Hitamál

Nú þegar árið er hálfnað og veðuruppgjör júnímánaðar liggur fyrir er kominn tími á smá pælingar í sambandi við meðalhita og hvert árshitinn stefnir hér í Reykjavík.

Meðalhiti nýliðins júnímánaðar í Reykjavík var 10,1 stig sem er 1,1 stigi fyrir ofan meðallag eins og kemur fram í yfirliti veðurstofunnar. Meðalhitinn það sem af er þessu ári hefur einnig verið vel fyrir ofan meðallag og með sama áframhaldi ætti meðalhiti ársins að vera um 5,4°C eða rúmri gráðu yfir meðalhitanum hér í Reykjavík, sem er reyndar ekki nema 4,3°C og er þá miðað við árin 1961-1990 eins og venjulega. Þetta er hinsvegar í góðu samræmi við hitann síðustu 10 ár sem hafa verið mjög hlý.

Svo vill reyndar til að núverandi viðmiðunartímabil skarast nokkurn veginn við kalda tímabilið 1965-1995 sem þýðir að meðalhitatölur hér á landi eru nokkuð lágar, sama gildir reyndar líka víðar um heiminn. 30 ára viðmiðunartímabilið þar á undan var hinsvegar frekar hlýtt en langar áratugasveiflur virðast einmitt einkenna hitafar hér á jörð. Þetta þýðir það að viðmiðanir við meðalhita segja í rauninni lítið nema viðmiðunartímabilið sé tekið fram. Það flækir þó kannski rannsóknarvinnu og bókhald að vera sífellt að uppfæra meðalhitatölur á hverju ári og því láta menn sér því sjálfsagt nægja 30 ára meðaltöl sem eru uppfærð á 30 ára fresti.

Það má hugsa sér aðrar leiðir til að finna út meðalhita þó ég sé ekkert endilega að leggja til að þessu 30 ára kerfi verði breytt. En með þessum samanburði sem ég sýni hér að neðan er greinilegt meðalhiti í Reykjavík er mjög mismunandi eftir því hvaða tímabil er haft til viðmiðunnar.

4,3°C   1961-1990  núgildandi viðmiðunartímabil
4,9°C   1931-1960  eldra viðmiðunartímabil
4,6°C   1931-1990  tvö síðustu viðmiðunartímabil
4,9°C   1991-2008  það sem af er næsta viðmiðunartímabili
5,3°C   1999-2008  síðustu 10 ár
5,4°C   2001-2008  það sem af er þessari öld
4,7°C   1931-2008  öll þessi ár

Síðasta talan þarna 4,7°C er endurspeglar kannski raunhæfasta meðalhitann í dag enda inniheldur hún flest viðmiðunarár, ekki síst hin allra síðustu og svo tiltölulega kalt og hlýtt tímabil síðustu aldar. Meðalhitinn það sem af er þessari öld er greinilega mjög hár og spurning hversu langt aftur þarf að fara til að finna annað eins tímabil. Á hlýja tímabilinu á síðustu öld komst meðalhitinn þó í 5,2 stig á átta ára tímabilinu1939-1946.

Og til heiðurs júnímánuði má gera það sama til að bera saman meðalhita hans í Reykjavík:

9,0°C    1961-1990  núgildandi viðmiðunartímabil
9,6°C    1931-1960  eldra viðmiðunartímabil
9,3°C    1931-1990  tvö síðustu viðmiðunartímabil
9,6°C    1991-2009  það sem af er næsta viðmiðunartímabili
10,2°C  2000-2009  síðustu 10 ár
9,4°C    1931-2009  öll þessi ár 

Ath. Þessar tölur er settar fram með fyrirvara um rétta útreikninga sem ég gerði út frá gögnum veðurstofunnar.

Svo er bara að þakka þeim sem nenntu að lesa.

 


mbl.is Hærri hiti og minni úrkoma í júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er erfitt að segja hvaða tölur eru þarna raunhæfastar fyrir meðalhitann núna. Veðurfar er ansi kaflaskipt  og meðalhitinn 1931-1960 og 1961-1990 eru eins og tveir ólíkir heimar. Sá sem hefði upplifað bæði tímabilin myndi hafa fundið mikinn mun alveg eins og við finnum mun á hitanum síðustu ár og hitanum kringum 1980. Veit ekki hvort er raunhæft að slengja saman meðalhitanum 1931-60 og 61-90. Hitarnir á þessari öld eru ansi magnaðir og eiga sér enga hliðstæðu í sögu hitamælinga fyrir svo mörg ár í röð. Það er eiginlega orðin spurning hvort ekki sé orðið raunhæft að nota meðalhita síðustu 10 ára sem viðmið um það hvort uppsveiflan ætlar að halda áfram eða ekki. Það er eiginlega út í hött að miða við árin 1961-1990.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.7.2009 kl. 11:53

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það er kannski ekki aðalmálið hvaða tímabil er valið, því við þekkjum viðmiðin og þróun hitastigsins. En það væri líklega hægt að hugsa sér að tímabilið gæti verið lengra, t.d. 50 ár og að við breytum því á 10 ára fresti, þannig fengjum við nýtt viðmið á 10 ára fresti (núna værum við þannig að miða við meðalhita tímabilsins 1951-2000 og árið 2011 myndi tímabilið breytast í 1961-2010). 

Er annars einhver sem les þetta sem þekkir rökin fyrir því kerfi (tímabili) sem notað er í dag?

Takk fyrir fróðlega færslu.

Sveinn Atli Gunnarsson, 3.7.2009 kl. 12:34

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Mér sýnist meðalhiti áranna 1951-2000 vera um 4,5 stig í Reykjavík sem er þó aðeins skárra en 4,3. Það er annars engin ein tala sem segir í eitt skipti fyrir öll hver meðalhitinn er, spurning er hinsvegar hversu mikið menn vilja vera hræra í meðaltalstölum. Svo er alltaf spurning hversu stór hluti núverandi hlýinda séu komin til að vera. Kemur annað svona bakslag eins og var eftir 1965? Hugsandi

Ég bæti hér við link á veðurstofuna sem sýnir mánaðar- og árshita áranna 1931-2000. (Þeir mættu alveg fara að bæta síðustu árum inní)

http://www.vedur.is/Medaltalstoflur-txt/Reykjavik.txt

Emil Hannes Valgeirsson, 3.7.2009 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband