Að blanda sér í Úkraínudeilu

Úkraína þjóðir

Úkraína er stórt land og íbúar þess eru ýmist af úkraínskum eða rússneskum uppruna. Úkraínufólkið er í meirihluta og byggir vestur- og miðhluta landsins á meðan rússneska fólkið býr í suðausturhlutanum. Þessir tveir hópar hafa gjörólíka sýn á það hvert landið á að stefna og í hvaða átt það á að halla sér í heimspólitíkinni. Úkraínufólkið horfir til Vestur-Evrópu og á þann draum ganga í Evrópusambandið og Nató til að verjast Rússum á meðan Rússneskumælandi hlutinn vill halda góðum tengslum við Rússa eins og verið hefur um aldir, enda er það fólk í raun Rússar.

Þegar svo er komið að stjórnvöld sem studd eru af úkraínsku-mælandi meirihlutanum ákveður að auka samstarf við vesturlönd á kostnað Rússlands, er augljóst að togstreita myndast og ekki hjálpaði til að úkraínskan skyldi vera eina opinbera tungumál landsins. Rússnesku-mælandi fólkið upplifði sig þar með sem illa séðan minnihlutahóp meðal þjóðernissinnaðra Úkraínumanna.

Það er í sjálfu sér ekki hægt að áfellast úkraínska meirihlutann í landinu fyrir að vilja halla sér til vesturs eins og flest önnur Evrópulönd austan járntjaldsins gamla gerðu eftir hrun Sovétríkjanna. Engir vilja lengur vera vinir Rússlands - nema þeir séu Rússar. Hins vegar er skiljanlegt að Rússum finnst vera talsverður missir af Úkraínu af sínu áhrifasvæði. Úkraína hefur frá fornu fari verið samofin sögu Rússlands og rússneskrar menningar, allt frá dögum Garðaríkis og Kænugarðs sem síðar var Kiev, höfuðborg Úkraínu. Þannig er Úkraína fyrir Rússlands svo miklu meira en bara einhver spónn úr aski. Tilfærsla Úkraínu í einu lagi yfir á áhrifasvæði Vestur-Evrópu er meiriháttar áfall fyrir Rússland og ekki síst vegna þess að stór hluti Úkraínu er raunar byggður fólki af rússneskum uppruna sem talar rússnesku, elskar Pútín og yfirleitt allt sem rússneskt er.

Hér er því komin tilvalin uppskrift að klassískum ófriði sem leiðir auðveldlega til borgarastríðs eins og þegar hefur orðið og almennt mjög hættulegt ástand með afskiptum stórvelda í vestri og austri. Ísland hefur ákveðið að blanda sér í þessa deilu með að vera á bandi vesturlanda í stuðningi sínum við úkraínska meirihlutann og gegn Rússlandi í stað þess að vera hlutlaus aðili sem reynir að setja sig inn í hvað er í raun að gerast og jafnvel að miðla málum eins og góðum friðsömum þjóðum sæmir.

Í raun eru aðeins tvær leiðir að friði í Úkraínu. Að landið verði algerlega hlutlaust svæði án þátttöku í efnahags- og hernaðarbandalögum eða að landinu verði skipt í tvennt með einhverjum hætti. Heil og óskipt Úkraína getur hinsvegar ekki verið annaðhvort innan áhrifasvæðis Vestur-Evrópu eða Rússlands. Slíkt leiðir aðeins til áframhaldandi ófriðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vandinn er sá að engar hreinar línur liggja á milli þjóðernishópanna, þannig að klofningur "rússnesks" hluta frá Úkraínu mun þýða að stór hópur Úkraínumanna lendir "vitlausu" megin landamæranna. Annað vandamál er einnig að þessi "lausn" mun hvetja til ennfrekari deilna, því að rússnesku mælandi minnihlutahópar eru víða annars staðar á landamærum Rússlands og nágrannaríkja. Þessi "lausn" er því engin lausn, heldur kallar aðeins á frekari deilur. Og það er líka algert mýrarljós að halda að Rússar sætti sig við þá lausn að Úkraínumenn verði hlutlausir (enda erfitt að setja sjálfstæðum þjóðum þær skorður).

Sigurður (IP-tala skráð) 10.8.2015 kl. 09:35

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er svo sem enginn lausn á þessu án vandamála, en þarf þó ekki að vera óyfirstíganleg ef vilji er fyrir hendi. Ef menn festast í því að tala um yfirgang Rússa á þessu svæði er varla mikil von um friðsamlega lausn. Mig minnir þó að Pútín sjálfur hafi í sjónvarpsviðtali talað um möguleikann á hutlausri Úkraínu. Skipting Úkraínu í tvo hluta gæti farið þannig fram að hvert hérað kjósi einfaldlega um hvoru megin það lendir en niðurstaðan yrði væntanlega sú að austurhéruðin kljúfi sig frá. Sjálfsagt yrðu ýmsir ósáttir við útkomuna.

Annars er mikið af óstöðugum ríkjum í heiminum vegna þjóðernirminnihluta. En það virðist almennt ekki vera mikill vilji til að kljúfa ríki og færsla landamæra er algert bannorð enda hafa varla nokkur eða engin landamæri færst til í heiminum frá lokum seinna stríðs. Þar eru menn hræddir við fordæmið sem slíkt kynni að gefa.

Emil Hannes Valgeirsson, 10.8.2015 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband