Heiðmerkureldar

Vegna umræðu um hugsanlegt sprungugos nálægt Höfuðborgarsvæðinu tók ég mig til og teiknaði kort sem sýnir hvað gæti hugsanlega gerst ef 10 km löng gossprunga opnaðist í næsta nágrenni við byggðina. Gossprunga þessi er í beinu framhaldi af gossprungum í Krísuvíkurkerfinu, með sömu stefnu og nær frá Helgafelli ofan Hafnarfjarðar og þaðan yfir Heiðmörk og endar rétt ofan við Elliðavatn. Líkurnar á akkúrat svona stóratburði eru ekki miklar enda er 10 km gossprunga ansi löng. Ef gos verður á annað borð í Krísuvíkurkerfinu er líklegra að það verði nær miðju eldstöðvakerfisins og næði ekki svona langt í norðaustur. Gos og hraunrennsli tengt Krísuvíkurkerfinu gæti því allt eins runnið að megninu til suður með sjó. Gossprungan gæti líka opnast í nokkrum aðskildum umbrotum svipað og gerðist í Kröflueldum og einnig gæti eldvirknin fljótlega safnast á einn stað á sprungunni eins og reyndar gerist gjarnan. En það sem ég hef teiknað hér upp er aðeins möguleiki. Kannski hinn versti og fjarlægasti.

Kortið er unnið af kortavefnum á ja.is. Hraunið teiknaði ég inn með því að fara eftir hæðarlínum eins og ég best gat séð út úr kortinu. Ég vil hafa alla fyrirvara á þessu og vona að ég sé ekki að skapa óþarfa hræðslu eða koma einhverjum í uppnám. Það má stækka kortið talsvert með nokkrum ásmellingum.

Heiðmerkureldar

Heiðmerkureldar gæti þetta gos kallast. Með þessari staðsetningu á gossprungu og eins og ég teikna hana eru ýmis borgarhverfi í hættu svo sem Vallarhverfið í Hafnarfirði og sjálft Álverið. Ein hrauntungan rennur inn í miðbæ Hafnarfjarðar og út í höfnina. Breiðari straumur liggur milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar og í sjó fram við Gálgahraun eftir viðkomu í IKEA. Nyrsti hraunstraumurinn (og kannski sá ólíklegasti) rennur í Elliðavatn og fyllir það, en síðan liggur leiðin niður Elliðaárdal og út í Elliðavoginn. Með þessum hamförum eru allar leiðir út úr borginni vestan Elliðaáa í hættu og nokkur hverfi einangrast. Það myndi þó varla gerast strax í upphafi þannig að fólk ætti að hafa ágætan tíma til að forða sér. Fjöldarýming Höfuðborgarsvæðiains ætti að vera óþörf en verra er þó auðvitað með ýmsar veitustofnanir svo sem vatn og rafmagn. Fólk þarf þó ekki að óttast öskufall í svona gosi því þetta er fyrst og fremst hraungos - og allnokkuð ólíklegt. 


Íslensku Eurovisionlögin samkvæmt mínum smekk

Í minni bloggtíð hef ég alltaf skrifað eitthvað um Eurovision þegar keppnin stendur sem hæst. Að þessu sinni hef ég tekið saman lista yfir öll íslensku framlögin frá upphafi og raðað þeim í sæti eftir því hvernig mér sjálfum líkar þau. Vegna þess að ég tel mig hafa alveg einstaklega þroskaðan og góðan tónlistarsmekk þá vil ég meina að þetta sé hina eina sanna gæðaröðun á íslensku lögunum. Meðalsmekkur þeirra sem fylgjast með Eurovision fer reyndar ekki alveg saman við minn smekk og því er ekki mjög mikið samræmi á milli þess sem mér finnst og árangurs laganna í lokakeppninni. Uppáhaldslögin eru nefnd fyrst og svo koll af kolli niður í 25. sæti. Ég læt fylgja hvar lögin enduðu í keppninni og nefni einnig flytjendur og þátttökuár (ath. lagaheitin eru ekki endilega alltaf rétt).
  1. Sókrates - Stebbi og Sverrir Stormsker - 1989 - 16. sæti
  2. Nína - Stebbi og Eyfi - 1991 - 15. sæti
  3. Tell me - Einar Ágúst og Telma - 2000 - 12. sæti
  4. Coming home - Vinir Sjonna - 2011 - 20. sæti
  5. Eitt lag enn - Sigga og Grétar - 1990 - 4. sæti
  6. All out of luck - Selma - 1999 - 2. sæti
  7. Is it true - Jóhanna Guðrún - 2010 - 2. sæti
  8. Open your heart - Birgitta - 2003 - 9. sæti
  9. Þá veistu svarið - Ingibjörg Stefáns - 1993 - 13. sæti
  10. Sjúbídú - Anna Mjöll - 1996 - 13. sæti
  11. Hægt og hljótt - Halla Margrét - 1987 - 16. sæti
  12. Mundu eftir mér - Gréta og Jónsi - 2012 - ?? sæti
  13. Gleðibankinn - ICY-hópurinn - 1986 - 16. sæti
  14. If I had your Love - Selma - 2005 - 16. sæti í undanúrslitum
  15. Nei eða já - Sigga og Sigrún - 7. sæti
  16. Minn hinsti dans - Páll Óskar - 1997 - 20. sæti
  17. Valentine lost - Eiki Hauks - 2007 - 13. sæti í undanúrslitum
  18. Núna - Bjöggi - 1995 - 15. sæti
  19. Nætur - Sigga Beinteins - 1994 - 12. sæti
  20. Það sem enginn sér - Daníel Ágúst - 1989 - 22. sæti
  21. Til hamingju Ísland - Silvia Nótt - 2006 - 13. sæti í undanúrslitum
  22. Heaven - Jónsi - 2004 - 19. sæti
  23. Angel - Two Tricky - 2001 - 22. sæti
  24. Je ne sais quoi - Hera - 2009 - 19. sæti
  25. This is my live - Eurobandið - 2010 - 14. sæti

Það er reyndar ekki auðvelt að gera nákvæmlega upp á milli einstakra laga. Röð efstu þriggja lagana vafðist til dæmis dálítið fyrir mér, en það eru alþekkt gæðalög sem ég setti í fyrstu tvö sætin. Í þriðja sæti er lagið Tell me sem er heyrist ekki mjög oft og er sjaldan nefnt. Á myndbandi með laginu sem hér fylgir sést að það hefur ekki verið lagt svo ýkja mikið í sviðsframkomuna og atriðið gæti allt eins verið úr söngvakeppni framhaldsskólanna. Það breytir því þó ekki að þetta er eitt af því besta sem við höfum sent í keppnina - að mínu áliti. Lagið í ár, Mundu eftir mér, hef ég í 12. sæti en spurning er hvar það endar. Það virðist þó vera að gera það gott og gæti hæglega náð mjög langt þótt ég sé ekki mesti aðdáandinn. En hér koma Einar Ágúst og Telma (með finnskum undirtexta):



Ummæli af YouTube:
Best song ever on eurovision!!! :)
Finally I found it!!! :))))))
Thnx for video :)

MaryGreenPeace‬ fyrir 4 árum

 


Eru menn alveg vissir þarna á Siglufirði?

Ég get alveg tekið undir að það hefur margt breyst til batnaðar fyrir ferðamenn á Siglufirði á síðustu árum. Síldarminjasafnið er frábært og einnig svæðið við höfnina þar sem komin eru veitingahús í nýuppgerðum húsum og skemmtilegu umhverfi. Ef eitthvað er þá fannst mér veitingahúsin samt í aðeins of skærum litum. En það er líka mjög skemmtilegt útsýnið frá bryggjunni við kaffihúsin og út að Síldarminjasafninu sem reyndar er í nokkrum reisulegum og upprunalegum húsum frá síldartímanum. Ég er því miður ekki nógu kunnugur þarna til að kalla húsin og bryggjurnar sínum réttu nöfnum, enda bara Reykvíkingur sem á lítið erindi út á land nema sem ferðamaður. Hin mikla síldarsaga Siglufjarðar er mér samt sæmilega kunn.

Hótel Sunna

Nú er það stundum þannig að þegar eitthvað hefur heppnast vel þá kunna menn sér ekki alltaf læti og það er einmitt það sem ég óttast með þetta nýja hótel, Hótel Sunnu, sem á að reisa þarna við höfnina á besta stað í bænum.

Á myndina hér að neðan hef ég sett inn fyrirhugað hótel. Með þessari staðsetningu er greinilegt að öll sjónræn tengsl slitna á milli bryggjusvæðisins, þar sem kaffishúsin eru og Síldarminjasafnanna. Útlit hótelsins er í gömlum timburhúsastíl, sem er ekki slæmt í sjálfu sér, en það er samt eitthvað óekta við það og því alveg spurning hvort sé við hæfi að byggja svona umfangsmikið og áberandi gervigamalt hús á þessum stað sem tekur til sín alla athygli og skyggir á það sem er ekta gamalt og á sér sögu. En það er einmitt Síldarsagan sem gerir Siglufjörð að því sem hann er.

Siglufjörður loftmynd

Loftmynd af svæðinu þar sem ég hef teiknað inn Hótelið. Myndin er af Ja.is og er ekki alveg ný.

Nú veit ég ekkert hvort nokkur umræða hefur farið fram á Siglufirði um þessi atriði sem ég nefni. Sjálfsagt er mikill spenningur í bænum fyrir þessum framkvæmdum og kannski sér enginn nokkuð athugavert við þær. Hótel sem tengist hafnarsvæðinu er góð hugmynd og á sjálfsagt eftir að verða vinsælt. En mér finnst samt eitthvað vanhugsað við þetta. Hvað með Norðurtangann sem er þarna aðeins sunnar? Má ekki reisa hótelið þar? Norðurtanginn sést neðst á myndinni hér að neðan en ég setti hring utanum svæðið sem ég tala um hér að ofan.

Siglufjörður loftmynd2


mbl.is 1,2 milljarða fjárfesting á Siglufirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk fjöll á Grænlandi

SermitsiaqJarðsaga Grænlands er ákaflega löng og slagar hátt í sögu jarðarinnar. Elsta bergið sem fundist hefur á Grænlandi er fornt sjávarberg nálægt Nuuk, um 3,8 milljarða ára gamalt en til samanburðar er Jörðin talin um 4,5 milljarða ára og heimurinn allur eitthvað nálægt 15 milljörðum. Grænland hefur þó yfirleitt ekki verið til sem slíkt fyrr en bara tiltölulega nýlega eftir að Atlantshafið opnaðist. Fram að því, eða á myndunartíma þess, gat það verið í tvennu lagi eða hluti af stærri meginlöndum á eilífu flakki um jörðina og oftar en ekki á Suðurhveli. Fjöllin eru líka misgömul, gjarnan massífir berghleifar t.d. úr gabbró þ.e. fyrrum sjávarset sem umbreyst hefur í djúpberg sem síðar átti eftir að þrýstast upp í fellingafjöll við árekstra meginlandsfleka. Þannig eiga Grænlensku fjöllin mun meira sameiginlegt með Norsku fjöllunum og raunar flestum öðrum fjallgörðum heldur en hinum nýtilkomnu Íslensku.

Basaltfjöll Grænland
En það eru líka til kunnuglegri fjöll á Grænlandi því beint norðvestur af vestfjörðum má finna dæmigerða basalt-hraunlagastafla eins og eru svo algengir hér á blágrýtissvæðum Íslands. Þessir Grænlensku basaltstaflar eru hinsvegar öllu hærri og hrikalegri en okkar enda hvíla þeir á traustum grunni meginlandsfleka ólíkt því sem gerist hér þar sem fjöllin hvíla á mun mýkri skorpu og síga því niður eins og steinn á svampdýmu. Þarna má líka finna hæstu fjallstinda Grænlands og ber þar hæst Gunnbjarnartind, um 3.700 metrar á hæð, eða Hvítserk eins og hann hefur stundum verið kallaður hér á landi. Sjá má Gunnbjarnartind einhverstaðar á myndinni hér að ofan.

Svona basaltfjöll eru samsett úr storkubergi sem verða til þegar hvert hraunlagið leggst yfir annað í milljónir ára. Reglulegir hraunlagastaflar eru rakin vísbending um langvarandi jöklaleysi á viðkomandi stað því hraun renna ekki yfir stór landssvæði undir jökli eins og kunnugt er. Eftir að ísaldajöklar tóku að herja á norðurhveli fyrir um 2-3 milljónum hafa svo jöklarnir verið duglegir við að tálga firði og dali í berglagastaflana og víða skilið eftir hvassa fjallstinda.

GrænlandsreiturÞessi Grænlensku basaltfjöll eru náskyld okkar eigin fjöllum enda eru þarna að finna yngstu bergmyndanir Grænlands. Sameiginleg uppspretta er líka heiti reiturinn, eða möttulstrókurinn, sem nú er staddur einhverstaðar undir Bárðarbungu. Möttulstrókur þessi mun eiga sér langa sögu ef hugmyndir um hann eru réttar því talið er að hann sé langt að kominn. Hafi eitt sinn verið undir Kanadíska heimskautasvæðinu en síðan siglt rólega í suðaustur, farið yfir Grænland fyrir 40-70 milljónum ára og sé nú einmitt staddur hér á landi þessi ármilljónin og tengist eldvirkni Atlantshafshryggjarins. Nákvæmara og réttara er reyndar að segja að möttulstrókurinn sé kyrr á sínum stað en allt fyrir ofan sé á hreyfingu. En allavega þá hefur strókurinn skilið eftir sig ummerki á sinni yfirferð í formi eldvirkni með tilheyrandi storkubergi og basalthraunlögum sem einmitt eru Grænlensku basaltfjöllin sem finna má á afmörkuðum svæðum sitthvoru megin jökuls. Kortið sýnir basaltsvæði tengd heita reitnum með svörtum og gráum lit en tölurnar segja til um ferðalag reitsins í milljónum ára.

Spurning er hvernig sambandi heita reitsins og Atlantshafshryggjarins sé háttað í raun. Ekki er ólíklegt að ferðalag heita reitsins austur yfir Grænland sé stór ástæða fyrir því að Atlantshafið opnaðist að lokum okkar megin við Grænland því framan af, eða á meðan heiti reiturinn var vestanmegin, átti gliðnunin sér stað þeim megin Grænlands. Þetta stökk í gliðnun Atlantshafsins er síðan ástæða þess að Grænland er sérstök eyja.

Samsvarandi basalt-hraunlagastafla af sama uppruna er einnig uppistaðan í Færeysku fjöllunum og einnig þeim Skosku að hluta. Þegar þau hraun runnu var heiti reiturinn að koma austur undan Grænlandi og Atlantshafið að opnast á milli Grænlands og Evrópu. Mikil flæðigos voru á svæðinu á þeim tíma og ekki ólíklegt að sama hraunlagið geti verið að finna í Færeyjum og á Grænlandi. Það hraunlag væri þá töluvert eldra en elstu hraunlög á Íslandi enda myndaðust þau ekki fyrr en eftir að opnun Atlantshafsins var komin vel á veg.

Kortið fengin af síðunni: Reykjanes Ridge Expedition en ég er þó búinn að gera skýrari gula punkta með tölum. Birtist hjá mér áður í bloggfærslunni: Af hverju er Ísland til?

Efri ljósmyndina tók ég sjálfur Nálægt Nuuk í Grænlandi en neðri ljósmyndin er fengin héðan: http://www.summitpost.org/users/bergauf/41964

Á flæðiskeri staddur

Hólmur

Könnun heimsins heldur áfram og að þessu sinni er ég staddur lengst úti á skeri vestur af Örfirisey. Ég er þó ekki illa staddur því skerið tengist landi á háfjöru og vitanlega var ég búinn að kynna mér sjávarföll í Almanaki Þjóðvinafélagsins. Mér var því öllu óhætt þegar myndin var tekin, sunnudaginn 6. maí klukkan hálf eitt í blíðskaparveðri á stórstraumsfjöru.

Hvað þetta heitir nákvæmlega skal ég ekki segja en talið er líklegt að þetta sé Hólmurinn sjálfur þar sem Dönsku kaupmennirnir héldu sig forðum áður en þeir fluttu sig til Örfiriseyjar vegna aukins ágangs sjávar. Síðan þá hefur land sigið enn meir þannig að nú fer allt á kaf í flóði, en þó ekki alveg því enn eru þarna myndarlegar grágrýtisklappir og skeljasandur sem þarinn fær ekki þrifist á. Grandinn sem tengir Hólmann við land, var mun lengri áður en landfyllingaræðið greip um sig. Örfirisey sjálf var tengd landi með svipuðum granda en þvert á hann kom Hólmagrandinn eins og sést á ljósmyndinni sem Sigfús Eymundsson tók frá Skólavörðuholti árið 1877.

Gamla Reykjavík

Á suðvesturhorni landsins er stöðugt landsig í gangi vegna nálægðar við eldvirka svæðið á Reykjanesskaga. Eitthvað hefur land því sigið á þeim 135 árum sem liðin eru frá því er þessi mynd var tekin og reyndar man ég ekki eftir að séð hólmana standa svona vel upp úr sjónum eins og þarna sést og liggur við að göngufært sé út í Akurey. Myndin hefur þó væntanlega verið tekin á stórstraumasfjöru sem kannski átti sinn þátt í að Sigfús ákvað að leggja leið sína þennan dag upp að Skólavörðu með ljósmyndagræjur sínar. Ekki ólíkt því sem ég gerði er ég hélt út á Hólmann.

- - - - -

Í framhaldi af af þessu má minna á bloggfærslu sem ég skrifaði fyrir þremur árum og fjallaði um þann möguleika að Reykjarvík, eins og hún hét upphaflega, hafi verið þarna í víkinni á milli Örfiriseyjar og Hólmanna. Forðum daga var nefnilega hverasvæði á litlu nesi við Örfirisey er nefndist Reykjarnes en það er nú sokkið í sæ.

Sjá: Hvar var hún þessi Reykjarvík?


Hart sótt að Reykjanesskaga

Stundum er sagt að við sem búum á höfuðborgarsvæðinu séum á móti öllum virkjana- og stóriðjuframkvæmdum nema þeim sem eru í okkar allra næsta nágrenni. Kannski á þetta við í einhverjum tilfellum en ef ég á tala fyrir mig sjálfan þá er það einmitt næsta nágrenni höfuðborgarinnar sem ég hef mestar áhyggjur af. Ef fer sem horfir þá mun Reykjanesskaginn verða stórlega raskaður vegna jarðhitavirkjanna og ýmissa umsvifa allt frá Þingvallavatni og út á Reykjanes.

Hengill gufubólstrar

Nú þegar hafa virkjanir lagt Hengilssvæðið undir sig með Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun. Að vísu er ekki búið að reisa virkjun á sjálfri Hellisheiðinni en það er auðvitað í bígerð með Hverahlíðarvirkjun sem verður mjög áberandi mannvirki á sjálfri háheiðinni. Öllum þessum virkjunum fylgir og mun fylgja gífurlegt rask á hraunum, jarðhitasvæðum, smágígum og öðru því sem fylgir Atlantshafshryggnum þar sem hann gengur hér á land og er einstakt fyrirbæri í heiminum. Fjöldi misvelheppnaðra borhola fylgja hverri virkjun. Gufublástur með óhljóðum er viðvarandi þegar borholur eru látnar blása og getur slíkur hávaði verið á við Júmbóþotu í stöðugu flugtaki eins og mér var minnisstætt við Leirhnjúk er ég var þar síðast. Svo eru það öll rörin sem sikksakkast útum allar grundir á virkjanasvæðunum og auðvitað stöðvarhúsið sjálft, kæliverkið, vegaslóðarnir, afrennslisvatn, spennulínur, rafmagnsmöstur að ógleymdu öllum vinnuvélunum og dótaríi sem fylgir svona starfsemi.

Það er þó varla hægt að amast við öllu raski á Reykjanesskaganum. Til dæmis liggur Þjóðvegur 1 þarna í gegn ásamt háspennumöstrum. Einhvern veginn þarf fólk og rafmagn að komast á milli landssvæða. En þetta eru bara smámunir miðað við annað. Einhver fjöll er búið að grafa í sundur og sum jafnvel horfin. Á skíðasvæðum í Bláfjöllum er búið að skafa og slétta heilu fjallshlíðarnar og leggja lyftur. Lengra í vestur stendur svo til að virkja við Krísuvík suður af Kleifarvatni og þar með er það svæði ónýtt. Síðan er talað um Trölladyngjusvæðið milli Keilis og Kleifarvatns sem í dag er nokkuð stórt ósnert svæði á miðjum Reykjanesskaga og býr yfir mikilli náttúrufegurð sem fáir njóta eða vita af. Hætt við að það svæði verði eyðilagt í kyrrþey. Suðvestur af Trölladyngusvæðinu stendur einnig til að bora og virkja ósnertar auðnir við Sandfell.

Fleiri vita af hinu heimsfræga Bláa Lóni við Svartsengi sem er ágætt út af fyrir sig og er reyndar mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn og því varla hægt að amast við því, en það er þó ekki þar með sagt að það sé til fyrirmyndar fyrir önnur svæði. Eitt slíkt er ágætt. Í undirbúningi er líka virkjun við Eldvörp vestan Grindavíkurvegar og við Sandvík vestast á Skaganum. Reykjanesið sjálft allra yst á nesinu er stórkostlegt svæði af náttúrannar hendi. Það er nú þegar undirlagt af borholum og leiðslum Reykjanesvirkjunar sem til stendur að stækka. Myndin hér að neðan er þaðan og sýnir hún dæmigert rask af einni virkjun. Vegurinn að Reykjanesvita liggur þarna innan um borholur og fleira utan myndar. (skjáskot af kortavef ja.is)

Reykjanesvirkjun

Auðvitað þurfum við rafmagn og við búum vel hvað orkuöflun varðar. Við framleiðum nú þegar gífurlega orku með fallvötnum og jarðvarðma en spurningin er hversu langt á að ganga. Í uppkasti af svokallaðri rammaáætlun er Reykjanesskaginn hærra metin sem orkuöflunarsvæði en verndurnarsvæði, enda er orðið fátt vænlegra kosta á lausu sem ekki hafa í för með sér óásættanlegt rask á náttúrunni. Samt láta sumir sig dreyma um mikla uppbyggingu stóriðju og jafnvel útflutning á rafmagni í stórum stíl. Þar er lofað hreinni raforku frá hinu dásamlega landi í norðri sem boðið getur upp á næstum endalausa hreina orku eins og kemur fram í þessari erlendu frétt frá the Guardian, Iceland´s energy comes naturally en þar er vitnað í einn af okkar mönnum:

„Albert Albertsson, the deputy chief executive officer at Iceland's Resource Park, which includes the Blue Lagoon hot springs and one of the country's largest geothermal power stations, says that while no one knows how much energy could be eventually harnessed, it could be possible that all the energy needs of the northern hemisphere could be met by Iceland.“


Það er bara ekkert annað. Ég spyr þá bara. Hvernig verður Ísland og þá ekki síst Reykjanesskaginn útlítandi þegar búið verður að sjá öllu norðurhveli fyrir orku frá Íslandi?
 


1. maí í fyrra og veðurhorfur sumarsins

Til upprifjunar má minna á að á þessum degi í fyrra var alhvít jörð í Reykjavík, samanber myndina sem tekin var í Öskjuhlíð þann 1. maí 2011.

1. maí 2011
Það var mikið kvartað yfir lélegri vorkomu á síðasta ári enda veðrið gjörólíkt veðrinu nú ár. Hitinn í apríl í fyrra var að vísu nálægt opinberu meðaltali en sunnanáttirnar voru ansi ágengar og úrkoman með allra mesta móti og af öllum gerðum. Þann 30. apríl tók að snjóa meira en góðu hófi gegndi sem skilaði sér í óvenjumikilli snjódýpt að morgni 1. maí. Snjórinn varð þó ekki lífseigur því mikil hlýindi gerði dagana á eftir. Þá héldu margir að sumarið væri komið sem reyndist því miður ekki alveg rétt. Snjódýptin þennan 1. maí-morgun mældist 16 cm við Veðurstofuna sem er aðeins 1 cm frá snjódýptarmeti mánaðarins í Reykjavík sem var sett að morgni 1. maí 1987 við mjög svipaðar aðstæður og í fyrra.
Þetta má notla sjá betur í myndaseríu minni 365-Reykjavík þar sem eru samskonar myndir alla daga ársins: http://www.365reykjavik.is/

- - - -
Svo er það sumarið. Verður þetta enn eitt þurrviðris-sumarið hér í Reykjavík eða er loksins komið að rigningasumri? Sjáum nú til. Fyrirbæri er til sem kallast Weather Service International sem gefur sig meðal annars út fyrir að spá fyrir um veðurlag nokkra mánuði fram í tíman. Í nýjustu spá fyrir Evrópu er talað um talsvert öðruvísi veðurmynstur en verið hefur síðustu 4 ár. Það ætti að þýða að í stað rigningartíðar á Bretlandseyjum, Danmörku og víðar í norðurhluta Evrópu má nú búast við þurrviðri og hlýindum þar en blautara veðri í suðurhluta álfunnar.

Þótt ekki sé talað um Ísland, má hafa í huga að veðurlag á Norður- og Austurlandi fylgir gjarnan veðrinu á Bretlandseyjum og Norður-Evrópu því þegar hæð sest að nálægt Bretlandi þá taka sunnanáttirnar sig upp á Íslandi með vætutíð sunnan- og vestanlands en blíðskaparveðrum fyrir norðan og austan. Slíkt veðurlag hefur einmitt ekki einkennt sumrin hér á landi frá árinu 2007. Hvort eitthvað vit sé í svona spám er ég ekki viss um, en mig grunar að þetta sé ekki fyrsta þurrviðrisspáin fyrir Bretlandseyjar á allra síðustu árum, Bretar eru líka nýstignir upp úr einhverjum blautasta apríl sem um getur hjá þeim og því alveg mögulegt að spáin skolist eitthvað til við það.

Sjá nánar: Warmth Focused in Western and Northern Europe This Summer

WSI logo

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband