Um bókina Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar

Bók GOHNúna rétt fyrir jólin kom út bók sem ástæða er til að minna á en hún heitir Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar og er eftir veðurfarsfræðinginn Halldór Björnsson sem starfar á Veðurstofu Íslands. Þrátt fyrir að þetta sé hin þarfasta bók um eldheitt málefni hefur hún ekki fengið mikla umfjöllun, enda hefur fólk um ýmislegt annað að hugsa þessa dagana. Hún fór þó ekkert fram hjá mér enda hef ég sjálfur blandað mér í loftslagsumræðuna stöku sinnum á þessum vettvangi og skrifað eins og sá sem þykist hafa eitthvað vit á málum.

Það sem er í bókinni
Bókin hefst á mjög ýtarlegum útskýringum á eðlisfræðinni að baki gróðurhúsaáhrifunum og varmabúskap jarðar. Saga kenningarinnar er rakin og svo eru flækjur sem gera spár um framtíðina óvissa útskýrðar, en þar er um ræða þætti sem ýmist hafa dempandi eða magnandi áhrif ef hlýnun á sér stað. Síðan er farið yfir loftslagsspá 21. aldar þar sem fjórða úttekt IPCC kemur mikið við sögu, afleiðingar hlýnunar eru metnar, Kyoto bókunin er rædd og síðast en ekki síst er umfjöllun um aðgerðir og 2°C markið, sem er talið hámark þeirrar hlýnunar sem má eiga sér stað ef ekki á að koma til hættulegrar röskunar.

Í svona efnismikilli bók er auðvitað margt sem maður var ekki með á hreinu áður. Ég hef til dæmis ekki áður lesið jafn góðar útskýringar á eðli gróðurhúsaáhrifa, sem eru í raun ekki beint gróðurhúsaáhrif heldur „áhrif-endurgeislunar-innrauðs-ljóss“ en án þeirra áhrifa væri hitastig jarðar um 30° lægra en það er nú. Það er líka athyglisvert hvað þetta eru í raun gömul fræði en einn sá fyrsti til að benda á hættuna af auknu útstreymi C02 var Svíinn Arrhenius sem fékk Nóbelsverðlaun árið 1904. Samkvæmt hans mati átti að geta hlýnað á jörðinni um 5-6°C ef styrkur CO2 í lofti myndi tvöfaldast. Með aukinni vitneskju og endalausa útreikninga áætla menn í dag að afleiðingar tvöföldunar CO2 séu á bilinu 2,0–4,5°C. Óvissan er þó talin meiri á efri mörkunum.

Það sem er ekki í bókinni

Í ljósi umræðunnar þá er athyglisvert að í umræddri bók er eiginlega hvergi fjallað um sólvirkni. Að vísu er bent á það sem staðreynd að kólnað hafi í heiðhvolfinu á sama tíma og hlýnað hefur í veðrahvolfinu en það á einmitt að vera í samræmi við aukin gróðurhúsaáhrif, þ.e. hlýnunin hefur ekki komið utanfrá. Það hefði samt alveg mátt taka þátt sólarinnar fyrir, en til eru vísindamenn sem spá beinlínis minniháttar-ísöld á næstu áratugum vegna minni virkni sólar.
Einnig saknaði ég umfjöllunar um „áratuga-hitasveiflurnar“ í Kyrrahafinu (PDO) og Norður-Atlantshafinu (AMO) en sveiflur í þeim virðast ráða miklu um þróun hitafars og jafnvel ástand Norðurheimskautsíssins. Einnig er lítið fjallað um El Niño og La Niño áhrifin. Þó nokkuð er þó fjallað um „stóra færibandið“ og ýmislegt annað varðandi þátt sjávarins.

Hættuleg framtíð eða hvað?

Ef ekkert róttækt verður gert til að hamla gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum er sagt að mikil hætta steðji að lífsskilyrðum þeirra milljarða manna sem byggja jörðina, bókin styður það sjónarmið og færir vissulega rök fyrir því. En þótt engin „dómsdagsspá“ hafi verið eins vel undirbyggð með vísindalegum rökum eru ekki allir sannfærðir. Kannski eru einhverjir náttúrulegir þættir vanmetnir í öllu dæminu sem gætu virkað á móti þeirri hlýnun sem spáð er. Ég held þó að kenningin um hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa sé þess eðlis að hún þoli talsverð áföll, því jafnvel þótt ekkert hlýni á jörðinni næstu einn eða tvo áratugi þarf kenningin ekki að falla enda er um langtímahlýnun að ræða sem leggst ofan á aðrar hitasveflur af náttúreulegum orsökum. Hinsvegar gæti tímabundin stöðnun á hlýnun eða jafnvel kólnun, hæglega afvegaleitt umræðuna að ósekju og vakið upp ástæðulausan ótta um yfirvofandi ísöld.

- - - - 

Að lokum er hér splunkunýtt línurit frá NASA Goddard Institute for Space Studies (GISS) sem sýnir hitaþróun jarðar frá árinu 1880.

gisstemp_2008_graph


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Þetta er gagnleg kynning hjá þér, Emil, á riti Halldórs sem ég keypti fyrir nokkru. Gott framtak líka hjá Bókmenntafélaginu að gefa það út. Fátt er brýnna en fræða almenning á orsakasamhengi loftslagsbreytinga af mannavöldum, því að það er lykillinn að því að takist að vinda ofan af þeim ófarnaði sem annars bíkður okkar handan við hornið en er reyndar þegar farinn að segja til sín í margvíslegum myndum.

Sá sem þetta ritar vakti athygli á gróðurhúsaáhrifunum og hugsanlegum loftslagsbreytingum af þeirra völdum í bókinni Vistkreppa eða náttúruvernd en hún kom út í ársbyrjun 1974. Línurit sem ég birti þar (bls. 29) eftir sænsku fræðiriti sýndi niðurstöðu mælinga sem hófust 1958 og framlenging þess til aldamótanna 2000 hitti reyndar alveg í mark litið til baka.

Sjálfsagt er að hafa augun opin fyrir öðrum áhrifaþáttum en nú heyrast einungis fáar raddir gegn yfirgnæfandi sammæli á IPCC-vettvanginum um áhrif mannsins í þessum uggvænlegu breytingum.

Hjörleifur Guttormsson, 24.1.2009 kl. 14:11

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst vanta í bókina, eins og í mörgum bókum um sama efni að lesendum, sem væntanlega eru fæstir fróðir um verðufarsmál, sé gert grein fyrir orsakasamhengi,  HVERS VEGNA ákveðin hlýnun veldur svona miklum skaða sem sagt er að verði. Það er kannski sagt að hlýnun um svo og svo margar gráðurvaldi þessum og þessum skaða en lesandann langar að vita hvers vegna sá skaði verður. Þetta er augljóst með hækkun sjávarborðs en alls ekki ýmislegt annað. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.1.2009 kl. 00:53

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já, það hefði sjálfsagt mátt fjalla betur um afleiðingar og ástæðuna fyrir þeim. Á bls 131-132 eru taldar upp nokkrar afleiðingar en þar er m.a. talað um að uppskera geti aukist utan hitabeltisins við hóflega hlýnun. Það er atriði sem ekki er mikið haldið á lofti en er kannski það eina jákvæða sem gæti komið út úr hlýnun og kæmi okkur vel hér á landi. Í sambandi við hækkun sjávar þá held ég að ekki margir átti sig ekki á því að stór hluti hækkunar sjávarborðs á stafar af þenslu vegna hlýnunnar sjávar en ekki bara vegna jökulbráðnunnar og alls ekki vegna bráðnunar hafíss.

Viðvaranir um skaðlegar loftslagsbreytingar voru greinilega komnar fram árið 1974 en fengu þá lítinn hljómgrunn vegna ísaldarumræðu næstu árin en þá hafði lítilega kólnað í heiminum frá 1940. Nú er hinsvegar rækilega búið að vinna upp þá kólnun og gott betur.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.1.2009 kl. 11:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband