Smárinn

smarablomÉg ætla nú aðeins að snúa mér að gróðri jarðar og taka fyrir þessa sérstöku plöntu sem við þekkjum öll og nefnist hvítsmári, oftast kallaður bara smári. Hver hefur ekki lagst niður á fjóra fætur í þeirri von að finna fjögurra blaða smára til að geta óskað sér einhverrar dásemdar? Sjálfsagt hafa margir fundið fjögurra blaða smára þótt svoleiðis sé ekki algengt, jafnvel er hægt að finna fimm blaða smára sem er enn sjaldgæfara en ekki veit ég hvort eitthvað sé á honum að græða fyrir hjátrúarfulla. Fjögurra blaða smáranum hefur hins vegar lengi fylgt hjátrú, hugsanlega vegna samsvörunar við hinn heilaga kross svona fyrir utan það að vera sjaldgæft fyrirbæri.

En það er annað atriði sem gerir smáraplöntuna merkilega sem ég er ekki viss um að allir átt sig á. Smárinn er nefnilega í þeim sjaldgæfa flokki plantna, ásamt t.d. lúpínu, sem getur unnið köfnunarefni úr andrúmsloftinu og getur því dafnað vel þrátt fyrir næringarsnauðan jarðveg. Köfnunarefni (nitrogen, nítrat) er líka dálítið merkilegt efni því þótt það hafi ekki mikil áhrif á okkar daglega líf er innihald andrúmsloftsins að 78% leiti köfnunarefni. Plöntur þurfa þetta efni til að vaxa og dafna, þær soga það úr jarðveginum enda er köfnunarefni eitt af helstu efnunum í tilbúnum áburði.

Smárinn er algengur á grasflötum, og hefur vegna eigin köfnunarefnisframleiðlsu ákveðið forskot á grasið ef lítið hefur verið borið á það af áburði. Þetta má t.d. vel sjá á grasflötunum meðfram sjónum við Eiðsgranda og Seltjarnarnes. Smáraplantan myndar oft litlar hringlagar breiður sem vaxa út frá miðju, stækka með hverju ári og vaxa að lokum saman við næstu breiðu. Grasið nýtur svo góðs að smáranum því þar sem smárinn hefur farið yfir er jarðvegurinn köfnunarefnisríkari fyrir vikið og allur vöxtur eykst. Það er því engin ástæða til að líta á smárann eitthvað illgresi enda er þetta bæði kurteis og hjálpsöm planta sem er ekkert að æða um allt og kaffæra annan gróður eins lúpínan gerir, enda er hún ættuð úr allt öðru vistkerfi.

Smárabreiða 

Smárabreiða á Seltjarnarnesi 9. ágúst 2008. (Ljósmyndir: EHV)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lauja

Fróðleg lesning, annars þá er á smá parti úti á leikvelli hjá mér mikið af 4 laufa smára.  Hef reyndar ekki leitað eftir því í sumar - en fannst það dálítið merkilegt einhverntíman þegar ég fór út með börnin - og sá heilan helling af þeim -  hafði aldrei áður fundið 4 laufa smára.

Lauja, 11.8.2008 kl. 20:38

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sannkallaður óskastaður hjá ykkur þarna, Lauja.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.8.2008 kl. 23:49

3 Smámynd: Einar Ólafsson

Þetta er skemmtilegt. Oft hefur smárinn glatt auga mitt. En því las ég þetta að ég lenti af tilviljun á greininni á þessari síðu 23. júlí, "Um staðsetningu Listaháskólans við Laugaveg", og vil koma með síðbúna athugasemd við hana, sem er nú bara að ég er mikið til sammála og hef einmitt sjálfur undrast að svæðið þarna uppi í Holtunum skyldi ekki vera sett undir þennan skóla. Reyndar fannst mér strax á sínum tíma, þegar skólinn fékk Sláturhúsið inni í Laugarnesi og Þjóðskjalasafnið fékk Mjólkursamsöluna, að það hefði átt að vera öfugt, ég sá planið í Mjólkursamsölunni fyrir mér sem torg fyrir sýningar og alls kyns uppákomur og síðan stækkunarmöguleika þarna allt í kring. Ef skólinn getur lagað sig að umhverfinu við Laugaveg/Hverfisgötu, þá er það bara fínt, alveg ljómandi. En ef hann á að næra umhverfi sitt, þá er betra að það sé í stíl við smárann en lúpínuna. Hafðu þökk fyrir.

Einar Ólafsson, 13.8.2008 kl. 13:38

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ætli það geti verið gagnlegt að blanda smárann grasfræi þegar verið er að græða upp rýrt land? Þá er ég auðvitað að hugsa um köfnunarefnið.  Mér hefur stundum komið það til hugar hér í sveitinni, en aldrei komið því í framkvæmd.

Ágúst H Bjarnason, 15.8.2008 kl. 07:22

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já Ágúst, það getur bara vel verið að það sé gagnlegt. Annars kynntist ég smáranum þegar ég vann nokkur sumur á Rannsóknastofnun landbúnaðarins en þar var einmitt verið að gera sáningartilraunir með blöndur af gras- og smárafræjum en þá aðallega til túnræktar. Ég man ekki betur en að þetta hafi aukið uppskeru. Svo voru til landgræðslu gerðar einhverjar tilraunir með baunagrös sem hefur sömu eiginleika og smárinn, mætti líka athuga það.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.8.2008 kl. 09:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband