Austurvallarmyndir

Ég lagði leið mína niður á Austurvöll um helgina eins og fjölmargir hafa gert undanfarið. Þrátt fyrir að þarna væru áköf ræðuhöld í gangi beindist athyglin mín ýmsar áttir eins og oft vill gerast, ekki síst þegar myndavélin er með í för.
 
Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson, mótmælandi nr.1 og sjálftæðishetja þjóðarinnar stendur ávallt stoltur á stalli sínum. Styttan er gerð af Einari Jónssyni árið 1911 og var upphaflega afhjúpuð við Stjórnarráðið þar sem hún stóð til ársins 1931 en þá var hún flutt á Austurvöll. Þar hafði áður staðið stytta af Bertel Thorvaldsen myndhöggvara.
 Dómkirkjan
 
Dómkirkjan er meðal allra elstu bygginga í Reykjavík en hún var vígð árið 1796. Byggingin hefur verið stækkuð nokkrum sinnum en upphaflega var hún einni hæð lægri en í dag. Turnspíran sem fylgdi teikningunum hefur þó aldrei verið reist. Athyglisvert er að Dómkirkjan stendur ekki alveg hornrétt á Alþingishúsið og Austurvöll.

Alþingishús
Alþingishúsið er hlaðið úr grágrýti sem er sú bergtegund sem höfuðborgin stendur á. Grágrýti er annars einkennandi fyrir það berg er rann sem hraun á hlýskeiðum á milli ísalda og er því allt að 3ja milljóna ára gamalt. Alþingishúsið sjálft er þó ekki svo gamalt en það var reist árið 1881.

Nasahúsið
 
Nasa-húsið er þetta virðulega hús kallað í dag. Þarna hefur mörg skemmtunin farið fram í gegnum tíðina. Einu sinni var húsið kennt við Sigtún og var þar áður kallað Sjálfstæðishúsið – nefnt eftir flokknum sem hýsti þar starfsemi sína. Á Sigtúnsárunum var í húsinu sýndur nektardans í fyrsta sinn á Íslandi, spurning er hvernig fínu frúnum sem ráku Kvennaskólann þarna upphaflega, hefði litist á það.
 Pósthússtræti
Pósthússtræti 9 hefur lengi verið talið stílbrot í húsaröðinni en það var byggt á 6. áratugnum þegar modernisminn var allsráðandi í byggingarstíl. Á seinni árum er það þó farið að njóta meiri virðingar á hjá sumum enda er þetta sígilt dæmi um ákveðið tímabil í byggingarsögunni.
 Mótmælendur
 
Mótmælendur. Austurvöllur hefur löngum verið vettvangur mannfagnaða og mótmæla af ýmsu tagi. Ég veit ekki til þess að mótmælendum hafi áður tekist að hrópa niður ríkisstjórn en vissulega var stjórnin orðin ákaflega veik. Hvað tekur nú við er spurning. Fólk vill helst breyta öllu og margir vilja jafnvel stofna nýtt lýðveldi. Kannski gæti landið bara skipt um kennitölu í leiðinni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Og nú er lag að breyta nafninu á landinu! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.1.2009 kl. 22:27

2 Smámynd: Ár & síð

Krísland?

Ár & síð, 26.1.2009 kl. 23:05

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ætli skuldir landsins falli niður með nafnabreytingu?

Emil Hannes Valgeirsson, 26.1.2009 kl. 23:17

4 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Og Jón gamli Sigurðsson er enn með Palestínska hálsklútinn... :)

Ásgeir Kristinn Lárusson, 26.1.2009 kl. 23:31

5 Smámynd: Hlédís

Góð hugmynd, Emil H. ! Nýtt nafn og kennitala! Skuldir gufa upp ;)

Hlédís, 27.1.2009 kl. 08:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband