Gotnesk letur

Áfram skal haldið með letursögu og nú er komið að því merkilega hliðarskrefi sem gotneska letrið er en það var einkennisletur síðmiðalda þótt það hafi víða verið notað áfram í prentverki næstu aldirnar. Á síðustu öldum miðalda leitaði menning hins kaþólska heims til hæstu hæða og sem allra næst sjálfu himnaríki. Hinn rómanski bogi sem áður hafði einkennt kirkjubyggingar fékk á sig odd sem teygði sig upp á við og úr varð hinn hvassi gotneski stíll. Á sama hátt snéru biblíuskrifarar Mið- og Norður-Evrópu við blaðinu, lögðu til hliðar hina rúnnuðu Karlungaskrift og tóku upp þetta háa og kantaða letur sem hefur verið kallað gotneskt letur. Þessi leturþróun var þó kannski ekki bara fagurfræðilegt tískufyrirbæri heldur líka praktískt því með gotnesku skriftinni var hægt að skrifa þéttar sem sparaði dýrmætt bókfell auk þess sem leturgerðin bauð upp á ýmsar styttingar með sameiningu einstakra stafa eins og sést í dæminu hér að neðan.

Gotnesk Textura

Mynd:Handskrifað textúr-letur í enskri Biblíu frá árinu 1407.
 

Gotneskt letur er stundum kallað öðrum nöfnum eins og t.d. brotaletur og blackletter á ensku. Gotneska heitið festist eiginlega við þessa leturgerð sem niðrandi uppnefni húmanískra Suður-Evrópumanna sem voru á annarri og klassískari línu og héldu áfram að þróa sitt lágstafaletur í þá átt sem við þekkjum í dag.

Gotneskt búturElsta og stífasta gerðin af gotnesku letri nefnist textúr og einkennist af jöfnum, lóðréttum strikum í grunninn og misbreiðum skástrikum eftir því hvernig þeim hallar gagnvart fjaðurpennanum. Bogadregnar línur eru nánast engar. Ef tekinn er bútur úr almennilegri textúr-skrift á réttum stað kemur randmynstrið og reglan í ljós.

GutenbergsbiblíaFrægasta og áhrifamesta notkun á gotneska textúr-letrinu er sjálf Gutenbergsbiblía frá því um 1450-60 sem er fyrsta og eitt fallegasta stórvirki prentlistarinnar. Þar var beitt þeirri byltingarkenndri nýjung að hver stafur var handgerður og steyptur í blý og stöfunum síðan raðað upp á hverja síðu fyrir sig. Gutenberg sjálfur vildi að Biblían væri sem líkust handskrifuðum bókum og því valdi hann að nota gotneska textúr-letrið. Þessi hugsun átti eftir að vera ríkjandi áfram í prentverki um nokkurt skeið.

Elstu íslensku handritin voru ekki rituð með gotneskri skrift heldur hinni eldri Karlungaskrift sem var líkari lágstafaskrift okkar tíma. Um 1400 voru gotnesku letrin hinsvegar nánast allsráðandi hér í handritagerð og síðar í prentverki. Hin þétta og hvassa gerð gotneska letursins - textúr - var þó ekki notuð á prentaðar bækur hér því komnar voru fram léttari afbrigði sem buðu upp á sveigða og mýkri stafi. Gotneska leturafbrigðið sem notuð var í Guðbrandsbiblíu nefnist fraktúr sem byggist bæði á beinum og sveigðum línum sem gerir letrið læsilegra, en verður þó um leið óreglulegra á að líta í samfelldum texta heldur en textúr.

Gudðbrandsbiblía letur

Mynd: Prentað fraktúr letur í Guðbrandsbiblíu frá árinu 1584.
 

Hinar léttari gerðir gotnesks leturs voru mjög lífseigar fram eftir öldum á vissum svæðum og þá sérstaklega í Norður-Evrópu. Á Íslandi héldu menn áfram að prenta sínar bækur með þessum leturgerðum fram á 19. öld þó að í Evrópu hafi verið komin fram nútímalegri leturgerðir. Lífseigust urðu þessi letur þó í Þýskalandi enda þóttu þetta lengst af vera þjóðleg letur. Nasistum þótti það einnig líka í fyrstu en skiptu svo rækilega um skoðun árið 1941 eftir að þeir fóru að tengja gotnesk letur við gyðinga, hvernig sem þeir fundu það út.

Í dag eru gotnesk letur nánast ekkert notuð í samfelldum texta nema í sérstökum tilfellum. Algengt er enn í dag að nota gotnesku letrin í blaðahausa virðulegra og íhaldssamra dagblaða. Nærtækast fyrir okkur er að benda á haus Morgunblaðsins sem byggist á hinu forna textúr-afbrigði. Hinsvegar má gjarnan sjá gotnesk letur á allt öðrum og hörkulegri vettvangi t.d. meðal þungarokkara og rappara svo eitthvað sé nefnt, en þá erum við kannski komin dálítið langt frá upphaflegu hugsun leturskrifara miðalda.

Dagblöð hausar

SnoopDog - Motorhead

 

- - - -

Eldri bloggfærslur mínar um letursöguna má finna hér:

TRAJAN leturgerðin 

Hið forneskjulega Únsíal letur 

Meðal heimilda sem ég notast við er ástæða til að nefna samantektina: Þættir úr letursögu eftir Þorstein Þorteinsson sem birtist í bókinni, Prent eflir mennt, í ritröðinni: Safn til iðnsögu Íslendinga.

 


Bloggfærslur 10. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband