22.2.2008 | 12:44
Hvað finnst mér um Eurovisionlögin?
Núna á laugardagskvöldið er komið að þeirri stóru stund er við veljum okkar framlag í Evrópukeppni dægurlaga, sjálfa Eurovisionkeppnina sem verður haldin í Serbíu þetta árið. Þetta er auðvitað keppni sem allir dýrka og dá, ýmist opinberlega eða í laumi, en hvað mig varðar þá hef ég aldrei farið í felur með minn áhuga á keppninni. Enda afar fordómalaus og víðsýnn þegar kemur að menningarviðburðum, bæði háttsettum sem lágt settum. En hvað finnst mér um þau lög sem keppa um að verða framlag okkar nú í ár? Margt finnst mér gott en hér koma mínir fordómalausu sleggjudómar: (Smellið á titil til að spila lögin)
Gef mér von. Flytjandi: Páll Rósinkrans. Höfundur: Guðmundur Jónsson. Palli Rósinkrans biður um von af mikilli andagift, studdur af gospelsöng í Hvítasunnustíl. Sá stíll höfðar ekki til mín og varla hægt að segja að þetta lag eigi mikla von. Allt er samt vel gert hér, Páll er einn af okkar bestu söngvurum og Guðmundur - Sálin hans Jóns míns - Jónsson, kann vissulega að semja grípandi tónlist.
Núna veit ég. Flytjandi: Magni Ásgeirsson (og Birgitta?), Höfundur: Hafdís Huld Þrastardóttir. Þetta er nú bara mjög fallegt og huggulegt lag, rólegt framan en bætir í undir lokin. Það kom í ljós í seinni umferðinni að Magni dugði ágætlega án Birgittu sem var óvart í skíðafríi. Kjósa Magna? Þjóðin kann það. Ég veit hinsvegar ekki með Evrópu.
In your dreams. Flytjandi og höfundur: Davíð Þorsteinn Olgeirsson. Þetta lag er bara skal ég segja ykkur alveg bráðgott. Létt, skemmtilegt og grípandi, sungið í falsettu og minnir m.a. á ýmsa gamla Elton John slagara, einhver sænskur Eurovision-keimur af þessu líka. Ég gæti alveg hugsað mér þetta lag í sjálfri keppninni ef tekst að finna réttu sviðsframkomuna sem hefur verið helsti vandinn hingað til.
Hvað var það sem þú sást í honum? Flytjandi: Baggalútur. Höfundur: Magnús Eiríksson. En eitt gott lag og enn vandast valið. Fyrst var það flutt í rólegri kántrý-útgáfu en var síðan flutt í sveiflustíl einhverstaðar á milli Geirmundar og Tom Jones. Baggalútsmenn gefa þessu lagi skemmtilegan karekter eins og þeim er von og vísa.
Fullkomið líf. Flytjandi: Eurobandið (Friðrik Ómar og Regína ósk), Höfundur: Örlygur Smári. Ænei. Ég veit að þetta fólk langar óskaplega mikið út og telur sig sjálfsagt vera með skothellt Eurovision lag. En þetta lag er eins og Eurovisoin lög verða leiðinlegust, tilgerðarlegt stuð og ofnotaðar klisjur sem bjarga ekki slöku lagi. Ég óttast samt að mörgum falli þetta vel í geð. We have a winner sagði Páll Óskar. We have a looser segi ég.
Hvar ertu nú? Flytjandi: Dr. Spock, Höfundur: Dr. Gunni. Guli hanskinn rokkar feitt! Hér er fjörið, hér er frumleikinn. Angurvær sjómannaballaða og villt dauðarokk fléttað í eitt og endar í níu-vindstigum á Halamiðum. Mikið show hér á ferð, en það sem skiptir kannski mestu er að laglínan gerir sig og söngurinn afbragð. Já, takk!
Ho, ho, ho, we say hey hey hey, Flytjandi: Merzedes Club, Höfundur: Barði Jóhannsson. Er þetta lagið sem er að fara út? Það bendir margt til þess enda hefur þetta lag vakið mesta athygli. Barði Bang Gang er náttúrulega snillingur og kemur hér með Ibiza-techno-hnakka-diskó sem hugsanlega er neðst í virðingastiga allrar tónlistar og fer alla leið með olíubrúnkusmurðum vöðvamennum og einni söng-mjónu. Hörku atriði. Stóri gallinn er hinsvegar sá að fólkið getur ekki sungið! Það kom fram í seinni umferðinni þegar felu-baksviðsmenn þurftu að syngja fyrir drumbaslagarana og söngkonan þurfti að syngja með sinni náttúrulegu litlu rödd - án allra tölvueffecta.
Don't wake me up. Flytjandi: Ragnheiður Gröndal. Höfundur: Margrét Kristín Sigurðardóttir.Er þetta kannski bara lagið? Ragnheiður Gröndal klikkar ekki, hún kann að syngja og fer létt með skemmtilegt lag sem er í dálitlum revíustíl.Allavega eitthvað leikhúslegt við þetta. Bara fínt, já já.
Niðurstaða: Spái því að Hó hó hó, fari út (börnin hafa gaman af þessu), Fullkomið líf lendir í öðru sæti en fær örugglega ekki atkvæði frá mér. Best finnst mér Hvar ertu nú? Önnur lög eru yfirleitt fín en eiga kannski ekki mikla möguleika en mættu fara í keppnina mín vegna, nema helst Gospel-lagið.
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkar: Dægurmál, Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 12:55 | Facebook
Athugasemdir
Nú get ég ekki annað en lesið og tautað jamm og jæja. Hef ekki heyrt neitt af þessu. En ég ætla að fletta upp í þessari færslu þegar úrslitin liggja fyrir og athuga getspekina.
Lára Hanna Einarsdóttir, 22.2.2008 kl. 13:22
Að lokinni keppni segi ég bara eins og Lára: Jamm og jæja.
Emil Hannes Valgeirsson, 23.2.2008 kl. 22:59
Ég nennti ekki að horfa á þáttinn og hann er ekki kominn á netið. Hver vann? Greinilega ekki lagið sem þú spáðir sigri fyrst þú jammar og jæjar með mér...
Lára Hanna Einarsdóttir, 23.2.2008 kl. 23:02
Auðvitað Eurobandið sem mér fannst leiðinlegast, Friðrik Ómar og Regína Ósk. Mér verður hinsvegar aldrei að ósk minni í þessari keppni en fylgist alltaf með.
Emil Hannes Valgeirsson, 23.2.2008 kl. 23:09
Aldrei þessu vant nennti ég að horfa af því einn vinur minn sagði að ég yrði að heyra hó hó lagið. Vinningslagið minnir á lag Sylvíu Nætur og er fyrir neðan allar hellur. Það kemst ekki neitt áleiðis. Reyndar voru öll lögin drasl en dr. Spock voru fyndnir.
Sigurður Þór Guðjónsson, 23.2.2008 kl. 23:53
Þarna sést hvað ég á hámenningarlega bloggvini, sem nenna ekki að horfa á Eurovision. Nú verð ég að taka mig á og skrifa um eitthvað sem vit er í eins og til dæmis veðrið.
Emil Hannes Valgeirsson, 24.2.2008 kl. 00:08
Ég held að þetta sé nú ekkert menningartengt mál - bara smekkur manna. Það er svolítið langt síðan ég hætti að nenna að fylgjast með Júróvisjón því mér fannst tónlistin sjálf hafa orðið undir og atriðin orðin að kroppa- og skrautsýningum, stundum svo fíflalegum að ég fékk bjánahroll og leið ekki vel undir flutningnum. Þegar svona var komið var eiginlega sjálfhætt að horfa.
Annars finnst mér að þú eigir alls ekki að einskorða bloggið þitt við veðrið, þó að það sé skemmtilegt umfjöllunarefni. Þú hefur aldeilis sýnt að þér lætur mjög vel að skrifa um ýmislegt annað.
En ég votta samúð með úrslitin.
Lára Hanna Einarsdóttir, 24.2.2008 kl. 11:00
Takk fyrir þetta og ég er allur að ná mér eftir gærkvöldið. Ég hef annars getað viðhaldið Eurovisionáhuga mínum í gegnum tíðina með því að sjá skemmtanagildið í hinu hallærislega.
Svo verða allskonar veðurpælingar held ég alltaf helsta viðfangsefnið mitt hérna en ritstjórnarstefnan er einfaldlega sú að skrifa um það sem mér sjálfum finnst gaman að skrifa um.
Emil Hannes Valgeirsson, 24.2.2008 kl. 11:53
Ég held mig við forna spakmælið: Veðurblogg er eina bloggið sem vitsmunaverum er sæmandi.
Sigurður Þór Guðjónsson, 28.2.2008 kl. 00:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.