„Við verðum að losa skipulagsmálin úr þessu peningaati“

Fyrirsögnin á þessari færslu er ekki frá mér komin heldur er þetta yfirskrift mjög áhugaverðs viðtals í Fréttablaðinu núna á laugardaginnn sem ætti eiginlega að vera skyldulesning, en þar er rætt við Margréti Harðardóttur arkitekt sem rekur arkitektastofuna Studio Granda ásamt Steve Christer en óhætt er að segja að þau eru meðal okkar virtustu arkitekta í dag.

Það sem Margrét segir í viðtalinu virðist nokkuð í takt við það sem húsfriðunarsinnar hafa talað um en hún er greinilega ekki sátt við það hversu gömul hús njóta lítillar virðingar í dag og virðist m.a. hafa áhyggjur af því eins og fleiri að uppbygging miðbæjarins stjórnist af hagsmunum lóðareigenda sem vilja hámarka sína fjárfestingu, á kostnað eldri húsa sem fyrir eru á staðnum, en um eldri hús segir hún þetta:

„Flestir sem hafa einhverja tilfinningu fyrir umhverfinu skilja að þessi hús hafa sál, tengingu við arfleifð okkar og rætur og þetta skiptir okkur máli. Við sem arkitektar sjáum þessi hús sem tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt, þau eru formerki fyrir það sem á að gera í götunni og útgangspunktur.“

 

Því miður finnst mér vera allt of margir sem skilja ekki svona tal, eða hafa ekki þessa tilfinningu fyrir umhverfinu sem hún talar um. Modernisminn eins og hann er í dag er ekki endilega fólgin í því að rífa og byggja stærra, það er nefnilega líka modernísk hugsun að huga því sem fyrir er. Nú þegar enn ein umskiptin hafa orðið í Borgarstjórn Reykjavíkur er ég hræddur um að þessi viðhorf eigi ekki lengur eins mikið uppá pallborðið því gamla vinalega götumyndin hefur misst valdamikinn bandamann sem Ólafur F. var og það veldur mér allavega áhyggjum og sama má svo kannski líka segja um önnur mál.

Um Listaháskólabygginguna er Margrét auðvitað alveg sammála mér þegar hún segir að svona skóli eigi alls ekkert endilega að vera við Laugaveginn, hvað þá að fórna fyrir honum gömlum fallegum byggingum. Hún nefnir hins vegar staði í útjaðri miðbæjarins þar sem skólinn getur samt orðið bakland og stoð fyrir miðbæinn þótt hann sé ekki staðsettur við sjálfa verslunargötuna. Það má enda ekki gleyma því að í listnámi þurfa menn líka frið til að stunda sitt nám eins og í öðru námi, í stað þess að vera jafnvel sýningargripir sjálfir.

Svo eru hér í lokin tvær myndir. Önnur er af húsunum við Laugaveginn sem eiga að víkja fyrir Listaháskólanum en hin er frá Berlín þar sem búið er að reisa nýjan nútímalegan miðbæ á fyrrum einskinsmannslandi. Hvað skal segja um hinu nýju Berlín? Jú, kannski skárri en Hamraborgin en jafnast samt ekkert á við Laugaveginn ef ég á að segja eins og er.

Laugavegur_Berlin

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta sagði Björn Ólafsson, arkitekt, líka - sjá myndband í þessum pistli.

Ég er innilega sammála ykkur öllum!

Lára Hanna Einarsdóttir, 17.8.2008 kl. 13:40

2 identicon

Sammála!  Nema varðandi Ólaf F. - ég tel enga eftirsjá í honum sem borgarstjóra.

Malína (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 16:29

3 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Mér fannst viðtalið við Margréti mjög gott og er samm´la því að þetta ætti að vera skyldulesning fyrir þá sem vilja eitthvað með umhverfi sitt gera eða hafa áhrif.

Edda Agnarsdóttir, 17.8.2008 kl. 18:50

4 identicon

Hvaða skoðun hafði Margrét Harðardóttir þegar hún teiknaði ráðhúsið eða hús hæstaréttar? Mjög ópraktísk hús sem troðið var í miðbæinn. Vinna þurfti mikið verk til að koma fyrir starfsemi í ráðhúsinu - sem tókst þó ekki. Gömlu húsin eru börn síns tíma - ópraktíst kreppuhús en hæstiréttur og ráðhúsið eru ópraktískt bruðl á þennslutíma.

Björn S. Lárusson (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 19:24

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Svo ég segi mína skoðun á ráðhúsinu og húsi Hæstaréttar sem Björn S. spyr um þá get ég sagt það eins og er að ég hef aldrei verið hrifinn af Ráðhúsinu, þótt Margrét og Steve hafi teiknað það. Hús Hæstaréttar þykir mér hinsvegar mjög fallegt og fara ágætlega í sínu umhverfi. Það þurfti heldur ekki að fórna neinu húsi fyrir þá byggingu en hinsvegar þurfti að fjarlægja myndarlegt gamalt hús til að koma ráðhúsinu fyrir. Bæði þessi hús sigruðu í samkeppni þar sem búið var að ákveða að ný hús skyldu rísa en Margrét og Steve komu annars ekkert að þeirri ákvörðun. Mér finnst allavega ekki hægt láta þá sem sigra í samkeppnum um útlit húsa bera ábyrgð á skipulagi.

Gömul hús er vissulega mörg hver börn síns tíma, en eins og allir vita þá verður að umgangast börn af nærgætni. Gömul hús eins og við köllum þau eru vissulega mörg hver byggð á krepputímum en eru flest samt byggð samkvæmt mörghundruð ára sígildri, klassískri fagurfræði og gullinsniðsreglum og það er kannski þessvegna sem þau eru jafn falleg og þau eru, þ.e. ef þeim er sýnt tilhlýðileg virðing.

Emil Hannes Valgeirsson, 17.8.2008 kl. 21:41

6 identicon

JAMMM!!!  sammála.... sbr. hornið á Aðalstræti og Túngötu... gjörsamlega, algjörlega frábær hönnun!!

Hvað eru þessir helv.. aular að vilja upp á dekk.... með alla þessa andsk... svörtu glerkassa, þeir hafa ekki einu sinni auga fyrir því,  sem við erum svo stolt af og heppin að eiga enn!!!!  Þ.E.A.S.  það litla, sem við höfum eftir af þjóðarstoltinu okkar ...  Þegar við íslenska þjóðin vorum að gera okkur tilbúin fyrir sjálfstætt ÍSLAND!! ... burt úr moldarkofunum og í stoltið okkar timburhúsin!! Lifi gömlu húsin og minningarnar þar með!! og að sjálfsögðu sjálfstætt Ísland!

Edda (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 23:13

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mig langar að benda á í þessu sambandi tvö Spegilsviðtöl við Guðrúnu Helgadóttur, prófessor við Hólaskóla. Bæði viðtölin eru í tónspilaranum á blogginu mínu merkt: Spegillinn - Guðrún Helgadóttir um menningarverðmæti 1 og 2. Guðrún er þar einmitt að tala um hvað Íslendingar séu afkastamiklir í eyðileggingu á menningarverðmætum sínum, s.s. gömlum húsum.

Hvet áhugasama til að hlusta á málflutning Guðrúnar.

Lára Hanna Einarsdóttir, 17.8.2008 kl. 23:26

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já, það er margt gott í tónlistarspilaranum þínum Lára, mæli með honum þótt þar sé lítið um tónlist.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.8.2008 kl. 00:16

9 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ja... þar er eðalklassíkin Söngur villiandarinnar, Emil...  manstu?    Og reyndar tvö lög eftir Magga Eiríks - bæði frábær eins og svo mörg af lögum hans - og textum!

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.8.2008 kl. 00:35

10 Smámynd: Matthildur B. Stefánsdóttir

Sammála síðustu athugasemd um gömlu húsin.  Allsstaðar þar sem maður kemur er mesta lífið í gömlum miðbæjum sem hafa verið teknir smekklega í gegn.  Svo fer maður í nýju miðbæina þar sem stóru ráðstefnumiðstöðvarnar og mollin eru staðsett, upplifunin er göngustígar umluktir háum veggjum, rusl fýkur hring eftir hring, einn og einn betlari nærri samgönguæðunum og fólk flýtir sér bara í gegn að nauðsynlegum áfangastað.  Nýtískubyggingar eru einar og sér margar mjög flottar en þær þurfa að spila með nærliggjandi umhverfi og mannlífinu, veita fólki vellíðan til að þær virki.

Matthildur B. Stefánsdóttir, 26.8.2008 kl. 09:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband