Veðurteppt Grænlandsferð

Nuuk gamli bærinn

Ég lagði upp í mína fyrstu Grænlandsferð um miðja síðustu viku og varð sú ferð satt að segja heldur lengri en búist hafði verið við. Þetta var vinnutengt ferð til höfuðstaðarins Nuuk sem sem er á vesturströnd Grænlands álíka norðarlega og Reykjavík. Ferðin var góð og gagnleg sem slík. Miðvikudaginn 25. ágúst þegar við komum á staðinn var veðrið líka fínt og náttúran skartaði sínu fegursta. Það breyttist hinsvegar til hins verra strax daginn eftir.

Nuuk útsýni2Þegar kom að heimför á föstudeginum og fólk mætt út á flugvöll varð öllum ljóst skilyrði til flugferða voru ekki upp á það besta, eða réttara sagt, vindurinn á flugvellinum var þvílíkur að maður var eiginlega fegnastur því að takast ekki sjálfur á loft, enda fór það svo að flugvélin sem átti að koma okkur heim náði aldrei að lenda. Daginn eftir, á laugardeginum, urðu vonir um flugferð aftur að engu þegar við fengum þær fréttir að ekkert yrði flogið þann dag á vegum Flugfélags Íslands. Á sunnudeginum var enn sami strekkingsvindurinn og rigning. Þrátt fyrir það voru farþegar boðaðir út á flugvöll, bókað í vél og farangur innritaður því aftur átti flugvél að vera á leiðinni. Allt kom þó fyrir ekki því aftur þurfti vélin frá að hverfa vegna hvassviðris á flugvellinum og var þá svona heldur farið að reyna á þolinmæði farþega. Það var svo ekki fyrr en á mánudeginum sem vindinn lægði fyrir alvöru og sem betur fer náðu Flugfélagsmenn að koma vél til Nuuk við góðan fögnuð strandaglópskra ferðalanga.

Maður komst vel að því þarna hvað veður getur sett strik í reikninginn þegar kemur að ferðalögum, og slæmt veður er auðvitað fylgifiskur þess að vera veðurtepptur. Því var ekki alveg hægt að njóta staðarins til fulls, en fyrir utan vindinn þá rigndi þarna nánast stöðugt frá fimmtudegi til mánudags vegna þrálátrar lægðar suðvesturundan landinu. Trúboðinn Hans Egede og stofnandi staðarins var heldur ekki mikið að hugsa flugsamgöngur á sínum tíma enda var hann uppi á 18. öld. Flugvöllurinn í Nuuk (Godthåb) er nefnilega einn af erfiðustu flugvöllum á Grænlandi en margir helstu flugvellir landsins eru betur staðsettir lengra inn í hinum stóru fjörðum sem þarna eru. Vegasamgöngur eru þar að auki engar á milli þéttbýlisstaðanna sem eru mjög dreifðir í þessu stóra landi. Grænland er samt merkilegt land og Grænlendingar merkileg þjóð og margt er þarna hægt að upplifa þegar betri aðstæður er í boði.

Nuuk flugvöllur

Langþráð flugvél lendir í Nuuk, mánudaginn 30 ágúst. Veðurathugunargræjur í forgrunni.


Bloggmósaík

„Ég hef alltaf haft á tilfinningunni að kóngulær væru grimmlyndar skepnur og þakka því Guði fyrir að þær sem við höfum eru ekki stærri en raun ber vitni. Vonandi þarf þá Sérstakur Saksóknari ekki að endurnýja heimboðið seinna. Og nú birtir hann vefsíðu og vill koma sinni hlið að í umræðunni. Gaman væri að heyra frá einhverjum sem veit allt um hana. Að auki reikna ég með að bankarnir muni geta boðið hagstæðari lán til viðskiptalífsins og einstaklinga, en þeir gera í dag. Þá fyrst yrði líft fyrir mengun á heitum og stilltum dögum á þessum slóðum. En þrátt fyrir það eigum við að vera þakklát fyrir það mikla góðviðrissumar sem þegar er að baki. Nú verður feigum ekki forðað og kreppan er að skella á af fullum þunga þetta er ekki ágiskun heldur bláköld staðreynd sem ekki verður umflúin í þetta sinn! En nú er öldin önnur, mjólkurkýrin mjólkar ekki lengur, Orkuveita Reykjavikur er skuldum vafið fyrirtæki á barmi greiðslufalls. Vona launamenn almættisins taki nú höndum saman og höggvi af fúakvistina. Það er ákveðin rökleysa! Allir vita að þetta fólk var undir verndarvæng hinna vinstri grænu kommúnista, sem beinlínis hvöttu fólk áfram í ofbeldi sínu og yfirgangi. Eðlilega barst talið að núverandi ríkisstjórn og öðru sem viðkemur pólitíksu landslagi. Tökum okkur örstutta stund til að skoða hvað þarf að gera á Íslandi. Kannski verður útflutningur á heilbrigðisþjónustu okkar næsta auðlind á við fiskinn og orkuna? En þá kemur að spurningunni, hvaðan hefur trúleysinginn sitt siðferði? Hvaða réttlæting felst í því að notast við lögguvitleysinga til að lemja á saklausu fólki? Í tilefni þess verð ég með tilboð á merkingum á skólapeysum í næstu viku. Verð bara að segja það.“

- - - -

Já, margt er nú skrafað í bloggheimum.


Steinskriftin kemur til sögunnar

SansSerif

Það má skipta letri í ýmsa flokka eftir útliti, en þó má segja að þrír meginflokkar séu í boði: fótaletur, steinskrift og skriftarletur. Ef við undanskiljum skriftarletur þá datt fáum í hug fram að 20. öld í hug að sleppa þverendum í letri, það þótti bara ekki nógu fallegt. Fótalaus letur voru þó einstaka sinnum notuð í hástöfum, t.d. þegar letur var höggið í stein og því eru þau t.d. hér á landi kölluð steinskrift. Á 19. öld þegar þörfin jókst fyrir sterk og ákveðin letur í auglýsingaplakötum fór æ oftar að sjást fótalaus letur en þau voru þá oftast notuð í bland við aðrar skrautlegri og klassískari leturgerðir.

Fótalaus letur voru á 19. öld gjarnan kölluð Grotesque enda þótt þau vera klossuð og „grótesk“ í útliti, einnig voru þau stundum kölluð Gothic. Í dag eru letrin erlendis almennt kölluð Sans Serifs eða án þverenda og Serifs eru þá þau letur kölluð sem heita fótaletur upp á íslensku. Fyrsta steinskriftin sem teiknuð var fyrir prent og innihélt bæði lágstafi og hástafi kom fram árið 1832 og var einfaldlega kölluð Grotesque.

Akzidenz

Fyrstu steinskriftarletrin sem hinsvegar náðu almennilegri útbreiðslu voru teiknuð nálægt aldamótunum 1900. Af þeim er elst Akzidenz-Grotesk letrið sem kom fram 1898. Það er mjög nútímalegt og venjulegt að sjá og lýkist mjög þeim steinskriftarletrum sem margir þekkja sem Helveticu og Arial en þau hafa einmitt þessi elstu steinskriftarletur sem fyrirmynd. Þessi letur þykja gjarnan vera karakterlaus enda má segja að þau séu eins laus við stæla og hugsast getur, en það þarf þó ekki að vera neikvætt því stundum er einmitt þörf fyrir slíkt.

futura

Steinskriftarletrin fór ekki að njóta almennilegrar virðingar fyrr en hinn móderníski stíll kom til sögunnar á 3. og 4. áratug 19. aldar. Þar hafði kannski mest áhrif hinar framúrstefnulegu hugmyndir sem kenndar hafa verið við Bauhaus skólann í Þýskalandi. Þar dásömuðu menn hin hreinu form svo sem hring og ferning. Allt átti að vera hreint og beint og umfram allt laust við óþarfa skraut og prjál.
Útfrá þessum hugmyndum urðu til letur sem kalla má geómetríska steinskrift. Frægast þeirra er sjálfsagt Futura letrið og ber það líka nafn með rentu en það var hannað í Þýskalandi 1928. Það einkennist af því sem næst hreinum hringformum þar sem því er viðkomið. Futura er mjög algengt letur enn í dag og er til í ýmsum þykktum allt frá örfínu upp í ofurþykkt en auk eru samanþjappar útgáfur nokkuð algengar.

Underground

Annað letur mjög algengt frá þessum tíma er Gill Sans letrið frá árinu 1929. Það á reyndar uppruna sinn í eldra letri sem teiknað var árið 1913 fyrir neðanjarðarlestarkerfi Lundúna. Þar sáu menn einmitt þörfina fyrir einfalt letur sem hægt væri að lesa með hraði eða úr góðri fjarlægð. Líkt og í Futuru einkennist Gill Sans af hreinum hringformum í hástöfum eins og O og G en annars þykir Gill letrið falla undir flokk húmanískrar steinskriftar sem þýðir og formin eru mannlegri og ekki eins afdráttarlaus. Gill Sans er eitt af þessum letrum sem má finna víða í dag en það má þó segja að Skandínavar og Bretar hafi haft sérstakt dálæti á því.

Eiginlega má segja að með steinskriftinni hafi leturþróun náð vissum endapunkti þar sem ekki var hægt að ganga lengra í einföldun leturs án þess að það komi niður á læsileikanum. Það hefur þó aldrei orðið neitt lát á útkomu nýrra leturgerða þar sem tískan og tíðarandinn kallar sífellt á nýjungar. Þetta þarf því ekki að vera síðasti letursögupistillin. Fyrri leturpistla má finna hér á síðunni undir flokknum LETUR.


Um hitabylgjur og hnattræna hlýnun

Hitabylgja Rússland

Á meðfylgjandi mynd frá Nasa sést vel hversu öflug hitabylgjan í Rússlandi hefur verið en rauðu og bláu litirnir á kortinu sýna hitann sem frávik frá meðalhita dagana 20-27. júlí. Fyrir utan öll þau hitamet sem slegin hafa verið er þessi hitabylgja ekki síst merkileg vegna þess hve lengi hún hefur staðið.

En það er ekki allstaðar svona hlýtt eins og sést þarna á myndinni. Það undirstrikar einmitt að svona hitabylgjur eru veðurfarslegs eðlis – veðurkerfin hafa stillt sér upp þannig að hlýir vindar hafa blásið norður til Rússlands í meira mæli en venjulega og í staðinn hafa kaldari loftmassar lagst yfir önnur svæði þannig að í heildina jafnast hitinn út. Í Pakistan súpa menn t.d. seyðið af þessari stöðu því kalt loft hefur leitað þangað suður og magnað upp monsúnregnið.

Frávik frá meðalhita uppá 12°C eða jafnvel meir á svona stóru svæði er auðvitað miklu meira frávik heldur en það sem nemur hlýnun jarðar, en það er í reynd ekki nema 0,7 gráður síðustu 100 árin. Það mætti því hugsa sér að ef engin hnattræn hlýnun hefði átt sér stað þá væri ekki 39 stigi hita á tilteknum stað í Rússlandi heldur 38,3 stig sem er ekki mikið skárra. Hitabylgjur hafa líka skollið á fyrr á árum þótt meðalhiti jarðar hafi verið lægri enn í dag. Sama á við um staðbundin kuldaköst, þau koma og fara nokkurn veginn óháð hnattrænni hlýnun, nema kannski á svæðum eins og hjá okkur þar sem hafís hefur verið viðloðandi fyrrum. Því er spáð að hitabylgjum muni fjölga vegna hlýnunar jarðar, sem er eðlilegt. En það breytir því þó ekki að mikið staðbundið og tímabundið frávik í hita kemur alltaf niður á öðrum svæðum þar sem óhjákvæmilega mun kólna á sama tíma. Hiti rýkur ekki bara upp á einum stað óháð því sem gerist annarstaðar.

Ef þetta er svona og ef rétt er að hitabylgjur muni aukast með hlýnun jarðar, þá ætti það ekki síst að vera vegna þess að meiri lýkur eru á því að veðurkerfin fari úr skorðum frekar en að svo afskaplega mikill aukahiti verði til staðar. En auðvitað er alltaf best að veðurkerfin haldi sig nokkurn veginn á mottunni svona yfirleitt þótt alltaf sé gaman af smá óvenjulegheitum í veðri.

Uppruni myndar: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=45069 


Bloggfærslur bókfærðar

Hvað skal gera við allt það sem maður hefur skrifað hér á blogginu? Kannski þarf ekki að gera neitt enda er gjarnan sagt að það sem einu sinni hefur verið sett á netið verði þar áfram um aldur og ævi. Ég efast um að margir prenti út það sem þeir skrifa, ég byrjaði á því eitt sinn en hætti því þó fljótlega því mér fannst það ekki gera sig almennilega. Hinsvegar hófst ég handa fyrir nokkrum mánuðum að setja upp allar mínar bloggfærslur í umbrotsforriti þannig að hægt væri að útbúa einskonar bloggrit fyrir hvert bloggár sem mætti fletta fram og til baka. Þessi uppsetningarvinna er frekar seinleg en þegar hér er komið við sögu er ég búinn að setja upp árin 2007 og 2008 og er að hefjast handa við árið 2009. Núna er ég svo búinn að fá prentuð tvö eintök af árinu 2007, frágengnum á 48 síður með stífari kápu þannig að útkoman er hin fínasta bloggbók. Hvað bækurnar verða margar að lokum kemur svo í ljós, það gæti allt eins verið að bloggbók ársins 2010 verði síðasta bindið.

Þetta fyrsta bloggár 2007, hófst reyndar ekki fyrr en í september og því er ritið ekki stærra, auk þess voru margar af mínum fyrstu bloggfærslum frekar stuttaralegar og sluppu oft í gegnum bloggheima án nokkurra athugasemda – sérstaklega framan af. Bloggbók ársins 2008 fer svo í prentun þegar ég læt verða að því. Það rit fer nokkuð yfir 200 síður, en með bloggfærslunum læt ég fylgja allar myndir og athugasemdir ásamt athugasemdum við athugasemdir. Þessi bókfærsla er fyrst og fremst ætluð mér sjálfum en ef svo ólíklega vill til að einhver myndi vilja eiga svona líka, þá má kannski bjarga því.

Hér má sjá hvernig þetta lítur út að utan sem innan. Sjálfum þykir mér hér sannast hin forna speki öldungsins að þótt veraldarvefurinn sé ágætur þá er bókin er alltaf best.

Bloggbók


Góðar og slæmar fréttir af berjasprettu

krækiberÞað virðist ekki ætla að verða mikið mál að krækja sér í nokkur krækiber þetta sumarið. Það er allavega verið að tala um að víða á Suður- og Vesturlandi sé berjaspretta með eindæmum enda hefur þar verið hlýtt og bjart í sumar. Þessi fínu fullsprottnu krækiber sá ég þann 8. ágúst í uppsveitum Suðurlands, nánar tiltekið við Brúarárskörð hjá Högnhöfða og er bara lítið dæmi um það sem þar fá finna. Berin eiga síðan auðvitað eftir að stækka enn meir mörgum til mikillar ánægju og yndisauka. Þetta voru góðu fréttirnar.

birkifetiSlæmu fréttirnar eru hinsvegar af bláberjalynginu.
Vegna þess einmitt hvað síðustu sumur hafa verið hlý og þurr á Vesturlandi, er nú svo komið að bláberjalyngið er þar víða alveg heillum horfið vegna svartrar lirfutegundar sem á það herjar. Þetta munu vera lirfur fiðrildategundarinnar Birkifeta sem háma í sig græna vefi laufblaðanna svo bláberjalyngið verður rauðbrúnt og lífvana að sjá og þroska í framhaldi af því ekki almennileg bláber. Myndin hér er tekin á sama stað og sú fyrri þannig að þessi óværa er greinilega einnig farin að herja á bláberjalyng í uppsveitum Suðurlands.

BrúarárskörðSamkvæmt því sem ég hef fundið um þetta þá mun lyngið ná sér á ný næsta sumar nema þessi plága verði viðvarandi vandamál á næstu árum. En þá verður þessum góðu sumrum líka að fara að linna.

Annars var ég ekki þarna á ferðinni til að skoða ber, Brúarárskörðin eru afar tilkomumikil náttúrusmíð og munu vera dýpstu gljúfur Suðurlands. Ég var þarna mættur til að skoða þau í fyrsta sinn og varð ekki fyrir vonbrigðum.


Náttúrulegur breytileiki og hlýindin á Íslandi

Þau hlýindi sem hafa verið á Íslandi undanfarin ár eru mjög eindregin. Veðurgæðum á sumrin hefur kannski verið eitthvað misskipt en veturnir hafa hinsvegar allstaðar verið mildir og snjóléttir miðað við það sem gjarnan var áður. Það eru sjálfsagt ýmsar ástæður fyrir því hversvegna svo mikið hefur hlýnað hér en algengast er auðvitað að nefna almenna hlýnun jarðar sem er vissulega staðreynd. En náttúrulegar staðbundnar aðstæður skipta hér einnig máli.

Hiti heimshöf

Á myndinni hér að ofan sem ættuð er frá NASA, má sjá yfirborðshita hafsins sem frávik af meðalhita. Hér í Norður-Atlantshafi er rauður litur ríkjandi sem þýðir að efri lög hafsins eru hlýrri en venja er. Annarstaðar eru höfin ýmist kaldari en venjulega, jafnhlý eða hlýrri. Þessi hlýi sjór á okkar slóðum hefur reyndar verið hér viðloðandi í allnokkur ár og á vafalaust sinn þátt í mildari tíð hjá okkur. Sjávarlífið hefur ekki farið varhluta af þessu og sjófuglalífið í framhaldi af því.

Ef maður veltir fyrir sér hvort þessi hlýsjór sé kominn til að vera, er ágætt að hafa í huga fyrirbæri sem  kallast Atlantic Multidecatal Oscillation (AMO) og er lýst þannig á vefsíðu Bandaríku haf- og veðurstofnunarinnar NOAA:

The AMO is an ongoing series of long-duration changes in the sea surface temperature of the North Atlantic Ocean, with cool and warm phases that may last for 20-40 years at a time and a difference of about 1°F between extremes. These changes are natural and have been occurring for at least the last 1,000 years.

Í nánari útskýringum er tekið fram að nú sé hlýr fasi í gangi sem passar ágætlega við okkar upplifun. AMO-sveiflan mun hafa snúist nokkuð eindregið til þessa hlýja fasa um árið 1995 og haldist þannig síðan. Kaldur fasi var hinsvegar uppi á árunum ca. 1965-1995 en á því tímabili kólnaði á Íslandi, hafísinn lét þá sjá sig, jöklar snéru vörn í sókn og á sama tíma hrundu síldveiðar við Ísland. Hlýindaskeið var svo á tímabilnu ca. 1925-1964 þegar AMO var í hlýjum fasa eins og nú. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan.

AMO 1858-2008

Hiti Stykkish+AMO

Á neðra línuritinu ber ég hitann í Stykkishólmi saman við hlýja og kalda fasa AMO-sveiflunnar. Frá aldamótunum 1900 og til okkar dags er fylgnin nokkuð greinileg – hlýju árin eru þegar AMO er hlýr og öfugt. Á 19. öldinni virðist þetta þó ekki fara saman en þá var litla ísöldin enn í gangi með almennt kaldari sjó hjá okkur og árvissum hafískomum.

Verði þetta samband áfram til staðar og yfirborðshitastig sjávar mun halda áfram að sveiflast á áratugaskala þá er ekki hægt að álíta annað en að kaldari tíð mun taka við á Íslandi eftir einhver misseri. Núverandi hlýja tímabil hefur þó ekki staðið lengi og því ættum við að geta fagnað hlýindum áfram hér á landi næstu árin. Ekki virðist þó vera hægt að spá fyrir hvenær næstu umskipti verða enda mun lengd tímabilana ekki vera regluleg.

Aðrar langtímasveiflur svipaðar þessari munu einnig eiga sér stað. Ein sú mest umtalaða er í Norður-Kyrrahafi og nefnist PDO (Pacific Decatal Oscillation) Sú sveifla uppgötvaðist ekki fyrr en um síðustu aldamót þegar kaldi fasinn tók þar við, en síðan hefur tekist að rekja PDO sveiflurnar allmarga áratugi aftur í tímann. Eins og sjá má á fyrstu myndinni er blár litur einkennandi núna við Kyrrahafsstrendur Norður-Ameríku.

Tengslin við hnattræna hlýnun.
Vegna þessara hitasveiflna í hafinu er erfiðara að meta hversu stór hluti hlýnunar jarðar er vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Þegar AMO og PDO hafa verið í hlýjum fasa á sama tíma hefur hlýnun jarðar verið mjög mikil. Við verðum samt að líta á hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa á jörðinni sem viðbót ofaná náttúrulegar sveiflur. Staðbundnar sveiflur munu auðvitað einnig halda áfram og því getum við ekki treyst á að kaldari tíð tilheyri algerlega fortíðinni hér á landi. Það er samt aldrei að vita nema hlýnandi jörð geti raskað þessu munstri, en einfaldast er að líta svo á að almenn hlýnun jarðar geri köldu tímabilin mildari og mildu tímabilin hlýrri.

Meðalhitametið jafnað í Reykjavík

Þá er það orðið ljóst að nýliðnum júlí tókst að jafna mánaðarmetið frá 1991 sem er 13,0 stig. Þegar þetta er skrifað hefur Veðurstofan að vísu ekki birt sitt yfirlit en fylgjast mátti með þessari metjöfnun í „beinni útsendingu“ á bloggsíðu Sigurðar Þórs. Þessi metjöfnun er auðvitað merkilegt í ljósi þess að júní var metmánuður hér í Reykjavík þannig að nú stefnir allt í langhlýjasta sumar sem hér hefur mælst. Það er eiginlega svo komið að það telst varla til tíðinda lengur að hitamet séu slegin í Reykjavík að sumarlagi því fyrir utan þessi met þá eru ekki nema sjö ár síðan mánaðarmetið fyrir ágúst var slegið og hámarkshitinn í Reykjavík hefur verið tvíbættur frá aldamótum. Allnokkrir sumarmánuðir hafa síðan verið mjög nálægt metum undanfarin ár.

Júlí 1991
Þessi hlýindi eru allt annað en það sem gerðist síðustu áratugi síðustu aldar. Júlí 1991 með sinn 13 stiga meðalhita er t.d. alls ekki dæmigerður fyrir hitafar síns tíma enda voru þá liðin 31 ár frá því einhver mánuður náði 12 stiga meðalhita í Reykjavík. Hinsvegar hafa sjö mánuðir náð 12 stigum hér í Reykjavík frá aldamótum. Júlí 1991 var enda sérstakur því þá gekk yfir landið óvenjuöflug hitabylgja sem skildi eftir sig slóð hitameta víða um land. Í dag þarf ekki öfluga hitabylgju ættaða langt sunnan úr löndum til að slá met, engu líkara er að hitinn sé búinn að koma sér hér fyrir og virðist búa bæði í loftinu og sjónum.

Júlí 1936
En það var líka hlýtt hér í gamladaga. Hin rómuðu hlýindi á fjórða til sjötta áratug síðustu aldar standa alveg undir nafni. Margir sumarmánuðir á því tímabili jafnast nánast á við þá hlýjustu frá núverandi hlýindaskeiði þó að meðaltali sé heldur hlýrra nú en þá.

Júlí 1936Á hlýja tímabilinu 1930-1965 voru hlýindin ekki eins stöðug og þau eru í dag og það hefur auðvitað áhrif á meðalhitann. Annars getur verið vandamál að bera saman mælingar frá því fyrr á tímum því mæliaðstæður og mælitæki eru ekki þau sömu. Þannig mældist t.d. í Reykjavík 13,2 stiga meðalhiti í júlí blíðusumarið 1936 og auglýstur þannig sem metmánuður eins og kemur fram hér í gamalli frétt í Morgunblaðinu. Þessi mánuður frá 1936 er í rauninni ennþá metmánuður því ekki hefur mælst hærri mánaðarhiti í Reykjavík, en hitamælingar voru þá gerðar á þaki Landsímahússins við Austurvöll. Júlí 1936 er þó ekki talinn sá heitasti þegar búið er að leiðrétta hann miðað við vandaðri mælingar sem gerðar eru í dag uppá Veðurstofuhálendinu við Bústaðaveg. Eftir þá leiðréttingu er hann skráður uppá 12,8 stig í meðalhita, en hvort það sé akkúrat rétt tala er ómögulegt að segja.

Nú er bara spurning hvort núverandi hlýindi séu komin til að vera. Sennilega verður hlýtt áfram næstu árin en hæpið er að gera ráð fyrir að kaldari tíð tilheyri alveg fortíðinni. Kannski að maður spái dálítið í það næst.

Einkunnagjöf
Að lokum má svo nefna að samkvæmt mínu vísindalega veðurgæðamati þá fékk nýliðinn júlímánuður 5,2 stig sem er góð einkunn en júlí 1991 fékk 5,1 stig. Þetta er samt ekkert miðað við einkunnina sem júlí fékk í fyrra, 5,8 stig en það var besta einkunn sem ég hef gefið nokkrum mánuði. Nánar um veðurskráningar og júlí í fyrra er hér: Hversu gott var góðviðrið í júlí?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband