Þríhnúkagígur heimsóttur

Þríhnúkagígur6

Fyrir nokkrum dögum lagði ég land undir fót til að skoða sérstakt náttúruundur í nágrenni Reykjavíkur sem nefnist Þríhnúkagígur. Það kannast sjálfsagt ýmsir við þennan gíg sem er skammt frá Bláfjöllum en hann er merkilegastur fyrir hvelfinguna miklu sem undir honum er. Hnúkurinn sjálfur er ekki stór en honum má helst líkja við stút á flösku, en sá sem væri svo óheppinn falla niður um stútinn ætti fyrir höndum 120 metra frjálst fall áður en botninum væri náð. Þríhnúkagígur sést á myndinni hér að ofan á bakvið ávölu bunguna en í lengra í burtu sést til Bláfjalla.

Þríhnúkagígur2 Þegar komið er upp að gígbrúninni sem er í um 550 metra hæð yfir sjó, má sjá útskorið skilti í tré þar sem sýnt er þversnið af hvelfingunni undir gígnum. Þótt 120 metrar séu niður á gígbotninn er hægt að fara niður 80 metra til viðbótar eftir sífellt þrengri leið. Ég lét mér þó nægja að virða fyrir mér ginnungagapið ofanfrá.

Á skiltinu hefur eftirfarandi texti verið ritaður:

Gígurinn myndaðist í litlu gosi stuttu eftir landnám. Gosrásin tæmdist að gosi loknu.

120 metrar eru niður á botn gígketilsins sem um tíma var talinn botnlaus.

Fyrst var sigið í gíginn 1974.

- - - -  

Fyrir nokkrum árum komu fram hugmyndir um að gera Þríhnúkagíg að ferðamannastað með því að gera þarna göng og koma fyrir útsýnispalli inni í hvelfingunni sem yrði upplýst þannig allir gætu virt fyrir sér dýrðina. Ég veit ekki hvernig það mál er statt í dag og ekki veit ég heldur hvernig mér lýst á svoleiðis showbisness.

Þríhnúkagígur3 Hér á næstu mynd er horft niður gíginn sem er ekkert nema kolsvart gapandi tóm. Ég freistaðist til að henda steini ofaní gatið og það leið þónokkur stund áður en ég gat greint óljósan skell djúpt í iðrum jarðar - slík og hvílík er dýptin á þessu fyrirbæri. Auðvitað á þó ekkert að vera að henda grjóti þarna niður í mikli magni því það endar bara með því að gígurinn fyllist af grjóti á meðan hnúkurinn minnkar að sama skapi. Það er þó ekkert sem gerist alveg í bráð enda eru ekki margir á ferðinni á þessum slóðum. Allavega ekki þegar ég var þarna því ég átti heiminn þarna þennan góðviðrisdag.

- - - - -

Gosminjar eins og þessar leiða gjarnan hugann að því hvenær náttúran lætur næst til sína taka á þessum slóðum. Ég hef þó ekki heyrt að nokkuð slíkt sé í undirbúningi þrátt fyrir jarðskjálftavirkni á skaganum að undanförnu. Þótt flest gosin sem þarna verða séu frekar lítil yrðu þau auðvitað miklir atburðir sem geta valdið ýmsum óþægindum enda geta hraun náð í sjó fram víða á skaganum. En þetta er bara eitt að því sem gerir það spennandi að búa á landinu og ekki er verra ef þau skilja eftir sig svona undursamleg ummerki eins og Þríhnúkahellir er.

Þríhnúkagígur7

Þríhnúkagígur sést vel frá Höfuðborginni. Þessi mynd var tekin 20. júní. Aðrar myndir eru frá 6. júní. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Takk fyrir þetta.  Fróðlegt.

Sigríður Sigurðardóttir, 20.6.2009 kl. 14:03

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Gott mál og gott að einhver hefur efni á að fara í svona ferðir. því miður hafa það ekki allir en þakkarvert að þeir sem geta það deila því með okkur. Takk  fyrir þetta.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 20.6.2009 kl. 21:01

3 Smámynd: Loftslag.is

Ég var að þvælast þarna á sama tíma, fékk grjót í hausinn ... nei annars, hef ekki komið þangað, en verð að gera það við tækifæri. Takk fyrir þetta.

Loftslag.is, 20.6.2009 kl. 23:34

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þá má kannski taka það fram að þessi ferð kostaði mig eitthvað um 700 krónur í bensín. Ferðin var þó hverrar krónu virði, nema ef vera skildi framlag mitt til aukinna gróðurhúsaáhrifa. Kannski fékk einhver grjót í hausinn en mér finnst það ólíklegt.

Emil Hannes Valgeirsson, 20.6.2009 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband