24.5.2010 | 17:48
Goslokaskýrsla II
Eftir að gosinu á Fimmvörðuhálsi lauk þann 12. apríl skrifaði ég goslokaskýrslu sem ég þurfti skömmu síðar að kalla Goslokaskýrslu nr. I þegar ljóst var að annað og meira eldgos var hafið á sömu slóðum. Hér kemur því Goslokaskýrsla II, en ómögulegt er þó að segja hvort þær eigi eftir að verða fleiri.
Gosið í Eyjafjallajökli þótti ekki vera gott gos, allavega ekki í samanburði við smágosið á Fimmvörðuhálsi. Þessi tvö gos voru auðvitað mjög ólík enda aðstæður ólíkar. Á Fimmvörðuhálsi var um að ræða sprungugos utan toppgígsins með hraunrennsli og nánast engu öskufalli, síðan kom sprengigos í toppgíg eldstöðvarinnar með miklu öskufalli og hlutfallslega litlu hraunrennsli. Þetta er í fullu samræmi við það að sprengi- og gjóskugos verða gjarnan í toppgígum megineldstöðva en sprungugos með hraunrennsli í útjöðrum. Sprungugosin geta jafnvel verið víðsfjarri megineldstöðinni og orðið mjög stór samanber Skaftárelda þar sem kvikan var ættuð frá megineldstöðinni í Grímsvötnum.
Eins og ég skil þetta með sprungugos með hraunrennsli eða sprengigos með öskufalli þá snýst málið sumpart um að kvikan úr toppgígum kemur beint upp úr efri hluta kvikuþróa þar sem kvikan hefur þróast í að vera súr og þar með sprengvirkari. Hinsvegar er kvikan sem leitar til útjaðra sem sprungugos ættuð neðar í eldstöðinni og því frumstæðari og basískari sem aftur þýðir minni sprengivirkni og meira hraunflæði. Súr sprengigos geta hinsvegar þróast yfir í basískari hraungos eftir því sem líður á gosið þegar nýrri og ferskari kvika nær upp. Svo koma til hlutir eins og gasinnihald og afgösun kvikunnar sem er meiri í súru kvikunni heldur en þeirri basísku. Nánar þori ég ekki út í þessi fræði en vissulega flækir það málið að kvikuþróarkerfi Eyjafjallajökuls er ekki vel þekkt. Þar virðist ekki vera ein allsherjar kvikuþró eins og undir Kötlu.
Öskufallið í gosinu var út af fyrir sig ekki óvænt en gerð öskunnar og afleiðingar hennar virtist koma öllum í opna skjöldu. Þetta var fínleg aska sem sáldraðist niður og fauk um sveitir og haga. Verst var þó hvað hún hélst lengi í loftinu og ferðaðist víða. Þessi víðförula aska olli mikilli röskun á flugi víða um lönd með miklum óþægindum fyrir víðförula heimsborgara og það sem verra er, þetta var ein versta landkynning sem Ísland hefur hlotið og gerði landið enn frægara af endemum en þegar var orðið.
Askan á jöklinum hylur snjóinn að mestu en þykkast ætti öskulagið að vera suður- og austur af toppgígnum. Öskulagið ver því snjóinn fyrir sólbráð í sumar en ný snjóalög munu svo bætast ofaná næsta vetur. Askan hlýtur þó að verða sjáanleg áfram í mörg ár sem svartir rákir á víð og dreif eftir því sem jökullinn skríður og bráðnar á sumrin. Svartur jökull í sumar getur hinsvegar haft jákvæð áhrif á hitafar í sveitunum undir jökli því á sama hátt og askan ver jökulinn fyrir sólarljósi þá kemur askan einnig í veg fyrir kælingu loftsins af völdum jökulsins.
Gígjökull hefur mátt þola miklar árásir af völdum bræðsluvatns og hraunrennslis. Þessi skriðjökull sem rennur ofan úr sjálfum toppgígnum hefur hörfað mikið á síðustu árum og mátti því ekki við miklu. Það er í raun merkilegt hvað jökulsporðurinn hefur þó þraukað í þessum hamförum en á næstu árum ættu afleiðingarnar gossins á jökulsporðinn þó að koma betur í ljós. Söfnunarsvæði jökulsins í toppgígnum sjálfum er orðið minna en áður því gígurinn hefur að hluta til fyllst af gosefnum, einnig mun framskriðið í jöklinum að miklu leyti fara í að græða sárið eða hraungjána sem liggur langleiðina niður eftir skriðjöklinum. Semsagt Gígjökull á eftir að styttast talsvert á komandi árum nema eitthvert ógnar kuldakast hellist yfir okkur.
Framhaldið er svo alveg óvíst. Sagan segir að gos í Eyjafjallajökli eigi það til að taka sig upp að nýju eins og gosið snemma á 19. öld sem stóð með hléum í 15 mánuði. Sjálfur trúi ég því að það mesta sé búið en aldrei að vita nema einhver eftirpúst eigi eftir að gera vart við sig. Djúpir jarðskjálftar geta gefið vísbendingar um framhaldið þannig að ef skjálftar verða á um 20 km dýpi má væntanlega eiga von á nýrri sendingu úr því neðra. Allt virðist þó rólegt á þeim slóðum.
Látum þetta duga, því öllu meira þykist ég ekki hafa vit á málum.
Séð til gosstöðvanna frá Þórólfsfelli þann 8. maí.
Á efri myndinni er horft frá Hvolsvelli í upphafsfasa gossins þann 17.apríl. (Ljósmyndir EHV)
Gos liggur enn niðri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Jarðfræði | Breytt 25.5.2010 kl. 08:36 | Facebook
Athugasemdir
Skemmtilegur pistill hjá þér :-). Svona á mannamáli þó svo þó svo um "akademískt" efni sé að ræða.
Bara í forvitni, ertu jarðfræðingur eða bara víðlesinn?
Með kveðju & þökk.
Íslendingur.
Íslendingur (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 18:06
Takk fyrir, en ég er bara Íslendingur sem hefur gaman af að grúska í þessu.
Kvikufræðin getur verið flókin og er sjálfsagt margslungnari en hér kemur fram.
Emil Hannes Valgeirsson, 24.5.2010 kl. 19:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.