Straumar og stefnur í hafísnum

Að þessu sinni ætla ég að þykjast vita heilmikið um hafsstrauma og hafísa. Ég læt þó bara yfirborðsþekkingu mína duga enda verður hér ekki kafað mjög djúpt, einungis hugað að yfirborðinu. Á veturna er alltaf stutt í hafísinn sem flýtur um á hafinu norðvestur af landinu og af og til minnir hann á sig með nærveru sinni eins og gerðist núna í janúar. Við sem búum hér á mörkum hins byggilega heims eigum nefnilega allt okkar undir því að hlýir vindar og hafstraumar úr suðri haldi kaldari sjónum í skefjum og þar með hafísnum.

Hafstraumarnir sjálfir eru reyndar nokkuð stöðugt fyrirbæri, einskonar brautir í hafinu sem sjórinn streymir um án mikilla tilbrigða. Vindarnir sem blása á yfirborðinu eru hinsvegar öllu óstýrilátari og geta orsakað allskonar afbrigðilegheit í veðri langtímum saman. Hér við land geta vindarnir síðan haft örlagarík áhrif á hafísinn og beint honum frá sinni hefðbundnu leið og í framhaldinu hlaðist upp norður af landinu og komist í straumana sem hringa sig um landið.

Hafsstraumar_NA
Myndin er að grunni til fengin af vefnum Cryosphere Today og sýnir útbreiðslu hafíssins þann 16. febrúar. Ofan á myndina hef ég bætt við pílum sem sýna á nokkuð einfaldaðan hátt hvernig hlýir og kaldir hafstraumar leika um hafsvæðið. Hlýsjórinn úr suðri er ættaður úr Golfstraumnum og sést vel hversu áhrifaríkur þessi suðlægi straumur er til að halda hafinu íslausu allt norður fyrir Svalbarða og lengst inn í Barentshaf. Greinilegt er samt að það er sögulega séð mjög lítið hafísmagn núna á svæðinu almennt og lítil hætta á að meiriháttar hafísár sé í vændum hér á landi.

Ef skoðað er hvernig samspili kaldra og heitra strauma er háttað hér í norðurhöfum, er greinilegt að það er nokkurskonar hægri umferð í gangi. Heiti meginstraumurinn liggur norður með Noregsströndum en kaldi pólstraumurinn úr Norður-íshafinu rennur suður með austurströnd Grænlands. Þar á milli blandast þessir straumar með rangsælis snúningum á opnu hafinu eins og á hringtorgum, einkum milli Íslands og Svalbarða. Hinsvegar er það svo að í kringum eyjar og meðfram landssvæðum virðist það vera reglan að heitu straumarnir fara vestur fyrir og streymi norður með vesturströndum á meðan köldu straumarnir fara austur fyrir.

Á Íslandi er vesturströndin nánast alltaf laus við hafís ef undan er skilinn Vestfjarðakjálkinn. Hafísinn kemur hér helst upp að landinu ef suðvestlægir vindar hrekja hafís úr Austur-Grænlandsstraumnum þannig að hann safnast fyrir norður- eða norðvestur af landinu. Í mestu hafísárunum kemur hann þó gjarnan úr norðri ef ísframboð þaðan er nægilegt. Í framhaldinu getur hann borist með strandstraumnum austur með landinu og jafnvel vestur eftir suðurströndinni í hinum allra verstu árum. Það þarf síðan hálfgert ísaldarástand til að hafísinn nái inn í Faxaflóa. Það gerðist þó árið 1695 og þótti með ólíkindum.

Sambærilegt ástand er við Svalbarða. Hlýr suðlægur straumur heldur hafinu vestur af Svalbarða oftast íslausu jafnvel um hávetur. Köldu straumarnir bera hafísinn upp að austurströndunum og þaðan getur hann borist suður fyrir eyjar og norður eftir vesturströndinni með strandstraumum. Á Grænlandi er það einnig austurströndin sem fær að kenna á hafísnum enda er þar mjög hrjóstrugt. Ísinn nær sífellt lengra til suðurs eftir því sem líður á veturinn en það er ekki fyrr en um vorið sem hann kemst almennilega suður fyrir Hvarf og eitthvað norðureftir vesturströndinni þar sem byggðin á Grænlandi er blómlegust.

Ef jörðin snerist í hina áttina

Straumar og stefnur lofti og sjó ráðast mikið af snúningi jarðar. Það má því velta fyrir sér hvernig ástandið væri hér á Norður-Atlantshafi ef jörðin snerist öfugan hring um sjálfa sig miðað við það sem eðlilegt er. Suðlægu hafstraumarnir myndu þá sennilegas leika um strendur Grænlands þar sem væru barrskógar og blómlegar byggðir á meðan köldu hafstraumarnir norður úr íshafinu kæmu upp að Noregsströndum með þeim afleiðingum að Skandinavía væri hugsanlega hulin jökli og harðneskju - sem reyndar er ekkert ólíkt því ástandi sem verið hefur þar undanfarnar vikur.

Grænland Suðuroddi

Hér er suðuroddi Grænlands í dag fimmtudaginn 18. október. Þarna sést hvernig hafísinn á austurströndinni er rétt farinn að gægjast vestur fyrir hornið. Einnig sést þarna hversu snjólétt er á Vestur-Grænlandi um þessar mundir. Terra/MODIS gervitunglamynd


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir góðan pistil.

Mér fannst sérstaklega athyglisvert að heyra um snúningstefnu jarðar og áhrif hennar á loft og hafstrauma.

Arnar Pálsson, 22.2.2010 kl. 09:18

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég vona líka að þetta sé rétt hjá mér. En ég hef líka lesið um að hafís hreyfist áfram og til hægri miðað vindstefnu. Þannig að í sunnanátt þá hrekst ís til norðausturs. Þess vegna er suðvestan-áttin líka óhagstæð hafísátt því hún hreyfir ísinn til austurs frá Grænlandssundi.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.2.2010 kl. 12:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband