Færsluflokkur: Sjónvarp

Sænskar kjötbollur

Ég er sjálfsagt þekktur fyrir ýmislegt annað en að vera mikill matargerðarmaður og þar af leiðandi horfi ég ekki mikið á matreiðsluþætti í sjónvarpi. Þó er einn sjónvarpskokkur sem ég hef alltaf haft mikið dálæti á en það er sænskur náungi sem var talsvert vinsæll fyrir mörgum árum. Í sýnishorninu hér á eftir má sjá hann matreiða sænskar kjötbollur af miklu listfengi. Þessar bollur eru alveg fjaður-magnaðar. Ég mæli með því að hafa hljóðið á. Verði ykkur að góðu.

 

 

Og af því að þetta var frekar stutt þá koma hér gómsætir kleinuhringir sem eftirréttur í boði hússins –  algerlega skotheldir á bragðið.

 

Þetta var sjónvarpsnostalgía mánaðarins, en svoleiðis er alltaf á þessari síðu í lok hvers mánaðar. Að þessu sinni var það auðvitað hinn mikli snillingur: sænski kokkurinn í Prúðu-leikurunum.

 

 


Carl Sagan útskýrir fjórðu víddina

Það muna örugglega margir eftir þáttunum Cosmos sem sýndir voru í Sjónvarpinu árið 1981. Þar var á ferðinni stjörnufræðingurinn Carl Sagan sem leiddi áhorfendur í allan sannleikann um undur alheimsins bæði nær og fjær, eða að minnsta kosti svo langt sem þekkingin náði. Þetta voru alls þrettán þættir og nutu þeir talsverðra vinsælda víða um heim. Mikið var lagt upp úr myndrænum útskýringum þar sem Carl Sagan ferðaðist í kringum plánetur og heilu stjörnuþokurnar  á milli þess sem hann gekk um grösugar lendur jarðar.
Í myndbúti sem hér fylgir hefur Carl Sagan komið sér þægilega fyrir við skrifborð þar sem hann hefur búið til tvívíðan heim - FLATLAND - og gerir með því tilraun til að útskýra takmarkanir okkar til að skynja fjórðu víddina, ef hún er þá til.



Það mætti skrifa hér heilmikið um Carl Sagan og framlag hans til stjörnufræðinnar, en þó má nefna að hann kom mikið við sögu í undirbúningi ómannaðra könnunarferða á vegum NASA til reikastjarnanna auk þess sem hann var mjög áhugasamur um hugsanlegt vitmunalífi utan sólkerfisins. Carl Sagan er ekki lengur á meðal vor en hann lést árið 1996, 62 ára að aldri og er því kannski staddur á öðru sólkerfi þessa stundina. Til nánari fróðleiks um Carl Sagan má benda á ágætis grein á Vísindavefnum frá því í fyrra: http://www.stjornuskodun.is/venus/116-carl-sagan.

Þetta var sem sagt Sjónvarpsnostalgía mánaðarins.

 


Skonrokk, Meatlow og Skólaljóð

Seint á áttunda áratugnum hóf Sjónvarpið að sýna tónlistarmyndbönd í sérstökum dagskrárlið sem kallaðist Skonrokk eins og þeir muna sem þá voru uppi. Þetta voru auðvitað ómissandi þættir fyrir þá sem vildu fylgjast með því nýjasta í poppinu, diskóinu og rokkinu, allt undir öruggri handleiðslu skífuþeytarans og landfræðingsins Þorgeirs Ástvaldssonar. Þegar Skonrokk var á dagskrá var að sjálfsögðu allur skólalærdómur og svoleiðis lagður til hliðar því annars gæti maður misst af einhverju stórkostlegu og jafnvel ekki verið viðræðuhæfur daginn eftir. Eitt sinn fyrir um 30 árum hafði ég fengið það heimaverkefni að læra ljóð upp úr Skólaljóðum, en þar sem Skonrokk  var á dagskrá þetta kvöldið ætlaði ég að láta ljóðalærdóminn bíða þar til eftir þáttinn sem ég horfði á ásamt systrum mínum. Þegar síðasta myndband þáttarins birtist hvöttu systur mig bara til að drífa mig í ljóðalærdóminn enda virtist lokalagið ætla að verða leiðinlegt, flutt af ófrýnilegum þéttvöxnum söngvara sem enginn hafði heyrt um áður. Ég lokaði mig þá af og tók til við að læra ljóðið sem mig minnir að hafi verið Frjálst er í fjallasal eftir Steingrím Thorsteinsson. Þegar ég kom svo aftur fram í stofu, fullnuma í ljóðinu, fékk ég að heyra að lokalagið í Skonrokki hafi eftir allt saman verið „æðislega flott“ og að ég „hefði átt að horfa á það“. Við því var hinsvegar ekkert að gera úr því sem komið var.

Lagið sem var svona æðislega flott og sló í gegn eftir þennan Skonrokksþátt var hið mikla lag, Paradise by the dashboard light og er það í dag eitt af sígildum lögum rokksögunnar flutt af hinum fjallmyndarlega Meatloaf. Með honum á myndbandinu er söngkonan Karla DeVito en það mun það hinsvegar vera söngkonan Ellen Fooley sem á röddina.

Sjónvarpsnostalgía mánaðarins hjá mér að þessu sinni er Skonrokk.

 


Ljúft er að láta sig dreyma

Dagskrá 10okt1993Óhætt er að segja að margt stórmennið hafi einkennt sjónvarpsdagskrána sunnudagskvöldið 10. október árið 1993 en þá voru mættir á skjáinn þeir Burt Reynolds, Leonard Bernstein að ógleymdum Árna Johnsen.

Ekki get ég þó sagt að ég muni sérstaklega eftir þessum þáttum en hinsvegar man ég vel eftir framhaldsþættinum sem var á dagskránni þetta sama kvöld sem hét á íslensku Ljúft er að láta sig dreyma eða Lipstick on Your Collar á frummálinu og voru skrifaðir af Dennis sáluga Potter, en hann gerði einnig handrit af öðrum góðum seríum á borð við Pennies from heaven og The Singing Detective. Ég veit reyndar ekki um marga sem sáu þessa þætti hvernig sem stendur á því, en þarna árið 1993 voru auðvitað þeir dagar liðnir að landsmenn settust fyrir framan sömu sjónvarpsdagsskrána eins og áður var.Lipstick on Your Collar

Í þáttunum Lipstick on Your Collar segir af ungum manni sem gegnir herskildu sinni með störfum í bresku leyniþjónustunni sem rússneskuþýðandi og gerist sagan á þeim tíma þegar Súez-deilan stendur sem hæst árið 1956-57. Það er ýmislegt sem truflar huga unga mannsins, ekki síst örlaga- og draumadís þáttarins sem svo illa vill til að er einmitt trúlofuð liðsforingjanum illræmda. Rokkið og rólið er einnig ofarlega í huga piltsins og í einhæfri þýðingarvinnunni er ljúft að láta sig dreyma en þá lifna hinir alvarlegustu menn við og bresta í söng, í þykjustunni að vísu. Tónlistaratriðin er einmitt eitt aðaleinkenni þeirra þátta sem Dennis Potter skrifaði. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar með að fella söngatriði inn í kvikmyndir og sjónvarpsþætti en það hefur sjaldan verið gert betur en í þessum þáttum.

Hér á eftir kemur lítið atriði úr fyrsta þætti en þar má ásamt fleirum sjá aðalsöguhetjuna sem leikin er af Ivan McGregor, en lagið Little Bitty Pretty One sem þarna hljómar er flutt af Frankie Lymon. Þættirnir Ljúft er að láta sig dreyma eru annars sjónvarpsnostalgía mánaðarins á þessari síðu.

 


Onedin skipafélagið

Dagskrá Onedin

Í eldgamladaga þegar ekki var búið að finna upp litasjónvarp eða vídeótæki hér á landi, safnaðist fólk fyrir framan sjónvarpstækin sín eftir kvöldmat ef ekki var fimmtudagur og horfði á dagskrána sem þar var í boði. Nokkurn veginn mátti fullyrða að fólkið í næsta húsi eða í næstu íbúð væri einnig að horfa á sjónvarpið og á sömu myndina enda bara ein sjónvarpsstöð í loftinu og þótti alveg feikinóg. Þetta átti ekki síst við þegar fínir breskir framhaldsþættir voru á dagskrá eins og Onedin skipafélagið sem voru sýndir í mörg ár á áttunda áratugnum og sögðu frá skipstjóranum James Onedin sem gerði út skipafélag sitt frá hafnarborginni Liverpool. Sjálfur horfði ég oft á þessa þætti og þá aðallega vegna stóru seglskipana sem léku stórt hlutverk í þáttunum og voru sjálfsagt fyrirmyndin af öllum þeim seglskipamyndum sem ég teiknaði um 10-12 ára aldurinn. Einnig höfðu þættirnir úrslitaáhrif á það hvaða enska fótboltalið varð fyrir valinu til að halda með um ókomin ár.

Þættirnir um Onedin skipafélagið er kannski ekki aðalmálið í dag, en þetta er hinsvegar sjónvarpsnostalgía mánaðarins – nýr dagskrárliður á þessari síðu og í fullum litum að þessu sinni. Hér má sjá upphaf allra fyrsta þáttarins. Upphafstónlistin sem setti svo sterkan svip á þættina er eftir hinn rússneska Aram Khachaturian og er úr balletverkinu Spartacus.

 

 


Frönsk framlög í Eurovision

Nú er ég búinn að finna mitt Eurovisionlag í keppninni í ár og hvort sem það er tilviljun eða ekki er það franska lagið sem höfðar mest til mín alveg eins og í fyrra. Frakkar taka þessari keppni greinilega með hæfilegri léttúð án þess þó að það komi niður á tónlistinni sem er ekkert nema fyrsta flokks og nú mæta þeir til leiks með eðaltöffarann og hjartaknúsarann Sebastian Tellier sem svipar dálítið til John Lennons á mesta hárvaxtarskeiði sínu. Að öllum líkindum mun þetta lag samt ekki slá í gegn í keppninni, margir þola t.d. ekki að Frakkar syngi á ensku, afgreiða þetta bara sem hverja aðra vitleysu og heyra ekki músíkina í þessu. Kannski mun íslenska tannkremsdiskólagið This is my life höfða meira til alþýðunnar í Evrópu þótt það höfði ekki til mín, en tel ég mig þó vera alþýðumann.

Hér kemur Franska lagið í ár, og einnig Franska lagið frá því í fyrra sem var einnig frábært en náði einungis 22. sæti af 24 í lokakeppninni. Frakkar eru misskildir snillingar.

 


 


Hvað finnst mér um Eurovisionlögin?

Núna á laugardagskvöldið er komið að þeirri stóru stund er við veljum okkar framlag í Evrópukeppni dægurlaga, sjálfa Eurovisionkeppnina sem verður haldin í Serbíu þetta árið. Þetta er auðvitað keppni sem allir dýrka og dá, ýmist opinberlega eða í laumi, en hvað mig varðar þá hef ég aldrei farið í felur með minn áhuga á keppninni. Enda afar fordómalaus og víðsýnn þegar kemur að menningarviðburðum, bæði háttsettum sem lágt settum. En hvað finnst mér um þau lög sem keppa um að verða framlag okkar nú í ár? Margt finnst mér gott en hér koma mínir fordómalausu sleggjudómar: (Smellið á titil til að spila lögin)

Engill Gef mér von. Flytjandi: Páll Rósinkrans. Höfundur: Guðmundur Jónsson. Palli Rósinkrans biður um von af mikilli andagift, studdur af gospelsöng í Hvítasunnustíl. Sá stíll höfðar ekki til mín og varla hægt að segja að þetta lag eigi mikla von. Allt er samt vel gert hér, Páll er einn af okkar bestu söngvurum og Guðmundur - Sálin hans Jóns míns - Jónsson, kann vissulega að semja grípandi tónlist.

Stútur Núna veit ég. Flytjandi: Magni Ásgeirsson (og Birgitta?), Höfundur: Hafdís Huld Þrastardóttir. Þetta er nú bara mjög fallegt og huggulegt lag, rólegt framan en bætir í undir lokin. Það kom í ljós í seinni umferðinni að Magni dugði ágætlega án Birgittu sem var óvart í skíðafríi. Kjósa Magna? Þjóðin kann það. Ég veit hinsvegar ekki með Evrópu.

Blístra In your dreams. Flytjandi og höfundur: Davíð Þorsteinn Olgeirsson. Þetta lag er bara skal ég segja ykkur alveg bráðgott. Létt, skemmtilegt og grípandi, sungið í falsettu og minnir m.a. á ýmsa gamla Elton John slagara, einhver sænskur Eurovision-keimur af þessu líka. Ég gæti alveg hugsað mér þetta lag í sjálfri keppninni ef tekst að finna réttu sviðsframkomuna sem hefur verið helsti vandinn hingað til.

Brosandi  Hvað var það sem þú sást í honum? Flytjandi: Baggalútur. Höfundur: Magnús Eiríksson. En eitt gott lag og enn vandast valið. Fyrst var það flutt í rólegri kántrý-útgáfu en var síðan flutt í sveiflustíl einhverstaðar á milli Geirmundar og Tom Jones. Baggalútsmenn gefa þessu lagi skemmtilegan karekter eins og þeim er von og vísa. 

Geispa  Fullkomið líf. Flytjandi: Eurobandið (Friðrik Ómar og Regína ósk), Höfundur: Örlygur Smári. Ænei. Ég veit að þetta fólk langar óskaplega mikið út og telur sig sjálfsagt vera með skothellt Eurovision lag. En þetta lag er eins og Eurovisoin lög verða leiðinlegust, tilgerðarlegt stuð og ofnotaðar klisjur sem bjarga ekki slöku lagi. Ég óttast samt að mörgum falli þetta vel í geð. „We have a winner“ sagði Páll Óskar. „We have a looser“ segi ég.

Undur og stórmerki  Hvar ertu nú? Flytjandi: Dr. Spock, Höfundur: Dr. Gunni. Guli hanskinn rokkar feitt! Hér er fjörið, hér er frumleikinn. Angurvær sjómannaballaða og villt dauðarokk fléttað í eitt og endar í níu-vindstigum á Halamiðum. Mikið show hér á ferð, en það sem skiptir kannski mestu er að laglínan gerir sig og söngurinn afbragð. Já, takk!

Töffari  Ho, ho, ho, we say hey hey hey, Flytjandi: Merzedes Club, Höfundur: Barði Jóhannsson. Er þetta lagið sem er að fara út? Það bendir margt til þess enda hefur þetta lag vakið mesta athygli. Barði Bang Gang er náttúrulega snillingur og kemur hér með Ibiza-techno-hnakka-diskó sem hugsanlega er neðst í virðingastiga allrar tónlistar og fer alla leið með olíubrúnkusmurðum vöðvamennum og einni söng-mjónu. Hörku atriði. Stóri gallinn er hinsvegar sá að fólkið getur ekki sungið! Það kom fram í seinni umferðinni þegar felu-baksviðsmenn þurftu að syngja fyrir drumbaslagarana og söngkonan þurfti að syngja með sinni náttúrulegu litlu rödd - án allra tölvueffecta.

Sofandi Don't wake me up. Flytjandi: Ragnheiður Gröndal. Höfundur: Margrét Kristín Sigurðardóttir.Er þetta kannski bara lagið? Ragnheiður Gröndal klikkar ekki, hún kann að syngja og fer létt með skemmtilegt lag sem er í dálitlum revíustíl.Allavega eitthvað leikhúslegt við þetta. Bara fínt, já já.

Niðurstaða: Spái því að Hó hó hó, fari út (börnin hafa gaman af þessu), Fullkomið líf lendir í öðru sæti en fær örugglega ekki atkvæði frá mér. Best finnst mér Hvar ertu nú? Önnur lög eru yfirleitt fín en eiga kannski ekki mikla möguleika en mættu fara í keppnina mín vegna, nema helst Gospel-lagið. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband