Færsluflokkur: Veður
6.1.2013 | 01:30
Reykjavíkurhiti í kubbamynd
Árið 2012 hefur nú fengið sinn sess í kubbamyndinni sem ég gerði á sínum tíma og hef uppfært síðan. Nú liggur fyrir að meðalhiti liðins árs í Reykjavík var 5,5 stig. Það er alveg í samræmi meðalhita síðustu 10 ára og 1,2 gráðum yfir 30 ára meðaltalinu frá 1961-1990 og hálfri gráðu yfir hlýja 30 ára meðaltalinu 1931-1960. Þetta var líka 12 árið í röð með meðalhita yfir 5 stigum og eru nokkur ár síðan svo mörg hlý ár í röð töldust vera einsdæmi enda hafa hlýindin frá síðustu aldamótum verið með eindæmum.
Nýliðið ár er grænblátt að lit sem er litur áratugarins. Það er í félagsskap með tveimur öðrum jafnhlýjum árum 1928 og 2007 sem líka geta talist vera góðærin áður en allt hrundi. Annars sést þarna ágætlega hvernig áratugirnir dreifast á hitaskalanum. Sá síðasti hélt sér alfarið ofan við 5 stigin öfugt við fyrsta áratug 20. aldar sem komst ekki upp fyrir 4,5 stigin. Efst trónir þarna árið 2003 með 6,1 stig í meðalhita en árið 1979 situr sem fastast á botninum með árshita upp á aðeins 2,9 stig. Árið 1995 er síðasta kalda árið sem komið hefur og mætti segja að það marki lok kalda tímabilsins sem hófst um eða upp úr 1965.
Nokkur ár frá hlýindaskeiði síðustu aldar veita hlýjustu árum seinni tíma harða keppni en óvissa vegna tilfærslu veðurathuganna er þó alltaf einhver eins og stundum er tekið fram í tilkynningum Veðurstofunnar. Það sem hinsvegar dregur meðalhita fyrra hlýindatímabilsins niður er meiri óstöðugleiki í hitafari en verið hefur á núverandi hlýskeiði.
Það er klassískt að velta fyrir sér hvort árshitinn sé kominn til að vera yfir 5 stigunum. Það finnst mér sjálfum frekar ólíklegt og treysti auk þess ekki alveg á að nýhafinn áratugur verði endilega hlýrri en sá síðasti. Áratugurinn fer þó vel af stað og ekki síst nýhafið ár 2013.
Veður | Breytt 7.1.2013 kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.12.2012 | 17:36
Stóra snjódagamyndin
Það er varla hægt að tala um að snjóað hafi í Reykjavík það sem af er vetri ólíkt því sem verið hefur á norðurhluta landsins. Ekki virðast miklar líkur á að þetta muni breytast í bráð því spáð er sæmilegum hlýindum næstu daga og má jafnvel gæla við þann möguleika að ekkert snjói fram að jólum. Þetta er allt annað ástand en var í fyrra þegar við fengum snjóþyngsta desember í manna minnum eftir hlýjan nóvembermánuð.
Stóru snjódagamyndina hér að neðan birti ég síðast fyrir um ári en þar má sjá hvenær snjór hefur verið á jörðu í Reykjavík mánuðina frá október til apríl allt aftur til ársins 1986. Síðastliðinn vetur er nú kominn inn en annars er myndin óbreytt. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin og tölurnar hægra megin sýna fjölda hvítra- eða hvítflekkóttra daga. Þetta er allt unnið út frá mínum eigin veðurdagbókarskráningum en miðað er við hvort jörð sé hvít eða auð á miðnætti eða því sem næst. Einhver munur gæti verið á þessum athugunum og hinum opinberu snjóhuluathugunum sem fara fram á Veðurstofutúni að morgni til. Svo má taka fram að oft er mikið matsatriði hvort jörð sé hvít eða ekki því stundum er aðeins um að ræða lítilsháttar nýfallna snjóföl eða misflekkótta snjóhulu í mismikilli afturför.
Samkvæmt þessu, þá er veturinn 1994-1995 sá hvítasti með 129 daga en sá snjóléttasti er hinn hlýi vetur 2002-2003 með aðeins 32 daga. Aðeins einum snjódegi meira var svo veturinn 2009-2010. Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki alveg eins mikill að magni.
Svo má líka skoða endana. Árin 2008 og 2009 snjóaði óvenjusnemma en það entist þó ekki lengi. Þrjú tilfelli eru um hvíta jörð í bláendann í apríl. Myndin nær ekki fram í maí en sumir muna kannski eftir mikla snjónum að morgni 1. maí 2011, svipað og gerðist árið 1987.
Nú veit ég auðvitað ekkert hvernig snjóalögum verður háttað það sem eftir er vetrar en aðalsnjóavertíðin ætti annars að vera framundan. Eins og sést á myndinni þá segir upphaf vetrar lítið til um framhaldið. Hlýindatímabil ríkir reyndar enn á Íslandi og ekkert sem bendir til að það sé yfirstaðið. Þrátt fyrir það má alltaf eiga von á köldum snjóþyngslamánuðum inn á milli til tilbreytingar.
Veður | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2012 | 23:03
Vindstigin endurskoðuð
Fyrir nokkrum árum var ákveðið að leggja niður gömlu góðu vindstigin en taka upp í staðinn mælieininguna metrar á sekúntu. Þessi skilgreining hefur sjálfsagt ýmsa kosti - er til dæmis nákvæmari en gamla vindstigakerfið. Hitt er annað mál að þegar vindafar ber á góma í daglegu tali þá notar fólk ekki tölur enda hafa fæstir almennilega tilfinningu fyrir því hvað vindur fer hratt í metrum á sekúntu talið. Fólk segir bara að það sé logn, dálítið hvasst eða jafnvel helvíti hvasst og það skilst. Gömlu orðin sem voru tengd vindstigunum gerðu þetta líka að vissu marki, samanber kul, stinningsgola og stormur en voru hinsvegar komin nokkuð til ára sinna og ekki alltaf skiljanleg nútímafólki. Flestum finnst t.d. það vera öfugmæli að rok skuli vera meira en stormur enda þekkja það fæstir þegar sjóinn tekur að rjúka upp í roki. Það fyrirbæri má þó gjarnan sjá t.d. í Kollafirði í mestu veðrunum eins og við höfum fengið að kynnast í norðanáttinni undanfarið.
Til að reyna að bæta eitthvað úr þessu ætla ég að koma hér með tillögu að nýju kerfi til að lýsa vindhraða sem miðast við málvitund nútímafólks. Gömlu heitin og vindhraði í metrum á sekúntu eru í sviga.
0 Blánkalogn ( Logn 00,2 m/s )
1 Logn ( Andvari 0,31,5 m/s )
2 Bongó ( Kul 1,63,3 m/s )
3 Smávindur (Gola 3,45,4 m/s )
4 Dálítill vindur ( Stinningsgola 5,57,9 m/s )
5 Soldið hvasst ( Kaldi 8,010,7 m/s )
6 Leiðindavindur ( Stinningskaldi 10,813,8 m/s )
7 Ansi hvasst ( Allhvasst 13,917,1 m/s )
8 Helvítis rok ( Hvassviðri 17,220,7 m/s )
9 Brjálað rok ( Stormur 20,824,4 m/s )
10 Snarvitlaust rok ( Rok 24,528,4 m/s )
11 Alveg bilað ( Ofsaveður 28,532,6 m/s )
12 Ó-mæ-god! ( Fárviðri > 32,6 m/s )
Dæmigerð norðanáttar-óveðurspá gæti samkvæmt þessu hljómað svona: Ansi hvasst eða helvítis rok af norðri á landinu og jafnvel brjálað rok allra vestast. Hvessir enn meira um kvöldið með norðaustan helvítis- eða jafnvel snarvitlausu roki. Ó-mæ-god í verstu hviðunum.
Með veðurspám í þessum dúr er ég viss um að óveðuspár fari ekki framhjá nokkrum manni.
Veður | Breytt 3.11.2012 kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.10.2012 | 22:54
Í hvað stefnir árshitinn í Reykjavík?
Nú þegar þrír mánuðir eru eftir af árinu ætla ég að velta mér dálítið upp úr ársmeðalhitanum í Reykjavík og hvert stefnir með hitann ár. Fyrst ætla ég þó að nefna þessa töflu hér að neðan sem ég hef vanið mig á að gera í upphafi árs. Þar gefur að líta útreikning á því hver ársmeðalhitinn gæti verið útfrá mismunandi forsendum. Þetta er mjög misraunhæfar forsendur, sérstaklega efsta og neðsta línan þar sem gert er ráð fyrir að kulda- eða hitamet hvers mánaðar allt frá 1930 séu jöfnuð. Talsvert raunhæfara er að miða við opinbera viðmiðunartímabilið 1961-1990 og fá út ársmeðalhitann 4,3°C, en þar sem það var frekar kalt tímabil gæti verið raunhæfast að miða við síðustu 10 ár (2002-2011) þar sem árshitinn hefur verið 5,5°C að meðaltali. Til samanburðar má nefna að kaldasta árið frá 1930 var 1979: 2,9°C og það hlýjasta 2003: 6,1°C. En þannig lítur umrædd tafla út.
Eftir því sem líður á árið koma hinar raunverulegu tölur í ljós og með hverjum mánuði þrengist það bil sem meðalhitinn getur stefnt í. Þá fæst þessi mynd:
Liðnir mánuðir hafa verið mishlýir eins og gengur. Febrúar, mars og ágúst voru vel yfir meðalhita síðustu 10 ára en nýliðinn september rétt missti af meðaltalinu frá 61-90. Í heildina hefur árið verið hlýtt þannig að ef við miðum áfram við forsendurnar þá endar meðalhiti ársins í 5,7°C ef meðalhiti þriggja síðustu mánaðana verður í samræmi við síðustu 10 ár. Ef þessir síðustu þrír mánuðir verða hinsvegar í samræmi við "kalda" meðaltalið frá 1961-90 þá endar árið í 5,4°C sem þó telst gott í sögulegu samhengi og ekki fjarri meðalhita s.l. 10 ára.
Síðan má halda áfram og miða við köldustu mánuðina frá 1930 og fá út meðahitann 4,5°C, sem samt er yfir viðmiðunartímabilinu '61-'90. Miðað við köldustu mánuði sl. 10 ár yrði meðalhitinn 5,1°C sem einhverntíma hefði þótt gott. Í hinn endann gæti árið endað í 6,5°C og slegið árshitamet ef þrír síðustu mánuðirnir væru við það besta frá 1930 og jafnvel líka ef síðustu mánuðirnir verða við það besta síðustu 10 ár.
Semsagt. Árið 2012 verður örugglega yfir meðalhita áranna 1961-'90. Næsta víst er að árshitinn verði yfir 5 stigum tólfta árið í röð sem er einstakt. Líklegt er einnig að það nái a.m.k. 5,4°C og 5,7°C er alveg í dauðafæri. Það má síðan gæla við 6 stigin ef góð hlýindi einkenna síðustu mánuðina. Ég get auðvitað ekkert spáð um hvort hlýindi eða kuldar eru framundan. Hinsvegar blasir við að árið 2012 verður enn eitt hlýja árið á þessari öld og ekkert lát á hlýindum.
Þetta var svokölluð veðurnördabloggfærsla.
Veður | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.9.2012 | 23:02
20 stiga hitar í Reykjavík og á Akureyri
Sem óbeint framhald af síðustu færslu þar sem 20 millimetra úrkomumarkið kom við sögu er alveg tilvalið að taka fyrir 20 stiga hitamarkið. Reykjavík er þannig í sveit sett að öfgar í hitafari eru ekki miklar í hvora áttina sem er og því er það alltaf dálítill viðburður þegar hitinn nær 20 stigum. Á Akureyri eru hitasveiflur meiri og hámarkshiti sumarsins hærri enda nánast regla að hámarskhitinn nái 20 stigum á Akureyri einhverntíma á sumrin og stundum vel það og nokkrum sinnum. Samt sem áður er meðalhitinn í Reykjavík hærri á sumrin sem og aðra mánuði. 20 stiga hitasögu þessara staða frá 1930 má sjá á nýuppfærðum línuritunum sem ég útbjó á sínum tíma útfrá Veðurstofugögnum. Fyrst er það Reykjavík:
Á Reykjavíkurmyndinni má sjá að 20 stiga hámarkshiti náðist reglulega á hlýju árunum 1934-1960. Greinilega þó oft með nokkrum herkjum en hæst komst hitinn í 23,1°C árið 1950. Eftir 1960 liðu heil 15 ár án 20 stiga en svo þegar það loksins gerðist árið 1976 varð það með slíkum glæsibrag að nýtt hitamet var sett í borginni, 24,3°C. Mjög hlýtt var einnig í lok júlí 1980 þegar hitinn náði 23,7°C en þessir tveir hitatoppar eru annars mjög ódæmigerðir fyrir hina köldu tíð þessi árin. Eftir aldamótin hefur hlýnað svo um munar og 20 stiga hámarkshiti frekar orðin venja en undantekning. Nýtt hitamet var sett í ágúst-hitabylgjunni árið 2004: 24,8°C og svo aftur þann 31. júlí árið 2008: 25,7°C. Nú í sumar náði hitinn hæst upp í 21,3° þann 16. ágúst í einskonar mini-hitabylgju.
Hærri hitar hafa sjálfsagt mælst á sjálfvirkum stöðvum í borgarlandinu en það tel ég ekki með hér. Það verður líka að hafa í huga að Veðurstofan var á nokkru flakki þar til flutt var á Bústaðaveginn árið 1973.
Á Akureyramyndinni eru gulu 20 stiga súlurnar allsráðandi allt tímabilið, nokkrar brúnleitar 25 stiga súlur skjóta líka upp kollinum á meðan aðeins fjórar súlur eru gráar. Hæsta súlan sýnir hvorki meira né minna en 29,4°C sem mældist í júní árið 1974 og er það meðal hæstu hitagilda sem mælst hafa á landinu. Að vísu þykir grunsamlegt hversu hátt hitinn komst á þeim árum en Trausti Jónsson hefur þetta um málið að segja í greinargerðinni: Hitabylgjur og hlýir dagar: Hitametið frá Akureyri 1974 (29,4°C) hefur þann kross að bera að skýlið stendur á bílastæði sem varla er hægt að telja staðalaðstæður. Aðstæður á Akureyri þekki ég reyndar ekki mjög vel en mér skilst þó að athuganir hafi síðar verið færðar yfir á grasflöt þarna skammt frá sem gæti skýrt að hluta að eftir hitabylgjuna í júlí 1991 hefur hitinn ekki náð 25 stigum á Akureyri. Hann var þó ekki fjarri því í sumar þann 9. ágúst þegar hitinn mældist 24,4°C.
Hvað sem allri óvissu líður þá fer ekkert á milli mála að hámarkshiti sumarsins er að öllu jöfnu hærri á Akureyri en í Reykjavík og gæti munað eitthvað um 4 stigum. Menn geta auðvitað unað vel við það fyrir norðan en ég er ekkert að gera neinum þann óleik að bera saman lágmarkshitann.
Veður | Breytt 30.3.2024 kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2012 | 22:19
Hellt úr fötu
Af veðrinu er það að segja að dagurinn í dag, 5. september var sérlega úrkomusamur í Reykjavík en samkvæmt veðurfréttum í útvarpi mældist úrkoman 19 mm frá kl. 9 í morgun til kl. 18 síðdegis. Til samanburðar þá var úrkoman í öllum maímánuði einnig 19 mm en bara um 13 mm allan júnímánuð. Þótt rigningar séu ekki fátíðar í Reykjavík þá rignir samt sjaldan svona eindregið allan daginn og það með dembum inn á milli eins og hellt væri úr fötu.
Þar sem ég stunda veðurskráningar þá reyni ég eftir bestu getu að fylgjast með hvað kemur upp úr hinni opinberu úrkomudollu Veðurstofunnar og þá ekki síst á svona dögum. Í veðurskráningum mínum er ég nefnilega með ýmsar viðmiðanir og þar á meðal eru svokölluð öfgamörk sem hafa áhrif á veðureinkunnagjöfina. Í úrkomunni er ég með öfgamörk upp á 20 mm úrkomu frá kl 9-18 yfir daginn og dregst þá eitt stig frá þeirri einkunn sem dagurinn hefði annars fengið. Þessi öfgamörk náðust sem sagt ekki í dag þrátt fyrir vænlega atlögu og fær því dagurinn eftir sem áður 2 stig (af 8) fyrir það að vindur og hiti hafi verið í meðallagi. 20 mm dagsúrkomu mætti kannski líkja við það í tíðni að hitinn fari yfir 20 stig, sem eru reyndar önnur öfgamörk hjá mér og gefa +1 aukastig í einkunnagjöf.
Eftir að hafa farið lauslega í gegnum bækur þá sé ég að ég hef reyndar bara 7 sinnum skráð yfir 20 mm dagsúrkomu frá upphafi skráninga í júní 1986 - eitthvað gæti þó hafa farið fram hjá mér. Þrír dagar eru þar efstir og jafnir, allir með 26 mm úrkomu yfir daginn: Síðast gerðist það 30. desember 2007 en sá mánuður reyndist úrkomusamasti desember sem mælst hefur í Reykjavík, 197 mm. Þar áður mældist 26 mm dagsúrkoma þann 29. maí 1994 daginn eftir borgarstjórnarkosningar þar sem R-listinn vann sögulegan sigur með Ingibjörgu Sólrúnu fremsta í flokki. Elsta skráða dæmi mitt um 26 mm dagsúrkomu er 31. mars 1989. Þeim degi man ágætlega eftir en sá dagur einkenndist af eindreginni rigningu í hægviðri sem fór yfir í slyddu um kaffileytið en um kvöldmatarleytið fór að snjóa alveg látlaust með þeim afleiðingum að snjódýptin að morgni 1. apríl mældist 33 cm í Reykjavík og þótti frásögum færandi - meira að segja á þeim árum.
Af einstökum dembum slær þó fátt út 18 millimetra úrhellið í Reykjavík að kvöldi hins 16. ágúst 1991. Alveg óháð því reyndu nokkrir að koma skikk á málin í Sovétríkjunum sálugu tveimur kvöldum síðar með misheppnaðri valdaránstilraun. Boris Yeltsín tók hinsvegar völdin í staðinn, bannaði kommúnistaflokkinn og lagði svo Sovétríkin niður. Hann var frekar skrautlegur karakter en þótti helst til blautur.
Veður | Breytt 6.9.2012 kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.9.2012 | 17:51
Stóra sumarveðurmyndin
Nú þegar hinir eiginlegu sumarmánuðir eru liðnir er kominn tími á smá yfirlit unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum sem ná aftur til 7. júní 1986. Í þessari margbrotnu mósaíkmynd sem ég hef dundað mér við að koma saman upp úr skráningarbókunum, má sjá hvaða daga sólin hefur skinið og úrkoma fallið í Reykjavík yfir sumarmánuðina. Litakvarðinn er sýndur undir myndinni en annars ætti þetta að skýra sig sjálft. Sjá má hvernig þróunin hefur verið í stórum dráttum, en eins og íbúar Reykjavíkur og nágrennis ættu að vera sammála um þá hafa mörg undanfarin sumur verið með besta móti hin síðari ár og af sem áður var. Tölurnar hægra megin sýna skráða sólardaga í Reykjavík þegar lagðir hafa verið saman heilir og hálfir sólardagar. Samkvæmt þem sést að á sólríkum sumrum eru sólardagar nálega tvöfalt fleiri en á sólarsnauðum sumrum. Nánari bollaleggingar eru undir myndinni.
Nánari bollaleggingar: Allt fram til hinna síðustu ára má segja sumur með 25-35 sólardögum hafi verið normið. Sumarið 1991 þótti á sínum tíma einstaklega gott og þá skráði ég 38,5 sólardaga en þá var júní sérstaklega sólríkur. Júlí það sumar er þar að auki sá heitasti sem komið hefur í Reykjavík ásamt júlí 2010. Árið 2004 kom svo fyrsta 40 sólardaga sumarið sem ég skrái en eftir það hafa fjögur bæst við, þar á meðal sumarið í ár. Sólarminnsta sumarið skrái ég 1995 en einnig eru sumrin 1988, 1989 og 1992 ansi döpur. Sólskinið segir þó ekki allt þegar kemur að veðurgæðum því samkvæmt mínu veðureinkunnakerfi er árið 1989 lakasta sumarið á meðan sumarið 2009 trónir á toppnum.
Svo má líka skoða einstaka mánuði frá 1986. Samanburðinn er hér unninn upp úr Veðurstofutölum en eins og sjá má ber allt að sama brunni. Jákvæðu metin eru öll frá árinu 2004 og síðar en hin neikvæðu eru öll fyrir þá tíð. Hlýindi síðustu ára er svo annar kapítuli en þar svipaða sögu að segja.
Veður | Breytt 19.9.2014 kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.7.2012 | 18:57
Bæjarins besti júní?
Nú eru liðin 26 frá því ég hóf mínar eigin veðurskráningar fyrir veðrið í Reykjavík. Þetta hef ég gert sjálfum mér til gagns og gamans en upphaflega stóð aldrei til að halda út þessum skráningum lengur en bara sumarið 1986. Reyndin varð þó önnur. EInhversstaðar hef ég sagt að ég sé heimilisveðurfræðingur en starfsemin fer aðallega fram í stofunni heima, sem er því nokkurskonar einkaveðurstofa.
Eitt af því sem hefur viðhaldið skráningaráhuganum er einkunnakerfið sem byggist á því að ég gef hverjum degi einkunn á skalanum 0-8 eftir ákveðnu kerfi sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, hita og vindi. Eftir hvern mánuð reikna ég svo út meðaleinkunn mánaðarins og þannig get ég borið saman veðurgæði einstakra mánaða og jafnvel ára. Auðvitað er samt alltaf álitamál hvernig skilgreina á gott eða slæmt veður og svo getur verið allur gangur á því hvernig einkunnir einstaka mánaða endurspegla raunveruleg veðurgæði. Um þetta hef ég skrifað nokkrum sinnum áður eins og sumir ættu kannski að kannast við.
Það telst mjög gott ef mánuðir ná 5,0 í meðaleinkunn en afleitt ef mánuður nær ekki 4,0 þannig að einkunnabilið er ekki mjög mikið. Fram að þessu er versti skráði mánuðurinn, janúar 1989, með 3,3 í einkunn. Sá besti hefur hinsvegar verið júlí 2009, með afgerandi bestu einkunnina 5,8. En nú hafa stórtíðindi orðið.
Júní 2012: Einkunn 5,9.
Já nú hefur það gerst að liðinn mánuður er ekki bara bæjarins besti júní-mánuður frá 1986, heldur er hann besti mánuður allra skráðra mánaða og hefur slegið út þann fyrrum besta: júlí 2009. Rétt er þó að taka fram að tekið er tillit til árstíðasveiflu í hita þannig að allir mánuðir árins geti átt sama möguleika á bestu einkunn.
Hér til hliðar sýni ég skráninguna fyrir nýliðinn júní. Þar má meðal annars sjá veðureinkunn dagsins í aftasta dálki. Hér á eftir kemur dálítil greinargerð um einstaka veðurþætti:
Sólardaga skrái ég sem heila eða hálfa daga og eru þarna 12 sannkallaðir sólardagar en 13 hálfskýjaðir. Þá eru ekki eftir nema 5 dagar þar sem sólin hefur varla látið sjá sig. Samtals eru þetta því 18,5 sólardagar sem er í flokki hins allra besta en þó ekki met samkvæmt mínum skráningum því árið 2008 var júní með 19,5 daga. Samkvæmt opinberum mælingur var þetta reyndar sólríkasti júní í Reykjavík síðan 1928 en þá skiptir máli að ég skrái veðrið eins og það er yfir daginn en ekki seint á kvöldin eða á nóttinni. Sólríkar vornætur skipta því ekki máli hjá mér.
Úrkoma var mjög lítil og skráði ég aðeins 5 daga með úrkomu en í öll skiptin var hún minniháttar eða skúrir í bland við sólskin, stundum að vísu nokkuð öflugar dembur. Gegnblautur rigningardagur var enginn. Ég vek athygli á dropa sem er teiknaður 7. júní í annars alauðum dálki fyrir framan einkunnina. Hann stendur fyrir blauta jörð (eða snjó) á miðnætti og er oftast miklu skrautlegri þetta. Mánuðurinn er því einn af þessum þurrkamánuðum sem einkennt hefur sumrin frá árinu 2007.
Hiti er skráður sem dæmigerður hiti yfir daginn. Táknin fyrir aftan hitatöluna segja til hvort dagurinn sé kaldur hlýr eða meðal. 19. júní flokkaðist sem kaldur (ferningur) en 8 dagar voru hlýir (hringur). Mánuðurinn byrjaði með hlýindum og var 4. júní hlýjasti dagur mánaðarins: 17 stig. Eftir smá slaka voru góð hlýindi aftur ríkjandi, sérstaklega síðustu 10 dagana. Í heildina var þetta hlýr mánuður sem var yfir meðallagi síðustu 10 ára og auðvitað langt yfir opinberu viðmiðunartímabili áranna 1960-1990.
Vindur er auðvitað mikilvægur þáttur þegar kemur að veðurgæðum. Í samræmi við önnur veðurgæði var þessi mánuður mjög hægviðrasamur og kannski það sem gerir útslagið með góða einkunn en til að ná meteinkunn þurfa allir veðurþættir gjöra svo vel að standa sig. Hlykkjóttar pílur eru áberandi í skráningunni og standa fyrir hægan vind. Tvöföldu strekkingsvinds-pílurnar eru hinsvegar hvergi sjánlegar. Í kassanum neðst til vinstri er samantekt á vindáttum. Norðvestan hafgoluáttin er tíðust á meðan sunnan- og suðvestanáttirnar eru í núlli. Þetta eru alveg rakin einkenni góðviðrismánaðar að sumarlagi hér í bæ og segir í raun það sem segja þarf. Samtals er vindstyrkur mánaðarins 43 en sú tala er fengin úr skráningarkerfinu og er með því lægsta sem ég hef skráð.
- - - -
Það er ágætis útrás fyrir veðurskrif að taka fyrir metmánuð eins og þennan. Ég ætla þó ekki að taka fleiri mánuði fyrir svona ýtarlega nema einhver mánuðurinn tekur upp á því að dúxa - nú eða kolfalla með fordæmalausum hætti.
Veður | Breytt 1.9.2017 kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.6.2012 | 21:20
Rigning og rok, þurrkar og fleira.
Það væri tilbreyting hér í veðurleysunni að fá svo sem eins og eitt almennilegt landsynningsslagviðri með mörgum millimetrum og metrum á sekúntu. Veðurkortið sýnir veðrið á morgun kl. 18 en eins og glöggir lesendur átta sig á er hér um gamalt veðurkort að ræða og viðkomandi morgundagur löngu liðinn. Ég man ekki hvar á netinu ég fékk kortið á sínum tíma, en þessi gömlu handteiknuðu veðurkort taka auðvitað öllu fram sem boðið er upp á í dag. Og þótt litinn skorti, þá liggur við að maður finni fyrir rigningunni og vindinum.
Úrkomuleysið að undanförnu hefur verið í umræðunni og virðist sem við séum orðin föst í þessum snemmsumarþurrkum ár eftir ár. Þetta er talsverð breyting frá því er ég var alast upp en þá var aðalkappsmálið að eiga góð Nokia stígvél svo hægt væri að vaða í dýpstu drullupollana ekki síst að sumarlagi. Það var líka talsvert kaldara á mínum uppvaxtarárum á 8. áratugnum og því freistandi að segja að blaut sumur fari saman við kaldari tíð. Kannski á þetta frekar við um sunnan- og vestanvert landið sem fær að finna fyrir því þegar lægðirnar stefna beint á landið.
Nú á tímum meiri hlýinda fara lægðirnar hinsvegar beint til Bretlandseyja með þeim aukaverkunum að hæg norðaustlæg eða austlæg átt verður ríkjandi hér á landi með almennum sumarþurrkum víðast hvar en svalara sjávarlofti við strendur austan- og norðanlands.
Nú er auðvitað sígilt að velta fyrir sér hvort þetta sé veðurbreyting sem komin er til að vera. Ég held að því sé varla treystandi því veðrið leitar gjarnan í gömul för og tímar stígvélaðra sumra því ekki endilega liðnir. Samhengi hlutana er þó ekki alltaf einfalt því auðvitað getur líka rignt duglega í hlýindum og öfugt. Hitasveiflurnar eru samt nokkuð ljósar og þar gæti hitastigi sjávar spilað inní. Undanfarin ár hefur hlýr sjór verið ríkjandi hér við land, svipað og á síldarárunum um miðja síðustu öld. Gott er í því sambandi að kíkja á AMO myndina (Atlantic Multidecadal Oscillation) sem endurspeglar ágætlega þróun sjávarhita hér nyrst í Atlantshafinu þegar tilraun hefur verið gerð til að jafna út leitnina upp á við vegna almennrar hlýnunnar. Samkvæmt þessu höfum við greinilega verið í hlýju pósitívu ástandi frá því fyrir 2000 en þó ekki alveg eins öflugu og á árunum 1930-1945. Ómögulegt er að segja hversu lengi þetta varir en miðað við lengd síðustu tímabila gæti þetta hlýja tímabil allt eins verið hálfnað.
Veður | Breytt 28.6.2012 kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2012 | 09:21
1. maí í fyrra og veðurhorfur sumarsins
Til upprifjunar má minna á að á þessum degi í fyrra var alhvít jörð í Reykjavík, samanber myndina sem tekin var í Öskjuhlíð þann 1. maí 2011.
Það var mikið kvartað yfir lélegri vorkomu á síðasta ári enda veðrið gjörólíkt veðrinu nú ár. Hitinn í apríl í fyrra var að vísu nálægt opinberu meðaltali en sunnanáttirnar voru ansi ágengar og úrkoman með allra mesta móti og af öllum gerðum. Þann 30. apríl tók að snjóa meira en góðu hófi gegndi sem skilaði sér í óvenjumikilli snjódýpt að morgni 1. maí. Snjórinn varð þó ekki lífseigur því mikil hlýindi gerði dagana á eftir. Þá héldu margir að sumarið væri komið sem reyndist því miður ekki alveg rétt. Snjódýptin þennan 1. maí-morgun mældist 16 cm við Veðurstofuna sem er aðeins 1 cm frá snjódýptarmeti mánaðarins í Reykjavík sem var sett að morgni 1. maí 1987 við mjög svipaðar aðstæður og í fyrra.
Þetta má notla sjá betur í myndaseríu minni 365-Reykjavík þar sem eru samskonar myndir alla daga ársins: http://www.365reykjavik.is/
- - - -
Svo er það sumarið. Verður þetta enn eitt þurrviðris-sumarið hér í Reykjavík eða er loksins komið að rigningasumri? Sjáum nú til. Fyrirbæri er til sem kallast Weather Service International sem gefur sig meðal annars út fyrir að spá fyrir um veðurlag nokkra mánuði fram í tíman. Í nýjustu spá fyrir Evrópu er talað um talsvert öðruvísi veðurmynstur en verið hefur síðustu 4 ár. Það ætti að þýða að í stað rigningartíðar á Bretlandseyjum, Danmörku og víðar í norðurhluta Evrópu má nú búast við þurrviðri og hlýindum þar en blautara veðri í suðurhluta álfunnar.
Þótt ekki sé talað um Ísland, má hafa í huga að veðurlag á Norður- og Austurlandi fylgir gjarnan veðrinu á Bretlandseyjum og Norður-Evrópu því þegar hæð sest að nálægt Bretlandi þá taka sunnanáttirnar sig upp á Íslandi með vætutíð sunnan- og vestanlands en blíðskaparveðrum fyrir norðan og austan. Slíkt veðurlag hefur einmitt ekki einkennt sumrin hér á landi frá árinu 2007. Hvort eitthvað vit sé í svona spám er ég ekki viss um, en mig grunar að þetta sé ekki fyrsta þurrviðrisspáin fyrir Bretlandseyjar á allra síðustu árum, Bretar eru líka nýstignir upp úr einhverjum blautasta apríl sem um getur hjá þeim og því alveg mögulegt að spáin skolist eitthvað til við það.
Sjá nánar: Warmth Focused in Western and Northern Europe This Summer
Veður | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)