Stóra holan í miðbænum

PICT1378 

Það er mikið búið að grafa á gamla hafnarsvæðinu í Reykjavík í nágrenni við tónlistar- og ráðstefnuhúsið sem nú er að rísa. Þarna ætlar Pontus-hópurinn að reisa 400 herbergja hótel og fjármálamiðstöð eða einskonar World Trade Center Íslands og svo bílastæðakjallara undir öllu saman. Minna má það ekki vera í þessu landi efnahagsundranna og eins og sjá má á myndinni hér að ofan er grunnurinn sem búið að grafa fyrir þessum framkvæmdum, alveg gríðarstór. Að auki er svo ætlunin að nýjar höfuðstöðvar Landsbankans rísi handan götunnar eða beint á móti pylsusjoppunni Bæjarins bestu en verður þó heldur stærri.

Húsagrunnar eru auðvitað nauðsynlegir ef byggja skal hús enda skal hvert hús reisa á traustum grunni. En þá verðum við líka að vona að þarna verði byggt og það helst í nánustu framtíð. Íslenska fjármálaveldið hefur hinsvegar ekki reynst vera byggt á eins traustum grunni menn töldu og nú er búið að lýsa því yfir að framkvæmdum við Fjármálamiðstöðina verði frestað um óákveðinn tíma vegna vandræða á fjármálamörkuðum, hvað annað? Svo er spurning hvort hinar nýju höfuðstöðvar Landsbankans muni yfirleitt rísa á næstunni eins og staðan er. Kannski ætti frekar að byggja þarna hús utanum starfsemi sem hefur ekkert með peninga að gera. Einu sinni voru t.d. hugmyndir um að Listaháskólinn gæti verið þarna á svæðinu, en nú má víst ekki minnast á það.

En það er fleira sem veldur biðstöðu á þessu svæði, því hugmyndir eru uppi um að leggja Geirsgötuna í stokk en eftir er að ákveða hvort úr því verður og hvernig sá stokkur muni liggja. Jafnvel er talað um að láta hann byrja við enda Sæbrautarinnar og láta hann svo koma upp vestur í Ánanaustum, enda erfitt að koma því við að hafa fyrirferðamikla gangnamunna í svona miðborgarbyggð. Ég veit samt ekki með svona umferðargöng inn í miðri borg. Það virðist alltaf vera markmið þeirra sem skipuleggja umferðarmannvirki að umferðin þurfi alltaf að ganga svo óskaplega hratt fyrir sig. Eins og sést á myndinni hér að neðan sem tekin var um hádegi í miðri viku er umferðin á Geirsgötunni yfirleitt ekki meiri en svo að ein akrein í hvora átt gæti vel annað þeirri umferð. En þarna er kannski verið að hugsa um alla þá umferð sem bætist við þegar búið verður að koma upp öllum þeim óskaplegu landfyllingum vestur af Ánanaustum og Örfirisey með tilheyrandi íbúðabyggð sem sumum dreymir um þar. Þessa leið um Geirsgötuna ek ég á hverjum degi í og úr vinnu og velhana frekar heldur en Hringbrautina, enda er alltaf skemmtilegt að akaframhjá gömlu höfninni. Ég mun hinsvegar forðast það að keyraneðanjarðar í einhverjum stokki enda ekki mikill neðanjarðarmaður.

PICT1810

En svo maður botni þetta, þá lítur allavega út fyrir að þótt byggingu tónlistarhússin verði lokið á næsta ári mun svæðið áfram verða framkvæmdasvæði í mörg ár enn og langur vegur þar til svæðið mun líta sómasamlega út hvort sem draumórar manna um uppbyggingu svæðisins ganga eftir eða ekki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband