Mánaðarmetin í Reykjavík

Í tilefni af nýju Reykjavíkurmeti meðalhitans í apríl er við hæfi að fara yfir stöðu annarra mánaðarmeta fyrir borgina. Þó að meðalhiti þessarar aldar sé hærri en þegar best gerðist á síðustu öld eru metin samt sem áður frá ýmsum tímum og þá ekki síst frá hlýindaskeiði síðustu aldar sem stóð yfir í um 40 ár. Til grundvallar þeim samanburði sem hér fer á eftir eru tölur frá Veðurstofunni eins og þær eru birtar á Veðurstofuvefnum og ná allt aftur til ársins 1866. Eitthvað mun vera búið að aðlaga eldri tölur til að gera þær samanburðarhæfar við nútímann enda hafa staðsetningar og aðstæður breyst með tímanum.

Til samanburðar við veðurmetin er ég með meðalhita áranna 2009-2018 eins og ég hef reiknað þau. Ég get ekki lofað að þessi samantekt sé alveg villulaus en þó er aldrei að vita nema svo sé.

Mánaðarmet hitans fyrir Reykjavík:

Janúar 1964: 3,5°C  (Meðalhiti 2009-2018: 1,2°C)
Hér er það janúar 1964 sem er handhafi mánaðarmetsins en þarna var farið að styttast mjög í lok hlýindaskeiðs síðustu aldar sem hófst um 1926. Það gerist annars ekki oft að meðalhitinn í janúar fari yfir 3 stig. Næsthlýjastur er janúar 1947 með 3,3 stig og svo náði janúar 1987, 3,1 stigi. Hlýjastur á þessari öld er janúar 2013 með 2,7 stig.

Febrúar 1932: 5,0°C  (Meðalhiti 2009-2018: 1,4°C)
Mjög afgerandi hitamet sem enginn annar febrúarmánuður hefur komist í námunda við í mælingasögunni. Sá mánuður sem kemst næst því er febrúar árið 1965 þegar meðalhitinn var 4,0 stig á lokaári gamla hlýindaskeiðsins og svo árið 2013 þegar meðalhitinn var 3,9 stig.

Mars 1929: 5,9°C  (Meðalhiti 2009-2018: 1,8°C)
Fyrstu þrír mánuðir ársins 1929 voru allir mjög hlýir og enn hefur enginn mánuður slegið út metmánuðinn mars það ár. Sá eini sem hefur komist nálægt því er mars 1964 þegar meðalhitinn var 5,7 stig. Þrátt fyrir að nokkra hlýja marsmánuði á þessari öld hefur þó engin náð 4 stigum en hæstur var meðalhitinn 3,9 stig árið 2004.

Apríl 2019: 6,5°C  (Meðalhiti 2009-2018: 3,8°C)
Þetta splunkunýja mánaðarmet slær út fyrra mánaðarmet, 6,3 stig frá þjóðhátíðarárinu 1974. Í þriðja sæti er apríl á hinu mjög svo hlýja ári 2003, 6,2 stig og í fjórða sæti er apríl 1926 með 6,0 stig.

Maí 1935: 8,9°C  (Meðalhiti 2009-2018: 6,9°C)
Eftir að þetta met var sett árið 1935 er það maí 1960 sem hefur komist næst því, með 8,7 stig. Tveir mánuðir á þessar öld eru á svipuðum slóðum í 3.-4. sæti með 8,6 stig, en það eru maí 2008 og 2017.

Júní 2010: 11,4°C  (Meðalhiti 2009-2018: 10,1°C)
Nokkrir mjög hlýir júnímánuðir hafa komið á þessari öld og ber þar hæst metmánuðinn árið 2010 sem náði 11,4 stigum og sló út fyrra met frá 2003 þegar meðalhitinn var 11,3 stig. Júnímánuður 2003 er reyndar ekki einn um þá tölu því sé farið aftur um aldir þá var meðalhitinn einnig 11,3 stig árið 1871 sem hefur verið mjög sérstakt á þeim tímum. Á hlýindaskeiði síðustu aldar náði júníhitinn einu sinni 11 stigum en það var árið 1941 þegar meðalhitinn var 11,1 stig.

Júlí 1991 og 2010: 13,0°C  (Meðalhiti 2009-2018: 11,9°C)
Mikla hitabylgju gerði fyrri hlutann í júlí 1991 og var mánuðurinn sá hlýjasti sem mælst hafði í Reykjavík þar til metið var jafnað á methitasumrinu 2010. Einnig var mjög hlýtt í júlí 2007 og 2009 þegar meðalhitinn náði 12,8 stigum sem og árið 1936 á hlýjasta áratug síðustu aldar. Hér má líka nefna mjög hlýjan júlí árið 1917 sem náði 12,7 stigum, aðeins hálfu ári áður en frostaveturinn mikli var í hámarki.

Ágúst 2003: 12,8°C  (Meðalhiti 2009-2018: 11,2°C)
Árið 2003 er hlýjasta mælda árið í Reykjavík og státar af hlýjasta ágústmánuðinum. Sumarið eftir, eða í ágúst árið 2004 gerði svo síðsumars-hitabylgjuna miklu sem dugði þó ekki til að slá metið frá árinu áður, mánuðurinn náði „bara“ öðru sæti með 12,6 stig. Merkilegt er að með metinu 2003 var slegið 123 ára met frá árinu 1880 þegar meðalhitinn var 12.4 stig. Þannig gátu sumrin einnig verið hlý í gamla daga þrátt fyrir kaldara veðurfar.

September 1939 og 1958: 11,4°C  (Meðalhiti 2009-2018: 8,6°C)
Hér eru tveir ofurhlýir mánuðir fremstir og jafnir, báðir frá hlýindaskeiði síðustu aldar. Á eftir þeim kemur svo september 1941 með 11,1 stig. Á síðari árum hefur meðalhitinn í september ekki náð að ógna þessum metmánuðum en það sem af er öldinni hefur meðalhitinn komist hæst í 10,5 stig árið 2006.

Október 1915: 7,9°C (Meðalhiti 2009-2018: 5,3°C)
Október á þessu herrans ári bauð upp á óvenjumikil hlýindi sem enn hafa ekki verið slegin út sé allri óvissu sleppt, og er október því handhafi elsta mánaðarmetsins í Reykjavík. Stutt er þó síðan að hörð atlaga var gerð að metinu því árið 2016 náði meðalhitinn í október 7,8 stigum. Einnig var mjög hlýtt í október 1946 og 1959 sem báðir náðu 7,7 stigum.

Nóvember 1945: 6,1°C  (Meðalhiti 2009-2018: 2,7°C)
Enginn vafi er hér á ferð enda er nóvember 1945 afgerandi hlýjastur hingað til. Næstur honum kemur nóvember árið 2014 með 5,5 stig en þar fyrir utan er það bara nóvember árið 1956 sem hefur náð 5 stiga meðalhita, en ekki meira en það þó.

Desember 2002: 4,5°C  (Meðalhiti 2009-2018: 0,5°C)
Hlýjasti desember kom snemma á þessari öld en annars eru vetrarhitametin öll frá fyrri tíð. Næstum því eins hlýtt var árið 1933 þegar meðalhitinn var 4,4 stig sem er varla marktækur munur. Til marks um hversu hlýtt hefur verið þessa mánuði er sú staðreynd að eftir 1933 komst meðalhitinn í desember ekki yfir 3 stig fyrr en árið 1987 þegar hann vippaði sér óvænt upp í 4,2 stig.

- - - -

Út frá þessu má velta fyrir sé dreifingu mánaðarmetanna. Sumarmánuðirnir á þessari öld hafa verið duglegri en vetrarmánuðirnir að slá út fyrri met, hvernig sem á því stendur. Sum metin virðast ansi erfið við að eiga, en ef óvenjuleg hlýindi hafa komið áður þá hlýtur annað eins að endurtaka sig fyrir rest, ef rétt er að við lifum á hlýnandi tímum. Uppskriftin að hlýjum mánuðum í Reykjavík er yfirleitt bara nógu miklar suðaustanáttir eða hlýtt loft af þeim uppruna, eins og raunin var núna í apríl. Öfgar í þessum efnum geta síðan skilað sér í metmánuðum á hvaða tímum sem er.

Hér að neðan hef ég raðað metmánuðunum niður á köld og hlý tímabil frá 1866. Hlýindaskeið síðustu aldar sem stóð í um 40 ár hefur enn vinninginn í fjölda metmánaða hér, en hafa má í huga að núverandi hlýindaskeið hefur aðeins staðið í um 23 ár og sér svo sem ekki fyrir endann á því.

1866-1925 (kalt): október.

1926-1965 (hlýtt): janúar, febrúar, mars, maí, september og nóvember.

1966-1995 (kalt): júlí.

1996-2019 (hlýtt): apríl, júní, júlí, ágúst og desember.

- - - -

Upplýsingar frá Veðurstofunni yfir hitann í Reykjavík er hægt að finna hér:
Mánaðargildi fyrir valdar stöðvar og hér: Lengri meðalhitaraðir fyrir valdar stöðvar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Emil, þetta er áhugaverð samantekt hjá þér. Hún fer saman við sumt það sem maður hafði heyrt frá gömlum mönnum. 

Afi minn(f 1908-1999) var bóndi og sagði mér að hlíustu árin á hans ævi hafi verið ca. 1930-1960. Hann ræktaði m.a. bygg og náði ég að verða vitni af því, en síðasta árið var 1965.

Nú má aftur sjá byggakra á Héraði en þeir höfðu verið að mestu ósýnilegir í næstum 30 ár eða frá árinu 1965.

Þetta stemmir nokkuð skemmtilega við köldu og hlýju tímabilin í niðurstöðum þínum. 

Magnús Sigurðsson, 4.5.2019 kl. 06:08

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka Emil. alltaf gaman að spá í veðrið en sagði einmitt í morgun við konuna. Nú verða bændur glaðir sérstaklega þeir sem rækta bygg eins og Magnús minntist á , repju og allmennt korn hvað þá gras.

Ég las fyrir nokkrum árum grein eftir erlendan vísindamann en hann sagði að gras væri eitt af mestu vermætum sem Íslendingar ættu. Við vanmetum þetta dálítið í meira lagi.

Veðurfar, sólin og gróðurinn er það sem heldur þessari þjóð gangandi.

Ég spurði Trausta fyrir nokkru hve árs meðalhiti á Íslandi væri. Hann var er ekki mikill en hann hafði reiknað út miðað við síðustu 18 ár að hann væri um 3.9°C  Ég þetta er svipað fyrir norðurhjara heimsins þá veit ég ekki hvað þeir eru að tala um heimsvá þegar talað er um hita.    

Valdimar Samúelsson, 4.5.2019 kl. 12:29

3 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Takk fyrir þessa samantekt.

Ég skrái veðurdaga með videói. Hér er mynd sem sýnir hitabreytingar í apríl 2019 ef ég má birta það. Með fyrirfram þökk.

https://www.youtube.com/watch?v=jAW0D_4hld8&list=PLcQHErcAX1OO4wmH2K5CjTkqlCOX3Rs83&index=7

Benedikt Halldórsson, 4.5.2019 kl. 20:20

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Skemmtilegt vídeó Benedikt. Það má skrá veður með ýmsum hætti. Ég ætti nú að þekkja það, hafandi skráð veðrið daglega í 33 ár.

Ég kannast líka ágætlega við framfarir í byggrækt. Kynntist því hvernig unnið var að kornkynbótum er ég var í sumarvinnu hjá RALA fyrir margt löngu. Íslenska kornið þarf að þola ýmislegt frá vori til hausts þannig að smá hlýnun er ekki alslæm fyrir okkur hér. En náttúran er viðkvæm fyrir miklum umskiptum á skömmum tíma og hnattrænt séð er hlýnun yfirleitt ekki til sömu blessunar og hér á landi.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.5.2019 kl. 23:03

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Benedikt þetta er flott veðurvideo hjá þér. :-)

Valdimar Samúelsson, 5.5.2019 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband