Gengið um Tún og Holt

Nú ætla ég að bjóða upp á nokkurs konar myndaspjall, sem reyndar er ein tegund af mínum bloggfærslum, þar sem gengið er um götur borgarinnar í máli og myndum. Sífellt er verið að byggja og þétta, ekki síst á gömlu athafnasvæðunum sem lágu upp frá norðurströndinni og upp að Skipholtinu. Um það svæði liggur göngutúrinn að þessu sinni.

Sæbraut

Hefjum ferðina við Sæbraut þar sem stórhýsi Höfðatorgsins gnæfa yfir lágreistari húsum gamla tímans. Væntanlega verður þess ekki langt að bíða uns gömlu Vegagerðarhúsin og smurstöðin víki fyrir einhverju fíneríinu.

- - - -

Stórholt

Hér liggur leiðin upp Stórholtið þar sem ný götumynd blasir við. Til hægri er gamla DV-húsið sem nú er orðið að Listaháskóla. Hampiðjuhúsið sem var þarna í einhver ár er löngu horfið og búið að byggja þetta mikla íbúðarhús vinstra megin. Hæðum hússins fjölgar eftir því sem neðar er farið í brekkuna. Ég geri svo sem ekki athugasemdir við útlitið en mér finnst þó frekar skrítið að hafa íbúðir með svölum og öllu alveg niður að gangstétt í stað t.d. verslunarrýmis á neðstu hæðum eins og venjan er með svona hús við miðbæi.

- - - -

Brautarholt

Brautarholtinu mætti gera skil alveg sérstaklega en þessar byggingar hafa mátt muna fífill sinn fegurri. Húsið nær er gamla Þórscafé og síðar Baðhús. Þar dansar enginn lengur og enginn frúin fer í bað. Húsið þarna fjær er þó eiginlega öllu hrörlegra en það hefur hýst einhvern málmiðnað og vinnustofur listamanna. Þetta er þó ekki dæmigert fyrir alla götumyndina. Meðal annars er ágætis hvítt hús þarna í götunni þar sem ég hef unnið lengi.

- - - -

Nóatún

Þetta hús á horni Nóatúns og Laugavegar hefur verið í smíðum svo lengi sem ég man eftir mér. Allavega standa járnabindingar enn upp úr húsinu og hafa gert frá upphafi.

- - - -

Borgartún

Uppbygging í öllu sínu veldi á horni Nóatúns og Borgartúns. Maður veltir fyrir sér hvort þessi húsaskipan sé eins og menn sáu fyrir sér í upphafi. Eða sáu menn annars eitthvað fyrir sér í upphafi? Sundið á milli þessara tveggja húsa getur varla talist til manneskjulegs umhverfis og til að bæta fyrir skort á útsýni úr íbúðarhúsinu sem er í byggingu er sett ofan á það annað hús. Kom einhver arkitekt nálægt þessu eða var þetta ákveðið á staðnum?

- - - -

Borgatún gata

Borgatúnið sjálft lýtur bara ágætlega út þótt einhverjir hafi kvartað yfir skrítnum gangstéttarhellum og rauðum ljósastaurum. Mér finnst þetta bara nokkuð líflegt og gott og hjólreiðastígarnir virka greinilega.

- - - -

Rútuhótel

Þetta farartæki varð á vegi mínum í portinu hjá Guðmundi Jónasyni. Rúllandi hótel virðist þetta vera kallað og býður upp á hótelgistingu á þremur hæðum í afturhluta vagnsins. Í ljósi umræðunnar veltir maður fyrir sér hvar salernisaðstaðan sé niður komin.

- - - -

Höfði

Best að enda túrinn hjá Höfða en þar er greinilega verið að koma fyrir sjálfum Einari Ben sem bjó þarna einhvern tíma. Einar er auðvitað ein af styttum bæjarins og var áður á Klambratúni. Eftir er að setja upp víravirkið fyrir aftan hann sem minnir á hörpustrengi. Reyndar minntu ókomnu strengirnir mig á rimla í gamladaga og því fannst mér hann alltaf vera í fangelsi. Ef Einar Ben væri uppi í dag væri hann ekki ólíklega í fangelsi eins og svo margir aðrir sem ætluðu sér mikið upp úr síðustu aldamótum. Annars er viðkvæmt mál að vera að færa styttur og það svo sem vantaði ekkert sérstaklega styttu þarna að mínu mati. Þetta hús er annars miklu heimsfrægara í dag fyrir að hafa komið í veg fyrir atómstríð og það er ekki lítið afrek út af fyrir sig.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband