís þar með liðnir. Og þar sem útrásin mikla hafði meira og minna verið fjármögnuð með lánum snérist þetta allt smám saman upp í eitt allsherjar ólán. Bólan sprakk svo um haustið 2008 þegar bankarnir féllu og í framhaldinu féll allt hvað um annað og þjóðin nánast á vonarvöl. Sjálf ríkisstjórnin sprakk (þó ekki bókstaflega) eftir búsáhaldabyltinguna í upphafi árs 2009. Erfiðir tímar tóku við þar sem mikið var þrasað og býsnast og sýndist sitt hverjum, ekki síst á hinum nýju samfélagsmiðlum, fyrst í bloggheimum og síðan á hinni nýtilkomnu fésbók. Og eins og stundum gerist í góðum ævintýrasögum þá fór auðvitað að gjósa ofan á allt annað, en það var reyndar gott og mikið gos sem spúði ösku yfir hafið - ekki síst til Breta sem áttu það svo sannarlega skilið eftir þá ósvífni að hafa sett á okkur hryðjuverkalög og krafið okkur um að standa skil á fjármagni sem útrásarmenn okkar véluðu útúr saklausu fólki þar í landi. En svo er það veðrið. Hvað það varðar er skemmst frá því að segja að á þessum árum héldu hlýindi áfram eins og ekkert hafði í skorist. Oftar en ekki lék veðrið við landsmenn, ekki síst Reykvíkinga sem þarna upplifðu hvert gæðasumarið á fætur öðru. Nánar um það hér á eftir þar sem farið er yfir tíðarfarið í stuttu máli.

Árið 2007 var hlýtt eins og undanfarin ár og mældist meðalhitinn í Reykjavík 5,5°C og er það sjöunda árið í röð sem meðalhitinn nær 5 gráðum. Árið byrjaði að vísu með frekar köldum og snjóþungum janúar en síðan tóku hlýindi við. Í febrúar var nærri stöðug austanátt og var mánuðurinn sá sólríkasti í borginni síðan 1947. Mars og apríl voru breytilegir en óvenjuleg hlýindi gerði í tvígang norðan- og austanlands í apríl með yfir 20 stiga hita þar sem mest var. Maí var síðan dæmigerður norðanáttamánuður með bakslagi í hita. Sumarið 2007 var hinsvegar mjög gott á landinu. Í júní færðist sólskin í aukanna eftir því sem á leið og var ríkjandi bjartviðri meira og minna suðvestalands fram í ágúst. Óvenju þurrt var ekki síður fyrir norðan í júní þegar einungis mældust 0,4 mm á Akureyri. Júlí var mjög hlýr og sá næst hlýjasti í Reykjavík frá upphafi (12,8°). Eftir allt þurrviðrið þá stal úrkoman algerlega senunni síðustu mánuðina en árið endaði sem úrkomumesta árið í Reykjavík frá 1921. September, október og desember­ voru umhleypingasamir og einstaklega úrkomusamir. Desember setti reyndar úrkomumet auk þess að vera óveðrasamur og sveiflukenndur í hita. Þrátt fyrir stormasöm áramót voru öflugar góðærisbombur sprengdar til að fagna nýju ári enda vissu fæstir hvað næsta ár myndi bera í skauti sér.

Árið 2008 var meðalhitinn 5,3°C í Reykjavík. Yfir vetrarmánuðina voru miklar hitasveiflur en ólíkt mörgum nýliðnum árum var lítið um langvarandi vetrarhlýindi. Nokkuð harkalega vetrartíð gerði upp úr miðjum janúar og framan af febrúar. Mars og apríl voru hinsvegar betri. Nú bar svo við maímánuður var hlýr, en í Reykjavík var hann sá hlýjasti síðan 1960. Áfram héldu hlýindi yfir sumarmánuðina en júní var einstaklega þurr og sólríkur suðvestanlands og sá næst sólríkasti í Reykjavík frá upphafi. Sólin skein þó víðar og var sumarið t.d. það fjórða sólríkasta á Akureyri. Undir lok júlí gerði hitabylgju og var þá nýtt hitamet sett í Reykjavík þegar hámarkshitinn mældist 25,7 stig en eldra metið hafði verið sett í ágústhitabylgjunni 2004. Stuttu eftir að landsmenn höfðu fagnað Ólympíusilfri í handbolta tók gamannið að kárna með rysjóttri tíð í september. Svo kom október, sjálfur hrunmánuðurinn, með kaldri tíð frá fyrsta degi og snjóaði þá strax í fyrstu viku mánaðarins í Reykjavík. Þjóðin hafði um annað að hugsa en veðrið síðustu mánuðina en annars voru nóvember og desember ekki svo slæmir nema svona inn á milli eins og gengur.

Árið 2009 var meðalhitinn í Reykjavík 5,6°C og því ekkert lát hlýindum og góðri tíð þótt annað væri uppi á teningnum í landsmálum. Á tímum búsáhaldabyltingarinnar í janúar var hitinn ofan frostmarks. Dálítið kuldakast gerði fyrri hluta febrúar en annars var veturinn í mildari kantinum. Maí var sólríkur og mjög hlýr um miðbikið. Eftir sæmilegan júní kom alveg einstaklega góður júlímánuður sem í Reykjavík var með þeim allra sólríkustu og hlýjustu sem komið hafði og var auk þess sá þurrasti í borginni frá 1889. Víða um sveitir þótti þurrkurinn þó fullmikill. Eitt norðanskot gerði reyndar seint í mánuðinum en annars var hlýtt og náði hitinn tvisvar 21 stigi Í Reykjavík. Góð sumartíð helst þar til seint í september þegar kólnaði talsvert og eins og árið áður var kalt fyrri hlutann í október. Síðan var frekar milt um haustið þar til kuldinn náði völdum þegar líða fór að jólum. Fyrir norðan var óvenju úrkomusamt og reyndar hafði ekki mælst meiri úrkoma í desember á Akureyri.

Um árið 2010 er það helst að segja að lengi getur gott batnað en þetta var óvenju hagstætt ár veðursfarslega séð með stöku undantekningum eins eðlilegt er. Þetta á þó frekar við um landið sunnan- og vestanvert, en norðan- og austanlands var tíðarfarið nær því sem eðlilegt er. Ársmeðalhitinn í Reykjavík var 5,9°C sem gerir árið eitt af þeim allra hlýjustu en auk þess var árið með þeim allra sólríkustu og þurrustu í borginni. Í takt við það var meðalloftþrýstingur sá hæsti sem mælst hefur. Janúar byrjaði frekar kaldur en svo tóku hlýindi völdin þar til kólnaði seinni hlutann í febrúar. Mars var lengst af hlýr þar til lokin en annars var mjög snjólétt víðast hvar þessa vetrarmánuði. Apríl var að þessu sinni kaldari í borginni en mars og auk þess þurr. Maí var almennt góður og hlýr. Svo kom sumarið og það reyndist vera eitt það allra hlýjasta sunnan- og vestanlands en helst eru það hin margrómuðu ár 1939 og 1941 sem veita þessu sumri samkeppni og reyndar árinu í heild. Austfirðingar voru að vísu ekki sérlega kátir með sumarið en þeir áttu það til að voru nokkuð áveðurs að sumarlagi þessi ár. Þurrkar voru enn og aftur ríkjandi víða, að þessu sinni aðallega í júní sem einnig var mjög hlýr, jafnvel methlýr sumstaðar vestanlands, þar á meðal í Reykjavík. Og það sem meira er, þá var meðalhitinn í borginni heil 13,0 stig í júlí en aðeins hitabylgjumánuðurinn júlí 1991 hefur náð þeirri tölu í höfuðborginni. Áfram var hlýtt í ágúst og fram í október. Að vísu var ekkert óvenju sólríkt um sumarmánuðina en ágætt þó. Til marks um tíðarfarið þá var lítill snjór í fjöllum eftir sumarið sunnan- og vestanlands og jöklar rýrnuðu sem aldrei fyrr. Esjan varð alveg snjólaus um miðjan júlí sem er óvenju snemmt en annars var þetta 10 árið í röð sem skaflar hverfa úr Esjunni. Þegar aðeins tveir mánuðir voru eftir af árinu 2010 var það alveg í dauðafæri með að verða allra hlýjasta árið suðvestanlands en kaldur nóvember kom í veg fyrir það. Þá var mjög þurrt sunnanland en snjóþungt fyrir norðan. Svipað var í desember sem átti annars sína köldu og hlýju daga.

Af náttúrufarslegum atburðum skal fyrst nefna öflugan jarðskjálfta uppá 6,3 stig í lok maí árið 2008 með upptök í Ölfusi sem olli nokkru tjóni þar um kring. Þetta var einskonar framhald skjálftanna árið 2000. Eldgosið sem getið er um í inngangi er auðvitað gosið í Eyjafjallajökli en forsmekkurinn að því var lítið hraungos á Fimmvörðuhálsi sem hófst aðfaranótt 21. mars 2010 og var mörgum til skemmtunar. Aðfaranótt 14. apríl hófst síðan gosið í Eyjafjallajökli sem vakti heimsathygli. Sú athygli reyndist vera afar jákvæð landkynning þrátt fyrir hafa teppt flugsamgöngur í Evrópu. Hin furðulega eyja í norðri var þarna allt í einu orðin áhugavert land til að heimsækja og ekki síst ódýrt. Upp úr rústum hrunsins fóru hótelbyggingar brátt að rísa og á næstu árum fóru hjól atvinnulífsins smám saman að snúast á ný og brúnin að lyftast á landsmönnum. Ljúkum þessu að venju með veðurgrafík:

Annáll 2007-10 hiti

Annáll 2007-10 einkunn

Um myndirnar er það að segja að meðalhitatölur er fengnar af vef Veðurstofunnar og ekki meira um það að segja. Veðureinkunnirnar koma úr mínum eigin veðurskráningum og fundnar út með því að skipta veðrinu á hverjum degi í fjóra þætti, sól, úrkomu, vind og hita. Hver veðurþáttur getur fengið 0, 1 eða 2 stig eftir því hvort sá þáttur er neikvæður, í meðallagi eða jákvæður. Hver dagur getur þannig fengið 0-8 stig í einkunn en mánaðareinkunn er síðan meðaltal allra einkunna mánaðarins. Það þykir slæmt ef mánaðareinkunn er undir 4 en gott ef hún er yfir 5 stigum. Á þessu tímabili 2007-2010 er aðeins einn mánuðir undir 4 stigum (september 2007). Hinsvegar er 5 stiga einkunnir óvenju margar og þarna birtist í fyrsta skipti dökkrauð einkunn yfir 5,5 stigum (júlí 2009).

- - -

Fyrri annálar í sama dúr:
Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002
Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri

 


Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri

Árin fjögur sem nú verða tekin fyrir er mikið merkistímabil til sjávar og sveita sem og í kauphöllum. Tímabilið hófst með meiri hlýindum en verið hafa hér landi á síðari tímum, og þrátt fyrir dálítil bakslög inn á milli þá voru öll árin hlý. Óhjákvæmilegt var að tengja þessi hlýindi við hina almennu hnattrænu hlýnun af mannavöldum þótt vissulega gátu duttlungar náttúrunnar einnig hafa komið þar nærri. En allavega, þá voru þarna fjölmörg ný hitamet sett á landinu og jöklar rýrnuðu sem aldrei fyrr. Og ekki nóg með það. Þetta voru miklir uppgangstímar í fjármálalífinu þar sem okkar snjöllu og útsjónarsömu útrásarvíkingar lögðu land undir fót og voru á góðri leið með að gera Ísland að viðskiptastórveldi - miðað við höfðatölu. Allar skuldsetningar voru af hinu góða og allt kom út í plús enda var þetta góðæri ólíkt öllum hinum fyrri sem endað höfðu með skakkaföllum.

Árið 2003 var meðalhitinn í Reykjavík 6,1 stig og árið þar með það hlýjasta í borginni í mælingasögunni. Tvö ár á hlýskeiði síðustu aldar, 1939 og 1941, voru áður þau hlýjust (5,9°C) en þá voru mælingar gerðar í miðbæ Reykjavíkur þannig að samanburður við fortíðina er aldrei alveg nákvæmur. Hinsvegar ef árinu 2003 er hnikað aftur um tvo mánuði þá fæst 12 mánaða tímabil með meðalhitann 6,6 stig sem er alveg einstakt, enda voru síðustu tveir mánuðir ársins 2002 afar hlýir. Misjafn er síðan eftir landshlutum hvort 2003 hafi verið allra hlýjasta árið eða ekki. Á Akureyri var til dæmis hlýrra árið 1933. Annars voru allir mánuðir ársins 2003 yfir meðallagi í hita í Reykjavík, minnstur var munurinn í maímánuði sem var bara örlítið ofan við meðallag. Apríl var mjög hlýr, aðeins 0,1 gráðu frá meti 1974, en bæði júní og ágúst voru hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík, enda fór svo að sumarið var það hlýjasta sem mælst hafði í borginni. Þrátt fyrir hlýindin þá var sumarið fremur úrkomusamt á landinu. Í Reykjavík var júní t.d. með þeim úrkomusamari frá upphafi. Annars var veður almennt gott á árinu nema þá helst í febrúar sem var frekar leiðinlegur og mjög úrkomusamur. Snjólétt var yfir vetrarmánuðina en árið endaði þó í kulda og snjóþyngslum dagana fyrir áramót.

Árið 2004 var meðalhitinn í Reykjavík 5,6 °C. Þótt það sé hálfri gráðu kaldara en árið áður er það samt með hlýjustu árum. Fyrstu tvo mánuðina voru talsverðar sveiflur í hitafari en mars og apríl voru hinsvegar hlýir. Snjólétt var um veturinn, ekki síst til fjalla, skíðafólki til lítillar gleði. Það voraði snemma og sumarið var bæði hlýtt og frekar sólríkt. Hitinn í borginni náði 20° í júní sem telst ávallt til tíðinda. Mestu tíðindin voru hinsvegar hitabylgjan mikla í ágúst sem lifði lengst suðvestanlands. Hitinn fór þá yfir 20° í Reykjavík fjóra daga í röð og jafnvel einnig á nóttunni. Hæstur komst Reykjavíkurhitinn í 24,8° þann 11. ágúst sem var nýtt hitamet. Mestur hiti á landinu mældist þó á Egilsstöðum sama dag, 29,2 stig sem var nýtt landsmet fyrir ágústmánuð. Mjög misgott veður tók svo við um haustið með miklum hitasveiflum. Í október var hitinn undir meðallagi í fyrsta sinn í heila 30 mánuði. Kuldamet var slegið fyrir nóvember þegar næturfrostið í borginni fór niður í 15 gráður í annars frekar mildum mánuði. Í desember var veður hinsvegar mjög óstöðugt, bæði vindasamt og úrkomusamt.

Árið 2005 var meðalhitinn 5,1°C. Aftur kom því ár sem var hálfri gráðu kaldara en árið áður. Fyrstu vikurnar voru kaldar en í febrúar tóku við hlýrri S- og SV-áttir sem ollu því að mikill hafís tók að safnast saman fyrir norðan land, aldrei þessu vant. Hafísinn var mestur í mars en náði þó ekki landi að ráði nema vestur á Ströndum og við Grímsey. Þrátt fyrir hafísinn var mjög hlýtt í mars þriðja árið í röð. Dágóðan hlýindakafla gerði seinni partinn í apríl en seinni partinn í maí kólnaði heldur með þurrum en sólríkum norðanáttum. Ágætis veður var í júní og júlí fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí en ágúst var ekkert sérstakur. Haustið kom snemma að þessu sinni með snörpum norðanáttum og voru september og október samanlagt með allra kaldasta móti. Síðan tóku við umhleypingar sem héldust út árið.

Árið 2006 var hlýtt í Reykjavík, eða 5,4°C. Þetta var sjötta árið í röð sem árshitinn náði 5 stigum í borginni en það hafði ekki gerst áður. Fyrri part janúar var snjóþungt og kalt en síðan tók við milt veður og var febrúar sá hlýjasti síðan 1965. Miklir þurrkar voru SV-lands í mars og apríl sem ollu m.a. gífurlegum sinueldum á Mýrum. Eftir talsverð hlýindi á landinu fyrri partinn í maí, gerði ákaft norðanáhlaup með snjókomu norðanlands. Var það eitt sinn kallað Silvíu-Næturhretið hér á síðunni. Sumarið byrjaði hinsvegar mun betur fyrir norðan en þá var öllu þungbúnara suðvestan­lands. Seinni hlutann náði sumarið sér betur á strik fyrir sunnan. Haustið var mjög hlýtt þangað til að gerði norðan leiðindi í nóvember með tilheyrandi frosti. Í desember voru nokkur hressileg illviðri og þegar verst lét vikuna fyrir jól gerði asahláku með miklum flóðum í ám sunnanlands og skriðuföllum fyrir norðan. Strandaði þá einnig flutningaskip við Hvalsnes. Á aðfangadag var 8 stiga hiti í Reykjavík og sjálfsagt veglegar góðærisjólagjafir í pökkum.

Af ýmsum tíðindum hér heima og erlendis á tímabilinu má nefna að í mars 2003 létu Bandaríkjamenn verða að því að ráðast inn í Írak með gríðarlegum hernaðarþunga. Engin fundust þó gjöreyðingarvopnin. Ísland var í hópi nokkurra viljugra þjóða sem studdi innrásina opinberlega. Það kom þó ekki í veg fyrir að Bandaríska varnaliðið yfirgæfi landið í lok september 2006. Miklar hamfarir urðu í Asíu um jólin 2004 eftir risajarðskjálfta vestur af Súmötru í Indlandshafi sem olli mjög mannskæðri flóðbylgju í ýmsum strandríkjum. Mest þó í Indónesíu. Í ágúst 2005 gekk fellibylurinn Katrín á land við New Orleans og olli meðal annars miklum flóðum í borginni. Hér heima voru náttúrufarsþættir smærri í sniðum. Eins og oft áður voru skjálftar við Kleifarvatn. Þeir stærstu urðu í ágúst 2003, 5 stig og síðan annar upp á 4,6 í mars 2006 skv. samtímaheimildum. Í júní 2004 varð skjálftahrina úti fyrir Eyjafirði en ekkert af þessu olli tjóni. Ekki frekar en eina eldgosið á tímabilinu sem kom upp í Grímsvötnum í byrjun nóvember 2004 og greinilegt að aukið líf var að færast í eldstöðvarnar í Vatnajökli. En ekki gaus Katla.

Að lokum kemur veðurgrafík með sama hætti og í fyrri annálum.

Annáll 2003-06 hiti

Annáll 2003-06 einkunn

- - - -

Fyrri annálar í sama dúr:

Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002

 


Veðurannáll 1999-2002

Við færumst nær nútímanum í þessari annálaröð þar sem stiklað er á mjög stóru í veðurfari landsins og öðru sem vert er að minnast á. Að venju tek ég fyrir fjögur ár í senn og er nú komið að aldamótatímabilinu 1999-2002. Mesta áherslan er á veðrið í Reykjavík og er mín eigin veðurdagbók helsta heimildin en að sjálfsögðu er einnig stuðst við gögn frá Veðurstofunni sem liggja fyrir á vefnum. Af þessu aldamótatímabili er það annars að segja að seinni árin tvö voru öllu hlýrri en þau tvö fyrri. Kuldaskeið áranna 1965-1995 var að baki en á því tímabili var meðalhitinn í Reykjavík um 4,2 stig. Samkvæmt reynslu landsmanna var engu að treysta en þó greinilegt að hlýjum árum fór fjölgandi. Veðurfarið sjálft var hinsvegar ennþá upp og ofan og misgott eftir mánuðum og landshlutum á alla kanta eins og hefur alltaf verið.

Árið 1999 var meðalhitinn 4,5 stig í Reykjavík sem enn taldist í góðu í meðallagi. Aðeins hlýrra var þó þrjú árin á undan. Janúar var nokkuð eðlilegur en síðan kólnaði nokkuð í febrúar eins og gjarnan á þessum árum en svo vill til að árin 1995-2002, eða í átta ár í röð, voru allir febrúarmánuðir kaldari en janúar. Eftir erfiðan febrúar kom kaldur mars sem var reyndar óvenju sólríkur og þurr sunnan heiða sökum tíðra norðanátta. Svipuð tíð hélst áfram fram yfir miðjan apríl en eftir það voraði vel. Sumarmánuðirnir voru síðri fyrir sunnan heldur en fyrir norðan en annars var ágúst vel hlýr annað árið í röð. Áfram var hlýtt á landinu þar til veturinn helltist yfir undir lok nóvember með tilheyrandi snjókomum.

Árið 2000 var jafn hlýtt og árið á undan eða 4,5 stig. Þótt flest hafi verið í meðallagi á ársvísu voru þó ýmsar öfgar í veðurfar. Eftir meinlítinn janúarmánuð kom snjóþungur febrúar sem innihélt óvenjusnarpa stórhríð í Reykjavík um miðjan dag þann 11. febrúar. Áfram voru umhleypingar í mars og veturinn endaði með þeim snjóþyngstu í borginni. Viðsnúningur var upp úr miðjum apríl en þá hallaði hann sér í norðanátt með miklum sólskinskafla suðvestanlands sem sló út fyrri met. Seinni hlutann í maí var síðan dæmigert kuldakast að vori til. Sumarið var ágætt með köflum en var reyndar mun betra í óvenju miklu sólskini fyrir norðan og austan, vel fram eftir sumri. Haustið var fremur hlýtt en vetrarmánuðirnir nóvember og desember voru mjög þurrir og snjóléttir í borginni. Síðustu vikuna ríkti hinsvegar kuldakast.

Árið 2001 hlýnaði á ný og var meðalhitinn í Reykjavík 5,2 stig. Fyrstu mánuðina skiptust á þurrir frostakaflar og hlýir vætudagar og því fremur snjólétt í borginni og víðar SV-lands. Kaldast og umhleypingasamast var í febrúar en þá var meðalhitinn -0,2°C. Fyrri helmingur júní var nokkuð kaldur en sumarið var ágætt í heildina þó lítið væru um hlýja daga. Hinsvegar haustaði seint og var október með allra hlýjasta móti. Nóvember og desember voru báðir frekar hlýir en enduðu og byrjuðu báðir með alvöru vetrarveðrum. Desember var þó hlýrri í heildina með ríkjandi sunnanáttum um miðjan mánuðinn og fram að jólum. Í þeirri hlýindagusu var sett landsmet í desemberhita þegar hitinn náði 18 stigum á Siglufirði.

Á árinu 2002 héldu hlýindi áfram og var meðalhitinn 5,4 stig í Reykjavík sem er jafnhlýtt og á hinu hlýja ári 1987. Ekki var þó hlýtt allt árið. Hlýindi og snjóleysa voru fyrstu vikurnar en frá 20. janúar til 20. mars voru vetrarkuldar ríkjandi og að þessu sinni var febrúar ekki bara kaldur, heldur fimbulkaldur og sá kaldasti í 100 ár (-3,3°C). Það voraði hinsvegar vel og náði hitinn sér vel á strik í júní sem var með þeim allra hlýjustu sem mælst höfðu og var hlýjasti mánuður ársins í Reykjavík, sem er frekar sjaldgæft. Hæst komst hitinn í 22 stig sem er hitamet í borginni fyrir júní. Þeim hlýindakafla lauk reyndar með snörpu norðanskoti eftir miðjan júní. Framhald sumarsins var ekkert sérstakt þótt fremur milt hafi verið meira og minna langt fram í október en þá kólnaði með sólríkum kafla í norðanátt. Aftur hlýnaði um miðjan nóvember og nú með einmuna hlýindum og vetrarleysu á landinu sem hélst út árið. Var desember sumstaðar sá hlýjasti sem mælst hafði, þar á meðal í Reykjavík (4,5°). Í samræmi við hversu snjólétt var víða þá var engan snjó að sjá í borginni frá hausti og út árið. Kannski má taka það fram að þessir síðustu mánuðir ársins 2002 voru byrjunin á einhverjum hlýjasta 12 mánaða kafla sem hér hefur mælst, en nánar um það síðar.

Af jarðrænum þáttum er það að segja að þann 28. september 1999 var skjálfti upp á 4,3 stig við Hestfjall á Suðurlandi. Staðsetningin leiddi athygli að því að tími gæti verið kominn á mun stærri Suðurlandsskjálfta. En áður en að því kom tók Hekla að gjósa þann 26. febrúar árið 2000 eins og auglýst hafði verið í útvarpi hálftíma áður eða svo. Þetta var í þriðja sinn í röð sem Hekla gýs eftir u.þ.b. 10 ára hvíld. Við upphaf gossins lagði fjöldi gostúrista leið sína austur til að sjá gosið en sáu lítið og sátu síðan fastir í Þrengslum á bakaleiðinni vegna vonskuveðurs. Í júní sama ár var komið að Suðurlandsskjálftum sem komu í tveimur lotum. Sá fyrri hristi vel upp í hátíðarhöldum þann 17. júní í góðu veðri. Hinn síðari varð stuttu eftir miðnætti 21. júní. Báðir reyndust þeir 6,5 að stærð og öllu ýmsu tjóni á mannvirkjum í Árnes- og Rangárvallasýslum. Katla fór að ókyrrast á þessum árum og allt eins búist við gosi þá og þegar.

Stórtíðindi urðu annars ekki í landsmálum en út í heimi bar hæst hryðjuverkaárásin á Bandaríkin 11. september árið 2001. Árásin dró dilk á eftir sér og fór svo að fjölþjóðaher réðst inn í Afganistan til að koma talibönum frá og að hafa hendur í hári og skeggi Bin Ladens, sem reyndar fannst hvergi. Vonbrigði var fyrir Bandaríkin að Írakar hefðu ekki staðið að árásinni 11. september en strangt alþjóðlegt viðskiptabann var enn við lýði gagnvart Írak vegna meintra gjöreyðingarvopna sem þeir földu svo vel fyrir umheiminum.

Töflurnar hér að neðan sýna meðalhita hvers mánaðar í Reykjavík á tímabilinu og veðureinkunnir sem reiknast út frá mínu daglega einkunnarkerfi og liggur sá skali frá 0-8. Veðurfarslega slæmir mánuðir teljast þeir sem ná ekki fjórum, en hinir betri fá yfir 5 í einkunn. Einkunnirnar eru enginn stórisannleikur en þær byggjast á sólfari, hita, úrkomu og vindi. Ef kerfið virkar þá ættu umhleypingasamir mánuðir að fá lága einkunn og allar árstíðir ættu að eiga sömu möguleika á góðri útkomu.

Annáll 1999-02 hiti

Annáll 1999-02 einkunn

- - -

Veðurannáll 1987-1990: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224449/

Veðurannáll 1991-1994: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224957/

Veðurannáll 1995-1998: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2225258

 


Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti

Fjögurra ára tímabilið sem nú verður tekið fyrir er merkilegt fyrir þær sakir að þá urðu umskipti til hins betra í veðurfari á landinu. En þessi umskipti voru ekki áfallalaus eins og Vestfirðingar fengu svo illilega að kynnast. Þegar þarna var komið við sögu hafði hér á landi ríkt frekar kalt tímabil sem má segja að hafi hafist um haustið, 1965. Á þessu kalda tímabili var algengt að ársmeðalhitinn í Reykjavík væri á bilinu 4,0 til 4,5 stig. Alloft var þó kaldara, en kaldast var árið 1979 þegar meðalhitinn var aðeins 2,9 stig. Einungis fjögur ár náðu 5 stiga meðalhita í Reykjavík á tímabilinu. Undangengnir vetur höfðu margir verið snjóþungir, ekki síst fyrir norðan og vestan. Mikið snjóflóð hafði gert skaða á sumarhúsabyggð Ísfirðinga vorið áður auk þess sem manntjón varð. Vetrarlægðum með tilheyrandi fannfergi var því ekki tekið neitt sérlega fagnandi fyrir vestan í byrjun ársins 1995, sem hér fær heldur meiri umfjöllun en önnur ár í þessum annálaflokki og ekki eins Reykjavíkurmiðað og önnur ár.

Árið 1995 var kalt ár á landinu. Meðalhitinn í Reykjavík var 3,8 stig. Strax þarna fyrstu dagana í janúar bætti í snjóinn fyrir norðan og vestan og þann 15. gerði mikla norðan stórhríð á Vestfjörðum og féll þá snjóflóðið mikla yfir byggðina á Súðavík sem var 14 manns að bana. Fleiri snjóflóð féllu um svipað leyti, meðal annars í Reykhólasveit þar sem einn lést en auk þess varð eignatjón víðar á landinu vegna ofsaveðurs. Kalt var út veturinn í ríkjandi norðan- og norðaustanáttum sem þýddi reyndar að veðrið var yfirleitt með sæmilegasta móti sunnan heiða að kuldanum slepptum. Snjóþyngslin voru hinsvegar mikil fyrir norðan en mesta snjódýptin mældist í Fljótum á norðanverðum Tröllaskaga, 279 cm þann 19. mars og hefur ekki mælst meiri hér á landi á veðurathugunarstöð. Það voraði þó að lokum þrátt fyrir kaldan apríl, en skaflar vetrarins voru ansi þaulsetnir á norðurhelmingi landsins. Fyrir sunnan var allt með eðlilegra móti og maí var afar veðragóður í Reykjavík. Sumarið 1995 var ekkert betra en vænta mátti. Suðvestanlands var þó ágætis veður í júní og júlí en ágúst var hinsvegar sólarlítill og blautur. Haustið fór ágætlega af stað en dagana fyrir fyrsta vetrardag gerði slæmt norðaustan- og norðanáhlaup með snjókomu og víðtækri snjóflóðahættu á Vestfjörðum. Óhugur fór um Vestfirðinga í ljósi atburðanna í Súðavík í upphafi árs og talað um að enn einn snjóaveturinn gæti jafnvel gert út af við byggð á Vestfjörðum. Og svo féll flóðið á Flateyri þann 26. október þar sem 20 manns fórust, fjöldi íbúðarhúsa eyðilagðist og veturinn ekki formlega genginn í garð. Hörmulegra gat það varla orðið. En menn létu ekki deigan síga og svo fór reyndar að veður var skaplegt að mestu það sem eftir lifði árs, og það sem meira er, eftir snjóflóðið á Flateyri má segja að grundvallarbreyting hafi átt sér stað í veðurfari á landinu, nákvæmlega 30 árum eftir að kuldaskeiðið hófst með köldum nóvembermánuði haustið 1965.

Árið 1996 var meðalhitinn í Reykjavík 5,0 stig og veðurfar á landinu í heild almennt gott. Ekki veitti af eftir erfitt ár á undan en væntanlega hafa flestir litið á hið góða tíðarfar sem kærkominn stundarfrið frekar en einhver stór umskipti. Árið byrjaði með hlýjum janúar en febrúar var hinsvegar heldur kaldari og vetrarlegri. Aftur hlýnaði vel í mars og má segja að góð tíð hafi haldist út árið með þeirri undantekningu að nóvember var mjög kaldur á landinu og reyndar sá kaldasti á öldinni í Reykjavík, -1,7 stig. Desember var hinsvegar með öllu eðlilegra móti og meðalhitinn í borginni hálfri gráðu yfir frostmarki.

Árið 1997 gerði örlítið betur í Reykjavík en árið á undan hitafarslega og var ársmeðalhitinn 5,1 stig og hafði það ekki gerst síðan á 6. áratugnum að tvö ár kæmu í röð þar sem meðalhitinn næði 5 stigum. Fyrstu þrjá mánuðina var veðurfar reyndar frekar umhleypingasamt. Enn var febrúar kaldur og að þessu sinni mjög snjóþungur í Reykjavík. Vorið var þurrt og nokkuð gott en mikið norðanskot gerði snemma í júní sem dró niður meðalhita mánaðarins. Það hret var eitt sinn kallað Smáþjóðaleikahretið á þessari bloggsíðu. Ágætlega hlýtt var í júlí og ágúst en þó úrkomusamt suðvestanlands. Veturinn lét lengi bíða eftir sér og náði sér varla á strik fram að áramótum. Þann 14. desember mældist 12 stiga í Reykjavík sem er hitamet í þeim mánuði.

Á árinu 1998 slaknaði aðeins á hlýindum en árshitinn í Reykjavík var þá 4,7 stig sem þó var vel yfir þeim 4,3 stiga meðalhita áranna 1961-1990 sem þarna er miðað við. Fyrstu daga ársins var mjög hlýtt síðan tók við kaldari vetrartíð fram í mars með talsverðum frostum inni á milli, þá sér í lagi um mánaðarmótin febrúar og mars. Frekar snjólétt var þó á landinu og eins og veturna tvo á undan var lítið um vandræði vegna snjóflóðahættu. Apríl var þurr, sólríkur og frekar hlýr í Reykjavík en maí heldur þungbúnari. Júní var sólríkur og góður. Frekar kaldur að vísu fyrir norðan en í Reykjavík var þetta í fyrsta sinn í 32 ár sem meðalhitinn náði 10 stigum í júní. Ekki þarf mörg orð um seinni hluta ársins sem var tíðindalaust að mestu veðurfarslega séð. Þó má nefna til marks um breytt veðurfar að allur snjór hvarf úr Esjuhlíðum undir lok sumars sem var nýlunda á þessum árum og hafði ekki gerst í 30 ár eða svo.

Á heimsvísu var árið 1998 afgerandi hlýjasta árið sem mælst hafði á jörðinni og aukinn þungi í umræðum um hnattræna hlýnun af mannavöldum. Að vísu fengu hlýindin hjálp af öflugu El Nino ástandi í Kyrrahafinu en greinileg mælanleg hlýnun hafði þó átt sér stað á jörðinni frá því sem áður var. Efasemdaraddir voru þó farnar að heyrast. Danskir vísindamenn bentu til dæmis á breytileika í virkni sólarinnar en slíkar kenningar fengu ekki hljómgrunn hjá loftslagsnefndum.

Af jarðhræringum er það að segja að í lok september 1996 hófst talsvert eldgos í Vatnajökli er síðar var nefnt Gjálpargosið. Það olli síðan stóru og margboðuðu jökulhlaupi á Skeiðarársandi sem tók með sér brýr og vegi á hringveginum. Í desember 1998 kom upp gos í Grímsvötnum sem stóð í nokkra daga en olli engum skaða. Nokkuð var um að jarðskjálftar hristu hús höfuðborgarinnar og víðar SV-lands. Þeir stærstu voru á árinu 1998, á Hellisheiði og við Ölfus, um og yfir 5 stigum í júní og nóvember. Ýmislegt var því að gerast á þessum árum. Aukin hlýindi, fleiri jarðskjálftar, fleiri eldgos. Meira af slíku var í boði á því aldamótatímabili sem næst verður tekið fyrir.

Annáll 1995-98 hiti

Annáll 1995-98 einkunn

- - -

Veðurannáll 1987-1990: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224449/

Veðurannáll 1991-1994: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224957/


Veðurannáll 1991-1994

Þá er komið að næsta fjögurra ára tímabili í samantekt minni um veður og sitthvað fleira í þessari annálaröð minni. Tímabilið hófst með látum strax í ársbyrjun 1991, ekki bara í heimsmálum heldur einnig í náttúrunni, en hinn 17. janúar 1991 upphófst óvænt gos í Heklu. Síðast hafði Hekla gosið árið 1980, þar áður 1970 og ljóst að eitthvað nýtt var að gerast varðandi gostíðni í fjallinu. Þetta bar upp á nákvæmlega sama dag og brast á með margboðuðu Persaflóastríði, eða Flóabardaga eins það var stundum kallað hér. Stóru heimsmálin voru farin að færast til miðausturlanda, en kalda stríðinu lauk endanlega þegar Sovétríkin voru leyst upp í árslok 1991. Á þessu sama ári var hér á landi almennt fyrst farið að tala um nýja ógn í umhverfismálum sem kallaðist gróðurhúsaáhrif, eða hnattræn hlýnun af mannavöldum, sem átti að auka hlýnun jarðar ískyggilega mikið ef ekki yrði dregið úr kolefnisbruna. Einhver óvissa var þó með okkar slóðir því fyrstu tölvulíkön gerðu ráð fyrir kólnun hér á landi, jafnvel hálfgerðu ísaldarástandi. Nema hvað? En snúum okkur þá að veðrinu.

Fjögurra ára tímabilið 1991-1994 hófst eins og það fyrra, með hlýju ári þar sem meðalhitinn 1991 var 5,0 stig í Reykjavík og var það aðeins í annað sinn á 17 árum sem meðalhitinn náði þeirri tölu. Árið byrjaði þó ekki vel. Mikið ísingarveður norðanlands olli miklu tjóni á rafmagnslínum í upphafi janúarmánaðar og þann 3. febrúar gerði mikið skaðaveður suðvestanlands með víðtæku rafmagnsleysi og tjóni á höfuðborgarsvæðinu. Um hægðist í kjölfarið og varð veður nokkuð þægilegt eftir það. Sumarið var eftirminnilegt. Júní var alveg einstaklega sólríkur og þurr í Reykjavík sem og víðast hvar á landinu. Fyrri partinn í júlí gerði síðan mikla hitabylgju á landinu sem kom hitanum upp í 29 stig suðaustanlands og yfir 23 stig í Reykjavík sem er afar fátítt. Aftur náði hitinn 20 stigum í Reykjavík í lok mánaðar og fór svo að meðalhitinn í júlí náði 13 stigum í borginni og hafði ekki mælst hærri í nokkrum mánuði. Nokkuð hlýtt var áfram næstu misseri fyrir utan frostakafla í nóvember sem var kaldasti mánuður ársins og eini mánuðurinn á árinu með meðalhita nálægt núllinu.

Árið 1992 tók kaldur veruleikinn við á ný. Meðalhiti ársins endaði í 4,2 stigum sem þó var í meðallagi miðað við áratugina tvo á undan. Nokkuð hlýtt var reyndar í janúar en annars var mjög umhleypingasamt framan af árinu og í lokin. Vorið var ágætt en sumarið leið án almennilegra hlýinda. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna en þá snjóaði niður á láglendi fyrir norðan með miklum skaða fyrir fuglalíf. Fyrir sunnan snjóaði til fjalla. Meðalhitinn í júní var aðeins 7,8 stig og hefur sjaldan verið kaldara í þeim mánuði. Desember reyndist kaldasti mánuður ársins en þó sá eini undir frostmarki. Auk þess var leiðindatíð í mánuðinum, úrkomusamt og hvasst úr ýmsum áttum.

Árið 1993 var meðalhitinn áfram nálægt meðallagi eða 4,4 stig. Janúar var ansi kaldur (-2,3 stig) og snjóþungur í borginni en almennt var umhleypingasamt fyrstu mánuðina. Síðan tók við betri tíð með ágætu tíðarfari frá apríl til október. Bjart og þurrt var sunnanlands í júlí og framan af í ágúst en að sama skapi afleitt veður norðanlands. Eftir gott haustveður kom mjög votviðra- og illviðrasamur nóvember með metúrkomu í Reykjavík. Árið endaði svo með köldum og snjóþungum desembermánuði.

Árið 1994 var meðalhitinn í Reykjavík 4,1 stig og greinilegt að hin umtalaða hnattræna hlýnun lét áfram bíða eftir sér hér á landi, ef hún var þá yfirleitt væntanleg. Árið var hins vegar sólríkt og frekar þurrt í borginni enda norðanáttir ríkjandi með tilheyrandi snjóþyngslum á Norðurlandi og Vestfjörðum. Aftur var janúar kaldasti mánuðurinn (-1,7 stig) en meðalhitinn var einnig neðan frostmarks í mars og svo í desember. Sumarið var sæmilegt en var lengi að hrökkva í gang og var mánuðurinn með þeim svölustu í borginni (8,0 stig) en það var einmitt þarna sem Íslendingar komu saman á Þingvöllum til að fagna 50 ára lýðveldisafmæli. Það er að segja þeir sem komust á leiðarenda.

Í inngangi var minnst á Heklugosið sem hófst í janúar 1991 og var það eina gos tímabilsins. Síðar í mánuðinum varð jarðskjálfti upp á 4,7 stig við Skjaldbreið og fannst hann í Reykjavík. Jörð skalf einnig við Kleifarvatn í nóvembermánuðum 1992 og ’93, og í ágúst 1994 gerði skjálftahrinu við Hveragerði og náði þeir stærstu 4 stigum. Ekkert af þessu öllu tjóni að heitið geti. En náttúran lætur ekki að sér hæða eins og svo illilega kom í ljós á upphafsári fjögurra ára tímabilsins sem tekið verður fyrir í næsta pistli. Farið ekki langt.

Annáll 1991-94 hiti

Annáll 1991-94 einkunn

- - -

Veðurannáll 1987-1990: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224449/


Spáð í væntanlegan árshita í Reykjavík

Síðustu fimm mánuðir hafa verið af kaldara taginu í Reykjavík sem gefur tilefni til að velta vöngum um hvert stefnir með meðalhita ársins. Síðustu þrír mánuðirnir eru eftir og það veltur á frammistöðu þeirra hvort árið flokkist á endanum sem kalt ár, meðalhlýtt, eða jafnvel hlýtt ár.

Súluritið hér að neðan sýnir hvernig meðalhiti einstaka mánaða í Reykjavík hefur verið á árinu í samanburði við tvö tímabil. Fjólubláu súlurnar standa fyrir þá mánuði sem liðnir eru af þessu ári, en til samanburðar eru síðustu 10 ár (rauðar súlur) og 30 ára viðmiðunartímabilið (bláar súlur) sem enn er í gildi og uppnefnist hér sem fyrr kalda meðaltalið. Lengst til hægri eru auk þess nokkrar árshitasúlur. Allt eins og áður hefur verið boðið upp á.

Meðalhiti 2018 sept

Eins og sjá má þá var meðalhiti fyrstu mánaðanna á nokkuð eðlilegu róli. Janúar var reyndar undir 10 ára meðaltalinu en apríl vel yfir því. Frá því í maí og fram til september hefur hinsvegar sigið á ógæfuhliðina og meðalhiti mánaðanna verið um eða undir hinu svokallaða kalda meðaltali áranna 1961-1990, en ársmeðalhiti þess tímabils var 4,3 stig í Reykjavík. Til samanburðar hefur meðalhiti síðustu tíu ára verið 5,45 stig samkvæmt því sem mér reiknast til.

Ef við reiknum með því að síðustu þrír mánuðirnir verði áfram í þessu kalda meðaltali þá stefnir í að meðalhiti ársins verði um 4,7 stig (tæplega þó), eins og sýnt er með dökkbláu súlunni til hægri á myndinni. Ef hinsvegar hitinn nær sér á strik og verði í hlýja 10 ára meðaltalinu þá ætti meðalhitinn að verða um 4,9 stig. Hvort tveggja myndi ég flokka sem meðalár í hita þótt niðurstaðan sé ekkert sérstök miðað við það sem við höfum átt að venjast á þessari öld. Meðalhitinn getur þó alveg orðið lægri og ógnað 2015 sem svalasta ári þessarar aldar sem endaði í 4,5 stigum, en til þess þarf meðalhitinn síðustu mánaðanna að vera undir kalda meðaltalinu. Svo má gæla við möguleikann á að árshitinn fari niður í 4,3 stig ef allt fer á versta veg, en sá árshiti hefði reyndar ekki þótt frásögum færandi í mínu ungdæmi. Enn er samt líka möguleiki á einn einu hlýja árinu með meðalhita yfir 5 stigum ef hlýindi ná sér almennilega á strik á ný. Manni finnst það reyndar frekar ólíklegt eftir það sem á undan er gengið enda virðumst við dálítið fara á mis við hina hlýrri loftstrauma þessi misserin. Hvað sem síðar verður.

 


Hafíslágmarkið á norðurslóðum og jákvæður NAO

Eins og vera ber í september þá er hið árlega lágmark hafíssins á norðurslóðum að baki sem þýðir að nýmyndun hafíss hafin á ný eftir sumarbráðnunina. Hafíslágmarkið er stór viðmiðunarpunktur á ástandi hafíssins og tilvalinn tímapunktur til að bera saman heilbrigði ísbreiðunnar milli ára. En hver er þá staðan nú? Sé miðað við gögn frá NSIDC (Bandarísku snjó- og ísmiðstöðinni) þá var lágmarksútbreiðslan að þessu sinni sú sjötta til sjöunda lægsta síðan nákvæmar gervihnattamælingar hófust árið 1979. Lágmarksútbreiðslan í ár var nánast sú sama og árið 2008 og var lítillega lægri en árin 2010 og 2017. Lágmarkið samkvæmt NSIDC var 4,596 milljón ferkílómetrar og fór lægst kringum 18. september en þá er miðað við fimm daga meðaltal. Árið 2012 heldur enn stöðu sinni með langlægsta sumarlágmarkið 3,387 milljón km2, en árin 2007 og 2016 eru í 2. og 3. sæti. Þetta má meðal annars sjá á spagettílínuritinu hér að neðan. Árið 2018 er merkt með þykkri dökkri línu.

Hafíslágmark Sept 2018
Ef miðað er við tímabilið frá og með tímamótaárinu 2007 er útbreiðslan núna ekki fjarri meðallagi, en þó mun minni en mældist í lok sumars á gervihnattaárum fyrir árið 2007 og að öllum líkindum minni en hún var nokkru sinni á síðustu öld. Þótt útbreiðslan sveiflist nokkuð á milli ára þá hefur í raun lítið gerst í útbreiðslumálum að haustlagi eftir 2007 ef undan er skilið metárið 2012. Ísinn virðist því ekki vera að hverfa alveg strax og hann er heldur ekki að jafna sig, hvað sem síðar verður. Aftur á móti hafa vetrarhámörkin verið með minnsta móti síðustu fjögur ár sem er í takt við vetrarhlýindi sem ríkt hafa á Norðurslóðum undanfarna vetur.

Hafíslágmark 2018
Kortið hér að ofan frá Bremen-háskóla sýnir hvernig ísbreiðan leit út þann 18. september en til viðmiðunar bætti ég sjálfur við appelsínugulri línu sem sýnir metlágmarkið 2012. Í heildina er ísinn núna nokkuð samanþjappaður þar sem hann er, allavega miðað við stundum áður þegar ísinn hefur verið dreifður um stærra svæði og gisinn eftir því, jafnvel á sjálfum pólnum. Á kortinu má einnig sjá hversu lítill ís er austur af Grænland, eða varla nokkur. Ísinn hefur einnig hörfað vel norður af Svalbarða og áfram hringinn alveg að Alaska, ef frá er talin þaulsetin ístunga sem teygir sig í átt að Austur-Síberíu. Þessi ístunga hefur þó mikið verið að rýrna undanfarið sem á sinn þátt í því að hafíslágmarkið hefur dregist dálítið á langinn. Ísinn er aftur á móti nokkuð mikill norður af Kanada en kuldar þar og ríkjandi vindar hafa verið nokkuð duglegir að beina ísnum þangað og milli heimskautaeyjanna, í stað þess að beina ísnum út um Fram-sundið milli Grænlands og Svalbarða.

Að mínu mati og kannski einhverra annarra er þessi tilhneiging í færslu íssins hluti af stærri óvenjulegheitum sem staðið hafa yfir frá síðasta vetri sem lýsa sér í veikri Grænlandshæð og sterkum lægðargangi suður með Grænlandi. Það ætti að leiða til aukinna hlýinda austan Grænlands og hlýnandi sjávar allra nyrst í Atlantshafinu sem heldur aftur af hafísnum þar. Aftur á móti þá safnast kuldinn fyrir nyrst í Kanada og vestur af Grænlandi og streymir þaðan suður og veldur kælingunni á Atlantshafinu, suður af Grænlandi. Einhverjir vilja reyndar kenna þá kælingu við hægingu á Golfstraumi eða bræðsluvatni frá Grænlandi. Ég vil hins vegar leyfa mér að kalla þetta hvert annað frávik enda hefur hinn svokallaði NAO vísir (North Atlantic Oscillation) verið í sterkum jákvæðum fasa mánuðum saman og reyndar síðustu vetur einnig, sem lýsir sér einmitt í öflugri Íslandslægð með öllu því sem henni fylgir fyrir okkur.

samsett NAO+ 2018

Kortin hér að ofan frá ClimateReanalyzer eru nokkuð dæmigerð fyrir þá stöðu en þau eru frá 30. ágúst sl. og sýna annarsvegar loftþrýsting og hinsvegar frávik í sjávarhita. Pílurnar eru viðbætur frá mér. Hér fyrir neðan má síðan sjá hvernig NAO-vísirinn hefur þróast frá 1995 til 2018. Sveiflurnar hafa aukist frá því sem var og jákvæður NAO-vísir orðið mun algengari en á árunum 1995-2011, sem hefur sín neikvæðu áhrif á sjávarhita suðvestur af landinu, en velgir vel nyrstu norðurhöf við Atlantshafið. Ýmislegt má annars lesa úr myndinni eins og að rauð tímabil eru ekki vænleg hér suðvestanlands en öllu skárri norðaustanlands.

NAO 1995-2018


Hversu slæmt var sumarið í Reykjavík?

Já það er víst engum blöðum um það að fletta að sumarið, sem hér telst til mánaðanna júní til ágúst, var ekkert gæðasumar hér í Reykjavík sem og almennt á sunnan- og vestanverðu landinu. Veðurgæðunum var reyndar mjög misskipt eftir landshlutum fram eftir sumri en það jafnaðist heldur út eftir því sem á leið með nokkrum ágætis sólardögum suðvestanlands síðasta mánuðinn. Til að fá samanburð við fyrri sumur þá kemur hér á eftir hin árlega sumareinkunn sem er unnin upp úr mínum eigin veðurskráningum sem staðið hafa frá árinu 1986. Sumareinkunnin er tekin saman af mínum eigin daglegu skráningum á veðurþáttunum fjórum, sól, úrkomu, hita og vindi þar sem hver veðurþáttur leggur til 0-2 stig til veðureinkunnar sem getur þar með verið á bilinu 0-8 stig. Þegar meðaleinkunn allra sumardagana er reiknuð fæst út sumareinkunn sem að þessu sinni er 4,27 stig sem er ekki bara með lökustu sumareinkunnum frá upphafi skráninga heldur næst lægsta einkunnin sem ég hef gefið því aðeins sumarið 1989 státar af lægri einkunn. Litlu munar þó á nýliðnu sumri og nokkrum öðrum misheppnuðum sumrum svo sem árin 1988, 1992, 1995 og 2013. Samanburðinn má sjá á súluritinu hér að neðan.

Sumareinkunnir 86-18
Til viðmiðunar má nefna að meðaleinkunn allra skráðra sumarmánaða er um 4,75 stig. Allt þar fyrir ofan er því nokkuð gott og mjög gott ef sumareinkunn nær 5 stigum eins og gerðist flest sumur á gæðatímabilinu 2007 til 2012. Sumarið 2012 státar af bestu einkunninni en svo kom bakslagið mikla 2013. Aftur náðu sumrin sér smám saman strik þar til nú í sumar að allt fór í baklás á ný.

Af einstökum mánuðum þessa sumars þá fékk júní einkunnina 4,0 sem er lægsta júníeinkunn síðan 1992. Mánuðurinn var sá svalasti síðan 1997, úrkomusamur og sólarstundir ekki færri síðan 1914! Júlí var litlu skárri með einkunnina 4,1 en aðeins 1989 státar af lakari júlíeinkunn. Heldur rættist úr í ágúst sem fékk einkunnina 4,7 sem þýðir að hann var miðlungsgóður mánuður í heildina. En þótt ræst hafi eitthvað úr sumrinu er á leið þá var heldur verra að hinn slaki júnímánuður tók við að mjög umhleypingasömum og gegnblautum maímánuði sem fékk ekki nema 3,5 í einkunn hjá mér sem er það lægsta sem maímánuður hefur fengið í mínu einkunnakerfi.

Í samræmi við annað þá var sumarið það svalasta í Reykjavík á öldinni og svipað sumrinu 1995 að hitafari. Með þessu sumri má alveg tala um að um að bakslag sé komið í sumarveðurgæðin hér í Reykjavík, allavega miðað við hin mjög svo hlýju og góðu sumur sem Reykvíkingar upplifðu mörg ár í röð fyrir nokkrum árum. Kannski má þó segja að meiri breytileiki sé nú ríkjandi í sumarveðurgæðum sem allt eins má líta á sem afturhvarf til eðlilegs ástands. Svo má ekki gleyma því að veðrið í Reykjavík segir ekki til um veðrið á landinu öllu. Veðurgæðum getur verið afar misskipt á landinu enda yfirleitt ekki gott að vera áveðurs í hafáttunum að sumarlagi.


Skýstrókar við Suðuströndina

Í gönguferð minni um Grindarskörð og Hvirfil ofan Lönguhlíðar varð ég vitni af skýstróknum við Þorlákshöfn sem fjallað er um í viðtengdri frétt og náði hinum sæmilegustu myndum af fyrirbærinu. Ekki nóg með það því skömmu eftir að strókurinn leystist upp fór annar að myndast nálægt Selvogi að mér sýndist. Yfir þetta hafði ég ágætis útsýni en gjarnan hefði ég viljað hafa almennilegu myndavélina meðferðis í stað símamyndavélarinnar. Myndirnar segja þó sýna sögu og eru teknar þann 1. ágúst 2018 milli kl. 15 og 16.

Skýstrókur Þorlákshöfn 1

Kl. 15:19. Þessi fyrsta mynd er tekin í átt að Þorlákshöfn og sjá má litla mjóa totu teygja sig niður úr bólstraskýinu.

Skýstrókur Þorlákshöfn 1

Kl. 15:25. Totan hefur lengst og var hér orðin að löngum mjóum spotta sem virtist ná langleiðina til jarðar. Myndin er tekin á svipuðum stað og sú fyrri en sjónarhornið er þrengra. Skömmu síðar leystist hvirfillinn upp og sást ei meir.

Skýstrókur Selvogur

Kl. 15:36. Hér er horft lengra í vestur í átt að Selvogi en þarna virðist nýr skýstrókur vera byrja að skrúfast ofan úr skýjunum.

Skýstrókur Selvogur 2

Kl. 15:40. Sama sjónahorn og á myndinni á undan en þarna er nýi skýstrókurinn fullmyndaður. Hann er heldur breiðari um sig en sá fyrri, nær beint niður og svífur ekki um eins og hinn gerði. Væntanlega hefur hann ekki gert mikinn usla á jörðu niðri en kannski náð að róta einhverju upp mjög staðbundið. Þessi skýstrókur varði í nokkrir mínútur í þessu formi.

Skýstrókur Selvogur 3

Kl. 16:02. Um 20 mínútum eftir að skýstrókurinn fór um Selvoginn, helltist úrkoman úr skýinu.

Útsýni til borgarinnar

Horft frá sama stað í hina áttina þar sem sést til Höfuðborgarsvæðisins. Helgafell er þarna vinstra megin og Húsfellið er hægra megin. Miklir hvítir skýjabólstrar eru yfir Esju en veðrið er annars mjög meinlaust. Mikill óstöðugleiki er greinilega þennan dag, kalt í efri lögum og talsverður raki í lofti sem þéttist í uppstreyminu. Um morguninn hafði þokuslæðingur legið yfir sundunum.

Hvað veldur því að svona greinilegir skýstrókar hafi myndast þennan dag vil ég segja sem minnst. Þessir strókar eru auðvitað ekkert sambærilegir þeim sem myndast í USA, bara smá sýnishorn. Öflugt uppstreymi hér á landi er þó ekki óalgengt sérstaklega ekki yfir sólbökuðum söndunum við Suðurströndina. En oftast er uppstreymið nánast ósýnilegt. Þennan fyrsta dag ágústmánaðar hefur rakinn hinsvegar verið nægur til að þétta rakann í uppstreyminu og gera það sýnilegt þegar loftið skrúfast upp í loftið eins og öfugt niðurfall í vatnstanki.

- - -

Viðbót 2. ágúst: Ranaský (funel cloud) er eiginlega réttara heiti yfir þetta fyrirbæri sem myndaðist þarna, samkvæmt því sem Trausti Jónsson segir á Fésbókarsíðu Hungurdiska. Alvöru skýstrókar eru stærri og öflugri fyrirbæri. En hvað sem þetta kallast þá var þetta óvenjuleg sjón og ég held útskýring mín á fyrirbærinu sé ekki fjarri lagi.

 


mbl.is Skýið teygði sig til jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitainnrás á sunnudegi

Á þessu sérstaka sumri þar sem hitinn hefur varla farið yfir 15 stigin í Reykjavík telst það til mikilla tíðinda að von sé á skammvinnri innrás af því mjög svo hlýja meginlandslofti sem legið hefur yfir Norður-Evrópu meira og minna í allt sumar. Reyndar eru svona hlýindagusur úr austri alltaf áhugaverðar enda gefa þær mestu líkurnar á því að hitinn fari yfir 20 stig hér í höfuðborginni. En þetta verða skammvinn hlýindi því kaldara og kunnuglegra sjávarloft fylgir strax í kjölfarið. Myndina hér að neðan hef ég sett saman út frá veðurkortum bresku veðurstofunnar MetOffice, sem sýna þróunina á einum sólarhring með aðstoð hefðbundinna rauðra hitaskila og blárra kuldaskila.

Hitabylgja_29jul2018

Á fyrsta kortinu kl. 01.00 á sunnudag má sjá hvernig lægð við Skotland beinir hlýjum massanum hingað til okkar. Rauðu hitaskilin eru þarna komin yfir landið en þó rignir sennilega enn úr þeim allra suðvestast. 

Á miðjukortinu sem gildir upp úr hádegi, sunnudaginn 29. júlí, eru hlýindin í algleymingi. Mest þó í landáttinni vestanlands þar sem hægt er að gera sér vonir um meira en 20 stiga hita. Sjálfvirkar spá nefna allt að 25 stiga hita í Reykjavík sem væri talsverður viðburður. Minna má á að hið opinbera hitamet í Reykjavík er 25,7 stig frá 30. júlí 2008 sem er nánast alveg fyrir 10 árum. Munar bara einum degi. Maður gerir auðvitað ekki ráð fyrir að 25 stiga spáin rætist en möguleikinn virðist vera til staðar.

Á þriðja kortinu kl. 01.00 á mánudag er gamanið búið og loft af hefðbundnari uppruna fyrir okkur hefur náð yfirhöndinni að nýju á öllu landinu. Hlýi geirinn hefur verið hrakinn til vesturs,  væntanlega með góðum dembum þegar kuldaskilin fara yfir, kannski með skammvinnu hagléli og ef til vill eldingum á einhverjum stöðum. Og svo mun auðvitað líka blása sumstaðar, án þess að ég fari út í það.

Allt ákaflega forvitnilegt. Ekki síst fyrir sjálfmenntaða heimilisveðurfræðinga eins og mig.

Veðurkort Bresku Veðurstofunnar má finna hér: https://www.metoffice.gov.uk/public/weather/surface-pressure/#?tab=surfacePressureColour&fcTime=1530666000

- - - -

Viðbót að loknum degi: Sunnudagurinn 29. júlí, var hlýr eins og gert hafði verið ráð fyrir. Hámarkshitinn í Reykjavík mældist 23,5 stig þrátt fyrir að sólin hafi lítið látið sjá sig. Á hitalínuriti sést hvernig hitinn þróaðist í Reykjavík (rauð lína) á sjálfvirkum mæli Veðurstofunnar. Hitinn tók stökk upp á við snemma morguns og kominn yfir 20 stig fyrir kl. 9.00. Eftir klukkan 16.00 féll hitinn hratt þegar kuldaskilin fóru yfir. Það gerðist þó ekki með miklum úrkomuákafa og því síður með hagli eða eldingum í borginni.

hitaskot 29jul2018


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband