17.6.2009 | 07:59
17. júní-veðrið síðustu 20 ár
Nú þarf enginn að velkjast í vafa um það lengur hvernig þjóðhátíðarveðrið hefur verið í Reykjavík undanfarin ár því ég hef sett hér upp einfalt og umfram allt mjög snyrtilegt yfirlit sem sýnir veðrið á 17. júní í Reykjavík frá árinu 1990.
Þetta er allt byggt á eigin skráningum en ég hef skráð niður veðrið í Reykjavík á svipaðan hátt í fjölda ára og gefið hverjum degi einkunn á skalanum 0-8. Lituðu tölurnar fyrir aftan hitastigið tákna kalda, miðlungs og heita daga. Pílurnar sína vindáttir og vindstyrk, þar sem hlykkjótt píla er hægviðri og tvöföld píla strekkingsvindur.
Veðursælasti 17. júní á þessu tímabili var samkvæmt þessu árið 2005, en þá var sólskin, norðanátt og 16 stiga hiti. Árið 2001 var veðrið einnig mjög gott en þó ekki alveg eins hlýtt og var árið 2005. Lakasta veðrið var árið 2003 með suðaustanátt, rigningu og tvo í einkunn. Kaldast var hinsvegar 8 stiga hiti árið 2001 en framan af þeim júnímánuði voru margir slíkir kuldadagar.
Hvernig 17. júní-veðrið verður að þessu sinni á eftir að koma í ljós en ég mun uppfæra myndina í lok dags. Samkvæmt veðurspá eru þó líkur á breytilegu veðri, sem er auðvitað mjög íslenskt og gott veður.
- - - - -
Viðbót kl. 20.30
Nú hef ég fært inn 17. júní-veðrið fyrir árið 2009. Niðurstaðan var nokkuð breytilegt veður eins og búast mátti við. Sem betur fer var þó lítil sem engin úrkoma og sólin skein glatt rétt á meðan aðal hátíðarhöldin voru í miðbænum. Hægviðrið um morgunin hélst ekki út daginn því norðvestan gola kældi mannskapinn síðdegis ásamt þyngra skýjafari. Hitinn var 11-13 stig og skráist hér sem 12 stig að meðaltali. Einkunn dagsins er 5 stig.
Eins og sjá má er þetta alveg samskonar veðurskráning og árið 2007. Þann dag hefur þó væntanlega verið betra veður á landinu í heild því þá var ekki lægð upp við landið eins og nú. Norðvestanáttin 17. júní 2007 hefur því sennilega bara verið góðviðrishafgola hér í Reykjavík.
Meginflokkur: Veður | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:09 | Facebook
Athugasemdir
Það verður eflaust frekar kalt, brrrr...
Annars gleðilega þjóðhátíð!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 17.6.2009 kl. 08:05
Takk fyrir góðan pistil eins og venjulega!
Ágúst H Bjarnason, 17.6.2009 kl. 09:26
Grafíkin klikkar ekki frekar en venjulega hjá þér Emil Hannes. Fínt yfirlit ! Spenntur fyrir nánari útfærslu á einkunargjöfinni hjá þér, þ.e. að skilgreina hvert þrep út frá hita, skýjafari, vindstyrk og úrkomu. Gæti hæglega gengið sem stigi fyrir sumardaga í Reykjavík. Hvað þarf til að dagur fái einkunina 8 og hve ömurlegt þarf veðrið að vera til að falla í flokkinn 0 ??
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 17.6.2009 kl. 17:48
Þessi einkunnargjöf er eins og Einar hefur réttilega giskað á er einmitt fengin útfrá veðurþáttunum fjórum: hita, skýjafari, vindstyrk og úrkomu, þar sem hver veðurþáttur getur fengið 0-2 stig og dagurinn því 0-8 stig í einkunn. Til að dagur fái 0 í einkunn þarf því að vera strekkingsvindur, sólarlaust, rigning og kalt og síðan léttskýjað, hægvirði, þurrt og hlýtt til að fá bestu einkunnina 8. Skilgreining á þrepunum er þó ekki í mjög föstum skorðum en fyrir seinni hluta júní miða ég t.d. hitann við 10-13°C, en vegna þess að ég geri þetta allt árið eru hitaþrepin breytileg eftir árstíma.
En úr því að ég er farin að útskýra þetta á annað borð er best að vísa bara í sýnishorn af veðurbókinni minni, þar sem ég sýni skráningu fyrir janúar. Þessar veðurskráningar eru þó aðallega gerðar mér til gagns og gamans en hafa þó stundum nýst mér í ýmsar veðurbloggfærslur.
sjá hér: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/793046/
Emil Hannes Valgeirsson, 17.6.2009 kl. 21:20
Mér fannst hryssingslegt úti þegar ég fór í bæinn um klukkan hálf fjögur og þá féllu nokkrir dropar í Austurstræti.
Sigurður Þór Guðjónsson, 18.6.2009 kl. 00:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.