Hamfarakort af Íslandi

Það eru ekki mörg lönd í heiminum sem geta boðið upp á jafn mikið úrval af náttúrufarslegum uppákomum og Ísland. Þegar gosið í Eyjafjalljökli stóð sem hæst vorið 2010 gerði ég tilraun til að kortleggja það helsta sem við þurfum að fást við í náttúrunni og útkoman var hið svokallaða Hamfarakort. Ýmislegt hefur gerst síðan, svo sem gos í Grímsvötunum og núna síðast stórhríð á Norðurlandi og jarðskjálftar. Það er því alveg tímabært að endurbirta hamfarakortið, en þó með smá uppfærslum og viðbótum.

Hamfarakort 2012

Hamfarayfirlit. Eldgos á Íslandi er kannski það sem mesta athygli fær og ekki að ástæðulausu. Þó að flest eldgos séu frekar meinlaus þá geta inn á milli komið hamfaragos sem er stærri í sniðum en við viljum hugsa til enda. Eldvirknin er aðallega bundin við gosbeltin á landinu sunnan og norðanlands en áhrifin af þeim geta verið mun víðtækari. Stórir jarðskjálftar verða helst á Suðurlandsundirlendi og úti fyrir Norðurlandi auk minni skjálfta víðar. Hafísinn kemur oftast að landi á norðanverðum Vestfjörðum og getur breiðst út austur eftir Norðurlandi og jafnvel suður með Austfjörðum á köldum árum. Síðustu áratugi hafa snjóflóð reynst vera skaðlegustu uppákomurnar í mannslífum talið en helsta ógnin af þeim er þar sem fjöllin eru bröttust yfir byggðum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Hætta á skriðuföllum og berghlaupum fylgir einnig þessum fjöllóttu landshlutum. Á suðvesturlandi er hættan á sjávarflóðum mest enda er landið þar almennt að síga af jarðfræðilegum ástæðum. Flóð geta komið í stærri ár vegna úrkomu og leysinga en sér-íslensk fyrirbæri hljóta að vera jökulhlaupin á Suðurlandi. Óveður geta skollið á í öllum landshlutum og úr öllum áttum og þeim geta fylgt mikil vatnsveður eða stórhríðir á óhentugum tímum. Þurrkar hafa víða plagað bændur undanfarin sumur og þá kannski helst á Vestur- og Norðurlandi. Sunnanlands má hins vegar helst eiga von á eldingum en þeim fylgir alltaf viss hætta. Sandfok telst varla til mikilla hamfara en á hálendinu er fokið nátengt gróðureyðingu landsins en einnig hefur öskufokið bæst við eftir síðustu gos. Eldar eru aðallega í formi sinu- og jarðvegselda en eftir því sem gróðri fer fram á landinu eykst hættan á stærri atburðum svo sem skógareldum. Svo eru það bara blessaðir ísbirnirnir sem stundum álpast hingað - ekki síst nú á undanförnum árum þrátt fyrir minnkandi hafís.

Það má velta fyrir sér dreifingu hamfara á landinu. Enginn landshluti er óhultur samkvæmt þessu en sum landssvæði liggja þó betur við vissum höggum en önnur. Það landssvæði sem mér sýnist sleppa best er Breiðafjörðurinn og Dalirnir, helstu atburðir þar eru veðursfarslegir en þó ekki endilega verri en annarstaðar.

Við getum fagnað því að hér verða hitabylgjur ekki til vandræða, jafnvel ekki í framtíðinni. Ekki heldur fellibyljir eða skýstrókar nema þá í smækkaðri mynd. Þótt minnst hafi verið á skógarelda verða þeir varla í líkingu við það sem gerist erlendis og hamfaraflóðbylgjur vegna jarðskjálfta koma hér varla enda aðstæður öðruvísi hér en á Kyrrahafinu. Það má þó ímynda sér flóðbylgjuhamfarir af öðrum og fáheyrðum atburðum svo sem af loftsteinahrapi í hafið sem minnir okkur á að hamfarir geta verið afar víðtækar. En hvað sem öllu líður þá getum við þó kannski fagnað því umfram annað að hér verður enginn engisprettufaraldur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ísbjarnahamfarir

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.10.2012 kl. 10:58

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Vantar Samfylkinguna þarna inn.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.10.2012 kl. 11:01

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Pólitíska hamfarakortið er annað mál en það gæti einnig verið skrautlegt. Það verður þó varla mikil samstaða um hvernig það mun líta út.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.10.2012 kl. 17:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband