Rólegri tímar boðaðir

Þann 21. september síðastliðinn var ég búinn að blogga í nákvæmlega þrjú ár og frá þeim degi hafa komið 364 bloggfærslur með þessari hér. Þetta þýðir að ég hef að meðaltali skrifað bloggfærslu nánast þriðja hvern dag á þessum þremur árum. Næstum aldrei hefur liðið heil vika án bloggfærslu, yfirleitt hafa þær aldrei verið fleiri en fjórar í viku, sjaldan tvo daga í röð og aldrei tvær saman daginn. Þetta hefur því verið nokkuð jafnt og þétt en þó ekki of þétt en samkvæmt meðaltalinu hafa komið út hjá mér 2,3 bloggfærslur í viku.

Nú bregður hins vegar svo við að ég er að hugsa um að fara mér hægar í sakir. Þetta bloggstarf er fyrir löngu orðið miklu meira en mér hafði dottið í hug í upphafi og satt að segja finnst mér ég vera búinn að skrifa um allt sem mig langar að skrifa um og jafnvel um allt sem ég veit. Ég hef eiginlega ekkert tekið að mér að vera þjóðfélagsrýnir en ég væri í þeim bransa þá væru bloggviðfangsefni auðvitað aldrei á þrotum. Ýmislegt af því sem ég hef skrifað um vissi ég þó lítið um áður og því hefur þetta verið ágætis fróðleiksuppgröftur fyrir sjálfan mig.

En ég er samt ekkert alveg hættur að blogga og ekki hættur að grúska. Sumar af mínum bloggfærslum eru árvissar og verða uppfærðar áfram. Svo verða örugglega einhverjar uppákomur sem ég mundi vilja deila með öðrum. Annars veit ég þetta ekki, þetta mun bara ráðast, kannski hættir maður aldrei alveg að blogga. Ég er reyndar ekki mikið fyrir það að hætta því sem ég er búinn að koma mér útí. Sumarið 1986 ákvað ég til dæmis að punkta niður hvernig veðrið yrði það sumar. Þær veðurskráningar standa enn 24 árum síðar og nokkrum mánuðum betur. Veðurskráningarnar hafa reyndar verið uppspretta ýmissa samantekta um veðrið hér á síðunni. Einni slíkri var ég búinn að lofa núna eftir næstu mánaðarmót og verður auðvitað staðið við það.

En af því að hafísinn hefur verið viðfangsefni hjá mér undanfarið og var einnig viðfangsefni minnar fyrstu bloggfærslu þá er við hæfi að birta hér nýjustu myndina frá Cryosphere Today vefnum en þar má finna hinar fínustu myndir af hafísútbreiðslunni, eins og þessa sem sýnir stöðuna frá 21. september 2010.

CT_9sept2010


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir allan fróðleikinn hingað til. Persónulega vona ég að ekki verði of langt á milli færslna hjá þér, þó svo þú takir því eitthvað rólegra í framtíðinni.

Sveinn Atli Gunnarsson, 23.9.2010 kl. 08:27

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Síðan ég uppgötvaði þitt blogg þá hef ég kíkt á þig reglulega og satt best að segja þá bregst það ekki að færslurnar þínar eru fróðlegar. Skil vel að þú viljir slaka á - en gott að þú ætlar ekki að hætta alveg

Höskuldur Búi Jónsson, 23.9.2010 kl. 09:05

3 identicon

Fyrir alla muni ekki hætta að blogga. Þessir pistlar þínir eru eitt af því fáa sem mér finnst áhugavert í bloggheimum. Hlakka alltaf til að lesa nýjan pistil. Hvet þig til að halda uppteknum hætti.

Sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 23.9.2010 kl. 11:23

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hvatningar eru góðar og gagnlegar og ég þakka fyrir þær. Það er samt ágætt að taka því rólega inn á milli. Vegna bloggskrifa hefur ýmislegt setið á hakanum hjá mér eins og lestur góðra bóka og annað grúsk sem hægt er að sinna. Út úr því getur líka komið ýmislegt sem má taka fyrir síðar.

Emil Hannes Valgeirsson, 23.9.2010 kl. 16:43

5 identicon

Ég átti leið um Hallarmúlann á þriðjudag og - þökk sé þessari bloggsíðu - leitaði uppi stein Odds sterka í leiðinni. Væri til í að fá fleiri þannig grúskkorn upp úr grúskinu.

Hoppandi (IP-tala skráð) 23.9.2010 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband