Jafn kalt á Íslandi og á norðurpólnum?

Sumarið er komið á Íslandi samkvæmt almanakinu þótt sumarhitar bíði betri tíma og einhver bið sé á því að grundirnar fari að gróa. En þótt kalt sé á Íslandi þarf það ekki að þýða að kalt sé allstaðar samanber kortið sem hér fylgir og sýnir hita á norðurhveli í tveggja metra hæð kl. 12 (GMT) á föstudag. Á kortið hef ég sett inn rauðan punkt við norðurpóllinn og er ekki annað að sjá en hitinn þar sé nokkuð svipaður og á Íslandi, eða nálægt frostmarki miðað við hvar frostmarkslínan liggur. Að vísu má ekki tæpara standa þarna norðurfrá því stutt er í 30 stiga heimskautagaddinn sem hækkandi sólin hefur ekki enn náð að vinna bug á.

Wetter NH 25. apríl
Ég geri ráð fyrir að hiti upp undir frostmark á sjálfum norðurpólnum sé ekki beint venjan í apríl en auðvitað fer hitastig hverju sinni ekki bara eftir breiddargráðum. Kannski er hægt að tala um hitabylgju þarna á norðurpólnum enda streymir þangað hlýtt loft sunnan úr Atlantshafi. Til mótvægis gerir kalda loftið gagnárásir til suðurs, meðal annars til Íslands og veldur einhverskonar kuldakasti hér, sem þó gæti verið mun verra ef hafísinn væri ekki víðsfjarri - ólíkt því sem gjarnan gerðist í gamla daga.

Auðvitað er það mikil klisja að segja að sumarið verði gott ef sumar og vetur frjósa saman eins og víðast gerðist hér að þessu sinni. Veðurfræðingar gera fæstir mikið úr þessari bábilju og segja helst sem minnst um komandi sumar. Á einhverjum tímapunkti  þarf þó sumarið að byrja ef menn vilja halda upp á formlega árstíðaskiptingu. Það að hinn fyrsti Íslenski sumardagur sé í raun tímasettur snemma að vorlagi er til marks um að hér á landi voru lengst af bara tvær árstíðir: vetur og sumar. Aftur á móti er haustið og vorið bara seinni tíma innflutt hugtök eins og hver annar ósiður sem tekinn er upp frá útlöndum.

 


mbl.is Vetur og sumar frusu saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að flokka flokka

Stjórnmálaflokkar eiga sér hugmyndafræðilegan bakgrunn og beita sér fyrir framgangi þeirra mála á þann hátt sem fellur best að þeirra heimsmynd og skoðunum. Oft er talað um hið pólitíska litróf sem línulegt samband sem nær frá hinu rauða vinstri til hins bláa hægri með viðkomu í grænni miðju. En auðvitað er þetta flóknara er svo, eins og hefur sýnt í íslenskri pólitík. Á dögunum gekk á netinu spurningalisti á vegum Áttavitans sem staðsetti þátttakendur og stjórnmálaflokka í tveggja ása hnitakerfi. Þannig var lárétti ásinn látinn tákna hið dæmigerðu vinstri / hægri eða réttara sagt Félagshyggju / Markaðshyggju á meðan lóðrétti ásinn táknaði Frjálslyndi / Forsjárhyggju.

áttaviti hnitakerfiÞetta má sjá á meðfylgjandi mynd en þar lenda hægri flokkar hægra megin en vinstri flokkar vinstra megin. Besti flokkurinn er akkúrat á miðjunni og hinir anarkísku Píratar lenda efstir í frjálslyndinu samkvæmt þessu. Vinstri grænir og aðrir félagshyggjuflokkar eru víðs fjarri Sjálfstæðisflokknum og Hægri grænum en Samfylking er ekki fjarri Framsókn rétt neðan við miðju. Þetta er sjálfsagt ágæt skipting þótt deila megi um hvort Forsjárhyggja sé ekki full gildishlaðið orð á neikvæða vísu miðað við Frjálslyndið. Látum það liggja á milli hluta.

 

En dugar þessi mynd til að endurspegla hinn íslenska pólitíska veruleika? Fyrir þremur árum gerði ég tilraun til að flokka flokka á svipaðan hátt og teiknaði upp myndina hér að neðan. Þarna má einnig sjá tvo ása en munurinn er sá að í stað hins lóðrétta Frjálslyndis/Forsjárhyggju-áss er ég með lóðréttan ás sem gengur út á Alþjóðahyggju gagnvart Þjóðernishyggju (sem sumir vildu kannski frekar kalla Þjóðfrelsishyggju vegna neikvæðra skírskotana). Myndina kallaði ég Fimmflokkakerfið og dægurflugur og er hún tilraun til flokkamyndunar út frá þessum skilgreiningum en sýnir þó ekki endilega flokkakerfið eins og það er í raun.

Fimmflokkakerfið

Þarna má sjá tvo vinstri flokka Samfylkingu og Vinstri Græna en það sem aðgreinir þá er misjöfn afstaða til að tengjast stærri ríkjabandalögum sem er mjög stórt mál í dag. Í Ríkisstjórninni sem þessir flokkar mynduðu þurfti annar að gefa eftir í Evrópumálum að hluta, með slæmum afleiðingum fyrir flokkinn og fylgið. Hægra megin við miðju hefur Sjálfstæðisflokkurinn löngum verið allsráðandi. Sá flokkur hefur komið sér fyrir neðan miðju, gegn alþjóðahyggjunni en á í vissum vandræðum því hluti flokksmanna er á öndverðri skoðun. Þess vegna ættu í raun að vera þarna tveir hægri flokkar eins og ég sýni þarna og kalla Sjálfstæðisflokk 1 og 2. Framsóknarflokkurinn er merkilegt og misgagnlegt fyrirbæri í Íslenskri pólitík. Hann er á miðjunni en getur þanist út eða minnkað, stokkið til allra hliða og tengst hverjum sem er, enda aldrei langt að fara.

Allskonar önnur framboð koma fram fyrir hverjar kosningar. Sum þeirra eru ekkert nema dægurflugur sem slá í gegn tímabundið en mörg þeirra eiga aldrei neina von. Ég kalla hér allt slíkt Fluguframboð en í kosningunum nú er eiginlega um heilt flugnager að ræða. Þessi flokkar geta verið gagnlegir til að leggja áherslu á ákveðin málefni en raska ekki mikið fjórflokkakerfinu til lengri tíma.

Hvað kemur upp úr kössunum um næstu helgi á eftir að koma í ljós en möguleikar flokka til að vinna saman er ýmsum annmörkum háð því til þess þarf að gefa eftir hluta af sínum grunnsjónarmiðum. Tengingar milli flokka geta þó verið á ýmsa vegu. Þar snúast hlutirnir ekki bara um hægri og vinstri pólitík. Kannski mun baráttan að þessu sinni snúast um að tengjast miðjunni sem er fyrirferðamikil um þessar mundir.

 


Snjóleysi á Vestur-Grænlandi

Við skulum byrja á því að líta á gervihnattamynd sem var tekin í dag - eins og stundum er sagt í veðurfréttunum. Ísland er í horninu niðri til hægri en svo er Grænland þarna í öllu sínu veldi. Það hefur vakið athygli mína í öllum vetrarharðindunum sem ríkt hafa beggja vegna Atlantshafsins að á austurströnd Grænlands er sáralítinn snjó að finna þar til komið er sjálfri jökulröndinni. Þetta á sérstaklega við um svæðið innan hringsins sem ég hef dregið upp en þar er jökulröndin afar skýrt mörkuð. Svæðið er norðan heimskautsbaugs suður af Diskoflóa og ætti að mínu viti að vera á kafi í snjó nú undir lok vetrar. En er þetta eðlilegt?

Grænland 13. apríl

Þessi vetur sem senn er á enda hefur verið óvenjulegur að mörgu leyti. Vetrarhörkur hafa verið talsverðar í Norður-Evrópu og víða í Bandaríkjunum. Hér á landi hefur snjónum verið mjög misskipt á milli landshluta. Á suðvesturlandi hefur verið mjög snjólétt en á norður- og austurlandi hefur meira og minna verið hvítt í allan vetur, ef undan er skilinn hlýindakaflinn í febrúar. Austanáttir hafa lengst af verið ríkjandi hér á landi í vetur en suðvestanáttin algerlega heillum horfinn og þar með einnig éljagangurinn hér á suðvesturhorninu.

Á Grænlandi er sjálfsagt eitthvað óvenjulegt á ferðinni líka. Allavega hefur verið hlýtt þar á vesturströndinni og miðað við þessa loftmynd hefur einnig verið þurrt því varla eru það rigningar sem valda snjóleysi svona norðarlega til fjalla á Grænlandi. Væntanlega mun þetta snjóleysi hafa sín áhrif á jöklabúskap þessa mikla jökulhvels því gera má ráð fyrir að lítið hafi safnast fyrir þarna vestanmegin í vetur, hvað sem segja má um ástandið okkar megin.

Í heiðríkjunni vestan Grænlands sést að hafísinn heldur sig fjarri Grænlandsströndum vestanverðum en þar er reyndar ekki mikinn ís að finna alla jafna. Það sést hinsvegar grilla í Austur-Grænlandsísinn fyrir norðan Ísland sem heldur sig sem betur fer fjarri okkar ströndum. Ísinn er þó kominn suður fyrir Hvarf þarna allra syðst á Grænlandi þaðan sem hann er farinn að berast með straumum vestur- og norður fyrir eins og lög gera ráð fyrir.

Best að enda þetta á hitafarsmynd frá NASA þar sem sést hvar hitar og kuldar héldu sig um miðjan mars síðastliðinn á norðurhveli. Já það er ekki um að villast hvar hlýindin voru á þeim tíma og líklega má segja að þetta sé nokkuð dæmigert fyrir veturinn.

Hiti NASA mars 2013

Myndin er fengin frá NASA Earth Observatory á slóðinni: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=80804. Þar má líka lesa um ástæður þessara óvenjulegheita.

Efri myndin er einnig frá NASA: http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic

 


Örlagafrúin Thatcher

Margaret Thatcher var mjög ákveðin kona. Á síðustu mánuðum valdatíma hennar árið 1990, þegar Írakar réðust inn í Kúwait, vissi þáverandi Bandaríkjaforseti, Georg Bush eldri, ekki alveg hvernig ætti að bregðast við, fyrr en hann hitti járnfrúna Margaret Thatcher. Eftir það voru miklar hernaðaraðgerðir skipulagðar og Írakar hraktir á brott í Persaflóastríðinu sem hófst í janúar 1991. Í framhaldinu voru Írakar lagðar í einelti af Alþjóðasamfélaginu, sett á þá alþjóðlegt viðskiptabann auk ýmissa annarra þvingana. Umsátrinu lauk með innrásinni í Írak árið 2003 undir forystu Bandaríkjaforseta Georg Bush yngri.
En Thatcher var líka mikill örlagavaldur í íslenskri pólitík því eftir að hún lét af embætti, heimsótti hana nýráðinn formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddson, sem meðtók frá henni þann boðskap að Íslendingar ættu ekkert erindi í Evrópusambandið. Síðan hefur það verið stefna Sjálfstæðisflokksins að Íslandi gangi ekki í Evrópusambandið og ekki vel séð að imprað sé á slíku.

Þannig man ég þetta allavega.


Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Esjan skipar heiðursess á þessari bloggsíðu eins og glögglega má sjá á toppmyndinni. Þetta á ekki síst við í byrjun apríl þegar kemur að því að bera saman snjóalög í Esjunni milli ára með myndum sem teknar eru frá bensínstöðinni Klöpp við Sæbraut. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og með myndinni í ár eru þær orðnar átta talsins. Með hverri mynd læt ég fylgja hvenær Esjan varð alveg snjólaus frá Reykjavík séð. Spurningin er hvað verður upp á teningnum í ár. Er vorið komið? - eða farið? Nánar hér neðan mynda:

Esja april 2013

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006
Snjóalög í Esjunni nú undir lok vetrar eru heldur minni en á sama tíma í fyrra, allavega miðað við þann góðvirðisdag sem mynd þessa árs var tekin en síðan þá hefur kólnað á ný og dálítið snjóað til fjalla. Minnstur var snjórinn árið 2010 og hvarf hann allur það ár um miðjan júlí, sem er mjög snemmt. Grunnurinn að núverandi snjósköflum er sennilega það sem lifði af hlýindakaflann mikla í febrúar en fyrri hluta vetrar hafði talsverð snjósöfnun verið í fjallinu. Spáð er kólnandi veðri næstu daga og bakslagi á þeirri vorblíðu sem hér var fyrstu dagana í apríl. Þó hlýtur að teljast líklegt miðað við fyrri ár að Esjan nái að hreinsa af sér allan snjó fyrir næsta haust en á þessari öld hefur það gerst á hverju ári, nema að sennilega vantaði herslumuninn árið 2011.

Eins og kemur fram þá skrái ég Esjuna snjólausa 18. september árið 2012 - í fyrra. Þá vildi reyndar svo til að síðasti skaflinn til að hverfa var ekki í Gunnlaugsskarði eins og venjan er. Sá skafl hvarf 4. september en litli lífseigi skaflinn vestur undir Kerhólakambi lifði hinsvegar til 18. september. Til að flækja málin þá snjóaði í Esjuna 10. september í fyrra en sá snjór hvarf aftur þann 21. september samkvæmt því sem ég hef punktað hjá mér. Ég læt þó dagsetninguna 18. september standa sem daginn sem snjór fyrri vetrar hvarf.

- - - - -

Til upprifjunar þá bendi ég á eldri bloggfærslu um skaflaleiðangur á Esjuna þann 9. ágúst í fyrra. http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1253901/

Einnig nota ég tækifærið til að minna á myndaseríu mína Reykjavík alla daga ársins sem tekin var árið 2011 en það var einmitt árið sem Esjunni tókst ekki alveg að verða snjólaus eftir hryssingslegt vor en þó ágætis sumar. http://www.365reykjavik.is


Vetrarhitasúlur

Nú, þegar aðal vetrarmánuðirnir eru að baki, er komið að súluritinu sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík frá nóvember til mars nú í vetur. Tölurnar sem þarna liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum en hver súla á að sýna dæmigerðan hita dagsins en sá dæmigerði hiti liggur einhversstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir. Nánari útlistun á vetrarhitafarinu, sem hefur verið óvenjulegt á sinn hátt að venju, er undir myndinni.

Vetrarsúlur 2012-13
Eins og sést á myndinni þá hefur hitafar vetrarins verið dálítið öfugsnúið og lítið fylgt meðalhita hvers mánaðar. Jafnvel má segja að það hafi meira og minna farið hlýnandi í vetur þangað til kuldakastið skall á snemma í mars. Allavega þá var febrúar hlýjasti vetrarmánuðurinn og sá hlýjasti í Reykjavík síðan 1965 samkvæmt opinberum gögnum. Janúar var líka mjög hlýr og samanlagt eru þetta næst hlýjustu tveir fyrstu mánuðir ársins í borginni en aðeins jan-feb 1964 voru hlýrri. Hinsvegar voru þetta hlýjustu tveir fyrstu mánuðirnir í Stykkishólmi.
Aðrir mánuðir eru eðlilegri í hita. Marsmánuður gerði sig lengi líklegan til að verða almennilega kaldur en kuldinn mátti sín lítils á daginn eftir því sem sólin fór að hækka á lofti en það er ekki síst dægursveiflan sem skýrir þessar háu rauðu súlur seinni hluta marsmánaðar.
Ég er með tvo daga sem ég skrái sem 9 stig sem er alveg ágætt. Eitthvað var talað um að hitamet hafi verið slegið fyrir janúar í Reykjavík þann 4. þegar hitinn náði mest 10,7 stigum. Frosthörkurnar hafa hinsvegar ekki verið neitt sérstakar en yfirleitt má búast við að allra köldustu vetrardagarnir séu nær 10 stigum í borginni. Kaldasti dagurinn er 5. mars eftir að hitastigið hafði verið í frjálsu falli. Daginn þar á eftir kom hríðarveðrið með ófærðinni og svo öskufokið með hinni óvenju þrálátu austanátt sem meira og minna hefur ríkt í allan vetur.

Eins og með önnur sambærileg veðurgröf þá fer vetrarhitasúluritið í myndaalbúmið Veðurgrafík sem er hérna til hliðar. Ýmislegt skrautlegt er það að finna. Í lokin er svo Esjutoppsmynd þar sem horft er til Reykjavíkur á köldum degi þann 17. mars. Væntanlega verður horft frá hinni áttinni í næstu bloggfærslu um næstu helgi.

Á Esju 17. mars 2013


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband