Er góða veðrið frá því í fyrra að endurtaka sig?

vedurkort_22jun
 
Veðrið er svo gott í dag að elstu menn muna vart annað eins síðan frá því í fyrra, ef þeir muna þá svo langt. Allavega þá sé ég ekki betur en við séum komin með sömu stöðu á veðurkerfunum og einkenndi sumarið í fyrra. Lægðirnar fara yfir Bretlandseyjar og þaðan yfir suðurhluta Skandinavíu, á meðan sitjum við hinsvegar í ládeyðunni og getur varla kvartað nema í mesta lagi yfir smá úrkomu í grennd af völdum góðviðrisskúra. Í fyrra var þetta veðurlag ríkjandi frá því snemma í júní og til seinni hluta ágúst, við litla hrifningu Bretlendinga og Danamanna. Svo er bara að sjá hvað þetta veðurlag endist, en ég er frekar bjartsýnn fyrir hönd okkar Íslandsbúa.
 
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég er stödd á Bretlandseyjum, nánar tiltekið í Norfolk í East Anglia - austasta hluta Englands. Hér er fínasta veður, sólríkt en svolítið hvasst. Vindurinn er hlýr og kærkominn, annars væri allt of heitt fyrir minn smekk.

Kveðja sunnanað,

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.6.2008 kl. 14:14

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Væntanlega sleppa Austur-Anglíubúar betur við rigninguna heldur en þeir sem eru norðar og vestar á Bretlandseyjum en þessi hvassi vindur passar alveg við kortið. Annars hafa góðviðrisskúrirnar verið nokkuð öflugar í dag, allavega á Selfossi þar sem ég lenti í hagléli núna áðan og einn bíll fór útaf í hálku á Mýrdalssandi, einnig vegna hagléls.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.6.2008 kl. 18:48

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst þetta ekkert sérlega eftirsókarvert veðurlag. Það er kalt í háloftunum þrátt fyrir sólina og þess vegna er þetta hagl. Í fyrra kom þessi líka hlýi júli, sem ég missti reyndar af því ég var á Krít, en það verður varla núna ef ekki hlýnar vel.

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.6.2008 kl. 23:18

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Heyrði í grillveislu í kvöld að hér væri spáð rigningu í hálfan mánuð - frá og með mánudegi eða þriðjudegi, held ég.

Ég fer heim á morgun svo ég slepp... sjúkkit!

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.6.2008 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband