Veðurbókarhiti í Reykjavík

Undanfarið hafa veður- og loftslagspekingar hér á blogginu rætt um meðalhitann í Reykjavík og vafasamar leiðréttingar sem gerðar hafa verið á honum af erlendum aðilum. Ég ætla ekki að velta mér upp því máli, en ætla þó að líta í eigin barm því sjálfur hef haldið uppi mínum eigin veðurskráningum frá árinum 1986. Þær athuganir eru aðallega ætlaðar mér sjálfum og hafa væntanlega ekki mikil áhrif á þær tölur sem notaðar eru til að túlka þróun hitafars á hnattræna vísu. Þessi bloggfærsla á því kannski ekki mikið erindi við aðra en sjálfan mig en tilgangurinn færslunnar er annars sá að athuga hvernig mínar skráningar standa sig við hlið hinna opinberu talna frá Veðurstofunni.

Þegar ég upphaflega hóf skráningar þá var tvennt haft í huga. Skráningin átti að sýna hið dæmigerða veður dagsins og vera það einföld að ég þyrfti ekki að vera háður því að fylgjast með veðurfréttum á hverjum degi. Þetta gilti einnig um hitann sem ég skilgreindi einfaldlega þannig að annaðhvort voru dagar heitir, kaldir eða í meðallagi. Reyndin varð þó sú að ég fylgdist nógu vel með hitanum til að geta skráð hinn dæmigerða hita dagsins sem ég hef einmitt gert frá árinu 1991.
Sú tala sem ég kalla hinn dæmigerða hita dagsins var lengi vel fengin með því að sjóða saman hitanum klukkan 18 í Reykjavík og hámarkshita dagsins samkvæmt veðurfregnum í útvarpi í bland við eigin upplifun og stopulan lestur af heimilislegum gluggahitamæli. Eftir tilkomu netsins og heimasíðu Veðurstofunnar breyttist aðferðin og byggist nú að miklu leyti á sjónrænu mati á línuritum frá sjálfvikum athugunum. Ég nota ekkert útreiknað meðaltal, bara þá tölu sem mér finnst vera skynsamlegust og eðlilegust fyrir hvern dag. Það getur þó stundum verið erfitt að fá eina góða hitatölu (án aukastafa) vegna mikilla hitasveiflna sem oft eru óháðar dægursveiflum. Ég horfi ekkert á kvöld eða næturhita enda hefur Veðurbókin bara áhuga á veðrinu yfir daginn.

Eftir hvern mánuð geri ég smá samantekt og reikna út meðalhita mánaðarins samkvæmt mínum tölum og síðan árshita í lok hvers árs. En þar sem ég skrái bara hitann fyrir daginn er auðvitað munur á mínum tölum og tölum Veðurstofunnar. Mínar tölur eru á milli hins eiginlega meðalhita og meðalhámarkshitans sem er eðlilegt útfrá forsendum. Það má benda á að ég skrái árið 2010 hlýrra en metárið 2003. Það þarf þó ekki að vera óeðlilegt í ljósi þess að árið 2010 var metár þegar kemur að meðalhámarkshita samkvæmt Veðurstofu. Í heildina verður ekki betur séð en að Veðurbókartölur mínar séu nokkuð samstíga opinberum tölum þegar kemur að einstökum árum og fyrir tímabilið í heild – þrátt fyrir misjafnar skráningaraðferðir. Það er því ekki nokkur ástæða fyrir mig að ráðast í stórfelldar leiðréttingar og endurskoðanir á mínum gögnum.

Hiti Veðurbók

- - - -

Þess má geta í lokin að nú standa veðurskráningarnar frammi fyrir þeim vanda að gormaðar A5 rúðurstrikaðar bækur frá Kassagerðinni með hvíta fuglinum framaná eru ekki lengur fáanlegar í verslunum og ég er á síðustu blaðsíðunni í bókinni sem ég skrái í núna. Fyrir næsta mánuð verð ég því að kaupa aðra tegund. Nú eru bara til útlenskar reiknibækur sem eru ekki eins hentugar. En hvernig sem þetta bókarmál leysist þá munu skráningar halda áfram með óbreyttum hætti.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband