Bloggfærslur bókfærðar

Hvað skal gera við allt það sem maður hefur skrifað hér á blogginu? Kannski þarf ekki að gera neitt enda er gjarnan sagt að það sem einu sinni hefur verið sett á netið verði þar áfram um aldur og ævi. Ég efast um að margir prenti út það sem þeir skrifa, ég byrjaði á því eitt sinn en hætti því þó fljótlega því mér fannst það ekki gera sig almennilega. Hinsvegar hófst ég handa fyrir nokkrum mánuðum að setja upp allar mínar bloggfærslur í umbrotsforriti þannig að hægt væri að útbúa einskonar bloggrit fyrir hvert bloggár sem mætti fletta fram og til baka. Þessi uppsetningarvinna er frekar seinleg en þegar hér er komið við sögu er ég búinn að setja upp árin 2007 og 2008 og er að hefjast handa við árið 2009. Núna er ég svo búinn að fá prentuð tvö eintök af árinu 2007, frágengnum á 48 síður með stífari kápu þannig að útkoman er hin fínasta bloggbók. Hvað bækurnar verða margar að lokum kemur svo í ljós, það gæti allt eins verið að bloggbók ársins 2010 verði síðasta bindið.

Þetta fyrsta bloggár 2007, hófst reyndar ekki fyrr en í september og því er ritið ekki stærra, auk þess voru margar af mínum fyrstu bloggfærslum frekar stuttaralegar og sluppu oft í gegnum bloggheima án nokkurra athugasemda – sérstaklega framan af. Bloggbók ársins 2008 fer svo í prentun þegar ég læt verða að því. Það rit fer nokkuð yfir 200 síður, en með bloggfærslunum læt ég fylgja allar myndir og athugasemdir ásamt athugasemdum við athugasemdir. Þessi bókfærsla er fyrst og fremst ætluð mér sjálfum en ef svo ólíklega vill til að einhver myndi vilja eiga svona líka, þá má kannski bjarga því.

Hér má sjá hvernig þetta lítur út að utan sem innan. Sjálfum þykir mér hér sannast hin forna speki öldungsins að þótt veraldarvefurinn sé ágætur þá er bókin er alltaf best.

Bloggbók


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Flott verk hjá þér frændi. En eru bloggfærslunar ekki tilvalinn rafbóka matur?

Björn Emilsson, 11.8.2010 kl. 19:42

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þess má geta fyrir þá sem það vilja vita að vefsafnið tekur afrit af .is lénum, þannig að það verður hægt að skoða t.d. bloggsíður eins og þessar þó svo þær yrðu lagðar niður, í framtíðinni. Sjá t.d. afrit af þessu bloggi hér. Skemmtilegt hugmynd að prenta þetta svona út, kannski geturðu selt einhverjum bloggurum innbundin eintök af bloggum sínum? Það er allavega hugmynd :)

Sveinn Atli Gunnarsson, 11.8.2010 kl. 19:43

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En hvaða versjón af hverri færslu er geymd? Ég hef oft breytt orðalagi í færslum, stundum margsinnis. Sé annars fyrir mér nokkuð bústna veðurbók af eigin bloggfærslum!

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.8.2010 kl. 22:33

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég vissi reyndar ekki af þessu Vefsafni. Ég sé að það nær aftur til júní 2008 en nýjustu færslur þar inni eru frá júlí 2010. Sú útgáfa sem fer þarna inn er væntanlega sú sem er inni þegar afritun er gerð, annars veit ég það ekki.

Ein af upphaflegu ástæðunum að ég fór að safna þessu saman sjálfur er annars sú, að ég hef tekið eftir að þeir sem loka sínum bloggsíðum eða eru bannfærðir, hverfa líka úr athugasemdum. Þannig geta umræður í athugasemdum stundum orðið marklausar.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.8.2010 kl. 23:46

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Frábær hugmynd. Hvar lætur þú prenta þetta?

Júlíus Valsson, 12.8.2010 kl. 08:49

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hjá Pixel Brautarholti. Kostnaður fer eftir umfangi, þessi tvö eintök voru á 12-13 þús.

Hvert eintak er ódýrara eftir því sem fleiri eru prentuð.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.8.2010 kl. 09:25

7 Smámynd: Júlíus Valsson

Takk fyrir þessar upplýsingar. Var að velta því fyrir mér hvor ódýrara væri að láta gera þetta á Netinu t.d. hjá http://www.blurb.com/ ?

Júlíus Valsson, 12.8.2010 kl. 09:37

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Kannski er ódýrara að gera þetta á netinu, ég var að skoða blurb.com og sé að það er til format sem kallast blogbooks. Það er þó spurning með íslensku stafina þ og ð en það gæti þó vel verið að þeir virki.

Ég er annars vanur að vinna í umbrotsforritum - setti þetta upp í InDesign og vistaði sem PDF fyrir prentun. Þannig á ég skrár í InDesign og PDF auk þess efnis sem er á netinu og svo auðvitað bókina sjálfa. En svo má líka setja þetta bara upp í word og setja í prentun ef maður vill.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.8.2010 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband