Aðstæður skoðaðar á Hawaii með hjálp korta

Fréttir af eldsumbrotum á Hawaii-eyjum eru áhugaverðar fyrir okkur sem búum hér á landi enda eigum við íslendingar við sömu náttúruógnina að etja og aðstæður að ýmsu leyti sambærilegar. Hér ætla ég að skauta aðeins yfir hvernig þetta lítur út þarna hjá þeim með aðstoð korta frá google þar sem ég hef föndrað inn ýmislegt. Þetta er bæði gert mér sjálfum til glöggvunar og kannski einhverjum fleirum. Fyrst er heildarkort af eyjaklasanum:

Hawaii eyjar

Hawaii eyjar eru eyjaklasi sem raðast eftir 2.400 km langri línu á Kyrrahafinu. Þær eiga tilurð sína að þakka öflugum möttulstrók sem er staðsettur undir austustu eyjunni enda er það eina eldvirka eyjan nú á dögum en eldvirkni á öðrum eyjum er útkulnuð. Þessi eyja heitir Hawaii-eyja en er oft nefnd Big Island og er hún stærsta eyjan og jafnframt sú yngsta. Stóra málið hér er að Kyrrahafsflekinn færist hægt og rólega í norðvestur yfir möttulstróknum sem er alltaf á sínum stað og á rætur sínar djúpt í jörðinni. Elstu eyjarnar eru þær sem eru fjærst möttulstróknum í norðvestri og eru þær að mestu eyddar og margar alveg horfnar af yfirborðinu. Yngsta og eldvirkasta eyjan er alltaf sú sem er lengst í suðaustri yfir möttulstróknum hverju sinni. Næsta eyja mun síðan óhjákvæmilega myndast í framtíðinni þar suðaustur af vegna færslu Kyrrahafsflekans yfir stróknum. Á næstu mynd eru við komin á þessa eldvirku eyju þar sem hlutirnir eru að gerast:

Hawaii Big Island suður

Hér á kortinu má sjá suðausturhluta Big Island. Frægasta er þar að telja Mauna Loa, elddyngjuna miklu sem er eitt af kunnustu eldfjöllum jarðar. Þar er allt með friði og spekt núna. Kilauea eldstöðin hefur hinsvegar verið mjög virk alla síðustu öld og fram til þessa. Út frá Kilauea liggur sprungurein sem nær til austasta odda eyjarinnar. Árið 1983 hófst hið lífseiga gos sem stendur enn þann dag í dag og eru atburðir síðustu daga í raun hluti af þeirri atburðarrás. Kvikan er ættuð djúpt úr jörðu undir Kilauea þótt sjálft gosið undanfarna áratugi hafi ekki átt sér stað þar. Kvikan hefur hinsvegar náð til yfirborðs við gíginn Puu Oo, eða þar um kring með mjög lítilli gosvirkni en þunnfljótandi hraunið runnið hægt og rólega til sjávar enda hefur þetta yfirleitt verið einstaklega hæglátt gos og túristavænt. Næsta mynd sýnir svæðið í meiri nærmynd.

Hawaii Puu Oo

Hér sjást aðstæður betur. Svæðið suður af Puu Oo gígnum er nánast alþakið helluhraunum sem runnið hafa hvert af öðru niður hlíðarnar síðustu 35 ár og gjöreitt mörgum mannvirkjum og fjölda heimila. Stundum hafa hraunin náð að renna út í sjó og þykir það ágætis sjónarspil. Árið 2014 gerðist það hinsvegar að hraunið fann sér leið eftir sprungukerfum í austurátt og tók að ógna þorpinu Pahoa og eyddi fáeinum húsum. Mun betur fór þó en á horfðist. Núna um mánaðarmótin apríl-maí gerðist það svo í kjölfar jarðskjálfta að kvika, sem nánast barmafyllti gíginn Puu Oo, fann sér leið neðanjarðar með sprungureininni í austur þannig að eftir sat galtómur gígurinn. Sú kvika, eða einhver hluti hennar, hefur síðan verið að koma upp aftur í Leilani-íbúðahverfinu nánast í bakgarðinum hjá fólki sem örsmá sprungugos, miðað við það sem við þekkjum.

Hawaii Leilani

Hér kemur svo nærmynd af Leilani hverfinu þar sem ýmsar smásprungur hafa opnast með hraunslettum en mjög takmörkuðu hraunrennsli enn sem komið er. Talað hefur verið um hraunstróka upp á allt að 30 metra og er þá fullmikið sagt því af myndum af dæma nær sjálfur eldurinn varla yfir trjágróðurinn þótt einhverjar slettur nái hærra. Virkni í hverri sprungu virðist ekki standa lengi yfir en þegar þetta er skrifað hefur verið talað um að alls hafi 8 gossprungur opnast og einhverjar af þeim enn virkar.

Sprungugos Hawaii

Vandinn við þetta gos er ekki krafturinn heldur það að ómögulegt er að segja til um hvar og hvernig þetta endar - eða hvort það endi yfirleitt. Mögulega gæti gosið þarna í byggðinni um langa hríð þannig að stór eða lítil hraundyngja myndist yfir byggðinni en kannski verður þetta bara lítill atburður þarna í byggðinni sem hættir þegar hráefnið sem kom úr Puu Oo gígnum dugar ekki lengur til. Virknin gæti líka færst upp eftir á sinn stað að nýju nær höfuðstöðvunum við gíginn þar sem gosið hefur haldið sig lengst af. Stóri skjálftinn upp á 6,9 stig sem varð þarna þann 4. maí veldur þó sennilega einhverjum áhyggjum. Hvað framtíðina varðar þá er allt þetta svæði þarna yfir möttulstróknum á suðausturhluta austustu eyjarinnar mjög ótryggt því í ljósi þess sem ég minntist á hér í upphafi þá er þróunin í eldvirkni öll í þá átt að þarna byggist upp næsta stóra eldstöð á eyjunum.

- - - -

Viðbót 6. maí: Ekkert lát er á gosinu morguninn eftir að færslan er skrifuð og virðist virkni færast í aukana. Hér er mynd af nýrri gossprungu sem sendir gosstróka upp í 70 metra hæð með auknu hraunrennsli í byggðinni.

Hawaii gossprunga 6. maí

- - - -

Myndir, heimildir og stöðu mála má finna hér: https://volcanoes.usgs.gov/volcanoes/kilauea/multimedia_chronology.html

Fyrri bloggfærslur tengdar gosinu á Hawaii:

23.2.2013 Lífseigur óbrynnishólmi á Hawaii

25.10.2014 Hraun ógnar byggð á Hawaii

12.11.2014 Hraunfoss við sorpflokkunarstöð

12.2.207 Sérkennilegur hraunfoss á Hawaii


mbl.is Hraunkvika spýtist 30 metra upp í loft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir, Emil. Afar fróðlegt eins og alltaf hjá þér.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.5.2018 kl. 13:58

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.5.2018 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband