15.3.2019 | 23:36
Um klukkuna og miðvökutíma
Þeir sem eru fylgjandi því að seinka klukkunni hafa lagt áherslu á kosti þess fyrir lýðheilsu landans að klukkan sé í meira samræmi við gang sólar en nú er. Fleiri sólarstundir á morgnana sé náttúruleg heilsubót og drífi fólk á fætur hressara í bragði og glaðari inn í daginn. Það sé því algerlega tímabært að gera eitthvað í þessum málum og seinka klukkunni um svo sem eins og eina klukkustund eða jafnvel eina og hálfa, þannig að sólin sé í hádegisstað klukkan tólf á vesturhluta landsins en ekki um klukkan 13:30 eins og nú er. En hinsvegar. Ef maður skoðar dæmigerðan vökutíma landsmanna með tillit til sólarbirtu þá er kannski ekki alveg víst að seinkun klukkunnar sé einhver raunveruleg leiðrétting. Kannski er því bara öfugt farið. Til að skoða það betur vil ég beina athyglinni að því sem ég kalla miðvökutíma sem ég ætla að reyna að útskýra með hjálp mynda, og hvernig mismunandi klukka og vökutími hefur áhrif á þennan miðvökutíma.
Fyrst hef ég teiknað upp hinu gömlu tímaviðmiðun Eyktartal sem hér var við lýði áður en raunverulegar klukkur komu til sögunnar, hvað þá samræmd ríkisklukka. Við gerum auðvitað ráð fyrir að fólk hafi áður fyrr lifað í réttum takti við birtuna og náttúruna, ótruflað af stimpilklukkum og stundarskrám nútímans. Hver staður hafði þá sína viðmiðanir sem voru fjallstindar og önnur kennileiti á hverjum stað. Sólin var þá í hásuðri á hádegi. Alls voru átta eyktir í sólahringnum og hver eykt því þrír tímar samkvæmt nútímatali. Tveimur eyktum fyrir hádegi, eða kl 6, voru rismál og má því gera ráð fyrir að það hafi verið eðlilegur fótaferðatími fólks. Náttmál voru síðan þremur eyktum eftir hádegi eða kl. 21 að okkar kvöldtíma. Kannski var þetta ekki alveg fullmótað, spennandi húslestur gat mögulega dregist á langinn stöku sinnum.
Miðað við þennan vökutíma milli rismáls og náttmáls er ljóst að miðvökutíminn hefur verið klukkan 13.30 á dögum gömlu eyktarstundanna, en þá er jafn langur tími frá því fólkið fór á fætur og þar til það lagðist til hvílu. Það er einni og hálfri klst. eftir að sólin er í hádegisstað. Um jafndægur að vori og hausti kæmi sólin upp við rismál og sest þremur tímum fyrir náttmál eins og miðað er við í myndinni.
Í framhaldi af þessu skoða ég næst núverandi stöðu hér á landi. Er tilvera okkar algerlega úr takti við gang sólar, eða kannski ekki svo mjög?
Samkvæmt núverandi stöðu með óbreyttri klukku gef ég mér það að dæmigerður fótaferðatími landans sé kl. 7.30, hvunndags. Sumir vakna vissulega seinna, sérstaklega um helgar, og sumir enn fyrr, og sé fólk vakandi í 16 tíma eins og eðlilegt þykir, þá er miðvökutíminn í þessu tilfelli kl. 15:30, sem er tveimur klst eftir að sólin er í hádegisstað um kl. 13.30. Þarna munar ekki nema hálftíma á miðvökutíma gamla eyktartalsins og núverandi klukku og skýrist af 16 tíma vöku í stað 15. En eftir sem áður kemur sólin upp á fótaferðatíma um vor- og haustjafndægur.
Þá er næst að skoða breytta klukku eða "rétta klukku" eins og talað er um, þannig að sólin sé í hásuðri klukkan 12 á hádegi. Morgunbirtan færist þá framar og að sama skapi dimmir fyrr síðdegis.
Miðað við sólarhádegi klukkan 12 og óbreyttan vökutíma þá hefur sólin skinið í einn og hálfan tíma fyrir fótaferðatíma um jafndægur. Miðvökutíminn er eftir sem áður klukkan 15:30 en er nú orðinn þremur og hálfum tíma eftir sólarhádegi sem þarna er klukkan 12. Sem sagt komin stóraukin skekkja á milli miðvökutíma og sólarhádegis. Á dögum hins gamla eyktartíma var þessi munur hinsvegar ekki nema einn og hálfur tími eins og sést á fyrstu myndinni og tveir tímar samkvæmt núverandi klukku.
Með því að breyta klukkunni svona þá færist sólarbirtan inn í svefntíma að morgni og kvöldmyrkrið inn í vökutíma að sama skapi. Birtan yrði þá hreinlega allt of snemma á ferðinni miðað við hefðbundinn vökutíma. Samkvæmt gömlu eyktarstundunum vaknaði fólk á sama tíma og sólin kom upp um jafndægur og þannig er það einnig í dag. Ef klukkunni yrði hinsvegar breytt kæmi fram skekkja í þessum málum. Hana vissulega má leiðrétta með því að fólk vakni fyrr á morgnana og fari fyrr í rúmið á kvöldin. Út úr því kæmi hinsvegar sama staða mála og er í dag, og má því spyrja: Hverju vilja menn breyta? Breyta klukkunni svo fólk vakni fyrr, til þess eins að fá sömu stöðu og í dag? Hví þá að breyta því sem er í lagi? Klukka er bara klukka og það skiptir í raun engu máli á hvaða tölustaf vísarnir benda hverju sinni varðandi sólargang og vökutíma. Á endanum hlýtur aðalatriðið að vera að vökutíminn sé í sæmilegu samræmi við sólargang, eins og hann er í dag. Eða hvað? Þetta er allavega eitthvað til að pæla í.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:38 | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir þetta Emil, en þess má gjarnan geta að það er til gamalt orð yfir það sem þú kallar hér „miðvökutíma“, orðið „miðmunda“. Páll Vídalín segir:
„... að miðmunda og miðdegi, er vér köllum, er præcise kl. 1 og 30 mín., hálfri eykt eptir hádegi“.
Verði farið í þessa breytingu mun fljótlega koma upp krafa um að tekinn verði upp sumartími til að lengja birtuna síðdegis í ágúst og september - birturánið er langbagalegast í góðviðri á þeim tíma árs.
Trausti Jónsson, 16.3.2019 kl. 02:18
Það er nefnilega það. Ýmis örnefni vísa einmitt til þessa orðs, miðmunda - einum og hálfum tíma eftir hádegi, svo sem Miðmundargil og Miðmundartindur. Þetta kemur því vel heim og saman, en örnefnið Miðvökutindur er laust til notkunar.
Emil Hannes Valgeirsson, 16.3.2019 kl. 11:22
Ég legg til að hið opinbera láti þjóðina
gera nákvæma SKOÐANAKÖNNUN á klukkumálinu samhliða
okkar venjulegu sveitarstjórnar,Alþingis eða forsetakosningum.
Hérna kemur mín skoðum á málinu:
https://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/2228612/
Jón Þórhallsson, 16.3.2019 kl. 12:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.