Sumarveðurgæði

Nú eru aðal-sumarmánuðirnir að baki og eins oft áður ættu flestir landsmenn að geta verið vel sáttir við sitt sumarveður. Nú er það svo að eftir því sem árunum sem maður upplifir fjölgar vilja liðin sumur gjarnan renna saman í minningunni og erfitt getur verið að muna og meta hvort eitt sumar hafi verið betra en annað. Sumarið 1986 fór ég að skrá niður veður daglega og get því borið saman einstök ár veðurfarslega séð. Þar að auki hef ég komið mér upp sérstöku einkunnakerfi til að meta veðurgæði. Það geri ég með því að gefa hverjum degi veðurfarslega einkunn sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita og getur hver dagur samkvæmt því getur fengið einkunn á bilinu 0-8. Þannig get ég gefið hverjum mánuði meðaleinkunn og svo líka hverju sumri einkunn. Þetta hef ég útskýrt áður, en sýnishorn af veðurskráningu má t.d. sjá hér.

Útfrá þessu veðureinkunnakerfi hef ég svo teiknað þessa mynd sem sýnir veðureinkunn síðustu 20 sumra í Reykjavík, eða árin 1991-2010. Þarna sést að sumarið í sumar fær einkunnina 5,13 sem er mjög góð einkunn og sú sama og árin 2004 og 2007 fengu. Bestu einkunnina fékk sumarið í fyrra 5,36. Lökustu sumrin þarna eru hinsvegar árin 1992 og 1995. Þau voru þó ekki nærri eins slæm og verstu rigningarsumrin í Reykjavík fyrir nokkrum áratugum.

Sumur 1991-2010

Lýsing á sumrum:
Hér kemur mjög stuttaraleg lýsingu á öllum sumrum frá árinu 1991. Ekki alveg tæmandi lýsing, en aðallega er miðað við mitt heimapláss,
Reykjavík.

1991 Júní var sérstaklega sólríkur og á eftir fylgdi heitasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík og voru slegin hitamet víða um land. Í mikilli hitabylgju náði hitinn 23,2 stigum í borginni þann 9. júlí en sá mánuður varð hlýjastur allra mánaða í Reykjavík 13,0 gráður.  
1992 Sumarið var ekkert sérstakt og aldrei mjög hlýtt. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna í annars mjög köldum júnímánuði, þar snjóaði fyrir norðan og einnig til fjalla sv-lands.
1993 Ágætt tíðarfar en besta veðrið var í júlí. Þá var mjög bjart og þurrt í Reykjavík en kalt fyrir norðan.
1994 Sumarið var sæmilegt með köldum júnímánuði en júlí var frekar hlýr.
1995 Sumarið ekki gott nema hvað júlí var ágætur. Ágúst var mjög þungbúinn.
1996 Fátt eftirminnilegt þetta sumar. Ágúst var mjög dapur í Reykjavík en góður kafli kom um miðjan júlí.
1997 Sumarið var þurrt og bjart framan af en júlí og ágúst ollu vonbrigðum SV-lands.
1998 Sumarið var gott í heildina. Júnímánuður var bjartur og þurr og var ásamt ágúst sá hlýjasti í mörg ár.
1999 Sumarið var frekar blautt þar til í ágúst, en þá var bjart og hlýtt.
2000 Ágætt sumar með köflum en mjög sólríkt og þurrt var fyrir norðan og austan.
2001 Sumarið var ágætt í heildina þó lítið væri um hlýja daga.
2002 Af sumarmánuðunum var júní að þessu sinni sá hlýjasti, hæst komst þá komst hitinn í 22 stig sem er hitamet fyrir júní. Sumarið þótti ekkert sérstakt en var nokkuð milt.
2003 Júní og ágúst urðu hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík enda var sumarið það hlýjasta sem mælst hafði í borginni sem og víða um land. Nokkuð rigndi þó með köflum.
2004 Sumarið var bæði hlýtt og sólríkt. Í ágúst gerði mikla hitabylgju SV-lands þar sem hitinn fór yfir 20 stig í borginni fjóra daga í röð, nýtt hitamet í Reykjavík var þá slegið í Reykjavík 24,8°.
2005 Sumarið var sæmilegt fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí.
2006 Sumarið var þungbúið suðvestanlands framan af en rættist úr því seinni hlutann.
2007 Sumarið var yfirleitt hlýtt og þurrt og mjög gott um mest allt land. Í Reykjavík var júlímánuður sá næst hlýjasti frá upphafi.
2008 Afar sólríkur og þurr júnímanaður en síðan köflóttara, mjög rigningarsamt í lok ágúst. Aftur var slegið hitamet í Reykjavík í hitabylgju undir lok júlí þegar hitinn komst í 25,7 stig.
2009 Mjög gott sumar sunnan og vestanlands og þá sérstaklega júlímánuður sem var sá þurrasti í Reykjavík síðan 1889 og sjálfsagt einn af bestu veðurmánuðum sem komið hafa í Reykjavík.
2010 Eitt hlýjasta sumar sem hefur komið í Reykjavík. Júní var sá hlýjasti frá upphafi, júlí jafnaði metið frá 1991 og ágúst var með þeim hlýjustu. Aldrei var þó um að ræða verulega hitabylgju.

- - - - 

Útfrá þessari lýsingu og einnig myndinni má sjá það sem flestir ættu að geta verið sammála um að sumrin hafa almennt farið batnandi undanfarin ár í Reykjavík. Eitt er víst að hitinn hefur aukist, nokkur síðustu sumur hafa líka verið sólrík og svo hefur vindinn eitthvað lægt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stórskemmitlegt framtak og heimild.

Hólímólí (IP-tala skráð) 1.9.2010 kl. 22:27

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir það Hólímólí. Það má kannski nota tækifærið og auglýsa það að eftir næstu mánaðarmót er ætlunin að birta mynd sem sýnir hita alla daga, mánuðina maí til september síðustu 20 ár. Ég vonast til að það verði jafnvel ennþá stórskemmtilegra framtak.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.9.2010 kl. 13:24

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hlakka til að sjá það.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.9.2010 kl. 13:40

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir fróðlega samantekt, hlakka til að sjá myndina sem þú boðar um næstu mánaðarmót.

Sveinn Atli Gunnarsson, 2.9.2010 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband