Lífseigur óbrynnishólmi á Hawaii

Hawaii eldgos

Öðru hvoru berast smáfréttir af eldgosinu endalausa á stærstu eyju á Hawaii-eyjaklasans sem hófst í janúar árið 1983 og virðist engan enda ætla að taka nú 30 árum síðar. Þetta er dæmigert dyngjugos sem einkennist af lítilli virkni með þunnfljótandi hraunrennsli niður hlíðar Kilauea sem er í næsta nágrenni risa-elddyngjunnnar Mauna Loa. Virknin hefur verið nokkuð breytileg í gosinu og allur gangur á því hvernig hraunið rennur. Það finnur sér ýmsa nýja farvegi, stundum nær það að seytla alla leið út í sjó en stundum gerir það ekki annað en að fylla upp í nýmyndaðar öskjur uppi á gossvæðinu sjálfu.

Kilauea loftmynd

Á NASA / Earth Observatory-vefnum var á dögunum birt þessi gervitunglamynd sem tekin var 15. maí 2011 og sýnir víðáttumiklar dökkar hraunbreiður í hlíðum Kilauea-fjalls umkringja gróið svæði þar sem finna má eitt hús og einhverja vegi sem enda undir hraunbrúninni. Allt þetta dökka hraun hefur runnið á síðustu árum eða áratugum nema þetta ljósgráa sem er splunkunýtt hraun á hreyfingu og ógnar þarna húsinu eina sem kennt er við Jack Thompson.

Svæðið sem húsið stendur á ber nafnið Royal Gardens og var skipulagt á árunum kringum 1960 í hlíðum Kilauea. Það voru einkum grunlausir Bandaríkjamenn frá meginlandinu sem keyptu sér þarna land og þegar gosið hófst árið 1983 höfðu 75 íbúðarhús risið á svæðinu. Talsverður kraftur var í gosinu í byrjun og fór húsunum ört fækkandi eftir því sem meira hraun rann niður aflíðandi hlíðarnar. Að lokum var hús Jack Tompsons hið eina sem eftir stóð og þar bjó hann áfram umkringdur nýjum hraunum á alla kanta og vonaðist til gæfan yrði honum hliðholl eins og hún hafði verið fram að þessu.
En honum varð ekki að ósk sinni því snemma árs 2012 fóru hraunstraumarnir að gerast æði nærgöngulir og ógna húsinu. Þá var ekki um annað að ræða en að kalla á þyrlur, safna saman mikilvægasta hafurtaskinu og yfirgefa húsið. Það var svo þann 2. mars í fyrra sem húsið brann og hvarf síðan undir hægfara helluhraunið.

Myndirnar hér eru frá síðustu dögum búsetu Jack Tompsons í Royal Gardens. Þær eru teknar úr 7 mínútna myndbandi sem einnig fylgir hér að neðan. Þar leiðir karlinn okkur um svæðið og við fáum að fylgjast með því þegar hann yfirgefur húsið í síðasta sinn. 

Royal Garden myndasyrpa

 

 

- - - -
Sjá nánar:

Last house standing at Royal Gardnes / Nasa Earth Observatory

Hawaiian Volcano Observatory / Kilauea

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Góð grein hjá þér Emil. Kannske orð í tíma töluð

Björn Emilsson, 23.2.2013 kl. 22:08

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já hraunflóð eru mögnuð fyrirbæri eins og við þekkjum hér á landi. Það má líka koma fram að þetta er á austustu eyju Hawaii sem jafnframt er sú yngsta. Á Hawaii eru ekki flekaskil eins og hér á landi en þetta gos er hluti að langtímaþróun þar sem Kyrrahafsflekinn færist til norðvesturs yfir heita möttulstrókinn sem er þarna undir sem þýðir að eldvirkni eyjanna færist til suðausturs á löngu tímabili. Í framtíðinni munu því nýjar eyjar myndast austan við þessa eyju, en þær elstu sem eru vestast eyðast smám saman.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.2.2013 kl. 12:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband