19.5.2012 | 11:07
Eru menn alveg vissir þarna á Siglufirði?
Ég get alveg tekið undir að það hefur margt breyst til batnaðar fyrir ferðamenn á Siglufirði á síðustu árum. Síldarminjasafnið er frábært og einnig svæðið við höfnina þar sem komin eru veitingahús í nýuppgerðum húsum og skemmtilegu umhverfi. Ef eitthvað er þá fannst mér veitingahúsin samt í aðeins of skærum litum. En það er líka mjög skemmtilegt útsýnið frá bryggjunni við kaffihúsin og út að Síldarminjasafninu sem reyndar er í nokkrum reisulegum og upprunalegum húsum frá síldartímanum. Ég er því miður ekki nógu kunnugur þarna til að kalla húsin og bryggjurnar sínum réttu nöfnum, enda bara Reykvíkingur sem á lítið erindi út á land nema sem ferðamaður. Hin mikla síldarsaga Siglufjarðar er mér samt sæmilega kunn.
Nú er það stundum þannig að þegar eitthvað hefur heppnast vel þá kunna menn sér ekki alltaf læti og það er einmitt það sem ég óttast með þetta nýja hótel, Hótel Sunnu, sem á að reisa þarna við höfnina á besta stað í bænum.
Á myndina hér að neðan hef ég sett inn fyrirhugað hótel. Með þessari staðsetningu er greinilegt að öll sjónræn tengsl slitna á milli bryggjusvæðisins, þar sem kaffishúsin eru og Síldarminjasafnanna. Útlit hótelsins er í gömlum timburhúsastíl, sem er ekki slæmt í sjálfu sér, en það er samt eitthvað óekta við það og því alveg spurning hvort sé við hæfi að byggja svona umfangsmikið og áberandi gervigamalt hús á þessum stað sem tekur til sín alla athygli og skyggir á það sem er ekta gamalt og á sér sögu. En það er einmitt Síldarsagan sem gerir Siglufjörð að því sem hann er.
Loftmynd af svæðinu þar sem ég hef teiknað inn Hótelið. Myndin er af Ja.is og er ekki alveg ný.
Nú veit ég ekkert hvort nokkur umræða hefur farið fram á Siglufirði um þessi atriði sem ég nefni. Sjálfsagt er mikill spenningur í bænum fyrir þessum framkvæmdum og kannski sér enginn nokkuð athugavert við þær. Hótel sem tengist hafnarsvæðinu er góð hugmynd og á sjálfsagt eftir að verða vinsælt. En mér finnst samt eitthvað vanhugsað við þetta. Hvað með Norðurtangann sem er þarna aðeins sunnar? Má ekki reisa hótelið þar? Norðurtanginn sést neðst á myndinni hér að neðan en ég setti hring utanum svæðið sem ég tala um hér að ofan.
1,2 milljarða fjárfesting á Siglufirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Til fróðleiks, þá er norðureyrin gamall sorphaugur, sem mun ekki hljóta byggingarleyfi fyrir íbúðir né hótel á næstu áratugum. Á þessari lóð stóð svonefndur Sunnubraggi, sem var tveggja hæða kumbaldi með risi, sem byrgði sýn til þessara tveggja húsa Síldarminjasafnsins. Til stóð jafnvel að varðveita hann sem hluta síldarsögunnar þótt ljótur væri og langt frá upprunalegu útliti þess húss. Hótelið tekur í raun mið af upprunalegu formi braggans.
Það er varla hægt að láta sýn til þessara tveggja húsa síldarminjasafnsins diktera því hvort byggt er á þessari lóð. Hótelið er miðlægt á þessu svæði milli veitingahúsanna og safnsins og tengir safnið við þennan kjarna við höfnina.
Hótelbyggingin tekur mið af því að byrgja ekki sýn til fjalla og þorps þótt svo óheppilega vilji til að það skyggi á þessi tvö hús um leið og það tengir þau við kjarnann þó. Það er höfnin og lífið við hana sem er verið að virkja hér. Aðdráttaraflið byggir á því. Það eru hótelkumbaldi inni í miðjum bæ sem ekki tekur mið af upplifun gesta né sögu staðarins. Aðdráttarafl þess sem upplifun fyrir gesti er ekkert þar sem það er eingöngu praktísk lausn á gistingu.
Vilji menn eingöngu praktík og byggja sína hugmyndafræði í ferðaþjónustu á exel, þá gætum við líka sett upp ígildi Höfðakaffis í stað vinalegra og áberandi veitingahúsa sem byggja á upplifun og virðingu fyrir ferðamönnum, sem leggja land undir fót og sparifé sitt í að sækja þessa upplifun.
Það má vafalaust deila um staqðsetninguna út frá þessu smávægilega atriði sem þú nefnir, en mikið fleira sem réttlætir að mínu mati. Consept þessara framkvæmda allra og aðdráttaraflið byggir á smábátahöfninni. Hún er grunnurinn og aðdráttaraflið og upplifunin en ekki eingöngu skortur á gistirými.
Smá Athugasemd: Á teikningunni er hótelið ekki alveg rétt staðsett hjá þér. Það er talsvert lengra út í hafnarmynnið í austur. Meira að segja svo að það sést í Bátahús síldarminjasafnsins frá veitingastaðnum.
Svona leit Sunnubragginn út áður en hann var fjarlægður. Hann stendur þar sem austur vestur álman mun standa.
Það er búið að skða þetta mál og brjóta heilan um það frá öllum hliðum í langan tíma og ég er nokkuð viss á minni sök. Það eru þó alltaf skiptar skoðanir um svona hluti. Margir urðu ævir yfir því að gamli bragginn skyldi fjarlægður og kusu heldur status quo í stað þess að horfa til framtíðar. Ég þekki engan í dag sem andmælir þeirri ákvörðun nú.
Allt feedback til þeirra hugsjónamanna sem að þessu standa er af hinu góða og spurningar þínar réttmætar að mínu mati. Ég held bara að þú skoðir þetta úr mikilli fjarlægð og kannski vantar þig betri sýn á aðstæður og jafnvel á hugmyndafræðina að baki.
Þetta mun ekki poppa upp á næstu mánuðum, svo þú hefur enn tækifæri á að koma hingað og skoða. Ég skal glaður rölta með þér um svæðið sem íbúi á staðnum þótt ég sé eitthvað tengdur þessu í gegnum tíðina. Ég er það ekki lengur nema í orði, en mér er annt um bæinn og að hér verði líf og bjartsýni sem á árum áður. Þetta fallega bæjarstæði á það skilið.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.5.2012 kl. 12:04
Norðurtangi átti að standa þarna...
Jón Steinar Ragnarsson, 19.5.2012 kl. 12:10
Ég get svo nefnt þér nokkur dæmi erlendis frá þar sem hótelið og hönnun þess er aðdráttarafl ferðamanna framar öllu öðru og byggðirnar alls ekki heimsóttar ef ekki væri fyrir þann ævintýraljóma sem af þeim stafar. Þetta á sérstaklega við um hótel sem byggja á einhverskonar fortíðarrómantík. Post modernisminn á sér stund og stað í stórborgum heimsins og hans er vænst af ferðamönnum. Vilji menn komast frá því andrúmslofti þá leita þeir út fyrir borgirnar í látlausara og persónulegra umhverfi.
Það er allavega mín upplifun.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.5.2012 kl. 12:21
Það er svo rétt að nefna að aðeins tvö aðalhúsa Síldarminjasafnsins eru upprunaleg ef svo má segja þótt hvorugt þeirra standi á upprunalegum stað. Langsamlega stæsta húsið er Bátahúsið en það er ekki upprunalegt heldur hannað sérstaklega fyrir þá starfsemi sem þar er. Semsagt nýbygging í "gervigömlum" stíl eins og þú orðar það.
Safnið er nokkuð aftengt miðbæjarkjarnanum og er "inn með sjó" ef svo má segja. Margir ferðamenn eru jafnvel ekki vissir á hvar það er að finna þótt ótrúlegt sé. Vonir standa til að hótelbyggingin verði bragarbót og tenging við þennan hafnarhring og setur safnið innan heildar í stað þess að það sé svo aflimað sem það er.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.5.2012 kl. 12:53
Á norðurtanga sunnanverðum er svo litauðugt fuglalíf og varpland sem mönnum er í mun að vernda að fremsta megni.
Afsakaðu svo málæðoið, en málið stendur mér eðllilega hjarta nær.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.5.2012 kl. 12:58
Takk fyrir athugasemdirnar Jón Steinar. Satt að segja átti ég von á einhverju frá þér - jafnvel nokkrum athugasemdum.
Ég var þarna á góðum sumardegi í fyrra og leist vel á enda hafði mikið breyst þarna frá fyrri heimsókn. En það þarf að fara varlega á svona stöðum og ég óttast að menn séu dálítið blindaðir á það sem þarna er fyrirhugað vegna þess hversu vel hefur heppnast með það sem komið er. Veitingamaðurinn sem staðið hefur að uppbyggingunni sjálfsagt vinsæll og vel liðinn og kannski gleyma menn því að horfa gagnrýnt á þessa hótelbyggingu sem sami aðili stendur að.
Það getur vel verið að teikningin mín sé ekki alveg rétt, ég fann enga almennilega yfirlitsmynd á netinu í fljótu bragðu en í aðalatriðum ætti hún að vera nærri lagi.
Emil Hannes Valgeirsson, 19.5.2012 kl. 13:31
Hugmyndir um hótelið hafa verið inni í myndinni nánast frá upphafi og hefur verið kynnt í nú nær 3 ár fyrir þeim sem vilja láta sig þetta skipta. Það er að sjálfsögðu hægt að gagnrýna margt í þessu eins og öllu öðru. Eins og ég segi þá er það bátahöfnin sem er alfa og omega í þessu prójekti og ef mönnu líst ekki á þetta eða vilja miðla málum þannig að þau tengsl séu rofin þá leiðir það af sjálfu sér að líklega hverfa menn frá frekari framkvæmdum. Það er allavega minn grunur.
Það er annars ekki veitingamaður sem að þessu stendur heldur er það Róbert Guðmundsson sem er að fjármagna þetta af mikilli fórnfýsi og hugsjón. Arður hans af þessu er fyrst og fremst huglægur. Hann er borinn og barnfæddur Siglfirðingur sem býr erlendis. Honum rann til hjarta niðurlæging og afturför á heimaslóð og vildi úr því bæta. Þetta hefur m.a. átt þátt í því að fólksflóttinn hefur stöðvast og raunar er viðsnúninngur þar. Allir Siglfirðingar leggja lið sitt í þessari uppbyggingu og sér hennar víða merki um allan bæ þar sem verið er að gera upp hús og fegra umhverfið.
Ég hef sagt í gamni að bærinn sé orðinn sjálfhreinsandi eftir að þessi uppbygging byrjaði og allt ber merki aukinnar sjálfsvirðingar og vonar um betri tíð. Á slíkt verður enginn verðmiði settur. Marfeldisáhrifin eru sýnileg bæði andlega og veraldlega.
Ef menn hafa aðrar hugmyndir um framhaldið þá þætti mér persónulega gaman að sjá tillögur og hugmyndir í þá veru. Þessar framkvæmdir eru enn á tillögustigi en einhverstaðar verða menn að byrja. Enn hefur enginn stigið á stokk svo ég viti og kynnt aðrar hugmyndir hvað þá hugmyndir hafnar eru yfir gagnrýni.
Ég vona bara að þessi uppbygging haldi áfram af sama þrótti og gleði og hefur einkennt hana fram að þessu og að úrtölur og efasemdir komi ekki í veg fyrir það.
Djörfung mætir alltaf afturhaldi og íhaldsemi, þótt ég sé ekki að túlka orð þín þannig. Vonandi munu menn verða ásáttir um að það að framsækni sé betri en kyrrstaða þó. Annað er varla í boði fyrir afskekktar byggðir landsins. Við höfum allt að vinna en engu að tapa í því tilliti.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.5.2012 kl. 14:44
Róbert Guðfinnsson átti að standa þarna. Ég biðst forláts.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.5.2012 kl. 14:46
Mér finnst ekkert að því að byggja þarna hótel við sjávarsíðuna og það má alveg vera í þessum gamla timburhúsastíl, sjálfur hef ég ekkert á móti slíku samanber Centrum Hótel Reykjavík við Aðalstræti. Allt líka gott að segja um uppbygging ferðaþjónustu á Siglufirði.
Mín tillaga er samt sú að byggja upp hótel við Norðurtangann. Þar getur hótelið nýtt sér nálægðina við sjóinn og góðir möguleikar er á stækkunum í framtíðinni. Ég er ekki svo viss um að gamlir öskuhaugar séu svo mikið vandamál.
Svæðið við smábátahöfnina er gott eins og það er, þ.e. þegar búið er að snyrta það og ganga betur frá. Hótelið hinsvegar klippir bæinn algerlega í sundur við sjávarsíðuna.
Emil Hannes Valgeirsson, 19.5.2012 kl. 16:07
Eins og ég nefndi þá stendur ekki til boða að byggja á norðurtanganum vegna reglna um að ákveðinn árafjöldi þurfi að líða frá því að sorphaugum og urðunarstöðum er lokað og óhætt að byggja til mannvistar. Það eru áratugir í að það opnist á það, svo það er tómt mál um að tala. Hótel á þeim stað yrði svo einnig afskipt frá byggðarkjarnanum og hefði ekki sama sjarma og aðdráttarafl og fyrirhuguð staðsetning. Langt í frá.
Ég tel hótelið tengja byggðina saman frekar en að kljúfa hana, en svona geta jú sjónarhornin verið ólík. Kannski er einhvern meðalvega að finna í þeim sjónarhornum okkar.
Ég virði álit þitt en þín lausn er ekki í boði eins og sakir standa. Ég tek þó fram að ég hef ekkert um það að segja hvað verður endanlega ákveðið með þetta og kem þar hvergi nærri. Ég tjái mig bara sem íbúi hér og finn ekki annað en að eining ríki um þetta með fáum undantekningum eins og gengur og gerist.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.5.2012 kl. 16:41
Jæja þetta er náttúrulega ykkar bær og ég er ekki staddur þarna nema kannski á nokkurra ára fresti. En ég held að það sé alveg þess virði að spá aðeins í þetta enda verður hótelið mest áberandi hús svæðisins. Þó að Norðurtanginn sé kannski ekki í myndinni má örugglega hugsa sér einhverja fleiri staði.
Emil Hannes Valgeirsson, 19.5.2012 kl. 17:42
Jú, jú, vafalaust Emil. Þú mátt ekki miskilja mig. Ég er ekki að fordæma þína skoðun heldur lít á þitt framlag hér sem verðmætan umræðuvetvang. Þú sýnir þessu áhuga og hefur málefnalegar skoðanir og athugasemdir í málinu, sem er fagnaðarefni. Ég ber mikið traust til þín sem fagmanns af því sem ég hef lesið af þínum pælingum og viðhorfum. Annars myndi ég líklega ekki vera svo margorður.
Þar sem málið er mér nærri, þá hef ég kannski helst til mörg orð um þetta. Ég hef allavega ákveðnar hugmyndir um eðli slíkrar þjónustu sem byggir meira á tilfinningalegum og mannvænum grunni en praktískum. Ég spyr mig allavega alltaf hvernig ég vildi hafa þjónustuna og viðmótið ef ég væri gestur. Ég ímynda mér að hótel út á landi sé meira extrovert sem upplifun þar sem umhverfið gildir meiru í heildinni heldur en hótel við borgarstræti sem er knúið til að hafa galdurinn meira introvert ef þú skilur hvað ég meina.
Hvað staðsetninguna varðar þá má vafalaust deila endalaust, en ég hef allavega þá sannfæringu nú að fleiri þættir spili saman til að gera vistina ánægjulegri á þessum stað en annarstaðar og aðdráttaraflið því meira í hlutfalli.
Ég þakka þér annars kærlega fyrir gott spjall og vandaða grein.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.5.2012 kl. 19:29
Mér finnst þetta nú óttalega eitthvað svona "2007" dæmi. Álíka vitlaust og reisa Hótel á Grímsstöðum á Fjöllum, verð að segja það. En ef einhverjir vilja eyða sínum peningum í þetta, þá "be my guest". Þarf bara að tryggja það að það séu engar ábyrgðir hjá hinu opinbera og gjaldþrotið lendi ekki á skattgreiðendum.
Norðlendingur (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 07:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.