Esjuskaflar

Snjóskaflar í Esjunni eru sígilt viðfangsefni á þessari síðu. Að þessu sinni ætla ég að gera dálítinn samanburð á snjóalögum Esjunnar með aðstoð tveggja mynda. Sú fyrri er tekin frá Öskjuhlíð fimmtudaginn 20. júní 2013 en sú síðari er tekin frá sama stað 19. júní 2011, eða tveimur árum og einum degi fyrr (úr séríunni 365 Reykjavík). Ástæðan fyrir þessum samanburði er sú að mig grunaði að öllu stærri og fleiri snjóskaflar væru núna í Esjunni en verið hefur á sama tíma undanfarin ár. Svo virðist líka vera ef þessar myndir eru bornar saman.

Esja júní 2013

Esja júní 2011

Á efri myndinni frá því núna í ár má sjá talsvert stóra skafla í giljunum neðan Gunnlaugsskarðs (til hægri á myndinni), einnig vestan Þverfellshorns (fyrir miðju) auk ýmissa smáskafla hér og þar sem ekki eru á neðri myndinni. Ástand Esjuskafla sumarið 2011 var þó ekkert óvenju bágborið miðað við önnur ár þessarar aldar og reyndar var það eina árið á þessari öld sem síðasti skaflinn í Gunnlaugsskarði rétt náði að tóra áður en vetrarsjórinn lagðist yfir. Miðað við það ættu að vera talsverðar líkur á að síðasti skaflinn, eða skaflarnir, í Gunnlaugsskarði lifi sumarið af. Það þarf þó alls ekki að vera því auðvitað skiptir veðrið máli. Sumarið 2011 var t.d. mjög þurrt sem sennilega hefur hjálpað sköflunum að lifa lengur það sumar þrátt fyrir góð hlýindi.

Út frá skaflastærð mætti halda að kaldara hafi verið það sem af er þessu ári heldur en 2011. En svo er ekki, 2013 hefur nefnilega verið hlýrra og meira að segja líka júnímánuður. Hinsvegar var vorið í öllu kaldara nú í ár, sérstaklega aprílmánuður sem reyndist vera kaldari en bæði janúar og febrúar enda bætti frekar í snjóinn heldur en hitt í apríl. Samanburðurinn milli þessara ára var enda allt öðruvísi í vorbyrjun eins kemur fram í bloggfærslunni Hvernig kemur Esjan undan vetri? frá því snemma í apríl.

Það er sem sagt alltaf eitthvað til að fylgjast með. Margir hafa orðið fyrir vonbrigðum með veðrið í Reykjavík í júní en síðustu sólardagar hafa þó eitthvað bjargað málum. Í lok mánaðarins held ég að sé tilvalið að skoða veðurfarslega einkunnagjöf júnímánaðar samkvæmt skráningarkerfinu mínu og bera saman við fyrri ár. Eitt er víst að þar á þessi mánuður engan séns í júní í fyrra.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband