Íshafið og hinn kaldi veruleiki

 

The PolarSea

 

Að þessu sinni ætla ég að rýna í málverk sem ég hef lengi haft dálæti á og hef reyndar birt áður í smærri útgáfu. Þetta er myndin Íshafið frá árinu 1824 (The Polar Sea / Das Eismeer) eftir Þýska málarann Caspar David Friedrich. Það er ýmislegt við þessa mynd sem gerir hana sérstaka bæði hvað varðar myndefni og kannski ekki síst hversu nútímaleg hún er miðað við hvenær hún er máluð. Við sjáum að þarna grilla í skutinn á seglskipi sem hefur lotið í lægra haldi fyrir ógurlegum hafís sem fyllir hafflötinn og brotnar upp í stóra oddhvassa hröngla. Það má vel skynja bæði þögnina og kuldann í þessari mynd sem gerir ósigur skipsins dramatískari þarna í norðurhjaranum. Þetta mun ekki vera mynd af ákveðnum atburði né heldur af einhverju ákveðnu skipi. Þetta er öllu frekar táknmynd sem ætluð er til að skapa hughrif hjá áhorfandanum og vekja fólk til umhugsunar um smæð mannsins gagnvart náttúrunni og þeim öflum sem hún býr yfir. Það má því segja að hér sé verið að myndgera ófullkomleika mannsins eða beinlínis ósigur mannsandans.

Þegar þessi mynd var máluð var rómantíska stefnan í hávegum í Evrópu. Þá var kannski ekki alveg sami skilningur á hugtakinu rómantík og er í dag en samt sem áður viss skyldleiki því í rómantíkinni felst alltaf eitthvað fráhvarf frá skynsemishyggju mannsins sem á þessum árum hafði mátt þola ákveðið skipbrot eftir Frönsku byltinguna og Napóleonsstríðin sem varð til þess að einveldi festi sig í sessi á ný. Í rómantíkinni er hin háleita fegurð náttúrunnar notuð sem einskonar táknmynd fyrir þær hættur og ógnþrungnu örlög sem við þurfum að lifa við. Skynsemi okkar eru nefnilega takmörk sett, enda erum við alltaf jafn óviðbúin þegar við stöndum frammi fyrir hinum kalda veruleika. Það gildir jafnt í dag sem og á fyrri öldum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kreppumaður

Magnað og minnir örlítið á mynd John Colliers af endalokum Henry Hudsons, þó sú mynd hafi verið máluð einhverjum fimmtíu árum síðar.

Kreppumaður, 2.10.2008 kl. 20:10

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það má segja það, nema Caspar David F. sýndi aldrei manneskjur nema í aukahlutverki. Hérna er linkur á mynd John Colliers.
http://www.artmagick.com/pictures/picture.aspx?id=5846&name=the-last-voyage-of-henry-hudson
Ég hefði getað notað hana á sínum tíma þegar ég skrifaði um leitina að Nprðvesturleiðinni á sínum tíma. Sjá hér

Emil Hannes Valgeirsson, 2.10.2008 kl. 21:54

3 Smámynd: Kreppumaður

Þá eigum við þá leit sem sameiginlegt áhugamál. 

Kreppumaður, 2.10.2008 kl. 21:57

4 identicon

Sæll frændi,

Ég rakst á bloggið þitt (það var á forsíðu).  Þetta er skemmtileg síða hjá þér, ég á eftir að heimsækja þig hingað aftur.

Ragnar Pálsson 

Ragnar Pálsson (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 00:33

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Frábært.

Greta Björg Úlfsdóttir, 14.10.2008 kl. 18:13

6 identicon

Minnir mig á siglingu mina frá Angmagsalik til Kulusuk í blíðskaparveðri. Eg var að ferja gamlan trillubát, með kraflítilli vél og tréstýri. Ferðin gekk vel í byrjun, en ísinn fór að þéttast er við nálguðumst Kulusuk. Bátinn hrakti inní ísinn sem var á hraðri siglingu, en þarna eru harðir straumar. Mér tókst með naumindum að losa bátinn og forða þar með að hann myldist í sundur þarna milli ísjakanna.

Bjorn

Bjorn Emilsson (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 01:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband