3.4.2009 | 22:07
Snjóflóð í Esjunni
Ég tók eftir því í dag þegar ég mundaði sjónauka í átt að Esjunni að talsvert snjóflóð virðist hafa fallið vestur undan Þverfellshorni. Þetta er ekkert aprílgabb eins og ég var með síðast, enda má sjá þetta á myndunum sem fylgja en þær tók ég í dag 3. apríl. Ætli þetta kallist ekki flekaflóð og hefur sjálfsagt fallið einhvertíma í vikunni eftir þó nokkra snjókomu þarna um síðustu helgi, en í hlýindum undanfarið hefur sá snjór horfið að miklu leiti. Breiddin á þessu gæti kannski verið um 300 metrar en annars er erfitt að áætla það.
Það hefði sjálfsagt ekki verið skemmtilegt að lenda í svona snjóflóði þarna en þetta er rétt vestan megin við algengustu gönguleiðina á Esjuna sem liggur einmitt upp Þverfellshornið, þarna við hægri endann á rammanum á myndinni hér að neðan. Þessi staður í Esjunni er þekktur snjóflóðastaður enda hlíðin brött þarna og snjósöfnun oft töluverð. Á þessum stað árið 1979 fórust einmitt tveir ungir göngumenn í snjóflóði sem hugsanlega hefur verið sambærilegt þessu, þannig að það er vissara að fara að öllu með gát þegar Esjugöngur að vetrarlagi eru annarsvegar og um að gera að forðast brattar snjóþungar hlíðar.
Esjan, föstudaginn 3. apríl 2009. Rauði ramminn sýnir sama svæði og efri myndin.
- - - - -
Í næstu færslu er svo ætlunin að gera dálítinn samanburð á snjónum í Esjunni miðað við síðustu ár. Samskonar samanburð gerði ég líka á sama tíma í fyrra, en Esjan er annars í sérstöku öndvegi á þessari síðu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:53 | Facebook
Athugasemdir
Bara svona smá ábending. Leyti og leiti eru hvorutveggja til í íslensku. Leiti er í landslagi, þ.e.a.s. einhverskonar hæð, ás eða hryggur af einhverju tagi, sem takmarkar útsýn í þá áttina. Leyti er hinsvegar óeiginlega merkingin; að mestu leyti, að litlu leyti. Þannig að í texta Emils hefði átt að standa: "......hefur sá snjór horfið að miklu leyti".
Takk fyrir.
Hobbitinn (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 21:16
Sæll
Þetta er ekki ólíklegt því þarna er þekktur snjóflóðastaður. Í fyrra um þetta leiti féll snjóflóð, flekaflóð, austast á þessu svæði innan rammans. Þrír menn lentu í því flóði, hrufluðust en slösuðust ekki alvarlega.
Ég man eftir þessu flóði, 1979, var þá einn af leitarmönnunum. Við fundum drengina í einu af giljunum þarna inni í rammanum, á 2-3m dýpi.
Hundruð manna ganga á Esjuna í viku hverri. Ég er einn þeirra. Í dag er verið að vakta fullt af snjóflóðasvæðum. Ég held það ætti að vakta þetta svæði þarna og reyna að banna fólki að vera að þvælast á þessum stað þegar þannig viðrar og snjóhengjur eru í klettunum.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 4.4.2009 kl. 21:31
Takk firir þessar athugasemdir.
Annars er mesta furða hversu fá óhöpp hafa orðið þarna í og við klettabeltið í Þverfellshorninu miðað við alla þá umferð sem þarna er.
Emil Hannes Valgeirsson, 4.4.2009 kl. 21:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.