8.10.2009 | 20:07
Veðurfréttatími endurvakinn á Rás1
Fyrir um mánuði síðan kvartaði ég yfir því að ekki væri lengur útvarpað veðurfréttum fyrir kvöldfréttir útvarps eins og var gert hér áður fyrr. Þá var ég að tala um veðurfréttir frá Veðurstofu íslands með veðurlýsingu frá ýmsum stöðum frá því klukkan 18, ásamt upplýsingum um hámarkshita og úrkomu ásamt veðurspá fyrir einstaka spásvæði. Ég er reyndar ekki vanur því að kvarta yfir nokkrum sköpuðum hlut hér á blogginu enda er það ekki tilgangurinn. En viti menn! Nokkrum vikum síðar, eða þann 28. september, gerðist það eftir margra ára hlé, að þessi veðurfréttatími var endurvakinn á Rás1, alla daga klukkan 18.50 á eftir Spegilsþættinum. Að vísu virðist eitthvað á reiki hvort lesa eigi veðurlýsingu frá einstökum stöðum, en núna allra síðustu daga hefur því verið sleppt, kannski vegna tímaskorts en tíminn sem þessum veðurfregnum er úthlutað er mjög knappur. En allavega þá er fengur í því að fá upplýsingar um hámarkshita og úrkomu í Reykjavík og á landinu, auk veðurspárinnar.
Spurningin sem hlýtur að vakna er sú, hvort það sem ég skrifaði um daginn (sjá hér) hafi haft þessi áhrif eða ekki. Kannski var þetta ákveðið fyrir löngu síðan. Freistandi er þó að standa í þeirri trú að Ríkisútvarpið og/eða Veðurstofan hafi séð að sér og snúið frá villu síns vegar eftir að hafa lesið pistilinn minn. Ef svo er ætti maður kannski að gera meira af því að kvarta og kveina til að beina þjóðfélaginu í rétta átt svo allt endi ekki í tómu tjóni. Þess vegna vil ég nefna það hér og nú og leggja það til, að við samþykkjum ICESAVE, hættum að byggja fleiri álver, hættum við að sækja um ESB og notum alltaf stefnuljós á hringtorgum!
Athugasemdir
Þú hefur greinilega verið bænheyrður Emil !
Veðurfregnatímar á Rás 1 eru nú orðið alfarið á forsendum útvarpsins, dagskrárstjórar vildu á sínum tíma losa veðurfregnir frá "besta hlustunartíma" kl. 18:45. Nú hentar þeim ekki vegna lengdrar Víðsjár að hafa veðurfregnir kl. 16:10. En viti menn nú er allt í einu ónotaður tími á eftir Speglinum sem ágætt er að fylla með útsendingu á "einhverju efni" frá Veðurstofunni.
Ef ekki væri fyrir lögbundið öryggishlutverk RÚV væru þeir fyrir löngu búnir að losa sig alfarið við þann dagskrárlið sem veðurfregnir eru.
Sjálfur nota ég veðurfregnir útvarps afar lotubundið, suma mánuðina alls ekkert, en á ferðalögum um landið hins vegar mjög mikið og þá eru þær algjörlega ómissandi.
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 8.10.2009 kl. 20:53
Sæll Emil
Ég lærði það þegar ég tók bílpróf að maður notar stefnuljós á tvo vegu í hringtorgum. Annars vegar til að gefa til kynna að þú ætlir ekki út (gefur stefnuljós til vinstri) og svo til að gefa til kynna að þú ætlir að nota næstu afrein til að fara út og þá gefur þú stefnuljós til hægri. Ég efast reyndar um það í dag að mér hafi verið kenndi fyrri aðferðin því ég sé engan nota hana, akkúrat engan. Kannast þú við hana? Kveðja Linda.
Linda Björk Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 15:46
Ég kannast bara við að nota á stefnuljós þegar farið er út úr hringtorgi þótt það megi líka alveg gefa til kynna að maður ætli að halda áfram. En ef einhver gefur ekki stofnuljós í hringtorgi þýðir það að viðkomandi ætlar að halda áfram inní hingtorginu. Þessu eru margir að klikka á.
Það besta við veðurfregnatímann kl. 18.50 er að þar gefst tækifæri til að gera upp veður dagsins, sem annars er lögð lítil áhersla á í fjölmiðlum. Þótt veðrið sé allt aðgengilegt á netinu, þá er ekki alltaf hægt að nýta sér það, t.d. á ferðalögum. Fyrir utan það eru veðurfréttir hverskonar, vanmetið útvarpsefni.
Emil Hannes Valgeirsson, 9.10.2009 kl. 16:28
Það er eiginlega skandall að Ríkisútvarpið skuli reyna að koma sér undan veðurfregnum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 10.10.2009 kl. 01:02
Svo ætti að byrja á því að lesa uppgjörið svo menn þurfi ekki að bíða eftir því meðan lesin er ógnaralöng veðurspá.
Sigurður Þór Guðjónsson, 10.10.2009 kl. 18:50
Já, uppgjörið skal reka lestina. Síðan virðist ekki eiga að lesa veðurlýsingu fyrir einstaka staði eins og var byrjað á þegar þessi veðurfréttatími var endurvakinn.
Emil Hannes Valgeirsson, 10.10.2009 kl. 19:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.