24.1.2010 | 13:45
TRAJAN leturgerðin
Það stafróf sem við notum hér á vesturlöndum kallast Latneskt stafróf eða latneskt letur og er eins og margt annað, arfleifð frá hinu forna Rómaveldi. Allra frægasta dæmið um notkun Rómverja á latneska letrinu er að finna á undirstöðum Trajan-súlunnar sem kennd er við Trianus Rómarkeisara. Súlan sjálf er frá árinu 113 og er þakin mikilli myndasögu sem segir af velheppnuðum herleiðöngrum keisarans. Letrið sem höggvið er í undirstöðuna hefur orðið einskonar útgangspunktur í klassískri leturgerð til okkar daga. Útfærsla letursins er greinilega þaulhugsað og ber klassískri fagurfræði vitni.
Þarna má t.d. sjá þá nýjung þess tíma að öll lárétt strik eru grennri en þau lóðréttu og allar bogalínur eru misþykkar samkvæmt því. Önnur nýjung sem hefur orðið ódauðleg í gegnum aldirnar er lítið þverstrik á endum strika, en slík letur eru nú almennt kallað fótaletur upp á íslensku eða Serífur, samanber letur eins og Times og Garamond. Ástæðan fyrir því að misþykkar línur og þverstrik komu til er gjarnan talin vera sú að letrið hafi verið málað á steininn með flötum pensli áður en letrið var meitlað. Það var svo ekki fyrr en á síðustu öld sem komu fram hrein og bein letur í nútímastíl án þessara skreytiþátta. Það eru letur eins og Helvetica og Arial, oft kölluð steinskriftir eða Sans Serif letur.
Á tímum Rómverja var ekki um neina lágstafi að ræða en þeir áttu eftir að þróast með tímanum þegar farið var að skrifa handrit í stórum stíl enda hentar þetta letur ekki vel til hraðritunnar, hinsvegar hefur sú hefð lengi verið ríkjandi að nota hástafi í upphafi setninga.
Nokkrar leturgerðir hafa verið teiknaðar sem líkja eftir letrinu á Trajan súlunni Rómversku. Það þekktasta af þeim var teiknað árið 1989 og ber einfaldlega heitið TRAJAN. Letrið hefur talsvert mikið verið notað þegar á að ná fram klassískum virðuleika og fínlegheitum enda er þetta auðvitað afar fallegt letur.
Stundum er þetta letur kallað bíómyndaletrið því það hefur verið sérlega vinsælt að nota það á kvikmyndatitlum. Einnig mætti líka kalla það bókarkápuletrið miðað við hvað það hefur verið vinsælt til slíks brúks hér á landi og ef einhver er með vegabréfið sitt uppivið þá er Trajan letrið þar allsráðandi. Eins og á tímum Rómverja þá er nútímaútgáfa Trajan letursins aðeins til í hástöfum en það takmarkar auðvitað notkun letursins í löngum textum. Miðað við hvað Trajan letrið hefur verið mikið notað undanfarin ár, er kannski komið því að það þurfi smá hvíld sem aðalletur á bókarkápum og kvikmyndatitlum. Þetta letur mun þó verða notað lengi áfram þegar leitað er eftir klassa eða virðuleik í grafískri hönnun. Frumlegt er það þó ekki enda er klassíkinni ekki ætlað vera frumleg.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkur: LETUR | Breytt 21.2.2010 kl. 21:19 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir góðan fróðleik
Ágúst H Bjarnason, 24.1.2010 kl. 13:56
Hver er munurinn á etri rómverja, þegar þeir meitla í steininn, eða skrifa á vegginn, eins og sja má td. í Pompeii?
Haraldur Sigurðsson, 24.1.2010 kl. 15:18
Ég fann ágætis grein um þetta sem þú ert sennilega að vísa í. (sjá hér)Í Pompeii er til dæmi um að hvernig menn máluðu á vegginn með penslum sem skýrir vel misþykku línurnar til í Latnesku leturgerðinni, eða hægri handar skriftarhalla þar sem strik eru þykkust sem liggja skáhalt niður til hægri. Grikkir t.d. hjukku hinsvegar sitt letur í stein með sömu þykkt í og án þverstrika til endanna.
Rómverskt letur sem málað er beint á stein ætti því ekki að vera öðruvísi í aðalatriðum nema að það er ekki eins formfast og skrfitn er meira lifandi.
Emil Hannes Valgeirsson, 24.1.2010 kl. 19:02
Hraðskrift var raunar til á dögum Rómverja (enda gegndi ritmál mikið stærra hlutverki í rómversku samfélagi en framan af á miðöldum). Nútímamenn kalla það litteratura cursiva en ekki held ég að fornt latneskt heiti komi fram í neinum texta.
Hér, neðarlega á síðunni, má sjá varðveitt sýnishorn.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 25.1.2010 kl. 01:40
Já þeir áttu reyndar sína hraðskrift fyrir óformlegri texta, ég kannast við hana undir heitinu roman cursive. Þessi skrift virðist hafa horfið með Rómaveldi.
Emil Hannes Valgeirsson, 25.1.2010 kl. 09:33
Sérlega stílhreint og fallegt letur - en eins og þú segir réttilega, passar ekki fyrir langa texta.
Takk fyrir fróðleikinn!
Lára Hanna Einarsdóttir, 25.1.2010 kl. 17:59
Mjög fróðlegur pistill, kærar þakkir.
Arnar Pálsson, 4.2.2010 kl. 11:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.