16.6.2010 | 21:55
Attabad stífluvatnið í Pakistan
Það er víðar en á Íslandi sem náttúruöflin hafa verið til vandræða. Þann 4. janúar á þessu ári féll stór skriða í fjallahéruðum Kasmír nyrst í Pakistan með þeim afleiðingum að stórt stöðuvatn hefur smám saman myndast í dalnum aftan við skriðuna. Í byrjun júní var stífluvatnið orðið um 20 kílómetra langt og allt að 100 metra djúpt og tvö stór þorp að hálfu í kafi. Þúsundir manna búa þarna í dalnum, margir að vísu í hlíðunum fyrir ofan og eins og má ímynda sér er öll lífsafkoma fólksins í uppnámi. Dalurinn hefur lengi verið mikilvæg samgönguleið milli Pakistan og Kína en snarbrött fjöllin þarna eru í suðurjaðri Karakórum fjallgarðsins þar sem K2, annað hæsta fjall heims rís upp til himna.
En vandræði íbúanna á svæðinu eru ekki síðri neðan skriðunnar því lengi hefur verið óttast að stífluvatnið kunni að brjóta sér leið með offorsi í gegnum skriðuna með tilheyrandi stórflóði og því hafa þúsundir íbúa þurft að yfirgefa blómlega dalina fyrir neðan. Hunzai áin sem rann þarna í gegn og málið snýst um, sameinast nokkru sunnar Indusfljótinu sem rennur niður eftir Pakistan og til sjávar. Á síðustu dögum hefur það gerst að yfirborð vatnsins hefur náð upp að efri brún skriðunnar, vatn byrjað að seytla í gegn og farið að mynda nýjan og stækkandi farveg í skriðunni. Spurningin er svo hvort og hversu lengi skriðan nái að halda aftur af sjálfu stífluvatninu en hugsanlegt er auðvitað að þetta sé varanleg landbreyting og stöðuvatnið sé komið til að vera. Krítíski tíminn er nú framundan því sumarbráðnun jökla á svæðinu er í fullum gangi og regntími auk þess að hefjast. Ef eitthvað stórt gerist má búast við að það rati í heimsfréttir en annars hefur ekki mikið verið fjallað um þessa atburði í fréttum hér svo ég viti (meðfylgjandi ljósmynd er tekin við skriðuna 10. júní).
Rúsínan í pulsuendanum er síðan þetta myndskeið af YouTube þar sem vegfarandi náði að festa á filmu sjálf skriðuföllin þann 4. janúar og eins og sjá má gengur ekki lítið á.
Frétt um þessa atburði má annars t.d. finna á BBC fréttavefnum, sjá hér: http://news.bbc.co.uk/2/hi/south_asia/8692623.stm
Einnig er daglega fylgst með framgangi máli á þessari bloggsíðu hér sem annars einbeitir sér að hamförum vegna skriðufalla í heiminum: http://daveslandslideblog.blogspot.com/
Loftmyndin af vatninu er fengin af vefnum NASA Earth Observatory þar sem ég las fyrst um þessa náttúruhamför.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Stórmerkileg frétt og þetta er greinilega mjög ógnvekjandi fyrir íbúa þarna, bæði fyrir ofan og neðan stífluna. Veistu hvað skriðan er breið þar sem haftið er, fann það ekki í fljótu bragði?
Sveinn Atli Gunnarsson, 17.6.2010 kl. 09:05
Ég hef ekki fundið það í fljótu bragði heldur. En skarðið virðist vera nokkuð þröngt þar sem skriðan féll.
Emil Hannes Valgeirsson, 17.6.2010 kl. 10:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.