Grænblár Faxaflói

Faxaflói 9. júlí 2009

Ég hef tekið eftir því undanfarna daga að sjórinn hér úti fyrir borginni hefur verið óvenjulega grænleitur eða grænblár að lit. Sérstaklega finnst mér þetta hafa verið áberandi eftir að hlýna tók hér almennilega í veðri en það hefur vakið grunsemdir mínar um að hér sé um einhverskonar þörungablóma að ræða, þótt ég sé ekkert sérstaklega vel að mér um svoleiðis. Það var svona núna á fimmtudaginn 9. júlí sem ég tók þessa mynd sem hér fylgir en á henni kemur þessi litatónn ágætlega fram, (ef myndin „prentast“ vel).

Grunsemdir mínar um þörungablóma hafa styrkst eftir að tveir miklir veðurbloggarar tóku að birta gervitunglamyndir af landinu. Fyrst var það Einar Sveinbjörnsson sem birti tunglmynd tekna 8. júlí yfir landinu þar sem hann minnist meðal annars á kalkþörunga sem lita sjóinn á Faxaflóa og Breiðafirði. Á þeirri mynd var reyndar skýjahula yfir sunnanverðum Faxaflóa.

modis_10juli2009Svo var það Sigurður Þór Guðjónsson sem birti tunglmynd tekna í góðri heiðríkju í dag föstudaginn 10. júlí, en úr þeirri mynd er þessi bútur sem hér birtist og eins og sjá má er hér allt í grænum sjó.

Svona þörungablómi mun víst vera nokkuð algengur fyrri part sumars í hlýsjónum sunnan og vestanlands, sérstaklega þegar hlýtt og bjart hefur verið í veðri. Nú er ég ekki viss, en kannski er hér á ferðinni kalksvifþörungurinn sem heitir því virðulega nafni Emiliania Huxleyi sem má t.d. lesa um í bók áðurnefnds Einars og Ingibjargar Jónsdóttur, ÍSLAND UTAN ÚR GEIMNUM. Þar kemur fram að þörungar af þeirri tegund binda gríðarlegt magn af kalki um leið og mikill koltvísýringur losnar úr læðingi en það er einmitt gróðurhúsalofttegundin sem mest er í umræðunni. Fyrir utan þau áhrif er þörungurinn talinn skaðlaus með öllu.

En hvað svo sem þetta annars er, þá hefur allavega ekki verið viðeigandi að tala um Sundin blá undanfarna daga. Sundin grænblá er kannski meira við hæfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Hef líka tekið eftir breyttum litabrigðum nú undanfarna daga og hef verið að hugsa um að þörungavöxt sé orsökin

Rauða Ljónið, 11.7.2009 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband