Færsluflokkur: Veður

Samanburður á sumarveðurgæðum í Reykjavík

Nú eru aðal-sumarmánuðirnir að baki og landsmenn sjálfsagt missáttir við sitt sumarveður eftir því hvar á landinu þeir eru. Sumarið 1986 fór ég að skrá niður veðrið í Reykjavík get því borið saman einstök ár veðurfarslega séð. Þar að auki hef ég komið mér upp sérstöku einkunnakerfi til að meta veðurgæði með því að gefa hverjum degi veðurfarslega einkunn sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita. Hver hinna fjögurra veðurþátta leggja af mörkum 0-2 stig til einkunnar dagsins sem getur verið á bilinu 0-8 stig. Mánaðareinkunn reiknast svo útfrá meðaltali allra daga. Þetta hef ég útskýrt áður.

Með sömu aðferð hef ég reiknað út meðaleinkunn heilu sumranna og borið saman veðurgæðin eins og þau koma út úr mínum skráningum. Niðurstöðuna má sjá á eftirfarandi súluriti þar sem sjá má að sumarveðrið í Reykjavík 2013 fær einkunnina 4,37 sem er aldeilis ekki góð einkunn og sú lakasta síðan 1985. Síðustu sumur hafa verið mun betri. Hæstu einkunn fær sumarið 2009: 5,37 en sumarið 1989 er það lakasta með 4,10 stig. Niðurstöðum má taka með vissum fyrirvara enda miðast einkunnir við mitt skráningarkerfi. Með öðrum aðferðum fást sjálfsagt aðrar niðurstöður varðandi einstök sumur. En hér er myndin:

Sumareinkunnir

Hér kemur mjög stuttaraleg lýsing á öllum sumrum frá árinu 1986. Tek fram að aðallega er miðað við mitt heimapláss, Reykjavík, nema annað sé tekið fram:

1986 4,46 Júní var dimmur, kaldur og blautur suðvestanlands en júlí og ágúst öllu betri.
1987 4,73 Sólríkt og þurrt í júní og ágúst, en júlí var sólarlítill og blautur.
1988 4,30 Afar slæmur júnímánuður og einn sá sólarminnsti í Reykjavík. Júlí var ágætur en ágúst ekkert sérstakur. Óvenjumikið þrumuveður suðvestanlands þann 10. júlí.
1989 4,10 Að þessu sinni var það júlí sem brást algerlega og var sá sólarminnsti sem mælst hefur í Reykjavík auk þess að vera kaldur. Júní og ágúst voru einnig frekar svalir er skárri að öðru leyti.
1990 4,50 Lítið eftirminnilegt sumar sem var í slöku meðallagi. Reykjavíkurhitinn júlí var þó sá hæsti í 22 ár.
1991 4,93 Júní var sérstaklega sólríkur og á eftir fylgdi heitasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík og voru slegin hitamet víða um land. Í mikilli hitabylgju náði hitinn 23,2 stigum í borginni þann 9. júlí en sá mánuður varð hlýjastur allra mánaða í Reykjavík 13,0 gráður.  
1992 4,37 Sumarið var ekkert sérstakt og aldrei mjög hlýtt. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna í annars mjög köldum júnímánuði, þar snjóaði fyrir norðan og einnig til fjalla sv-lands.
1993 4,70 Ágætt tíðarfar en besta veðrið var í júlí. Þá var mjög bjart og þurrt í Reykjavík en kalt fyrir norðan.
1994 4,80 Sumarið var sæmilegt með köldum júnímánuði en júlí var frekar hlýr.
1995 4,33 Sumarið ekki gott nema hvað júlí var ágætur. Ágúst var mjög þungbúinn.
1996 4,63 Fátt eftirminnilegt þetta sumar. Ágúst var mjög dapur í Reykjavík en góður kafli kom um miðjan júlí.
1997 4,80 Sumarið var þurrt og bjart framan af en júlí og ágúst ollu vonbrigðum SV-lands.
1998 4,93 Sumarið var gott í heildina. Júnímánuður var bjartur og þurr og var ásamt ágúst sá hlýjasti í mörg ár.
1999 4,60 Sumarið var frekar blautt þar til í ágúst, en þá var bjart og hlýtt.
2000 4,77 Ágætt sumar með köflum en mjög sólríkt og þurrt var fyrir norðan og austan.
2001 4,70 Sumarið var ágætt í heildina þó lítið væri um hlýja daga.
2002 4,57 Af sumarmánuðunum var júní að þessu sinni sá hlýjasti, hæst komst þá hitinn í 22 stig sem er hitamet fyrir júní. Sumarið þótti ekkert sérstakt en var nokkuð milt.
2003 4,80 Júní og ágúst urðu hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík enda var sumarið það hlýjasta sem mælst hafði í borginni sem og víða um land. Nokkuð rigndi þó með köflum.
2004 5,13 Sumarið var bæði hlýtt og sólríkt. Í ágúst gerði mikla hitabylgju SV-lands þar sem hitinn fór yfir 20 stig í borginni fjóra daga í röð, nýtt hitamet í Reykjavík var þá slegið í Reykjavík 24,8°.
2005 4,73 Sumarið var sæmilegt fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí.
2006 4,47 Sumarið var þungbúið og blautt suðvestanlands framan af en rættist heldur úr því er á leið.
2007 5,13 Sumarið var yfirleitt hlýtt og þurrt og mjög gott um mest allt land. Í Reykjavík var júlímánuður sá næst hlýjasti frá upphafi.
2008 4,90 Afar sólríkur og þurr júnímanaður en síðan köflóttara, mjög rigningarsamt í lok ágúst. Aftur var slegið hitamet í Reykjavík í hitabylgju undir lok júlí þegar hitinn komst í 25,7°.
2009 5,37 Mjög gott sumar sunnan og vestanlands, sérstaklega júlímánuður sem var sá þurrasti í Reykjavík síðan 1889 og sjálfsagt einn af bestu veðurmánuðum sem komið hafa í Reykjavík.
2010 5,13 Eitt hlýjasta sumar í Reykjavík. Júní var sá hlýjasti frá upphafi, júlí jafnaði metið frá 1991 og ágúst með þeim hlýjustu. Aldrei var þó um að ræða verulega hitabylgju.
2011 5,03 Sumarið byrjaði heldur kuldalega, sérstaklega norðaustanlands. Annars yfirleitt bjart og þurrt suðvestanlands.
2012 5,33 Mjög gott sumar víðast hvar. Sólríkt, þurrt og hlýtt. Óvenjudjúp sumarlægð kom suður að landi 22. júlí.
2013 4,37 Mikið bakslag í veðurgæðum sunnan- og vestanlands. Ágætis kafli seinni hlutann í júlí bjargaði þó miklu.

- - - -
Útfrá veðrinu í sumar er greinilegt að þau sumarveðurgæði sem verið hafa í Reykjavík undanfarin ár voru ekki alveg komin til að vera enda varla við því að búast. Kannski mun líða langur tími uns við upplifum aðra eins 6-ára syrpu gæðasumra. En hver veit? 


Veðureinkunn júlímánaðar fyrir Reykjavík - og Akureyri

Nú er hinn skrautlegi júlímánuður liðinn og ég búinn að reikna út veðureinkunn mánaðarins sem fengin er út úr mínum prívat veðurskráningum. Eins og áður er rétt að taka fram að ég hef haldið úti veðurdagbók frá árinu 1986 og gef hverjum degi veðureinkunn sem byggð er á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, hita og vindi. Ef allir þættirnir eru jákvæðir fær sá dagur 8 stig en 0 stig ef allir þættirnir eru neikvæðir. Einkunn mánaðarins er síðan meðaleinkunn alla daga mánaðarins. Meðaleinkunn júlímánaða frá upphafi er 4,8 stig. Skráningarnar miðast við veðrið eins og það er yfir daginn í Reykjavík en að þessu sinni prófaði ég einnig að skrá veðrið á Akureyri með sama hætti, en þar varð ég eingöngu að reiða mig á athuganir sem birtast á vef Veðurstofunnar. Ég geri grein fyrir Akureyrareinkunninni í lok pistilsins, en fyrst er það Reykjavík.

Nýliðinn júlímánuður í Reykjavík fékk samkvæmt þessu kerfi einkunnina 4,6 sem telst vera í lakara lagi en þó ekki fjarri meðallagi.
Fyrri hluti mánaðarins var reyndar afleitur eins og frægt er enda var einkunnin ekki nema 3,9 stig fyrstu 15 daga mánaðarins og minnti ástandið á hina verstu rigningarmánuði fyrri aldar auk þess sem hlýindin létu mjög á sér standa. Þetta voru mikil viðbrigði eftir þau góðu sumur sem hafa verið ríkjandi hér síðan 2007 en einnig áminning um að tímar kaldra rigningarsumra hér í bæ þarf alls ekki að vera liðinn.
Seinni hluti mánaðarins gerði mun betur og náði 5,4 stigum í einkunn sem er mjög gott. Sólin lét þá sjá sig og hitinn náði sér vel á strik með hlýrra, Evrópuættuðu lofti (jafnvel konunglegu). Að vísu fengum við aðeins smjörþefinn af hitabylgjunni sem náði sér vel á strik inn til landsins eins og oft vill verða en þó náði hitinn 20,2 stigum þann 27. júlí og sumarið þar með komið í flokk 20 stiga sumra í Reykjavík en þau hafa verið óvenjumörg það sem af er öldinni.

Júlí einkunnir 1986-2013

Samanburður við fyrri ár sést á súluritinu hér að ofan. Þar trónir júlí 2009 hæst með einkunnina 5,8 sem er alveg frábær einkunn sem erfitt verður að toppa í framtíðinni (sérstakur pistill er til um þann mánuð). Júlí 2007 er í öðru sæti með 5,5 en það sumar var það fyrsta í röð góðviðrissumra sem þetta sumar virðist ekki ætla að verða hluti af. Júlí 2013 er þarna með sín 4,6 stig sem er heldur betra en júlí 2006 sem fékk 4,4 stig.
Margir júlímánuðir tímabilsins hafa orðið meðalmennskunni að bráð og eru lítt eftirminnilegir. Júlí 1989 var hinsvegar eftirminnilega slæmur enda sólarlausasti júlí í Reykjavík og kaldur og blautur að auki. Hann fékk einkunnina 3,9 sem er reyndar það sama og fyrri hluti nýliðins júlímánaðar fékk. En það er að vísu ekki keppt í því. Júlí 1991 með einkunnina 5,1 verður lengi í minnum hafður vegna hitabylgjunnar miklu snemma í mánuðinum og endaði meðalhitinn í 13,0 stigum sem þá var nýtt mánaðarmet  í Reykjavík. Í dag deilir mánuðurinn metinu með júlí 2010 sem einnig náði 13,0°C í meðalhita.

Akureyri 4,9
Eins og ég nefndi í upphafi þá gerði ég tilraun með að skrá einnig veðrið á Akureyri þennan mánuð sem var nokkuð lærdómsríkt. Einkunnin sem út úr því kom er 4,9 sem er í góðu meðallagi miðað við Reykjavík en spurning er hvernig samanburðurinn er við fyrri ár á Akureyri - heimamenn hafa kannski einhverja tilfinningu fyrir því. Eins og maður vissi fyrir þá eru meiri hitasveiflur fyrir norðan en hér fyrir sunnan. Kalt var framan af á Akureyri og allmargir dagar sem varla eða alls ekki náðu 10 stigum yfir daginn. Tvo daga skráði ég þar sem hitinn var yfir 20 stigum meira og minna yfir daginn en hlýjast var í sunnanáttinni þann 10. júlí og aftur varð mjög hlýtt þann 21. júlí. Hafgolan á Akureyri virðist vera meira afgerandi en í Reykjavík, bæði hvað varðar vind og hita. Í heildina voru veðurþættirnir fjórir heldur hagstæðari á Akureyri en í Reykjavík þótt ekki hafi munað miklu. Aðrir fylgjast betur með því, en ég læt þetta nægja.

 


Hversu gott eða slæmt var veðrið í júní?

Eins og ég gaf í skyn í síðustu færslu þá ætla ég nú að skoða veðurfarslega einkunn nýliðins júnímánaðar sem fengin er út úr veðurskráningarkerfi mínu og bera saman við fyrri ár. Fyrir þá sem enn ekki vita þá hef ég haldið úti linnulausum veðurdagbókarskráningum frá því í júní 1986 og nota til þess mínar eigin skráningaraðferð sem á að lýsa hinu dæmigerða veðri í Reykjavík á hverjum degi. Aðferðin byggist á því að skipta veðrinu í fjóra þætti: sól, úrkomu, vind og hita og getur hver þáttur verið neikvæður, í meðallagi eða jákvæður. Út frá þessu gef ég svo hverjum degi einkunn á skalanum 0-8. Núll stig fær dagur sem hefur alla þættina neikvæða en átta stiga dagurinn hefur alla þættina jákvæða. Hvort tveggja er að vísu sjaldgæft. Þegar allir dagar mánaðarins hafa fengið sína einkunn er lítið mál að að finna meðaleinkunn mánaðarins sem verður þá auðvitað veðureinkunn mánaðarins.

Nýliðinn júnímánuður fékk samkvæmt þessu kerfi einkunnina: 4,4 sem eiginlega er ekki nógu gott því meðaleinkunn allra skráðra júnímánaða er 4,7. Þetta er samt nokkuð frá því versta því lélegasta júní-einkunnin er 3,6 frá árinu 1988. Allra besta einkunnin fékkst hins vegar árið 2012 í fyrra, 5,9 stig, sem kannski hljómar ekki mikið en á þessum kvarða er það alveg rosalega gott.

Að þessu sinni fékk aðeins einn dagur 7 í einkunn en það var síðasti dagur mánaðarins, 30 júní. Út á hann var ekkert að setja nema goluna sem þýddi að vind-þátturinn var í meðallagi en hinir þrír voru jákvæðir, eða: 1+2+2+2=7. Enginn dagur fékk þó núll eða eitt stig en tveir fengu tvö stig. Það voru 1. og 27. júní sem báðir fengu sín stig fyrir að úrkoman var ekki óþægilega mikil og vindurinn ekki bagalegur. Annað var hinsvegar neikvætt. Einungis þrír dagar fengu sex stig en til þess að sumarmánuður nái sér á strik þarf sú góða einkunn að koma upp mun oftar. Flestir dagar mánaðarins voru því að dóla sér í kringum meðallagið eða þar undir.

Aðrar og hefðbundnari veðurgreiningar læt ég aðra um en hér kemur súlurit yfir veðureinkunnir allra skráðra júnímánaða 1986-2013. Undir því er lauflétt útlistun á því helsta sem einkenndi mánuðina í Reykjavík - hafi eitthvað yfirhöfuð einkennt þá.

Júní einkunnir 1986-2013

1986 4,0  Svalt og afar sólarlítið. Úrkomusamt framan af.
1987 5,1  Sólríkur og þurr mánuður.
1988 3,6  Sólarminnsti júní frá upphafi mælinga. Oft kaldar og hvassar sunnan- og suðvestanáttir.
1989 4,4  Kalt í byrjun þegar Páfinn kom. Síðan hvasst en sólríkt í lokin.
1990 4,5  Þungbúið framan af en sólríkt og gott eftir 17. júní.
1991 5,3  Mjög sólríkt og þurrt. Norðanáttir eða hafgola ríkjandi.
1992 4,0  Kaldur mánuður. Jónsmessuhretið skall á fyrir norðan 23.-24. júní.
1993 4,6  Nokkuð tíðindalítið.
1994 4,5  Nokkuð kalt. Lýðveldishátíðin haldin á Þingvallavegi.
1995 4,3  Frekar tíðindalítið en heldur dapurt í heildina.
1996 4,6  Nokkuð tíðindalítið.
1997 5,1  Sólríkt, þurrt og hægviðrasamt en ekki hlýtt.
1998 5,3  Sólríkt, þurrt og hægviðrasamt með hlýjum dögum seinni partinn.
1999 4,4  Nokkuð tíðindalítið en frekar dapurt í heildina.
2000 4,6  Frægastur er mánuðurinn fyrir Suðurlandsskjálftana.
2001 4,6  Svalt framan af en betra þegar á leið. Sól og þokubakkar síðustu vikuna.
2002 4,9  Óvenju hlýtt lengst af og mesti hiti sem mælst hefur í júní: 22 stig þann 11.
2003 4,6  Hæsti meðalhiti í júní fram að þessu. Annars fremur sólarlítið og blautt.
2004 4,9  Yfirleitt hlýtt og gott
2005 5,0  Aftur yfirleitt hlýtt og gott
2006 4,1  Úrkomusamt og almennt frekar dapurt
2007 5,0  Byrjaði illa en stórbætti sig með sól, þurrki og hlýindum þegar á leið.
2008 5,3  Hlýtt, mjög sólríkt og þurrt en frekar vindasamt framanaf
2009 4,9  Nokkuð breytilegt en þó hægviðrasamt
2010 5,2  Góður og mjög hlýr mánuður sem bætti meðalhitametið frá 2003.
2011 4,9  Svalt framan af en hlýnaði síðan ágætlega. Slæmt norðaustanlands.
2012 5,9  Allt við það allra besta. Hlýtt, sólríkt, þurrt og hægviðrasamt. Toppmánuður!
2013 4,4  Sólarlítið og almennt síðra en undanfarin ár. Þó ekki kalt.

 


mbl.is Sviknir um 90 sólskinsstundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarsól í Reykjavík og á Akureyri 1973-2012

Hvernig verður sumarið? Fáum við enn eitt sólarsumarið hér í Reykjavík eða er komið að rigningarsumri? Er kannski komið að Norðlensku gæðasumri eins og þau gerast best - eða ætlar Austurlandið að taka þetta í ár? Ekki veit ég mikið um það, en hitt veit ég að nú hef ég tekið saman sólskinsstundir síðustu 40 sumra hér í Reykjavík og á Akureyri og sett upp í sitthvort súluritið. Miðað er við sumarmánuðina júní-ágúst og eru upplýsingar fengnar af vef Veðurstofunnar. Fyrst kemur hér Reykjavíkursólin en undir myndinni eru bollaleggingar:
Sumarsól Reykjavík 1973-2012Eins og sjá má hafa undanfarin sumur verið aldeilis sólrík hér í Reykjavík. Sólarsumar mætti kannski miða við 600 klst. markið en samkvæmt því hafa þau verið 6 á síðustu 9 árum. Sumarið 2012 gerði það best á tímabilinu og er eini mánuðurinn sem nær 700 klst. línunni. Júní lagði þar mest af mörkum með 320 klst., sem er það næst mesta sem mælst hefur í Reykjavík. Á fyrri árum leið lengra á milli sólarsumra og samkvæmt skilgreiningunni náðust þau með herkjum árin 1974, 1985 og 1991. Svo eru þarna líka hin annáluðu sólarsnauðu rigningarsumur 1983 og 1984, sitt hvoru megin við 300 klst. línuna. Þessi tvö leiðindasumur í röð voru ekki góð auglýsing fyrir sumarveður í Reykjavík en úr því var bætt árið eftir og eiginlega hefur ekki komið almennilegt rigningarsumar í Reykjavík eftir 1984. En þá er það Akureyrarsólin:
Sumarsól Akureyri 1973-2012Súluritið fyrir sólskinsstundir á Akureyri sýnir heldur meiri stöðugleika en í Reykjavík. Áberandi er þó að þar er sumarið í fyrra einnig á toppnum og það nokkuð afgerandi. Það er enda ekkert lögmál að sólarsumar fyrir sunnan sé ávísun á sólarleysissumar fyrir norðan - og öfugt. Sambandið þarna á milli er nefnilega nokkuð órætt eins og kemur í ljós þegar einstök sumur eru borin saman. Sumrin 1983 og 1984 eru til dæmis ekki í neinum sérflokki á Akureyri hvað sólskin varðar þótt lítið hafi sést til sólar í Reykjavík. Annars hef ég ekki mikið um Akureyrarsól að segja, nema að auk sumarsins 2012 þá kemur sumarið 2000 vel út ásamt sumrinu 2004. Þau sólarnauðustu eru hinsvegar sumrin 1979 og 1993.

Þá er bara að sjá til hvernig sumarið 2013 kemur út. Miðað við veðurspár virðist norður- og austurhluti landsins ætla að taka sólarforystuna til að byrja með, enda suðvestanáttum spáð. Ef sú vindátt verður ríkjandi í sumar þá yrði þetta sumar með öðru sniði en undanfarin ár. En þetta er nú bara rétt byrjunin og veðurfar er illreiknanlegt vikur og mánuði fram í tímann.

 


Stóra snjódagamyndin, 1986-2013

Hér í Reykjavík hafa menn ekki þurft að kvarta yfir snjóþyngslum á liðnum vetri ólíkt því sem verið hefur Norðanlands. Það snjóaði vissulega endrum og sinnum hér í borginni en þó varla neitt til að tala um, fyrir utan kannski ófærðarmorguninn 6. mars. Sá snjór dugði reyndar stutt og var horfinn tveimur dögum síðar. Langoftast var jörð alauð enda voru hávetrarmánuðirnir janúar/febrúar óvenju hlýir og snjóléttir eftir því.

Þetta má meðal annars sjá á stóru snjódagamyndinni sem nú hefur verið uppfærð og sýnir hvenær snjór hefur verið á jörðu í Reykjavík á miðnætti allt aftur til október 1986. Myndin er unnin upp úr mínum eigin athugunum og geta því verið einhver frávik frá opinberum athugunum sem gerðar eru Veðurstofutúni að morgni til. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna fjölda hvítra- eða hvítflekkóttra daga. Matsatriði getur verið hvort jörð sé hvít eða ekki, enda stundum aðeins um að ræða lítilsháttar nýfallna snjóföl eða misflekkótta snjóhulu í mismikilli afturför.

Snjódagar 1986-2013
Samkvæmt þessum athugunum mínum eru snjódagar liðins vetrar aðeins 24 talsins og hafa ekki verið færri frá upphafi skráninga. Fyrra snjóleysismetið voru 32 dagar hlýindaveturinn 2002-2003 og svo voru 33 dagar veturinn 2009-2010, þannig að þetta er nokkuð afgerandi óopinbert met.

Í hinn endann er veturinn 1994-1995 sá hvítasti með 129 daga. Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki eins mikill að magni. Langvinnir snjóakaflar hafa ekki verið tíðir hin síðari ár nema reyndar þarna frá nóvember 2011 til janúar 2012 þegar við fengum einn alhvítasta desember sem um getur.

Nú er bara að vona að vorið hrökkvi almennilega í gang. Einnig að garðsláttuvélar hrökkvi liðlega í gang því stutt er í að grasið fari að spretta í görðum borgarbúa. Á heimskautasvæðum Norðanlands vonumst við líka til að klakabrynjan hörfi sem fyrst af túnum og fótboltavöllum.


Jafn kalt á Íslandi og á norðurpólnum?

Sumarið er komið á Íslandi samkvæmt almanakinu þótt sumarhitar bíði betri tíma og einhver bið sé á því að grundirnar fari að gróa. En þótt kalt sé á Íslandi þarf það ekki að þýða að kalt sé allstaðar samanber kortið sem hér fylgir og sýnir hita á norðurhveli í tveggja metra hæð kl. 12 (GMT) á föstudag. Á kortið hef ég sett inn rauðan punkt við norðurpóllinn og er ekki annað að sjá en hitinn þar sé nokkuð svipaður og á Íslandi, eða nálægt frostmarki miðað við hvar frostmarkslínan liggur. Að vísu má ekki tæpara standa þarna norðurfrá því stutt er í 30 stiga heimskautagaddinn sem hækkandi sólin hefur ekki enn náð að vinna bug á.

Wetter NH 25. apríl
Ég geri ráð fyrir að hiti upp undir frostmark á sjálfum norðurpólnum sé ekki beint venjan í apríl en auðvitað fer hitastig hverju sinni ekki bara eftir breiddargráðum. Kannski er hægt að tala um hitabylgju þarna á norðurpólnum enda streymir þangað hlýtt loft sunnan úr Atlantshafi. Til mótvægis gerir kalda loftið gagnárásir til suðurs, meðal annars til Íslands og veldur einhverskonar kuldakasti hér, sem þó gæti verið mun verra ef hafísinn væri ekki víðsfjarri - ólíkt því sem gjarnan gerðist í gamla daga.

Auðvitað er það mikil klisja að segja að sumarið verði gott ef sumar og vetur frjósa saman eins og víðast gerðist hér að þessu sinni. Veðurfræðingar gera fæstir mikið úr þessari bábilju og segja helst sem minnst um komandi sumar. Á einhverjum tímapunkti  þarf þó sumarið að byrja ef menn vilja halda upp á formlega árstíðaskiptingu. Það að hinn fyrsti Íslenski sumardagur sé í raun tímasettur snemma að vorlagi er til marks um að hér á landi voru lengst af bara tvær árstíðir: vetur og sumar. Aftur á móti er haustið og vorið bara seinni tíma innflutt hugtök eins og hver annar ósiður sem tekinn er upp frá útlöndum.

 


mbl.is Vetur og sumar frusu saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetrarhitasúlur

Nú, þegar aðal vetrarmánuðirnir eru að baki, er komið að súluritinu sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík frá nóvember til mars nú í vetur. Tölurnar sem þarna liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum en hver súla á að sýna dæmigerðan hita dagsins en sá dæmigerði hiti liggur einhversstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir. Nánari útlistun á vetrarhitafarinu, sem hefur verið óvenjulegt á sinn hátt að venju, er undir myndinni.

Vetrarsúlur 2012-13
Eins og sést á myndinni þá hefur hitafar vetrarins verið dálítið öfugsnúið og lítið fylgt meðalhita hvers mánaðar. Jafnvel má segja að það hafi meira og minna farið hlýnandi í vetur þangað til kuldakastið skall á snemma í mars. Allavega þá var febrúar hlýjasti vetrarmánuðurinn og sá hlýjasti í Reykjavík síðan 1965 samkvæmt opinberum gögnum. Janúar var líka mjög hlýr og samanlagt eru þetta næst hlýjustu tveir fyrstu mánuðir ársins í borginni en aðeins jan-feb 1964 voru hlýrri. Hinsvegar voru þetta hlýjustu tveir fyrstu mánuðirnir í Stykkishólmi.
Aðrir mánuðir eru eðlilegri í hita. Marsmánuður gerði sig lengi líklegan til að verða almennilega kaldur en kuldinn mátti sín lítils á daginn eftir því sem sólin fór að hækka á lofti en það er ekki síst dægursveiflan sem skýrir þessar háu rauðu súlur seinni hluta marsmánaðar.
Ég er með tvo daga sem ég skrái sem 9 stig sem er alveg ágætt. Eitthvað var talað um að hitamet hafi verið slegið fyrir janúar í Reykjavík þann 4. þegar hitinn náði mest 10,7 stigum. Frosthörkurnar hafa hinsvegar ekki verið neitt sérstakar en yfirleitt má búast við að allra köldustu vetrardagarnir séu nær 10 stigum í borginni. Kaldasti dagurinn er 5. mars eftir að hitastigið hafði verið í frjálsu falli. Daginn þar á eftir kom hríðarveðrið með ófærðinni og svo öskufokið með hinni óvenju þrálátu austanátt sem meira og minna hefur ríkt í allan vetur.

Eins og með önnur sambærileg veðurgröf þá fer vetrarhitasúluritið í myndaalbúmið Veðurgrafík sem er hérna til hliðar. Ýmislegt skrautlegt er það að finna. Í lokin er svo Esjutoppsmynd þar sem horft er til Reykjavíkur á köldum degi þann 17. mars. Væntanlega verður horft frá hinni áttinni í næstu bloggfærslu um næstu helgi.

Á Esju 17. mars 2013


Listræn veðurkort

Eins og sönnum veðuráhugamanni sæmir þá fylgist ég reglulega með hinum ýmsu veðurkortum sem kalla má fram á veraldarvefnum. Á Wetterzentralnum má t.d. dæmis fá mikið úrval veðurkorta sem gefa góðar vísbendingar um það sem koma skal. Inn á milli vill hinsvegar bregða svo við að veðurkortin gerast æði skrautleg og engu líkara en að verið sé að boða meiri ragnarök en nokkur fordæmi eru fyrir í mannkynsögunni. Af fenginni reynslu hef ég þó komist að því að lítill fótur er fyrir slíkum dómsdagspám. Líklegri skýring snýst sennilega um að ofurtölvurnar séu enn að matreiða úr hráefninu en það er helst upp úr miðnætti sem hamagangurinn hefst. En nú er ég ekki bara veðuráhugamaður, því sem grafískur hönnuður er ég að sjálfsögðu líka áhugamaður um myndlist og myndræn form allskonar, akkúrat eins og þessi brengluðu veðurkort eru. Sennilega getur þetta þó varla flokkast sem myndlist, þótt flott sé. Til þess vantar listamanninn og listrænan tilgang í upphafi og varla er þetta hönnun því til þess vantar praktíkina. En hvað um það, nú er Hönnunarmars og því læt ég hér þrjú kort flakka sem sýna aðstæður á norðurhveli á listrænan hátt, dagana 14. 16. og 20. mars Spárnar voru gerðar 14. mars og birtust á sínum tíma á þessari slóð: http://www.wetterzentrale.de/topkarten/fsavnnh.htm

Wetter NH 14. mars

Wetter NH 16. mars

Wetter NH 20. mars

 

 


Þrálátar austanáttir skrásettar

Nú hef ég í minni eigin heimilisveðurstofu farið yfir veðurfar nýliðins janúarmánaðar og reyndist hann vera sá hlýjasti síðan 1987 en það var einmitt fyrsti janúarinn sem ég skráði í Veðurdagbókina. Samkvæmt mínum viðmiðunum voru 20 hlýir dagar umfram kalda árið 1987 en nú í ár voru þeir 15 talsins, sem þó er mjög gott.

En einna athyglisverðast við veðurfar undanfarna tvo mánuði er hvað austanáttin hefur skorað hátt í vindáttasamanburðinum og jafnvel verið einráð dögum saman.
Áður en ég kem að því er mynd hér að neðan sem sýnir hvernig mánaðarleg vindáttatíðni hefur verið að meðaltali þessa mánuði, tíu árin á undan hér í Reykjavík, miðað við mínar skráningar. Tölurnar eru fengnar með ákveðnum hætti og byggjast bæði á tíðni vindátta og vindstyrk. Samkvæmt því er austanáttin þarna með meðalgildið 17, sunnan og suðaustan eru báðar með 11 og svo framvegis. Vestan- og norðvestanvindar hafa lægsta gildið og norðanáttin er frekar slök. Samanlagt gildi vindstyrks er 64 sem er eðlilegt því ef vindur væri í meðallagi í heilan mánuð kæmi út tala sem er tvöfalt hærri en fjöldi daga mánaðarins.
Vindáttir Des+Jan

En þá að óvenjulegheitunum. Vindrósirnar hér að neðan sýna hvernig austanáttin hefur algerlega haft yfirhöndina síðustu tvo mánuði. Í desember komust vindáttir frá vestri til suðurs ekki einu sinni á blað en austanáttin er með gildið 46 af 67 sem er heildarvindstyrkur mánaðarins. Talan 46 er reyndar hæsta talan sem vindátt einstaka mánaðar hefur fengið hjá mér frá upphafi skráninga samkvæmt minni tölfræði. Í janúar er austanáttin með töluna 36 en nánast ekkert blæs úr áttunum frá suðvestri til norðurs nema einn hægviðrisdag sem ég hef úrskurðað sem vestanátt.

Vindáttir Des2012+Jan2013
Reyndar er það svo að vindur er stundum mjög breytilegur innan dagsins og því ekki alltaf auðvelt að úthluta dögum sérstakri vindátt. Ég tek einnig fram að ég skrái einungis veðrið yfir daginn, en ekki kvöld- og næturveðrið. Það sem ég hef til grundvallar eru vindhraða- og vindáttalínurit frá veðurstofunni sem birtast á vedur.is, samanber þetta línurit sem sýnir vel austanáttina um vikuskeið undir lok janúar.

VÍ vindattalínurit

Þessar tíðu austanáttir hafa skilað sér í nokkuð hagstæðu veðri hér Suðvestanlands. Það hefur t.d. varla sést snjór í höfuðborginni en stundum hefur vindurinn reyndar verið nokkuð ágengur inn á milli. Kannski er einn fylgisfiskurinn sá að meira hefur fallið á silfurborðbúnað en venjulega og hef ég reyndar heyrt húsmæður hér í Vesturbænum kvarta yfir því. Í austanáttum blæs vindur frá jarðhitavirkjunum á Hengilssvæðinu til Reykjavíkur en það væri athugandi að gera einhvertíma almennilegan samanburð þessu silfuráfalli með tilliti til vindátta.

En nú er kominn nýr mánuður og samkvæmt veðurspám virðist meiri fjölbreytni vera framundan í vindáttum með meira af norðlægu og Amerísk-ættuðu vetrarlofti á kostnað hins Evrópska. Í bland við annað gæti útsynningurinn því látið á sér kræla með sínum klassíska éljagangi hér suðvestanlands.


Jöklabráðnunin mikla sumarið 2010

Fyrr í þessum mánuði var haldin ráðstefna í Háskóla Íslands í tilefni sjötugsafmæli Dr. Helga Björnssonar jöklafræðings. Sjálfur var ég nú ekki viðstaddur þessa ráðstefnu en fylgdist þó með því sem sagt var frá í fjölmiðlum. Þar á meðal var frétt á Mbl „íslensku jöklarnir eru næmari“ þar sem fjallað er meðal annars um meira næmi íslenskra jökla gagnvart hlýnun en til dæmis þeirra kanadísku. (Tengill á fréttina er undir bloggfærslunni)

Ég ætla ekki að þykjast vita betur en hámenntaðir jöklafræðingar og læt þá um að spá fyrir um örlög íslenskra jökla. Það sem hinsvegar vakti athygli mína í fréttum af ráðstefnunni voru niðurstöður rannsókna á áhrifum öskulagsins úr Eyjafjallajökli á bráðnun jökla sumarið 2010 þar sem kom fram að bráðnunin það ár hafi verið 1,5 sinnum meiri en á venjulegu ári. Af þessu og fleiru mátti skilja að hin mjög svo neikvæða afkoma jökla á landinu þetta ár hafi aðallega verið vegna gosöskunnar sem sáldraðist yfir landið.

Hvað um veðurfarslegar ástæður?
Nú eru áhrif sóts og ösku á jökla vel þekkt en miðað við það sem komið hefur fram í fjölmiðlum virðast menn ekki hafa tekið mikið tillit veðurfarslegra þátta árið 2010 á afkomu jöklana, en sjálfur er ég eiginlega á því að þarna hafi óvenjulegt tíðarfar jafnvel átt stærri þátt en askan í þessari miklu bráðnun sumarið 2010.
Til að skoða það er alveg gráupplagt að vísa í „eigin rannsóknir“ eins og þetta áður birta línurit sem ég teiknaði upp samkvæmt upplýsingum af vef Veðurstofunnar um snjóalög á Setri sem er lengst upp á reginhálendinu sunnan Vatnajökuls. Hver lituð lína stendur fyrir einn vetur og samkvæmt þessu hefur snjódýptin venjulega verið í hámarki um miðjan apríl en komin niður í núll um miðjan júní. Greinilega var árið 2010 mjög óvenjulegt (blá lína) því snjódýptin náði sér aldrei almennilega á strik þennan vetur og var komin niður í núll upp úr miðjum maí. (Núverandi vetur sést ekki þarna því af einhverjum ástæðum hefur snjódýptarmælirinn á Setri ekki verið virkur síðustu mánuði.)
Snjódýpt við SETUR

Þetta óvenjulega tíðarfar árið 2010 sást líka vel á snjóalögum Esjunnar sem ég fylgist einmitt líka með og hef ljósmyndað í lok vetrar hin síðustu ár. Mín reynsla er sú að nokkuð gott samband er á milli snjóalaga í Esjunni og á hálendinu við Setur. Fyrri myndin er tekin árið 2010, en hin síðari árið  2012 sem gæti talist venjulegra ár. Í samræmi við lítil snjóalög undir lok vetrar hvarf snjórinn mjög snemma sumarið 2010 eða um miðjan júlí en í fyrra hvarf hann ekki fyrr en í september.

Esja april 2010
Esja april 2012

Í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar kemur fram að veturinn 2009-2010 hafi verið hlýr um land allt og þar að auki þurr um sunnanvert landið. Í Reykjavík voru alhvítir dagar ekki nema 13 frá desember til mars sem er það næst minnsta frá upphafi samfelldra mælinga árið 1823. Eftir þennan óvenjulega vetur kom svo hlýjasta sumar sem vitað er um síðan mælingar hófust um suðvestan og vestanvert landið. Í Reykjavík var meðalhitinn í júní sá hæsti frá upphafi mælinga og júlí jafnaði mánaðarmeðaltalsmetið frá 1991. Þetta ár 2010 stefndi reyndar í að verða það allra hlýjasta sem mælst hefur í Reykjavík og víðar en hitinn gaf eftir síðustu tvo mánuðina þannig að árið varð að lokum einungis meðal þeirra allra hlýjustu. (Tíðarfarsyfirlit VÍ 2010)

Þó að jöklabúskapur sé alveg sérstakur búskapur þá er augljóst að tíðarfar var óvenjulegt árið 2010, allavega sunnan- og vestanland og líka upp á hálendi upp undir Hofsjökli. Þetta hefur haft sín áhrif á stóru jöklanna og örugglega stuðlað af mjög slakri afkomu þeirra þetta ár. Askan úr Eyjafjallajökli hefur svo hjálpað til og bætt gráu ofan á svart - eða reyndar gráu ofan á hvítt í þessu tilfelli. Jöklafræðingar þekkja sjálfsagt hvernig tíðarfarið var árið 2010 og gera kannski ekki lítið úr því en svona upp á söguskýringar framtíðar að gera, þá má ekki einblína á öskuna sem eina orsakavaldinn að jöklabráðnuninni 2010, tíðarfarið var nefnilega líka mjög ójökulvænt.


mbl.is „Íslensku jöklarnir eru næmari“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband