Grafísk Eurovision

Á hverju ári stendur ein þjóð uppi sem sigurvegari í Evrópsku söngvakeppninni. Þjóðirnar sem taka þátt hafa verið mis sigursælar í 60 ára sögu keppninnar en af einhverjum orsökum erum við meðal þeirra þjóða sem enn hafa ekki fagnað sigri. Það mun ekki breytast í ár en eins og með margar Austur-Evrópuþjóðir þá höfum við þá afsökum að hafa ekki verið með frá byrjun.

Eurovision 1956-2015

Kortið hér að ofan er úr teiknismiðju bloggarans og sýnir hvaða þjóðir hafa unnið söngvakeppnin allt frá því fyrsta kepnnin fór fram í Sviss árið 1956 sem lauk með sigri heimamanna. Fyrstu árin var það ekki föst regla að keppnin færi fram í landi sigurvegara síðasta árs en allt frá árinu 1981 hefur það verið raunin. Árið 1969 var keppnin haldin á Spáni en þá voru fjögur lönd sem unnu kepnnina. Á teikningunni læt ég ferilinn fara til Hollands þar sem næsta keppni fór fram.

Ekki voru þátttökuþjóðirnar margar í fyrstu keppninni í Sviss árið 1956 þegar einungis 7 þjóðir kepptu, en hver þeirra fékk þó að flytja tvö lög. Á upphafsárunum komu þátttakendur  aðallega frá Vestur-Evrópu en Luxemburg, Frakkland og Holland voru lang sigursælust framan af. Norðurlandaþjóðirnar týndust svo fljótlega inn og fyrsti Norðulandasigurinn vannst árið árið 1963 þegar Danir fluttu sína "Dansevise". Sigursælastir hafa verir Írar en þeir unnu fyrst með henni Dönu "All Kinds of Everything" en á tímabili virtist alveg sama hvaða þeir komu með - alltaf unnu Írarnir, þ.e. þrjú ár í röð 1992-94 og svo enn einu sinni 1996. Austur-Evrópuþjóðirnar hrúguðust svo inn á tíunda áratugnum og fjölgaði enn meir eftir því sem gömlu alþýðuveldin klofnuðu. Austurhlutinn tók keppninni af mikilli alvöru og stal senunni hvað eftir annað á fyrstu árum aldarinnar. Norðurlandaþjóðirnar hafa þó gert það gott á síðustu árum á meðan gömlu virðulegu nýlenduveldin og herraþjóðirnar í vestrinu hafa hvað eftir annað setið í súpunni.

Hvað gerist í ár og hvar verður keppnin næst? Allavega ekki í Egilshöll - okkar tími er enn ekki kominn. Nú lágu Danir loks í því og ekki átti finnskt sambýlispönk upp á pallborðið meðal fjöldans. Það var þó mun skemmtilegra atriði en t.d það Sænska sem þó gæti verið sigurstranglegt. Nema að Norðmenn taki þetta, þeir eru sterkir í ár. Svo er verið að tala um Ítalina sem bjóða upp á mikla tenóra-orgíu. Mitt uppáhald er reyndar Eistland að þessu sinni. Einnig er ég mjög sáttur við Ungverjaland og Slóveníu. Ég veit ekki með Ástralíu sem fá að vera með sem gestir að þessu sinni. Ég fíla það lag allavega ekki auk þess sem Ástralskur sigur væri svolítið mikið út úr kortinu.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Úrslitin urðu síðan þau að Svíþjóð vann, Rússland í öðru og Ítalía í þriðja sæti. Sumar þjóðir vinna einfaldlega oftar en aðrar.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.5.2015 kl. 00:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband