Til Vesúvíusar og Pompeii

Lengi hefur það verið á óskalista mínum að heimsækja vettvang atburðanna þegar borgirnar Pompeii og Herculaneum grófust undir ösku og eimyrju af völdum hamfaraeldgossins í Vesúvíusi árið 79 e.Kr. Þessi för varð að veruleika föstudaginn 24. júní í tengslum við Rómarferð en þangað hafði ég heldur ekki komið áður og var kominn tími á að bæta úr því. Farin var skipulögð dagsferð í rútu frá Róm með fararstjórum þar sem boðið var upp á skoðun á rústasvæði Pompeii og ferð upp á Vesúvíus en það getur verið nokkuð snúið að ná því hvoru tveggja á eigin vegum á einum degi. Þarna er mikið ferðamannakraðak, sérstaklega við túristamiðstöðina við Pompeii og þurftu fararstjórar hinna ýmsu hópa að hafa sig alla við að týna ekki sinni hjörð og halda hópnum saman.

Pompei og Vesúvíus
Rústasvæðið er auðvitað allt hið merkilegasta  en þegar þangað var komið ákváðum við skötuhjúin að rölta frekar um svæðið á eigin forsendum í staðin fyrir að halda hópinn, með góðfúslegu leyfi fararstjóra. Við urðum sjálfsagt af einhverjum fróðleik sem leiðsögukona útvarpaði í heyrnartól hvers og eins, en það er kannski þannig með okkur Íslendingana að við erum ekki eins miklar hópsálir og aðrir - nema kannski þegar kemur að fótbolta. Er við höfðum sameinast hópnum á ný á tilsettum tíma á réttum stað, var boðið upp á pizzuveislu (hvað annað?) áður en haldið var áfram með rútunni upp að Vesúvíusi þar sem ekið var eftir þröngum hlykkjóttum vegi langleiðina upp fjallið. Þar við bílastæðið var auðvitað veitinga- og minjagripasala og fullt af klósettum fyrir þá sem voru í spreng.

Vesúvíus - GígurUm 200 metra hækkun er frá bílastæði og upp að gígbrún í um 1200 metra hæð en þangað liggur góður göngustígur. Þótt Vesúvíus láti ekki mikið yfir sér þá er  toppgígurinn sjálfur nokkuð hrikalegur og djúpur að innanverðu með þverhníptum veggjum nær allan hringinn. Hægt var að ganga meðfram hálfum gígbarminum eftir göngustíg en hinn hlutinn er lokaður enda illfært klungur þar sem almenningur getur farið sér að voða. Talsvert var af ferðafólki þarna uppi og meira að segja hægt að kaupa minjagripi og smáveitingar á þremur stöðum við sjálfa gígbrúnina.

Sígild spurning varðandi eldfjöll snýst um hvenær næsta gos verður í fjallinu. Í ljósi sögunnar og aðstæðna flokkast Vesúvíus sem eitt af hættulegustu eldfjöllum jarðar. Kvikuþró fjallsins er mjög stór og mikil sprengivirkni og öskufall einkennir stærstu gosin. Hættulegust eru þó gusthlaupin sem verða þegar gosmökkurinn hrynur niður og eyðir öllu sem fyrir verður samanber það sem gerðist þarna árið 79. Gostíðni Vesúvíusar er hinsvegar mjög óregluleg og almennt eru gosin stærri eftir því sem goshléið á undan er lengra. Síðast gaus í fjallinu árið 1944 en þá rann dálítið af hrauni niður í byggð en fjallið náði þó að framkalla eina sæmilega sprengingu sem sendi ösku yfir nærliggjandi svæði. Það var fjórða gosið frá aldamótunum 1900 en tíð gos höfðu þá verið í fjallinu allt frá stóru og mannskæðu gosi árið 1630 sem einmitt kom eftir meira en tveggja alda hvíld. Fyrir stórgosið árið 79 hafði Vesúvíus ekki gosið í um 300 ár svo vitað sé og mun lengra var í verulegt gos.

Fyrir gosið árið 79 var Vesúvíus vaxið þéttum gróðri upp á topp og fjallið talið hættulast með öllu. Fólk var einnig alveg grunlaust um að hamfaragos væri í vændum þrátt fyrir ýmsa fyrirboða sem gætu talist augljósir í dag, svo sem mikil jarðskjálftavirkni og aukin jarðhitavirkni sem þurrkaði upp vatnsuppsprettur. Gosið sjálft stóð aðeins yfir í 2 daga en mestu hamfarirnar riðu yfir snemma morguns daginn eftir að gosið hófst. Í gosinu hurfu bæirnir Pompeii og Herculaneum af yfirborði jarðar enda grafnir niður í nokkurra metra þykkt öskulag auk þess sem strandlínan færðist utar um nokkra kílómetra. Samanlögð íbúatala bæjanna gæti hafa verið allt að 20 þúsundum en mannfall er á reiki. Nú er talað um að 2.000 manns gætu hafa látist af völdum gossins sem er lægri tala en oft hefur sést áður sem þýðir að verulegur fjöldi hefur þrátt fyrir allt náð að koma sér undan áður en gosstrókurinn hrundi yfir byggðir.

Vesúvíus - Napólí
Nú á dögum er fólk meðvitað um hættuna sem þarna er ávallt til staðar. Þrátt fyrir það er talsverð byggð á svæðinu sem teygir sig upp í hlíðar Vesúvíusar. Gróðursælt er í hlíðum fjallsins enda jarðvegur frjósamur eins og gjarnan í nágrenni eldfjalla. Fólk treystir hinsvegar á náttúrulega fyrirboða og nákvæma vöktun jarðvísindamanna. Allt hefur verið með kyrrum kjörum síðustu ár og áratugi en líkur á að næsta gos verði stórt, aukast með hverjum áratug sem hvíldartíminn lengist. Miðað við fyrri hegðun er fjallið þó ekki tilbúið í hamfaragos en til þess þarf fjallið að safna kröftum í að minnsta kosti 100 ár til viðbótar ef eitthvað er annars að marka slíka útreikninga.

Áhyggjur manna snúast þó ekki bara að Vesúvíusi sjálfum. Svæðið í heild sinni í nágrenni Napólíflóa er raunar samfellt eldfjallasvæði sem lætur lítið yfir sér á yfirborðinu og hefur verið til friðs lengi. Þarna eru stórar öskjur og undir þeim fleiri kvikuþrær. Stærsta kerfið nefnist Campi Flegrei og nær að hluta inn í borgina Napólí. Í raun má segja að þetta sé ein allsherjar ofureldstöð sem sífelld ógn stafar af fyrir þær þrjár milljónir manna sem búa á svæðinu frá Napólí til hlíða Vesúvíusar og sé fyrirvarinn stuttur er alveg óvíst að hægt sé að rýma svæðið á tilsettum tíma. Fyrir stærstu gosin ætti forleikurinn samt að gefa íbúum ráðrúm til að hugsa sinn gang. Það má samt hafa í huga að allra stærstu gosin sem möguleg eru á svæðinu eru hamfarir sem snerta mun stærra svæði en Napólíflóann. Þar má til dæmis nefna gos fyrir tæpum 40 þúsund árum en þá er talið að aska hafi fallið yfir hálfa Evrópu. Þetta stórgos er jafnvel nefnt sem einn af þeim þáttum sem gerði út af við Neanderthalsmanninn í álfunni á sínum tíma. Vér nútímamenn förum vonandi eitthvað betur út úr slíkum hamagangi en eitt er víst að Ítalía yrði ekki söm og áður. Ég er þó allavega sloppinn aftur heim í öruggt skjól á okkar eldfjallaeyju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir fróðleikinn.

Ég sá fræðslumynd um hvar von gæti verið á mestu hamfaragosum jarðarinnar og af 4-5 stöðum var þetta svæði nefnt, ásamt Yellowstone. Mig minnir að hinir staðirnir hafi verið í Indónesíu og á Kamtstjakaskaganum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.7.2016 kl. 00:47

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir innlitið Gunnar.

Þetta er sennilega eitthvað í þessa áttina þegar kemur að kröftugustu eldstöðvunum. Yellowstone er oft nefnd sem öflugasta eldstöðin og gæti valdið gífurlegum hörmungum á heimsvísu. Hinsvegar er þar mjög langt á milli stórra atburða og ólíklegt að eitthvað gerist þar á næstu öldum jafnvel þótt að eldstöðin sé komin á tíma.

Ég sá hinsvegar umfjöllun um nýlegt hættumat sem gert var í samvinnu við Háskólann í Manchester á eldstöðvum heimsins en þar var metin hættan á því hvaða eldstöðvar eru líklegastar til að valda manntjóni upp á 1 milljón manna innan 100 ára. Þar var nefnd fyrst eyjan fræga Iwo Jima við Japan, en þá kemur hamfaraflóðbylgja við sögu sem ná myndi að ströndum Japans, Kína og Filippseyja. Í þriðja sæti hjá þeim er Napólísvæðið, eða Campi Flegrei askjan sem ég minnist á. Hættan þar er fólgin í því að vera að hluta inn í milljónaborg og eldstöðin hefur sýnt lífsmark í einhver ár. Það þarf ekki stærstu gerð að gosum þar til að valda miklu manntjóni.

Sjá hér: http://www.manchester.ac.uk/discover/news/worlds-10-most-dangerous-volcanoes-identified

Emil Hannes Valgeirsson, 2.7.2016 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband