10.1.2012 | 22:42
Hversu séríslensktur er éljagangurinn?
Það er mikið fjör í veðrinu núna og þykir örugglega mörgum nóg um. Það er spurning hvort hægt sé að kalla þetta útsynning enda er vindáttin eiginlega beint úr vestri. Einkennin eru þó hin sömu, dimm él ganga yfir með sterkum vindgusum og styttir upp á milli. En hversu algengt ætli þetta veðurlag sé í öðrum löndum? Getum við kallað þetta séríslenskt? Ég hef kannski ekki alveg svar við þessu sjálfur en ætla samt að spá í þetta.
Éljaloftið sem hingað kemur úr vestri og suðvestri er ættað frá hinum mjög svo köldu svæðum Grænlands og Kanada. Þegar loftið berst yfir hafið hitnar það að neðanverðu og gerist óstöðugt þegar það leitar upp í kaldari háloftin. Þetta er ekki ósvipað og gerist á heitum skúrakenndum sumardögum nema að á veturna myndast éljaklakkar yfir hafinu, því sjórinn er þá svo miklu hlýrri en loftið fyrir ofan. En þótt éljaloftið sé oft allsráðandi á stórum svæðum hér nyrst í Atlantshafinu kemur það ekki víða að landi á byggðu bóli. Það á þó auðvelda leið hingað til Íslands bæði með suðvestanáttinni og norðanáttinni. Það er kannski helst að Austfirðingar fari á mis við élin því ekki koma þau með austanáttinni - úr þeirri átt koma aðallega hlýindi að vetrarlagi.
Íbúar hinna köldu svæða í vestri fá varla mikið af éljum utan að hafi enda myndast élin aðallega þegar kalda loftið berst frá þeim svæðum að vetrarlagi eins og minnst var á hér að ofan. Ef éljaloftið nær alveg yfir Atlantshafið þróast það yfir í skúraveður sem getur herjað á Breta og meginland Evrópu. Kannski upplifa íbúar þar þó stöku sinnum él eða slydduél. Það væri helst að íbúar norðurhluta Noregs upplifi almennilegan éljagang eins og við. Þar væri þá um að ræða kalda heimskautaloftið sem éljast á leið sinni suður um hafið þegar norðan- og norvestanáttin nær sér þar á strik. Norðlendingar eiga því það sameiginlegt Norðmönnum að fá sitt éljaloft ofan af ísilögðu Norður-Íshafinu.
Það má fara víðar í leit að éljagangi. Nyrstu svæði Kyrrahafs koma til greina og strandvæði Síberíu gætu líka orðið fyrir éljum en þá kannski helst þegar opið haf myndast milli ísbreiðunnar og meginlandsins en á þeim svæðum eru ekki margir til frásagnar. Á suðurhveli ættu éljaklakkar að myndast útfrá ísbreiðu suðurskautsins en ekki sé ég fyrir mér að þau él nái landi nema kannski syðst í suður-Ameríku.
Það eru mörg kannski í þessu hjá mér, og kannski er éljagangur algengari en ég sé fyrir mér. Samt finnst mér svona veður þó vera mjög Íslenskt og ekki síst mjög Reykvískt sérstaklega að vetralagi og alltaf jafn skemmtilegt.
- - -
Veðurtunglmyndin er fengin af vef Veðurstofunnar og gildir þriðjudaginn 10. jánúar 2012. Bláa krotið eru mínar viðbætur.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.1.2012 | 22:40
Árshitinn í Reykjavík 1901-2011 í kubbamynd
Árið 2011 hefur nú fengið sinn sess í kubbamyndinni sem ég gerði fyrir tveimur árum og hef uppfært síðan. Nú liggur fyrir að meðalhiti liðins árs í Reykjavík var 5,4 stig. Það er örlítið undir meðalhita síðustu 10 ára, rúmlega gráðu yfir 30 ára meðaltalinu frá 1961-1990 og næstum hálfri gráðu yfir hlýja 30 ára meðaltalinu 1931-1960. Nýliðið ár er í félagsskap með fjórum öðrum jafnhlýjum árum, grænblátt að lit sem verður litur áratugarins. Annars sést þarna ágætlega hvernig áratugirnar dreifast á hitaskalanum. Sá síðasti hélt sér alfarið ofan við 5 stigin öfugt við fyrsta áratug 20. aldar sem komst ekki upp fyrir 4,5 stigin. Efst trónir þarna árið 2003 með 6,1 stig í meðalhita en árið 1979 situr sem fastast á botninum með árshita upp á aðeins 2,9 stig.
Nú má velta fyrir sér hvort árshitinn sé kominn til að vera yfir 5 stigunum. Ég held að það sé frekar ólíklegt og alls ekki hægt að stóla á að nýhafinn áratugur verði hlýrri en sá síðasti. Miðað við fjölbreytileika hitafars getum við alveg átt von á talsvert köldu ári eða árum hvað sem líður almennri hnattrænni hlýnun. Einn kaldur mánuður eins og nýliðinn desember þarf hinsvegar alls ekki að vera boðberi kaldari tíma og segir lítið um hvort árið 2012 blandi sér í botn- eða toppbaráttuna.
- - - -
Í framhaldi af þessu minna má minna á að hér á síðunni er myndalbúm sem inniheldur allskonar heimatilbúna veðurgrafík eins og þessa mynd. Þær myndir uppfærast óreglulega.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2012 | 15:48
Veðrið í Reykjavík árið 2011
Ég hef sett hér saman dálítið veðuryfirlit fyrir árið 2011. Þetta er aðallega unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum þar sem aðaláherslan er á veðrið í Reykjavík. Ýmis athyglisverð frávik voru á árinu eins og venjan er en árið í heild var samt hið ágætasta veðurfarslega séð. Opinber meðalhiti hefur reyndar ekki endanlega verið opinberaður en það má búast við að hann verði á bilinu 5,3 til 5,4 stig sem telst vera hlýtt en þó rétt undir meðalhita síðustu 10 ára.
Janúar. Árið hófst með alauðri jörð og hita yfir frostmarki. Talsvert kólnaði með miklu norðanáhlaupi þann 6. janúar og fór frostið þá niður í 11 stig. Eftir þann 10. hallaði vindurinn sér til austurs en síðan tóku við hlýindi sem stóðu hæst dagana 21.-26. janúar en þá var hiti yfirleitt á bilinu 6-8 stig. Í heildina var þetta hlýr mánuður og mjög snjóléttur. Lítið sást hinsvegar til sólar eða í heiðan himinn.
Febrúar. Strax í byrjun febrúar hrökk veturinn í gang og snjór lagðist yfir borgina. Nokkuð umhleypingasamt var dagana 8.-14. febrúar og talsvert vindasamt með köflum. Snjórinn kom og fór fyrir hluta mánaðarins en síðan varð alauð jörð og hlýtt seinni hlutann. Þegar upp var staðið var mánuðinn hlýr og frekar úrkomusamur.
Mars. Að þessu sinni var mars kaldasti mánuður vetrarins. Snjór var á jörð megnið af mánuðinum en mestur var hann í kringum 8-10 mars. Talsverða kulda gerði einnig og fór frostið niður í 12,5 stig þann 13. mars sem reyndist mesta frost ársins. Nokkur minniháttar illviðri gerði einnig en þá aðallega í kringum 5. og 15. mars. Þann 26. mars var snjórinn horfinn og þokkaleg hlýindi voru ríkjandi síðustu vikuna.
Apríl. Þetta var nokkuð óstöðugur mánuður sem einkenndist af hvössum vindum, gjarnan úr suðvestri með þrálátum skúrum, en ekki síður slyddu- og snjóéljum. Þann 10. skall á stormur sem olli dálitlu tjóni suðvestanlands. Jörð náði alloft að hvítna en þó aldrei neitt að ráði nema síðasta kvöldið þegar óvenjumikla snjókomu gerði miðað við árstíma. Margir kvörtuðu að vonum yfir að vorið léti bíða eftir sér en þrátt fyrir allt var mánuðurinn hlýr í heildina.
Maí. Mánuðurinn hófst á kafi í snjó en hann var fljótur að hverfa þegar snögghlýnaði þann 2. maí og hitinn rauk upp í 14 stig. Mjög hlýtt var næstu daga og náði hámarkshitinn 16 stigum þann 8. maí. Þessi snögga sumarkoma fór þó fyrir lítið því frekar kalt var seinni mánaðarins. Þann 21. maí hófst kröftugt gos í Grímsvötnum sem olli talsverðu öskufoki suðaustanlands.
Júní. Kalt var í veðri á landinu framan af mánuðinum, sérstaklega þó norðaustanlands. Aðfaranótt 10. júní varð Esjan hvít niður í rót en eftir það fór hitastigið upp á við og sumarið gat hafist fyrir alvöru. Í Reykjavík sem og víða sunnan- og vestanlands var mjög þurrt og sólríkt enda norðlægar áttir ríkjandi. Þetta var kaldasti júní í Reykjavík frá 1999 en hékk þó samt í meðalhita áranna 1960-1991.
Júlí. Veðrið í júlí var yfirleitt með betra móti en þó komu nokkrir vindasamir dagar og þungbúnir. Ágætlega hlýtt var í veðri allan mánuðinn, úrkoma með minna móti og alveg bærilega sólríkt. Bestu dagarnir voru frá 15. til 21. júlí en síðasta vikan var frekar þungbúin og blaut.
Ágúst. Ágætis veðurfar í mánuðinum sem einkenndist helst af þurrviðri í Reykjavík og víðar um land. Sólskin var yfir meðallagi og hlýtt í veðri. Hámarkshiti sumarsins náðist síðdegis þann 5. þegar hitinn fór í 20 stig í borginni og varð mjög gott sumarveður dagana þar á eftir. Yfirleitt var hægviðrasamt nema um miðjan mánuðinn þegar norðanáttin gerðist frekar ágeng.
September. Mánuðurinn var hlýr í gegn og mjög sólríkur fyrri hlutann. Kaldast var þegar hvessa tók af norðri dagana 7-8. september en hægviðrasamir dagar tóku við eftir það. Seinni hlutann voru vindar meira af suðaustri með tilheyrandi úrkomu. Nokkuð hvasst var dagana 16.-18. september og einnig síðasta daginn.
Október.
Mjög breytilegt veður var allan mánuðinn og yfirleitt milt nema þann 18. þegar hitinn var ekki nema 1 stig eftir dálítið norðanskot. Ekkert snjóaði að þessu sinni í Reykjavík nema þá í Esjuna sem í fyrsta skipti á þessari öld náði ekki alveg að losa sig við síðasta skaflinn frá borginni séð. Úrkoma var heldur yfir meðallagi en hitinn í samræmi við hlýindi áranna á undan.
Nóvember. Lengi frameftir einkenndist mánuðurinn af hlýindum og góðri tíð og var hitinn yfirleitt á bilinu 7-9 stig dagana 8.-18. nóvember en fór mest í 12 stig. Síðustu vikuna tók hinsvegar að frysta og snjóa og var jörð hvít alla síðustu vikuna. Í blálokin kólnaði enn meir og fór frostið niður í 9 stig síðasta sólarhringinn.
Desember. Eindregin vetrartíð einkenndi þennan mánuð enda var þetta kaldasti desember frá 1981. Talsvert frost var fyrstu 10 dagana en mildaðist eftir það. Mest fór frostið niður fyrir 11 stig þann 9. desember. Hitinn náði sjaldan yfir frostmark af einhverju ráði og hélst jörð meira og minna hvít allan mánuðinn. Djúp lægð fór yfir land á aðfangadag með skammvinnri hlýnun. Mikla snjókomu gerði svo aðfaranótt þess 29. sem spillti færð enda var þarna meiri snjódýpt að morgni í desember en áður hafði mælst í borginni. Snjórinn sjatnaði þó dálítið fyrir áramót eftir hláku.
Sumarsnjór í Esju þann 10. júní 2011.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2011 | 00:01
Stóra snjókomumyndin
Þar sem snjórinn er mál málanna er mál til komið að birta nýjustu útgáfu af snjókomumósaíkinni sem ég setti saman á sínum tíma og bæti við eftir því sem á líður. Myndin á að skýra sig sjálf en geri hún það ekki þá táknar hver lárétt runa einn vetur samkvæmt ártali vinstra megin. Hvítu skellurnar tákna hvíta jörð í Reykjavík á miðnætti. Flekkóttir dagar eru einnig taldir með ef ég hef metið snjóhulu næga. Þetta er gert upp úr mínum eigin athugunum og því getur verið einhver munur á þessum gögnum og athugunum Veðurstofunnar sem gerðar eru á túninu þar að morgni til.
Neðst á myndinni er núverandi vetur svo langt sem hann er kominn og ég gef mér að hann verði hvítur til áramóta. Það sem af er vetri er þetta einfalt. Jörð var fyrst hvít á miðnætti 24. nóvember og hefur verið síðan. Alhvítur desember sést ekki á myndinni fyrr en nú í ár en nokkrir eru þó nálægt því. Hvítasti veturinn á myndinni er 1994-1995 með 129 daga en sá snjóléttasti er veturinn sem kom varla, nefnilega veturinn 2002-2003 með 32 daga. Aðeins einum snjódegi meira var svo veturinn 2009-2010.
Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki nærri eins mikill og samfelldur.
Það má líka skoða endana. Árin 2008 og 2009 snjóaði óvenjusnemma en það entist þó ekki lengi. Þrjú tilfelli eru um hvíta jörð í bláendann í apríl. Sumir muna kannski eftir mikla snjónum að morgni 1. maí á þessu ári, svipað og gerðist árið 1987.
![]() |
Taka daginn snemma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.12.2011 | 16:38
Myndir af Esjunni alla daga ársins
Þeir sem hafa fylgst með bloggskrifum mínum ættu að vita að ég er haldinn dálítilli skrásetningaráráttu og þá sérstaklaga þegar kemur að ýmsum þáttum veðurs. Ég hef líka stundað árlegar samanburðarmyndatökur af Esjunni síðustu árin að vorlagi og fylgst grannt með afdrifum snjóskaflanna þegar líður á sumarið. Nú skal það hinsvegar tilkynnt að frá 1. janúar á þessu ári hef ég gengið skrefið til fulls og mætt á hverjum degi upp í Öskjuhlíð um kl. 12 á hádegi og tekið mynd í átt að Esjunni frá nákvæmlega sama punkti. Þetta hefur tekist með þeim árangri að nú á ég myndir frá sama sjónarhorni alla daga ársins með öllum þeim fjölbreytileika sem felst í misjöfnum veðrum og mismunandi árstíðum. Auk Esjunnar spilar gróðurinn stórt hlutverk í myndunum og nánast hægt að segja að þarna fari allt á kaf í grósku á miðju sumri öfugt við það sem er núna þegar allt er komið á kaf í snjó.
Eins og við er að búast hef ég stöku sinnum ekki verið staddur í bænum í hádeginu eða hreinlega ekki komist til að ljósmynda. Í þeim tilfellum hef ég kallað til sérlega staðgengla sem hafa hlaupið í skarðið því auðvitað má ekki vanta dag. Smá myndrænar lagfæringar hefur þurft að gera í undantekningatilfellum en við tölum bara ekkert um það. Þegar þetta er skrifað eru fimm dagar eftir af árinu og ekkert sem bendir til annars en árið verði klárað með stæl.
Hvað ég mun svo gera við allar þessar myndir verður bara að koma í ljós. Ég stefni allavega á að gera þær aðgengilegar á netinu og hef verið að vinna að því upp á síðkastið. Þangað til birti ég hér smá sýnishorn þar sem sjá má eina mynd fyrir hvern mánuð.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.12.2011 | 17:04
Hugleiðingar um lífið og geimverur
Sá möguleiki að lífvænlegar plánetur séu í næsta nágrenni við jörðinni er vissulega spennandi. Ef einhverjir slíkar eru á sveimi fáeinum ljósárum í burtu getum við gert okkur ýmislegt í hugarlund og látið okkur dreyma um vinsamleg samskipti við geimverur lengst í fjarska. Kannski gætum við jafnvel eignast einhverskonar geimveru-pennavini þar sem rafrænar sendingar ganga á milli með ljóshraða á nokkurra ára fresti. Hægt væri þannig að fræðast um framandi lifnaðarhætti og miðlað gagnlegri þekkingu á milli En væntanlega er þetta ekki svona einfalt og kannski ekki alveg það sem málið snýst um. Hagstæð staðsetning plánetu í sínu sólkerfi þarf alls ekki að þýða að líf geti þrifist þar. Hugsanlega gætu þannig plánetur þó einhverntíma hafa þróað einhverskonar líf en forsendur síðan þróast til hins verra og hið frumstæða líf lognast út af. Einnig gæti verið að lífið sé ekki enn hafið á viðkomandi plánetu eða fast á þvílíku frumstigi að varla taki því að tala um það.
Lífsform á einfrumungastigi er samt sem áður merkilegt í sjálfu sér. Á því stigi var lífið á jörðinni lengst af. Fyrstu lífsformin spruttu fram strax á fyrsta ármilljarðinum í 4,6 milljarða sögu jarðarinnar en það var svo ekki fyrr en fyrir um 540 milljörðum ára sem fjölfrumungar komu fram með öllum sínum fjölbreytileika og hafa síðan lifað í gegnum súrt og sætt. Stóráföll hafa riðið yfir með fjöldaútdauða sem hafa skapað tækifæri fyrir nýjungar sem slegið hafa í gegn. Í allri sögu lífs á jörðinni er samt ekki nema örstutt síðan sú tegund kom fram sem við tilheyrum en fram að þvi er óhætt að fullyrða að lítið hafi farið fyrir pælingum lífvera um eðli alheimsins og hinstu rök tilverunnar.
Það fer eftir skilgreiningu hversu langt er síðan nútímaútgáfa mannsins kom fram en það má miða við 150 þúsund ár. Nánast allan þann tíma var mannkynið á steinaldarstigi þar sem menn undu misglaðir við sitt og þraukuðu í gegnum síðasta jökulskeið. Hátæknistig það sem við lifum á í dag er ekki nema nokkurra áratuga gamalt og bara lítið augnablik í eilífðinni, og meira að segja bara augnablik í sögu mannsins.
Framtíð okkar hámenningar er óskrifað blað. Vel má hugsa sér þá þróun að hámenningin sé bara stundarfyrirbæri sem missi sinn grundvöll þegar við jarðarbúar höfum klárað þær auðlindir sem fleytt hafa okkur áfram. Í framhaldi af því gæti nýtt steinaldarstig tekið við og ekki víst að upp úr því verði nokkurntíma komist á ný.
Hinsvegar er mögulegt hátæknistigið sé rétt að hefjast og mannkynið muni eiga sér glæsta framtíð og jafnvel sigrast á þeim takmörkunum í rúmi og tíma sem felast í óravíddum alheimsins. Margar mistrúverðugar sögur eru til af heimsóknum geimvera hingað til jarðar. Sjálfur trúi ég ekki á neitt svoleiðis en aldrei er þó hægt að útiloka alveg þann mögueika. Stærð alheimsins er óskaplegur og fjöldi pláneta er bókstaflega stjarnfræðilegur þannig að einhverstaðar ætti að vera hægt að finna hátæknisamfélög sem eru lengra komin en okkar. Líklegast er þó að slík samfélög séu svo víðsfjarri í tíma og rúmi að nánast engar líkur eru á að til nokkurra samskipta gæti komið nema með einhverskonar brellum með ormagöng og aðrar þvílíkar afstæðar kúnstir, ef slíkt er á annaðborð hægt.
Ef einhver vill samt endilega trúa á heimsóknir framandi vera hingað til jarðar má líka ímynda sér að þar séu bara á ferð háþróaðir jarðarbúar framtíðarinnar sem brugðið hafa sér í tímaflakk. Slíkir jarðarbúar þurfa þó ekki endilega að vera afkomendur okkar mannanna, þeir gætu eins verið af hunda- eða kattarkyni. Eins gætu þeir verið af ólífrænum toga, þ.e. ofurtölvur sem hafa náð að þróast og dafna á eigin spýtur. Hvernig sem það er þá er gjarnan nærtækara að horfa bara til jarðarinnar til að fá skýringar á illskýranlegum atburðum.
![]() |
Nýjar reikistjörnur líkjast jörðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.12.2011 | 17:38
Surtseyjargos í vændum við Kanaríeyjar?
Neðansjávargosið sem nú kraumar skammt undan á landi á Kanaríeyjum hefur ekki mikið verið í fréttum undanfarið. Gosið hófst þann 10. október á um 250 metra dýpi um tvo kílómetra suður af El Hierro sem er sú eyja sem liggur lengst í suðvestur af eyjaklasanum. Eftir því sem á gosið líður styttist leiðin að yfirborði sjávar en það gengur þó hægt fyrir sig og enn munu vera eitthvað um 100 metrar að yfirborði. Upplýsingar um það eru þó frekar óljósar. Ummerki gossins eru ekki mikil ofansjávar en hafa verið að aukast síðustu daga þannig að styttast gæti verið í stærri atburði.
Umbrotin hafa verið sýnilegust úr lofti þar sem sjórinn tekur á sig hina ýmsu liti vegna uppstreymis gosefna. Rjúkandi flotsteinar hafa líka skotist upp að yfirborði af og til ásamt smástrókum og bólstrum. Lítið sjávarþorp La Restiga er á syðsta hluta eyjarinnar og íbúar fylgjast að vonum grannt með framgagni mála, ef þeir eru þar yfirleitt ennþá.
Surtseyjan-eruption
Eins og í öðrum neðansjávargosum myndast þarna bólstraberg á meðan vatnsþrýstingur er nægur fyrir ofan. Ef gosið heldur áfram í nokkrar vikur til viðbótar kemst það á stig sem margir bíða spenntir eftir og nefnist á alþjóðamáli Surtseyjan-eruption. Á því stigi þeytast háir gufu- og öskubólstrar hundruði metra í loft upp þótt einhverjir tugir metra séu niður að gosopinu sjálfu. Við hér á landi þekkjum svona lagað frá fyrstu stigum Surtseyjargossins og líka af Grímsvatnagosum hin síðari ár. Samkvæmt því sem bæjarstjóri staðarins sagði þann 9. des (gefum okkar að hann hafi vit á málum) þarf um 6-7 vikur til viðbótar, til að mynda nýja eyju. Það yrði þá syðsta eyja Kanaríeyja - rétt eins og Surtsey er hjá okkur. Framhaldið er þó allsendis óvíst því ómögulegt er að spá fyrir um goslengd og hegðun gossins.
Hamfaraflóðbylgja
Fyrir nokkrum árum vakti sá möguleiki athygli að heilu hlíðar sumra eldfjalla á Kanaríeyjum eigi það til að hrynja í sjó fram og valda hamfaraflóðbylgjum vídd og breytt um Norður-Atlantshaf. Fyrir um 50.000 árum gæti ein slík hafa riðið yfir þegar eldfjallið á El Hierro-eyju hrundi í sjó fram en ekki eru þó margir til frásagnar um afleiðingar þess. Mestu áhyggjurnar hafa á okkar dögum beinst að eyjunni La Palma og líst mörgum ekkert sérstaklega vel á ef gos kæmi upp á þeirri eyju. Kannski og vonandi eru þær áhyggjur þó að mestu ástæðulausar og hættan orðum aukin. En þótt hundruð eða þúsundir ára gætu liðið að næsta slíka atburði er ágætt að fylgjast með hvað er að gerast á Kanaríeyjum.
Nánar má fylgjast með gangi mála á Kanarý á síðunni hér: http://earthquake-report.com/2011/09/25/el-hierro-canary-islands-spain-volcanic-risk-alert-increased-to-yellow/
Skýringarmyndin efst er fengin héðan:
http://thewatchers.adorraeli.com/2011/10/11/el-hierro-on-alert-eruption-vent-5-km-from-restinga-at-600-meter-depth/
Ljósmyndin er héðan: http://www.volcanodiscovery.com/view_news/2435/El-Hierro-volcano-Canary-Islands-Spain-eruption-moves-towards-ocean-surface.html
5.12.2011 | 16:18
Stórgoslegar Kötluýkjur – eða hvað?
Fréttir af Íslandi sem birtast erlendis hafa gjarnan verið vel kryddaðar. BBC fréttavefurinn er nú sakaður um stórkostlegar ýkjur af afleiðingum næsta Kötlugoss sem sagt er vera yfirvofandi. En hvar endar sannleikurinn og hvar byrja ýkjurnar? Er frétt BBC kannski ekki svo vitlaus eftir allt?
Fyrsta setningin í Frétt BBC er þannig: Hundreds of metres under one of Iceland's largest glaciers there are signs of a looming volcanic eruption that could be one of the most powerful the country has seen in almost a century Ekki get ég séð neitt rangt í þessu. Næsta Kötlugos gæti nefnilega orðið eitt af þeim kröftugustu í næstum öld á Íslandi.
Eftirfarandi atriði í fréttinni hefur einnig verið nefnt sem ýkjur: Mighty Katla, with its 10km (6.2 mile) crater, has the potential to cause catastrophic flooding as it melts the frozen surface of its caldera and sends billions of gallons of water surging through Iceland's east coast and into the Atlantic Ocean. Hvað er rangt þarna? Ég get ekki staðfest tölurnar hér og nú en allir ættu að þekkja þá staðreynd að mikið flóðvatn rennur til sjávar í Atlantshafið í kjölfar Kötlugoss. Réttara er hins vegar að tala um Suðurströndina en ekki Austurströndina. Hvergi kemur fram í frétt BBC, eftir því sem ég fæ séð, að flóðbylgja muni skella á ströndum meginlands Evrópu eða Bretlandseyja.
Ýmislegt er síðan nánar skrifað um hugsanlegt gos og flest að því á svipuðum nótum og fjallað hefur verið um hér á landi. "There has been a great deal of seismic activity," says Ford Cochran, the National Geographic's expert on Iceland. There were more than 500 tremors in and around the caldera of Katla just in October, which suggests the motion of magma. "And that certainly suggests an eruption may be imminent." Yfirvofandi eldgos er sennilega fullmikið sagt þótt ýmis merki séu um óróleika undir Kötlu. Um þetta er lítið vitað og tíminn einn mun leiða í ljós hvert framhaldið verður.
Áfram með fréttina. Eftir tilvitnanir í Pál Einarsson sem ekki er ástæða til að véfengja tala BBC-menn um Skaftárelda og þá æsast leikar: Katla is part of a volcanic zone that includes the Laki craters. In 1783 volcanoes in the area erupted continuously for eight months, generating so much ash, hydrogen fluoride and sulphur dioxide that it killed one in five Icelanders and half of the country's livestock."And it actually changed the Earth's climate," says Mr Cochran. "Folks talk about a nuclear winter - this eruption generated enough sulphuric acid droplets that it made the atmosphere reflective, cooled the planet for an entire year or more and caused widespread famine in many places around the globe. Gallinn við þessa samlíkingu er fyrst og fremst sá að Katla er ekki í neinum tengslum við Lakagíga eins og talað er um í fréttinni því Lakagígar tengjast Grímsvötnum og fengu þaðan sitt hráefni. Eldgjárgosið stóra á 10. öld er hins vegar talið tengjast Kötlu en litlar heimildir eru til um það nema að vitað er að þá kom upp gríðarlegt hraunmagn og sennilega meira en Skaftáreldum. Varla er hægt að búast við slíkum hörmungum hvenær sem er og varla án aðdraganda sem tekið væri eftir.
Einn gallinn við eldgos er að þau láta ekki alltaf vita af sér fyrirfram. Lengi hefur verið talað um yfirvofandi Kötlugos, sérstaklega síðustu 15 ár eða svo. Hvernig það verður og hvenær það verður vitum við ekki. Gosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötum voru samt sem áður góð æfing og áminning um hvað getur gerst varðandi Kötlu. Kannski eru stórgoslegar hörmungar framundan en kannski mun næsta Kötlugos eftir allt, valda stórkostlegum vonbrigðum og alls ekki vera neitt stærra en þau gos sem við höfum séð hér undanfarið.
Frétt BBC http://www.bbc.co.uk/news/world-europe-15995845
Myndin er af Vefmyndavél Mílu 5. des. 2011
![]() |
BBC sakað um ýkjur um Kötlugos |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.12.2011 | 17:51
Í hvað stefnir árshitinn í Reykjavík?
Nú þegar mánuður er eftir af árinu 2011 ætla ég velta fyrir mér hvert stefnir með árið í ár. Meðalhitatölur segja lítið ef ekkert er til samanburðar og því birti ég línuritið hér að neðan sem ég útbjó en það sýnir þróun meðalhitans frá árinu 1901 til 2010.
Eins og sést eru miklar sveiflur frá ári til árs og líka á milli lengri tímabila. Ef við hugsum í 10 ára tímabilum þá eru árin 2001-2010 þau hlýjustu frá upphafi mælinga í Reykjavík með meðalhitann 5,51°C. Til viðmiðunnar er næst hlýjasta 10 ára tímabilið 1932-1941, með meðalhitann 5,14°C.
Kaldasta 10 ára tímabilið eru árin 1916-1925 með meðalhitann 3,81°C en litlu mildara var árin 1979-1988: 3,99°C.
Þá má segja í þessu ljósi að ár hljóta að teljast hlý ef meðalhitinn er yfir 5 stigum og mjög hlý ef meðalhitinn er yfir 5,5°C í Reykjavík. Síðasti áratugur var óumdeilanlega mjög hlýr þar sem árið 2003 toppar með árshita upp á 6,1°C en alger skortur á meðalheitum árum - hvað þá köldum, hjálpar líka upp á góða útkomu áratugarins.
2011
Nú þegar tölur frá nóvember eru komnar í hús er ljóst að fram að þessu hefur árið 2011 ekki verið neinn eftirbátur liðins áratugar hefur jafnvel staðið sig betur ef eitthvað er. En síðasti mánuðurinn er eftir og sá ætlar heldur betur að fara kuldalega af stað. Hvað verður þá um árshitann?
Ef við gerum fyrst ráð fyrir að desember verði í meðallagi miðað við síðustu 10 ár (1,6°C) þá endar árshitinn, samkvæmt öllum mínum útreikningum, í 5,65°C sem telst bara mjög gott. Til að ná því má komandi kuldakast ekki vera langvinnt og helst þurfa að koma talsvert hlýir dagar síðar til að bæta fyrir kuldann sem spáð er.
Raunhæfara er áætla að meðalhitinn verði nærri frostmarkinu og þá er tilvalið að miða við -0,2 stig sem er opinber meðalhiti fyrir desember og miðast við árin 1960-1990. Ef svo fer breytir það þó ekki öllu því ársmeðalhitinn verður samt 5,5°C og árið í góðum málum.
En þá má skoða hvað gerist ef desember verður svellkaldur í gegn. Kaldasti desember síðustu áratuga var árið 1973 þegar meðalhitinn var -3,7°C og gerast mánuður ekki mikið kaldari en það í borginni á vorum tímum. Verði svo kalt í desember reiknast mér til að meðalhiti ársins í borginni verði samt sem áður 5,2°C sem hefði einhverntíma þótt gott.
Til að reikna árið niður fyrir 5 stigin verðum við því greinilega að fara ansi neðarlega. Frá aldamótum hafa öll ár verið yfir 5,0°C og til að rjúfa þá hefð þarf meðalhiti komandi desembermánaðar að vera um 7 stig í mínus og erum við þá farin að tala um virkileg harðindi í stíl við þau verstu í gamla daga. Til samanburðar var meðalfrostið 7,8°C í janúar, frostaveturinn mikla 1918.
Harðindi eru svo sem ekkert útilokuð á þessum síðustu og verstu tímum en ég held samt að óhætt sé að spá því að meðalhitinn í Reykjavík nái 5°C enn eitt árið. Ekki er ólíklegt að árshitinn verði á bilinu 5,25,3°C en með smá bjartsýni að leiðarljósi gætum við spáð allt að 5,6 stigum. Eitt sýnist mér þó nokkuð víst: Ekkert nema alvöru vetur er framundan.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.11.2011 | 09:53
Það kemur ýmislegt til greina varðandi forsetann
Eins og alltaf þegar kemur að því að túlka skoðannakannanir þá verður að passa orðalag. Samkvæmt fréttinni virðast þátttakendur í könnunnninni hafa verið spurðir um hvort það komi til greina að kjósa Ólaf áfram til forseta. Ekkert óeðlilegt við það. En það að rétt rúmur helmingur segi, að það komi til greina að kjósa hann áfram, finnst mér ekki vera það sama og að meirihlutinn vilji Ólaf Ragnar áfram eins og slegið er upp í fyrirsögn fréttarinnar. Svo ég tali fyrir sjálfan þá kemur alveg til greina að ég kjósi Ólaf en mér finnst það samt frekar ólíklegt.
Miðað við matreiðslu fréttarinnar giska ég á að Morgunblaðið vilji Ólaf Ragnar áfram sem forseta. Sama má segja um hluta þeirra sem telja að það komi til greina að kjósa hann.
- - - -
Svo má minna á að aðeins er mánuður til jóla.
![]() |
Meirihlutinn vill Ólaf Ragnar áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.11.2011 | 20:12
Um ógnir og háleynileg samsæri
Ef maður trúir öllu sem hægt er að trúa er tilvera okkar nútímamanna á heljarþröm og margskonar ógnir sem að okkur steðja. Ýmislegt baktjaldamakk er í gangi og tilraunir gerðar til að ná stjórn á náttúruöflunum til góðs eða ills. En þótt mannkynið sé sjálfu sér verst, er líka nægt úrval af utanaðkomandi ógnum sem almenningur gerir sér ekki mikla grein fyrir, enda ekki nema von þeim er haldið leyndum fyrir okkur svo ekki skapist ofsahræðsla á þessum hinstu dögum.
Um þetta mætti heilmikið skrifa og heilmikið hefur reyndar verið skrifað. Ég er bara ekki nógu tortrygginn eða trúgjarn (eftir því hvernig á það er litið) til nenna að hafa fyrir því að kynna mér allt sem það er í gangi. Hér á eftir ætla ég þó að reyna að gera smá grein fyrir því helsta.
Fyrst má nefna alþjóðlegu fjármálakrísuna sem var skipulögð og ákveðin í reykfylltum bakherbergjum ákveðinna afla með það að markmiði að koma fjármagninu í réttar hendur með heimsyfirráð í huga. Hvaða öfl þetta ættu að vera veit ég ekki nákvæmlega, en oft kemur upp eitthvað sem kallast New World Order og á að hafa ítök í valdamestu stofnunum heimsins.
Árásirnar kenndar við 11. september voru eins og oft hefur komið fram, skipulagðar af Bandaríkjamönnum sjálfum og Ísraelsmönnum með það að markmiði að réttlæta allsherjaráras á lönd múslíma. Fall tvíburaturnanna var stýrt fyrirfram með því að spreyja á þá einhverju mýkingarefni og flugræningjarnir voru aldrei til. Mikill rökstuðningur er til um þetta fyrir þá sem vilja trúa.Þoturákir í háloftum eru eðlilegar afleiðingar þotuflugs. En ekki alltaf, því af einhverjum ástæðum er líka verið að úða vafasömum efnum út í andrúmsloftið. Kannski eru þetta leynilegar tilraunir til að kæla andrúmsloftið, nema hér sé bara verið að eitra fyrir fólkinu í heiminum. Aldrei að vita nema einhver sjái sér hag í því. Á myndum sem birtast af grunsamlegum þoturákum eru að vísu oft blikur á lofti og klósigar sem benda til þess að rakinn í háloftunum er nálægt því að þéttast hvort eð er.
HAARP tilraunastöðin í Alaska þykir mörgum afar grunsamleg, en aðrar svipaðar stöðvar munu vera til í heimum, jafnvel hér á Íslandi í smærri stíl. Með þessum græjum eru sendar öflugar hátíðnibylgjur út í jónahvolfið að því að talið er til að hafa áhrif á háloftavinda og þar með loftslag vítt og breitt um heiminn. Ekki nóg með það, HAARP getur komið af stað eldgosum, jarðskjálftum og þar með flóðbylgjum og er því öflugt vopn í höndum heimsvaldasinna. Atburðirnir í Japan hafa ef til vill eitthvað með HAARP að gera.
En af utanaðkomandi ógnum sem ekki eru á valdi okkar jarðarbúa má auðvitað nefna allar geimverurnar sem fylgjast með jörðinni og heimsækja okkur reglulega svo lítið beri á. Mörg illskýranleg fyrirbæri eru útskýrð sem geimveruheimsóknir en allt slíkt er að sjálfsögðu þaggað niður af yfirvöldum, hver sem þau eru. Geimverur eru kannski ekki bein ógn en aldrei er þó að vita hvað þær hafa í hyggju. Sumir segja ekki tilviljun að píramídar risu bæði í Egyptalandi og Ameríku án nokkurra tengsla þessara menningarheima. Mannkyninu gæti í raun verið stjórnað af geimverum og hámenningin gæti hæglega verið innflutt í einhverjum tilgangi. Geimverur gætu jafnvel verið á vappi hér og þar og búnar að koma sér fyrir á áhrifastöðum.
Kannski mun eitthvað af þessu skýrast á næsta ári en auðvitað voru Inkarnir til forna búnir að reikna út að endalok okkar tímaskeiðs skellur á í desember 2012. Þá munu miklar ógnir ganga yfir jörðina sem gætu tengst hámarki í sólvirkni samhliða óvenju veiku segulsviði. Pólskipti munu þá eiga sér stað með ólýsanlegum hörmungum.Þessu gæti líka tengst hin dularfulla Pláneta X, sem stundum er kölluð Niburu eða Elenin og á vera á stærð við stóru gasrisana í sólkerfinu okkar. Þessi stjarna hefur verið á sveimi inn og út úr sólkerfinu og verður á óþægilegum stað í árslok 2012. Ýmsar hugmyndir eru til um þetta og sem fyrr vilja flestir vísindamenn gera lítið úr málum. Risastórt geimskip hefur að sjálfsögðu verið nefnt.
- - - -
Fleira mætti nefna og hægt að fara mun dýpra í hvert atriði. Fyrir mig er þetta sem hvert annað skemmtiefni sem litlar áhyggjur þarf að hafa af. Kannski er ég bara svona takmarkaður, nema ég sé á valdi geimvera.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.11.2011 | 21:35
Um harmóníu og Þorláksbúð
Falleg hús gera fallega staði fallegri og að sama skapi gera fallegir staðir, falleg hús fallegri. Eitthvað í þessa veru las ég eitt sinn í bók eftir Trausta Valsson skipulagsfræðing. Tveir staðir voru nefndir sem dæmi: Þingvellir og Viðey, en á báðum stöðum standa hús sem fara vel hvort með öðru en skapa um leið gagnkvæma heild með landslaginu. Svona harmónía er ekki bara bundin við merkisstaði í sögu þjóðarinnar. Sveitabæir ásamt útihúsum geta farið afskaplega vel í blómlegum dölum og ekkert útilokar að annarskonar mannvirki svo sem virkjanir og brýr geti verið hin mesta staðarprýði ef rétt er að málum staðið.
En þá víkur sögunni að Skálholti, sem getur alveg talist einn af þeim stöðum þar sem húsin gera umhverfið fallegra og öfugt. Þar hafa ýmis mannvirki stór og smá staðið í gegnum tíðina enda lengi einn helsti höfuðstaður landsins. Skálholtskirkja nútímans er falleg bygging og öll húsin sem þar standa taka mið af henni og mynda óvenju vel heppnaða heild. Það er því ekki að ástæðulausu að sumir vilja staldra aðeins við og athuga hvað er að gerast þar núna.
Myndin sem hér fylgir er af fyrirhugaðri Þorláksbúð við hlið Skálholtskirkju. Hún hefur ekki birst víða en á henni held ég að komi fram allt sem segja þarf. Þorláksbúð sem ýmist var notuð sem skrúðhús og geymsla hefur sjálfsagt farið vel þarna á 16. öld og þar mátti líka slá upp messu þegar stóru kirkjurnar brunnu eins og þær áttu til. En að reisa Þorláksbúð í dag alveg við hlið Skálholtskirkju nútímans er ekkert nema sjónrænt og menningarlegt slys. Það verður bara að hafa það þótt vinna og fjármunir fari í súginn ef hætt verður við þetta, og það verður bara að hafa það þótt einhverjir hafi verið seinir að átta sig. Þetta gengur ekki. Það hljóta allir að sjá sem hafa minnsta vott af smekklegheitum.
Myndin hér að ofan er fengin af Sunnlenska fréttavefnum
Byggingar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.11.2011 | 18:28
Þegar loftslagsumræðan fer hamförum
Þó að ég sé almennt á því að við eigum að taka alvarlega því sem sagt er um loftslagsbreytingar, þá verður maður stundum dálítið undrandi hvað fjölmiðlar eiga það til að yfirkeyra hættuna meira en góðu hófi gegnir.
Eitt skýrasta þannig dæmi sem ég hef séð lengi er frétt í DV núna á mánudaginn 7. nóvember. Þar er vitnað í Sigga storm Ragnarson og því slegið upp með stóru letri að: Smáralind færi á kaf. Undirfyrisögnin er: Skýrsla sameinuðu þjóðanna spáir hamförum í veðri - Yfirborð sjávar mun að öllum líkindum hækka um sex metra - Sjávarlóðir gætu orðið einskis virði. Í texta sem tekin er út sérstaklega til áherslu segir síðan: Við erum að tala um næstu tvær eða þrjár kynslóðir sem munu horfa upp á þetta. Þú gætir upplifað þessa breytingu á meðan þú lifir.
Nú er ég reyndar ekki alveg með á hreinu hvað hér er átt við með tveimur til þremur kynslóðum en ef þetta gæti gerst á meðan ég eða þú lifum þá er greinlilega verið að tala um 40-100 ár miðað við barnseignaraldur fólks. Allavega þá er það alveg öruggt að sjávarborð er ekki að fara að hækka um sex metra á næstu áratugum og ekki heldur á næstu 100 árum. Um þessar mundir er talið að sjávarborð hækki um 3 mm ári að meðaltali sem þýðir 30 cm á öld. Sú hækkun hefur verið skrikkjótt og hefur reyndar verið enn minni allra síðustu ár. Hækkunin mun þó eitthvað aukast, en spá um hækkun sjávarborðs samkvæmt hinum óskeikula vef loftslag.is er um 35 cm fyrir árið 2050 ef heldur fram sem horfir. Óvissan er þó talin mikil. En 6 metra hækkun sjávarborðs með þeim hræðilegu afleiðingum að Smáralindin færi á kaf jafngildir bráðnun alls Grænlandsjökuls. Það mun hins vegar ekki gerast fyrr en eftir margar aldir í fyrsta lagi eða jafnvel eftir einhver þúsund ár og þegar það gerist verður hvort sem er löngu búið að afskrifa Smáralindina vegna aldurs og veðrunar nema hún fari í varðveisluflokk sem merk gömul bygging.
Okkar litli Vatnajökull er ekki nálægt því að hverfa á þessari öld en hugsanlega smájöklar eins og Snæfellsjökull, en það er allt önnur saga og hefur vægari afleiðingar. Sigurður Stormur talar líka um jökulinn á Suðurskautslandinu og bendir réttilega á að ef sá jökull hyrfi í hafið yrðu afleiðingarnar mun alvarlegri, en klikkir síðan út með því að segja að sú þróun gæti tekið nokkrar aldir. Nokkrar aldir? spyr ég og svara sjálfur: Jökullinn á Suðurskautslandinu mun ekki hverfa á næstu öldum, heldur í fyrsta lagi eftir 1000 ár ef hann mun þá yfirhöfuð hverfa áður en næsta jökulskeið leggst yfir. En ekki eru allir sammála um allt. Sumir segja að jöklar séu ekkert að hverfa og ekkert að hlýna í heiminum og svo þurfum við kannski ekkert að hafa áhyggjur af bráðnun jökla því sagt er að sjálf endalokin verði í pólskiptunum ógurlegu undir lok árs 2012.
Á Rás2 sama morgun.Ég gæti líka fjallað um dálítið loftslagstal sem ég heyrði á Rás2 í morgun. Þar voru þau Andri Freyr og Gunna Dís að undrast yfir þessu hlýja veðri og snjóleysinu hér ásamt flóðum og öðru veseni út í heimi. Andri vildi meina að aðalorsakavaldurinn þarna væru spreybrúsarnir sem hún notar á hárið sitt. Hún benti hinsvegar á að hann sjálfur ætti meiri þátt í eyðingu ózonlagsins með því aka um á bíl og flokka ekki rusl.
Já, umhverfisógnin getur verið margþætt og snúin. Fólk má auðvitað alveg tala um mengun og loftslagsvandann þótt það sé ekki sérfræðingar í fræðunum. En fólk verður að passa sig á því að fara ekki hamförum og rugla ekki vandamálum saman. Jafnvel þótt það vilji vera sniðugt.
5.11.2011 | 17:36
24 ára hafísþróun á Norður-Íshafinu á einu myndskeiði
Merkilegt hvað tæknin nú á gervihnattaöld gerir okkur kleift að fylgjast vel með. Á myndskeiði sem ættað er frá Bandarísku veðurstofnunni NOAA má sjá á afar skýran hátt hegðun hafísbreiðunnar frá árinu 1987 og þá sérstaklega hnignun fjölæra íssins sem er hvítur á myndinni. Ísinn á Norður-Íshafinu er langt frá því að vera kyrrstæður enda er hann sífellt hrakinn áfram af vindum og straumum, jafnvel árum saman uns hann bráðnar að lokum í mildari sjó eða í heimskautasólinni að sumarlagi.
Gamli ísinn að hverfa
Hin síðari ár og þá sérstaklega hin allra-síðustu hefur mikil breyting orðið á aldursamsetningu íssins því vegna aukinnar bráðnunar að sumarlagi hefur ísinn varla fengið nokkurn frið til að eldast og dafna miðað við það sem áður var. Þar skiptir mestu að á stórum hluta Íshafsins norður af Kanada gat ísinn lifað góðu lífi hvert sumarið af öðru í hringiðunni miklu sem kennd er við Beuforthafið norður af Kanada og Alaska. Á öðrum svæðum hefur leiðin hins vegar legið rakleiðis að sundinu milli Svalbarða og Grænlands þaðan sem ísinn á ekki afturkvæmt.
Smám saman hefur þetta verið að breytast og þá sérstaklega eftir árið 2007 þegar bráðnunin gerir mikla atlögu að ísnum aftanfrá, þ.e. inn af Beringssundi. Gamli þykki ísinn sem hafði komið sér vel fyrir í Beufort-hringiðunni verður þannig hvað eftir annað fyrir miklum skakkaföllum með augljósum afleiðingum fyrir aldursamsetningu íssins. Allt sést þetta ágætlega á myndskeiðinu.
Nánar er fjallað um þetta á heimasíðu NOAA:
http://www.climatewatch.noaa.gov/video/2011/old-ice-becoming-rare-in-arctic
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.10.2011 | 22:38
25 fjölmennustu ríki jarðar
Mannföldi jarðar hefur nú náð 7 milljörðum og í tilefni af því hef ég sett saman dálitla grafík sem sýnir hvaða þjóðir leggja mest af mörkum til þeirrar tölu. Til samanburðar sýni ég líka árin 1998 og 2004 og þannig fæst ákveðin mynd á það hvaða þjóðum fjölgar mest og hverjar að dragast aftur úr. Til þæginda er ég með litaskiptingu eftir heimsálfum. Allra fjölmennustu þjóðirnar sitja fastar í sínum sætum enda ber þar meira á milli. Það mun þó eitthvað breytast á næstu áratugum og um miðja öldina hafa Indverjar væntanlega tekið forystuna af Kínverjum. Af fjölmennstu þjóðunum eru Rússar mikið að gefa eftir en Ameríkulöndin þrjú halda sínum sætum. Heilmiklar tilfærslur eru í neðri hluta listans á milli ára og þar eru nokkur Afríkuríki í miklum vexti á meðan Evrópuríkin síga í átt að fallsætunum.
Nýjustu tölurnar í þessari töflu eru frá miðju ári 2010 og þær nálgaðist ég á netinu. Tölur fyrir 1998 og 2004 eru hinsvegar reiknaðar frá tölum í Almanaki hins Íslenska Þjóðvinafélags. Óvissa er alltaf einhver og ekki öruggt að tölur hvers árs séu alltaf frá sama tímapunkti. Hvað sem því líður þá sést hér ágætlega hvernig þróunin er.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)