21.3.2010 | 21:40
Stendur gosið undir væntingum?
Ég hef skrifað um það einhvern tíma að það væri fínt að fá dálítið eldgos hér á landi. Kannski ekki alveg hamfaragos en þó nógu stórt til að hrista aðeins upp í tilverunni. Ég hef líka orðið var við áþekka goseftirvæntingu hjá fólki. Kannski má kalla þetta gosþrá eða mannlegan gosóróa. En nú er komið eldgos á Fimmvörðuhálsi, spenna í lofti og fjölmiðlar taka við sér. Nema hvað, þetta eldgos er nú svona heldur í minni kantinum og alveg spurning hvort það standi undir væntingum. Það er í raun svo lítið að ef ekki væri fyrir þá tækni sem við búum við í dag er ekki víst að nokkur hefði tekið eftir því.
Eftir því sem liðið hefur á daginn hefur þó umræða aukist um að þetta eldgos geti bara verið byrjunin á miklu lengri og stærri atburðum og jafnvel stærri en við kærum okkur um. Hvað gerist til dæmis ef neðanjarðarkvika kemst í samband við gúlana hans Páls Einarssonar? Það gæti orðið dágóð bomba. Svo má alveg minna á að stærsta eldgos á sögulegum tíma á Íslandi var Eldgjárgosið upp úr 930. Kvikan sem þar kom upp var ættuð úr Kötluöskjunni, en bara nokkrum árum áður hafði gos verið upp á Eyjafjallajökli.
Annars hef ég litlu við það að bæta sem þegar hefur komið fram fjölmiðlum um þetta eldgos. Ég get þó boðið upp á gervitunglamyndir sem ég sótti á Modis-síðunni og sýna svæðið kringum Eyjafjallajökul í dag, 21. mars. Sú til vinstri er í réttum litum og má sjá þar Eyjafjallajökull og ströndina þar suðvesturundan. Ekkert bólar þar á eldgosi. Á hitamyndinni til hægri má hinsvegar sjá lítinn ljósan, bláleitan punkt sem sker sig úr rauða litnum eins og krækiber í helvíti. Það er eldsuppkoman á Fimmvörðuhálsi.
Þurfum að fylgjast með Kötlu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Jarðfræði | Facebook
Athugasemdir
Þetta leggst illa í mig. Held að eigi eftir að verða miklar hamfarir innan ekki langs tíma.
Sigurður Þór Guðjónsson, 21.3.2010 kl. 21:45
Já hver veit nema þetta sé bara byrjunin á endalokunum?
Emil Hannes Valgeirsson, 21.3.2010 kl. 21:54
It's not a mountain.....it's only a hill.
Jói á Vespunni (IP-tala skráð) 21.3.2010 kl. 22:29
Já gott fólk það er að skapast þarna gríðarleg hætta og fæstir gera sér grein fyrir því!
Sigurður Haraldsson, 22.3.2010 kl. 01:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.