Plötukynning - Communique með Dire Straits

Það er allur gangur á því hvernig maður kynnist nýjum hljómsveitum. Stundum er maður lengi að taka við sér og sumar hljómsveitir þekkir maður alveg ágætlega hvort sem manni líkar þær vel eða illa. Tilfellið með hina víðfrægu hljómsveit Dire Straits var hinsvegar það að þá hljómsveit uppgötvaði ég, að ég tel sjálfur, upp á mitt eigið einsdæmi en þó án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um hljómsveitina, enda var þetta nokkuð áður en tónlist þeirra tók að hljóma í útvörpum, allavega þannig að ég yrði þess var. Það átti þó eftir að breytast því Dire Straits (eða þröng sund eða kröpp kjör) átti eftir að vera ein af vinsælustu og dáðustu hljómsveitum heimsins á fyrri hluta níunda áratugarins áður en hún datt eiginlega upp fyrir vegna of mikilla og skjótra vinsælda, en kannski ekki síður vegna þess að hún var hún orðin hálfgerð tímaskekkja innan um allt „eighties“ glysrokkið.

CommuniqueEn það sem ég ætlaði að segja var að þegar ég var nýskriðin upp úr fermingu árið 1979, uppgötvaði ég plötu sem stóra systir hafði keypt í útlöndum. Platan hét Communique og var umslagið bláleitt með óræðri mynd af manni á strandgöngu í umslagi, mjög huggulegt. Nafnið á hljómsveitinni Dire Straits sagði mér ekkert og nöfnin á hljómsveitar- meðlimum því síður. Þarna voru tveir sem hétu Knobfler og þeir gátu allt eins verið Hollendingar. Þetta virtist allt vera frekar góðir gæjar, lausir vil prjál og stjörnustæla samkvæmd myndunum af þeim sem fylgdi. En tónlistin sem þarna leyndist að baki var ekki bara hvað sem er. Ég var að vísu ekki mjög veraldarvanur í tónlist á þessum tímum, en fyrir þessari músik féll ég algerlega og því meir sem oftar var hlustað. Þarna var á ferðinni einhver snilld sem ég hafði ekki kynnst áður. Dálítið seiðandi og hægvirkt rokk með svakalega fínu gítarspili og góðum melódíum. Söngvarinn frekar hrjúfur í röddinni og letilegur. Lítið spáði ég þó í textana enda skiptu þeir eiginlega engu máli. Í þessu tilfelli var það tónlistin sem átti orðið – ekki bara gítarleikurinn heldur hljómurinn í hljómsveitinni í heild og takturinn svona almennt séð.

DS_medlimirÓhjákvæmilega átti ég svo eftir að að kynnast þessu fyrirbæri Dire Straits miklu betur. Knobflerarnir tveir voru bræður og var annar þeirra aðalsprauta hljómsveitarinnar og eitt af séníum tónlistarsögunnar. Hinn bróðirinn, ritmagítaleikarinn David (lengst til hægri á myndinni) yfirgaf hljómsveitina áður en næsta plata kom út, til að hefja sólóferill. Síðan hefur ekkert til hans spurst. Platan Communique var önnur plata Dire Straits og kom út skömmu eftir að hið frábæra lag Sultans of Swing af fyrstu plötunni sló loksins í gegn utan Bretlands. Þessar tvær fyrstu Dire Straits plötur eru báðar í miklu uppáhaldi hjá mér enn í dag, en þar sem ég kynntist Communique á undan á ég erfitt með að viðurkenna það sem almennt er álitið að frumburðurinn standi Communique heldur framar. Á næstu plötum Dire Straits var lagt út í metnaðarfullar tilraunir til að stækka lögin og lengja. Vinsældir og hróður hljómsveitarinnar jókst sífellt og náði algeru klímaxi með plötunni Brothers in Arms árið 1985. Þegar þar var komið við sögu fannst mér ég eiga lítið í þessari hljómsveit sjálfur, hún var orðin almannaeign og of vinsæl fyrir minn smekk. Platan Communique er hinsvegar alltaf Dire Straits platan mín. Þar var einhver ómengaður frumkraftur enn til staðar og þetta er enn í dag meðal allra áheyrilegustu hljómplatna sem ég hef kynnst.

Hér má sjá Dire Straits á litlum sjónarpskammertónleikum árið 1979. Lagið er Single-Handed Sailor af Communique sem er nánast óþekkt Dire Straits-lag, en feikna gott engu að síður og með löngu gítarsólói í lokin.

Lagalisti Communique: Framhlið: 1.Once Upon a Time in the West, 2.News, 3.Where Do You Think You're Going?, 4.Communiqué. Bakhlið: 1.Lady Writer, 2.Angel of Mercy, 3.Portobello Belle, 4.Single-Handed Sailor, 5.Follow Me Home. 


Hið forneskjulega Únsíal letur

uncial

Það vestræna letur sem við notum nú á dögum skiptist í HÁSTAFLETUR  og lágstafaletur þar sem meginreglan er sú að nota lágstafina í öllu meginmáli en hástafina í upphafi setninga og í sérnöfnum. Þessa gömlu hefð má rekja aftur til skrifara sem uppi voru á dögum Karlamagnúsar um árið 800 eða jafnvel fyrr. Á dögum Rómverja var einungis notast við hástafaletur enda var þá ekki um neitt lágstafaletur að ræða. Þegar farið var að skrifa upp guðsorð í stórum stíl á fyrstu öldum kristninnar þróaðist þetta hástafaletur í átt til léttari skriftar sem einkenndist af meiri bogalínum en verið hafði áður þannig að fljótlegra varð að skrifa. Þessi þróun varð til þess að lágstafirnir urðu til, menn höfðu þó ekki gleymt hástöfunum sem þóttu hátíðlegri og voru því áfram notaðir í fyrirsagnir og önnur virðulegheit eða bara eins og við notum þá í dag.

Trajan/Omnia

Sú leturgerð sem var allsráðandi í Evrópu á tímabilinu 400-800 hefur verið kölluð Únsíal letur og ber það öll einkenni þess að vera einskonar millistig hástafa og lágstafa. Ólíkt hinu rómverka letri er hringformið þarna áberandi en hugsanlega má rekja það til fornrar gotneskrar skreytilistar sem byggði mjög á bogdregnum línum og fléttum. Til eru nokkrar nútímaútgáfur af Únsíölum (Uncial letters) og ber ein sú dæmigerðasta nafnið Omnia og er það sýnt hér ásamt hinu Rómverska hástafaletri. Sumir bókstafirnir hafa ekki breyst mikið en mesta þróunin hefur orðið á stöfum á borð við A, D, M og H. Annað sem hefur breyst er að sumir stafir teygja sig upp fyrir leturhæðina og aðrir ná niður fyrir og er það einmitt eitt einkenni lágstafana okkar í dag. Þetta letur er eins og aðrir Únsíalar einingis til sem hástafaletur, eða lágstafaletur eftir því hvernig á að skilgreina það.

BookOfKellsÚnsíal letur datt að mestu uppfyrir á 9. öld þegar nútímalegri Karlungaletur komu fram og síðar hin skrautlegu og köntuðu gotnesku letur sem enn má t.d. sjá á mörgum blaðahausum eins og á Morgunblaðinu. Únsíal letur héldu þó lengst velli á Írlandi enda er það einskonar þjóðarletur þeirra og nota Írar það óspart þegar þeir vilja minna á sinn forna menningararf.Irish

Á Írlandi var einmitt Book of Kells skrifuð en hún er talin meðal fegurstu bóka sem ritaðar hafa verið. Myndin hér til vinstri er úr þeirri bók en letrið þar flokkast sem hálf-únsíall sem er afbrigði af þessu letri. Þessi írska útgáfa er líka stundum kölluð eyjaskrift (insular script).

Það er ekki algengt að rekast á únsíal letur á prenti eða í umhverfi okkar í dag. Það er þó athyglisvert að í nútímalegu glerhýsunum við Höfðatorg er veitingastaður sem ber hið forneskjulega nafn Eldhrímnir. Leturgerðin á skiltinu er einmitt hreinræktaður únsíall sem þykir sjálfsagt vel við hæfi.

eldhrimnir


Straumar og stefnur í hafísnum

Að þessu sinni ætla ég að þykjast vita heilmikið um hafsstrauma og hafísa. Ég læt þó bara yfirborðsþekkingu mína duga enda verður hér ekki kafað mjög djúpt, einungis hugað að yfirborðinu. Á veturna er alltaf stutt í hafísinn sem flýtur um á hafinu norðvestur af landinu og af og til minnir hann á sig með nærveru sinni eins og gerðist núna í janúar. Við sem búum hér á mörkum hins byggilega heims eigum nefnilega allt okkar undir því að hlýir vindar og hafstraumar úr suðri haldi kaldari sjónum í skefjum og þar með hafísnum.

Hafstraumarnir sjálfir eru reyndar nokkuð stöðugt fyrirbæri, einskonar brautir í hafinu sem sjórinn streymir um án mikilla tilbrigða. Vindarnir sem blása á yfirborðinu eru hinsvegar öllu óstýrilátari og geta orsakað allskonar afbrigðilegheit í veðri langtímum saman. Hér við land geta vindarnir síðan haft örlagarík áhrif á hafísinn og beint honum frá sinni hefðbundnu leið og í framhaldinu hlaðist upp norður af landinu og komist í straumana sem hringa sig um landið.

Hafsstraumar_NA
Myndin er að grunni til fengin af vefnum Cryosphere Today og sýnir útbreiðslu hafíssins þann 16. febrúar. Ofan á myndina hef ég bætt við pílum sem sýna á nokkuð einfaldaðan hátt hvernig hlýir og kaldir hafstraumar leika um hafsvæðið. Hlýsjórinn úr suðri er ættaður úr Golfstraumnum og sést vel hversu áhrifaríkur þessi suðlægi straumur er til að halda hafinu íslausu allt norður fyrir Svalbarða og lengst inn í Barentshaf. Greinilegt er samt að það er sögulega séð mjög lítið hafísmagn núna á svæðinu almennt og lítil hætta á að meiriháttar hafísár sé í vændum hér á landi.

Ef skoðað er hvernig samspili kaldra og heitra strauma er háttað hér í norðurhöfum, er greinilegt að það er nokkurskonar hægri umferð í gangi. Heiti meginstraumurinn liggur norður með Noregsströndum en kaldi pólstraumurinn úr Norður-íshafinu rennur suður með austurströnd Grænlands. Þar á milli blandast þessir straumar með rangsælis snúningum á opnu hafinu eins og á hringtorgum, einkum milli Íslands og Svalbarða. Hinsvegar er það svo að í kringum eyjar og meðfram landssvæðum virðist það vera reglan að heitu straumarnir fara vestur fyrir og streymi norður með vesturströndum á meðan köldu straumarnir fara austur fyrir.

Á Íslandi er vesturströndin nánast alltaf laus við hafís ef undan er skilinn Vestfjarðakjálkinn. Hafísinn kemur hér helst upp að landinu ef suðvestlægir vindar hrekja hafís úr Austur-Grænlandsstraumnum þannig að hann safnast fyrir norður- eða norðvestur af landinu. Í mestu hafísárunum kemur hann þó gjarnan úr norðri ef ísframboð þaðan er nægilegt. Í framhaldinu getur hann borist með strandstraumnum austur með landinu og jafnvel vestur eftir suðurströndinni í hinum allra verstu árum. Það þarf síðan hálfgert ísaldarástand til að hafísinn nái inn í Faxaflóa. Það gerðist þó árið 1695 og þótti með ólíkindum.

Sambærilegt ástand er við Svalbarða. Hlýr suðlægur straumur heldur hafinu vestur af Svalbarða oftast íslausu jafnvel um hávetur. Köldu straumarnir bera hafísinn upp að austurströndunum og þaðan getur hann borist suður fyrir eyjar og norður eftir vesturströndinni með strandstraumum. Á Grænlandi er það einnig austurströndin sem fær að kenna á hafísnum enda er þar mjög hrjóstrugt. Ísinn nær sífellt lengra til suðurs eftir því sem líður á veturinn en það er ekki fyrr en um vorið sem hann kemst almennilega suður fyrir Hvarf og eitthvað norðureftir vesturströndinni þar sem byggðin á Grænlandi er blómlegust.

Ef jörðin snerist í hina áttina

Straumar og stefnur lofti og sjó ráðast mikið af snúningi jarðar. Það má því velta fyrir sér hvernig ástandið væri hér á Norður-Atlantshafi ef jörðin snerist öfugan hring um sjálfa sig miðað við það sem eðlilegt er. Suðlægu hafstraumarnir myndu þá sennilegas leika um strendur Grænlands þar sem væru barrskógar og blómlegar byggðir á meðan köldu hafstraumarnir norður úr íshafinu kæmu upp að Noregsströndum með þeim afleiðingum að Skandinavía væri hugsanlega hulin jökli og harðneskju - sem reyndar er ekkert ólíkt því ástandi sem verið hefur þar undanfarnar vikur.

Grænland Suðuroddi

Hér er suðuroddi Grænlands í dag fimmtudaginn 18. október. Þarna sést hvernig hafísinn á austurströndinni er rétt farinn að gægjast vestur fyrir hornið. Einnig sést þarna hversu snjólétt er á Vestur-Grænlandi um þessar mundir. Terra/MODIS gervitunglamynd


Heklugos á þessu ári?

Á þessu ári eru 10 ár liðin frá síðasta Heklugosi sem þýðir að það ættu að vera góðar líkur á eldgosi núna í ár miðað við að Hekla hefur gosið nánast á 10 ára fresti frá 1970. Heklugos gera lítil boð á undan sér nema kannski 1-2 klukkutíma fyrir gos en talað hefur verið um að þrýstingur í kvikuhólfinu hafi allavega fyrir ári síðan verið kominn í það sem var skömmu fyrir síðasta gos. En náttúran er ekki alltaf mikið fyrir reglusemi, sérstaklega ekki eldfjöll og því er varla hægt að stóla algerlega á þessa tíu ára reglu. Kannski mun Hekla ekkert gjósa næstu 50 árin og fara aftur í þann takt sem hún hélt lengst af frá landnámi þegar hún gaus einu sinni til tvisvar á öld.

Þessi gos á um 10 ára fresti frá 1970 hljóta að vera óvenju reglubundinn, það var bara árið 1991 sem hún gaus ekki á ártali sem endar á núlli, en frávikið frá þeirri reglu var að vísu bara 17 dagar. Smágos árið 1981 var eiginlega bara smápúst eftir 1980 gosið.

 Heklugos 1991

Heklugos 1991 

Það er alltaf heilmikið fár í kringum Heklugos og þessi síðustu gos eru í rauninni það lítil að þau eru fólki frekar skemmtunar en til tjóns, en til að fá alvöru Heklugos af fullum styrk þarf eldstöðin þó nokkra áratugi til að hlaða sig almennilega. Nema svo ólíklega vilji til að Hekla taki upp á því að hrynja saman með látum ofan í kvikuhólfið og mynda öskju. Það er af sumum talið að hafi gerst fyrir um 4 þúsund árum og í framhaldi af því hafi liðið dágóður tími uns fjallið fór að byggjast upp aftur, enda þurfti mörg eldgos til að fylla upp í öskjuna. Ef þetta er rétt þá hefur Hekla verið mun lítilfjörlegri við landnám en hún er í dag. Við hvert gos hleðst utan á fjallið sem fær sífellt meiri lögun eldkeilu með tímanum. Annars er Hekla stundum talin vera eldhryggur, en samkvæmt því sem Ari Trausti segir í bókinni Íslandseldar þá hefur Hekla verið að þróast í átt til eldkeilu frá því að vera eldhryggur, eins og í árdaga eldstöðvarinnar fyrir um 7 þúsund árum, og þá kannski með millibilsástandi sem askja.

 

Hekla 10 ára gos

Hér á eftir er stutt yfirlit yfir 10 ára gosin í Heklu og ýmist þeim tengd:

1970. Fyrsta áratugagosið í Heklu hófst þann 5. maí með öflugu gosi í Heklugjánni samkvæmt venju og einnig í Skjólkvíum norðan fjallsins. Gosið stóð ekki lengi í fjallinu en hélt áfram í Skjólkvíum í um tvo mánuði og fylgdi því nokkurt hraunrennsli. Þetta gos er því stundum nefnt Skjólkvíagosið og var mjög aðgengilegt til skoðunar. Þetta er líka fyrsta eldgosið á Íslandi sem ég man eitthvað eftir sjálfur, aðallega þó vegna þess að pabbi fór austur á gosstöðvarnar og kom heim með myndarlegan hraunmola sem mér þótti merkilegur.

1980. Það átti enginn von á því að Hekla skyldi taka upp á því að gjósa þetta ár eftir aðeins tíu ára hvíld. Gosið hófst á fallegum sumardegi þann 17. ágúst og náðust myndir af upphafsstigum gossins þegar verið var að kvikmynda hestamannmót á Hellu, (frekar en á Hvolsvelli?). Eins og venjulega varð mikil traffík austur að gosstöðvunum og var ég þar á meðal, þó ég hafi ekki séð gosið nema úr nokkurri fjarlægð í kvöldrökkri. Gosið 1980 fjaraði mjög fljótt út og lauk aðeins fjórum dögum síðar. Talað var um að það gæti tekið sig upp á ný. Það gerðist þó ekki fyrr en í apríl árið eftir, með smávægilegum eldsumbrotum og hraunrennsli í fjallinu sjálfu.

1991. Þann 17. janúar stóð heimurinn á öndinni vegna margboðaðs Persaflóastríðs. Hér á landi stal Hekla þá óvænt senunni með sínu þriðja 10-ára gosi. Þetta var einn fréttaþrungnasti dagurinn á seinni tímum, en sama dag andaðist Ólafur Noregskonungur 87 ára að aldri. Heklugos þetta stóð alveg fram til 17. mars. Það var hefðbundið í fyrstu en var síðan lífseigast í einum gíg í austurhlíð fjallsins. Að þessu sinni fór ég í útsýnisflug yfir gosstöðvarnar og er myndin sem fylgir úr þeirri ferð. Sumarið áður fór ég hinsvegar í mína fyrstu og einu Heklugöngu, allsendis grunlaus um að stutt væri í Heklugos. Það var ekki fyrr en eftir gosið 1991 að menn áttuðu sig á þessari nýju goshegðun farið var að tala um Heklugos á um 10 ára fresti.

2000. Fjórða 10-ára gosið hófst þann 26. febrúar með hefðbundnum krafti í eldhrygg Heklu. Frægast við þetta gos er tilkynningin sem lesin var upp í útvarpi um hálftíma áður en gosið hófst. Þá var liðinn annar hálftími frá því öruggar vísbendingar sáust um yfirvofandi Heklugos. Einu vandræðin sem tengdust þessu gosi urðu þegar forvitnir ferðalangar urðu strandaglópar í Þrengslunum vegna stórhríðar sem skall á síðdegis daginn eftir að gosið hófst. Annars var þetta gos nokkuð svipuð hinum fyrri, eldurinn var einungis upp í fjallinu sjálfu og fjaraði smám saman út á 11 dögum.

- - - -
Að lokum má minnast á að í hinni árlegu og algerlega óábyrgu spá minni frá síðasta hausti, mat ég það svo að 37% líkur væru á því að næsta gos hér á landi yrði í Heklu. Þar á eftir komu Grímsvötn með 20% og Katla með 13%. Sjá: Hvar verður næsta eldgos á íslandi?


Hitinn á jörðinni í janúar

Það hljómaði dálítið sérkennilega þegar fréttir bárust af því að nýliðinn janúarmánuður hafi verið sá heitasti sem mælst hefur á jörðinni, ekki síst vegna óvenjumikilla vetrarkulda beggja vegna Atlantshafsins á sama tíma. Þær upplýsingar sem núna liggja fyrir um meðalhitann í janúar eru fengnar með gervihnattamælingum á hita lofthjúpsins. Það verður svo í seinni hluta mánaðarins sem fréttir munu berast af hita jarðarinnar þar sem stuðst er við hefðbundnar veðurathuganir á jörðu. Væntanlega verður ekki mikill munur á niðurstöðunum en þó er tæplega hægt að lofa fyrirfram hitameti samkvæmt þeim gögnum.

RSS_jan2010

Myndin hér að ofan sýnir hvað var að gerast í hitafari jarðar í janúar samkvæmt gervihnattamælingum frá RSS (Remote Sensing System) og er engu líkara en jörðin sé alveg rauðglóandi á köflum. Annars sýna litirnir frávik frá meðalhita og koma þarna vel fram þær hitafarslegu öfgar sem áttu sér stað janúar. Kalt belti hringar sig nánast um norðurhvelið í gegnum Bandaríkin og Evrópu og áfram til Síberíu þar sem kuldarnir virðast hafa verið mestir. Mesta jákvæða hitafrávikið er við Kanada og Grænland og njótum við góðs að því hér á landi. Mjög hlýtt svæði er einnig í Norður-Afríku og áfram inn í Asíu. Við miðbaug og á suðurhveli eru öfgarnar minni en þó yfirleitt hlýtt. 

Hitafrávik þessa mánaðar frá janúar-meðaltali áranna 1979-1998 mældist +0,64 °C, samkvæmt RSS og hefur ekki mælst meira í janúar frá upphafi gervitunglaathuganna árið 1979. Fyrra metið var frá 1998, sem er eitt heitasta árið sem mælst hefur og gefur þetta því vísbendingar um að árið 2010 geti mögulega orðið enn heitara. Eins og gerðist árið 1998 er það aðallega hinn hlýji El Nino straumur í Kyrrahafi sem er talinn bera ábyrgðina á þessu hitafari, að viðbættri þeirri hægfara undirliggjandi hlýnun sem á sér stað vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Sá El Nino sem nú veður uppi er þó ekki enn talinn eins öflugur og varð árið 1998 en sá hefur stundum hefur verið kallaður Super-El Nino.

Það sem kemur kannski á óvart, er að norðurhvelið hefur lagt meira af mörkunum til þessa óvenjulegu hita á jörðinni, en þrátt fyrir frost og snjókomur í mörgum af fínustu höfuðborgum vesturlanda var hitinn á norðurhveli nefnilega 0,80 °C yfir meðallagi, á meðan hitinn á suðurhveli var „ekki nema“ 0,47°C yfir meðallaginu. Grænlendingum ætti þó ekki að koma þetta á óvart þar sem hitinn hefur sumstaðar verið 4-5 gráðum ofan meðallags og ekki er menn hressir í rigningunni í Vancouver þar sem á að halda vetrarólympíuleika. Við hér í Reykjavík sættum okkur hinsvegar alveg við þær 2,9 gráður sem voru umfram meðalhita áranna 1961-90, nema kannski einstaka skíðamaður. 
- - - - -

Myndin sem fylgir er fenginn af heimasíðu Remote Sensing System: http://www.remss.com/msu/msu_data_monthly.html?channel=tlt
Velja þarf Anomaly á viðeigandi stað til að fá þessa mynd upp.


Af snjóalögum á Setri

Í byrjun vetrar birti ég línurit sem ég hef útbúið og sýnir snjódýpt uppi á hálendinu fyrir sunnan Hofsjökul, nánar tiltekið við Setur þar sem skáli ferðaklúbbsins 4x4 staðsettur. Ég hef fylgst með snjódýptinni þarna í nokkur ár í gegnum eldri vef Veðurstofunnar en upplýsingar af snjódýptarmælinum og öðrum sjálfvirkum veðurathugunum birtast á vefnum.
Setur er í 693 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar er hvít jörð allan veturinn og snjódýptin oft vel á annan metra. Veturinn að þessu sinni hefur hinsvegar vegar nokkuð sérstakur og í samræmi við tíðarfarið hér á landi hefur snjódýptin á Setri ekki verið nema svipur hjá sjón, þrátt fyrir bratta byrjun í haust. Lengst af hafa hlýir og rakir vindar ráðið ríkjum eða að komið hafa talsverðir frostakaflar sem ekki hafa skilað af sér neinni úrkomu sunnan jökla. Af þessum sökum hefur snjódýptin rétt náð yfir 20 cm núna í janúar, en ekki 70-130 cm eins og venjan hefur verið síðustu ár.


Snjódýpt SETUR jan 2010

En viti menn. Núna um mánaðarmótin þegar ég gerði mína hálfsmánaðarlegu uppfærslu á línuritinu tók ég eftir því að snjódýptin hafði rokið upp úr öllu valdi að kvöldi hins 30. janúar og var skyndilega komin í 110 cm. Úrkomumælirinn sýndi 25 mm úrkomu og virðist þetta hafa fallið bara á nokkrum mínútum. Hinsvegar var veðrið þennan dag mjög gott um allt land og ekkert tilefni til svona skyndilegs fannfergis. Það sem skyggði þó á annars ágætis helgi var hið hörmulega slys áLangjökli en atburðirnir þar tengjast reyndar að hluta snjóleysinu áhálendinu.

Setur_30janSnjódýptarmælirinn, sem er staðsettur nokkuð frá Skálanum sjálfum, hefur að vísu átt það til að bila eða tekið upp hjá sjálfum sér að sýna skyndilega mjög hátt gildi og haldast þannig langtímum saman og kemur eitthvað slíkt alveg til greina. Hinsvegar finnst mér sérstakt ef þetta er bilun að á sama tíma hafi úrkomumælirinn rokið upp. Skyndilegur skafrenningur kemur þó varla til greina því vindmælirinn sýnir ekkert óvenjulegt. Semsagt, þessi 90 cm aukna snjódýpt á Setri er eitthvað sem ég á erfitt með að samþykkja.

Hitt er svo annað mál að samkvæmt heimasíðu ferðaklúbbsins 4x4 var hið árlega þorrablót félagsins haldið einmitt um þessa helgi og allt gott um það að segja, sennilega var það hið eina sem raskaði ró hálendisins þarna á þessum annars fáförnu slóðum. Hvort sú samkoma hafi haft einhver áhrif á snjómælinguna þarna, veit ég hinsvegar ekkert um.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband